Óskar Aðalsteinn

Ennþá gerast ævintýr

Saga handa litlum börnum

Með 20 myndum
eftir

Sigurð Guðjónsson

 

_______________________________


3. Á þorpsgötunni

_______________________________

Allt í einu laukst hliðið upp, og Gulli grís hafði unnið sinn fyrsta sigur í lífinu. Hann hafði lyft klinkunni nægilega hátt, svo hliðið opnaðist. Svo stóð hann þarna í opnu hliðinu og gat valið um að fara hvert, sem hann vildi, í fyrsta sinn á ævinni.

Þetta gerðist morguninn eftir að slátrarinn kom í heimsókn. Það var fallegasti morgunn sumarsins. Hænsnin voru komin á stjá úti í garðinum, og sólin skein á marglitt fjaðraskraut þeirra. Himinninn var blár og tær, og hafið var einn óendanlega stór spegill.

Gulli steig nokkur skref út á þjóðveginn, síðan stóð hann kyrr og horfði umhverfis sig. Kannski hafði hann ekki enn átt að sig fyllilega á því, sem skeð hafði. En það var ekki tími til umhugsunar, því þarna kom lítil telpa trítlandi eftir veginum. Hún var létt og kvik í hreyfingum eins og fiðrildin í garðinum hennar fóstru, og kjóllinn.hennar var eins litríkur og skrautlegustu hænurnar. Gulli lagði undir flatt og skáskaut tinnusvörtum augum sínum upp á telpuna. Satt að segja var hann dálítið feiminn.

Hann hafði aldrei leyft sér að tala við aðra manneskju en fóstru. Hann hafði heldur aldrei langað til þess. Nú langaði hann afar mikið til þess að tala við þessa litlu stúlku..Svo ræskti hann sig og sagði uppburðarlítill:

– Góðan daginn.

Gulli var við því búinn, að stúlkan yrði hrædd og tæki til fótanna. En hún varð ekkert hrædd. Henni kom það víst alls ekkert á óvart, að hann gæti talað rétt eins og hún og allir aðrir. Hún brosti við honum með bláum augunum og sagði glaðlega:

– Góðan dag. Ertu kannski að fara til þorpsins eins og ég?

Nú gleymdi Gulli allri feimni og sagði hamingjusamur:

– Já, ég er að fara til þorpsins. Att þú heima í þorpinu og mamma þín og pabbi þinn og systkini þin?

– Já, við eigum þar heima, sagði litla stúlkan. – Ég var hjá henni ömmu í Dal yfir helgina. Það er hérna inni í Botni. Ég er bara fimm ára og heiti Ása.

– Og þú ert ein á ferð, Ása litla? sagði Gulli.

– Nei, það er svo langt inn í Dal, að Rúna systir kom að sækja mig. Hún er bráðum fullorðin. Hún er helmingi eldri en ég. Hún er tíu ára; og hún er svo afskaplega dugleg að hjálpa henni mömmu. . . .  Ása leit við og sagði síðan: – Sérðu, þarna kemur hún Rúna. Hún tafðist hjá vinkonu sinni.

– Við skulum ekki bíða eftir henni, sagði Gulli. – Við skulum halda áfram og tala saman.

Ása var síbrosandi, og.nú sagði. hún:

– Hvað heitirðu?

– Ég heiti Gulli.

– Það er fallegt nafn, sagði hún.

– Ása er líka fallegt nafn, sagði hann.

Svo héldu þau af stað, en þau fóru sér hægt, af því þau þurftu svo margt að tala saman.

[ Ása og Gulli ]

– Við skulum ekki bíða eftir henni, sagði Gulli.

Allt í einu hvíslaði Gulli:

– Viltu gera bón mína, Ása litla?

– Já, bara ef ég get það, sagði hún.

– Þú getur það, Asa litla. Reyndu að geta upp á, hvað það er.

– Að ég sýni þér allt í þorpinu?

– Já, en það er líka annað, sagði Gulli.

– Að við leikum okkur saman í allan dag? sagði hún.

– Já, en það er líka annað, sagði hann.

– Að við förum saman í berjamó?

– Já, en það er líka annað, sagði hann.

– Ég gefst upp, sagði Ása.

– Nei, þú gefst ekki upp, sagði Gulli. – En ég skal nú segja þér það. Það er staður í þorpinu, sem ég veit ekki hvar er.

– Og ég á að vísa þér þangað? sagði Ása.

– Já, þangað áttu að vísa mér, Ása litla.

– Það ætti ég að geta. Ég þekki alla staði í þorpinu. Hver á þar heima?

Gulli þagði.

– Já, hver á þar heima? sagði Ása. – Geturðu ekki sagt mér það?

Gulli hikaði enn. Trúði hann því ekki lengur, að fólkið hans ætti heima í þorpinu? Jú, hann hafði alltaf verið viss um það. Hann hafði vitað það af sjálfum sér. Nú hikaði hann við að nefna það á nafn.

– Er það kannski leyndarmál? sagði Ása.

– Já, það er leyndarmál, Ása litla. Það er mitt eina leyndarmál.

– Og má ég ekki heyra það?

– Jú, þú mátt heyra það. En ég tími ekki að segja það alveg strax.

Í þessu kom Rúna. Hún greip um hönd systur sinnar og sagði:

– Við erum búnar að slóra alltof lengi, og nú verðum við að flýta okkur heim.

– En við megum ekki fara á undan grísnum, sagði Ása. Hann bað mig að fylgja sér inn í þorpið.

Rúna hló, svo sagði hún:

– Óttaleg vitleysa er þetta. Eins og grísinn tali.

– Ójú, sagði Ása. – Við töluðum.mikið saman. Spurðu hann bara.

– Halló grís! kallaði Rúna.

Gulli þagði. Kannski langaði hann heldur ekki til að tala. Þó vissi hann það ekki.

– Þarna sérðu, sagði Rúna. – Hann steinþegir.

– Það er ómark, ég veit hann svarar mér, sagði Ása og kallaði til Gulla. Hann svaraði henni ekki. Hann vildi það þó svo gjarnan, en hann gat það bara ekki, af hverju svo sem það var.

Ásu þótti þetta svo leitt, að hún var nærri því farin að beygja af.

– Blessuð taktu þessu ekki svona. Það tekur því ekki, sagði systir hennar. – Þetta með svínið er allt tóm vitleysa. Annars getum við alltaf talað um það, en það er enginn tími til þess núna . . .  Og Rúna þaut af stað með Ásu litlu sér við hönd.

Gulli reyndi að fylgja systrunum eftir. En bilið á milli hans og telpnanna varð æ stærra, og þær voru horfnar honum með öllu, áður en hann komst inn í þorpið.

Eftir veginum kom nú eitthvert ferlíki og rumdi og hvæsti hástöfum. Gulla þótti sem ferlíkið stefndi beint á sig, og hann hrökklaðist út af veginum til þess að verða ekki fyrir því. Þetta var víst bíll, eða svo nefndi fóstra það.

Vegurinn nötraði og skalf meðan ferlíkið fór hjá, og það þyrluðust upp ósköpin öll af ryki, svo Gulli sá ekki út úr augum góða stund. Hann var kominn inn á þorpsgötuna þegar hann fór aftur að sjá greinilega. Og þarna var svo margt að sjá og heyra, að hann varð blátt áfram hálfringlaður í kollinum. Að það skyldu vera til svona mörg hús í heiminum og svona margir krakkar og svona margt fólk, því hefði hann aldrei trúað. Alls staðar voru hús, börn og fólk og allt mögulegt, sem Gulli hafði aldrei augum litið áður. Og hér var nýstárlegur ilmur í loftinu, margbreytilegur eins og litir jarðarinnar. Og svo allar þessar raddir. Það var mannamál, og börnin hlógu og kölluðust á í sólskininu, kýr bauluðu, hundar gjömmuðu, og í þessu spásseraði heil hænsnafjölskylda yfir götuna, hávaðasöm fjölskylda en glaðleg. Og raddirnar urðu að einum syngjandi nið fyrir eyrunum á Gulla. Svo var nærri því eins og húsin. færu af stað.

Þá var það að Gulli grís lagðist niður þar sem hann var kominn, á miðja þorpsgötuna. Hann var mjög ánægður og hamingjusamur, en það var af honum dregið, og hann var eitthvað svo skemmtilega skrýtinn í kollinum, að honum þótti ráðlegast að hvíla síg svolitla stund, áður en hann héldi ferð sinni áfram.

Svo lá hann þarna á miðri þorpsgötunni í steikjandi sólskininu, og múgur manns safnaðist þegar í kringum hann, bæði ungir og gamlir. Fólkið talaðist við, börnin hrópuðu og sum þeirra sungu.

Þannig leið drykklöng stund. En allt í einu sló gamalkunnum ilm fyrir vitin á Gulla, og samstundis var eins og hann vaknaði upp af ljúfum dvala. Gamla konan var komin. Þarna stóð hún við hlið hans, grönn og beinvaxin, í gamla dökka klæðispilsinu sínu, og hún hafði sett upp bláköflóttu sunnudagasvuntuna sína, og gulbrúnu sparihyrnuna hafði hún á herðunum. Hún var einbeitt á svipinn, hvöss á brún og tilþrifamikil í snúningum. Og hún mundi sjálfsagt láta heyra til sín, ekki var hætta á öðru. Gulli var ekki beinlínis hræddur. Samt kærði hann sig ekki um að líta í augu fóstru sinnar eins og á stóð. Hann fann að hún.lagði hönd sína á höfuð honum. Svo fór hún höndum um hann allan, fljótt og ákveðið. Síðan varð henni að orði:

– Svo er Guði fyrir að þakka, en ekki þér, aulinn þinn, að þú ert ekki stórslasaður.

. Gulli þagði.

Gamla konan hvessti nú augun á.mannsöfnuðinn og sagði heldur gustmikil:

- Hvað eruð þið að vilja hér? Hafið þið aldrei séð óþekktargemling fyrr en í dag? Ég hélt þið ættuð nóg af þeim sjálf. Hafið ykkur heim og hugsið þið um ykkar eigin gríslinga, ég er alveg einfær með minn.

Nú brostu margir, og sumir:hlógu dátt,. einkum börnin. Svo sagði ein telpan við gömlu konuna:

– Sérðu ekki að grísinn hefur stöðvað umferðina?

– Sé ég ekki hvað? hváði gamla konan.

– Að vörutrogið hans Tóta kemst ekki leiðar sinnar, sagði telpan.

– Og þarna eru kýrnar í Brekku. Strákurinn kemur þeim ekki heim í mjaltirnar, sagði nú einn af þeim fullorðnu.

- Og þarna er áætlunarbíllinn úr Firðinum líka stanzaður, sagði enn ein röddin.

Gamla konan hýrnaði öll við þessar fréttir og sagði glaðklakkalega:

- Ég er nú svo aldeilis hlessa.. Ja, mikil undur og býsn. Ég segi nú ekki annað en það.

Nú fór ókyrrð um hópinn og fólk vék til hliðar. Sjálfur hreppstjórinn ruddi sér braut í gegnum mannþröngina, allt þangað sem gamla konan og grísinn voru. Yfirvaldið var lágur maður vexti, feitlaginn og kringluleitur í andliti, augun stór, blá og blikmikil, fasið virðulegt, og á hnöttóttu höfðinu sat dökk, kollhá húfa með glansandi skyggni og logagylltan borða. Hreppstjórinn hafði fylgdarmann sér við hlið, og var það enginn annar en slátrarinn.

Gamla konan festi kímin augun á yfirvaldinu og sagði: – Ég sé nú ekki hálfa sjón, eins og allir vita, þó ætla ég að þetta muni vera sjálfur hreppstjórinn.

– Rétt er það, kona góð. Sá er maðurinn, sagði hreppstjórinn alúðlega en þó með dálitlum valdsmannsbrag.

– Og þér hafið sett upp gylltu húfuna, ef ég tek rétt eftir? sagði gamla konan.

Hreppstjórinn hummaði, síðan sagði hann í virðulegum embættistón:

– Hér er hvorki staður né stund til langra viðræðna, kona góð.

– Ekki það? sagði gamla konan og kímdi. nú svo skein í skörðóttar tennurnar. – En þér komið hér með slátrarann. Hvaða erindi á hann hingað?

– Eitthvað varð að gera í málinu,. kona góð, sagði hreppstjórinn eins og fyrr. – Það nær ekki nokkurri átt að grísinn yðar stöðvi umferðina. Þetta er óvenjulegur atburður.

[ Hreppstjórinn]

– Hér er hvorki staður né stund til langra viðræðna, kona góð.

Þá hrökk upp úr Gulla grís:

– Það hefði nú mátt tala við mig tvö orð, áður en ákveðið var að slátra mér.

Ekki hafði Gulli fyrr mælt þessi orð en allir viðstaddir ráku upp mikið undrunaróp. Augun stóðu í slátraranum og yfirvaldið hringsneri húfunni á höfði sér. Eftir augnablik varð allt kyrrt aftur.

– Hverju sætir þetta . . . þessi ósköp? sagði loks hreppstjórinn hátíðlegur í máli og með stórum undrunarsvip. En eftir stutta stund bætti hann við lágmæltur: – Okkur hefur öllum misheyrst. Um annað er ekki að ræða.

– Ekki veit ég um það, sagði þá gamla konan. Brosið var horfið úr svip hennar og augnaráði, orð hennar féllu fast og þungt, og hún tók ekki skörp augun af hreppstjóranum meðan hún talaði. – Hitt vitum við sjálfsagt öll, að sumir mættu biðja Guð að hjálpa sér, ef dýrin fengju að tala.

Að svo mæltu sneri gamla konan sér að Gulla og sagði:

– Þá er að koma sér heim, Gulli litli, og þú veizt að vöndurinn er engin silkisnúra.

_______________________________

Í næsti kafla . . .
Í efnisyfirlit

_______________________________