Óskar Aðalsteinn

Ennþá gerast ævintýr

Saga handa litlum börnum

Með 20 myndum
eftir

Sigurð Guðjónsson

 

_______________________________


4. Doppa gamla

_______________________________

Hliðinu hafði verið læst með stórum og sterklegum lási. Gamla konan hafði látið setja þennan lás fyrir hliðið daginn, sem hún sótti Gulla grís til þorpsins. Og nú varð hann víst að gera sér að góðu, að hírast innan girðingar og stytta sér stundir með hænsnunum eftirleiðis. Hún var óneitanlega nokkuð dýr, þessi fyrsta ferð hans út í heiminn. Hún hafði kostað hann nokkur vel úti látin vandarhögg, og hún átti að kosta hann algjöra innilokun.

Gulli gafst samt ekki upp. Hann ætlaði aldrei að gefast upp. Hann trúði því ekki, að hann ætti að vera fangi allt lífið. Hann fór á stjá á næturnar, þegar allt var orðið hljótt, og leitaði að smugu til undankomu. En bletturinn var vendilega girtur og hvergi hægt að smjúga út. Gulli starði löngum á stóra lásinn í hliðgrindinni, eins og hann léti sér detta í hug, að lásinn mundi ljúkast upp fyrir augnaráði hans. En engin slík undur áttu sér stað.

Þegar Gulli hafði verið lokaður inni langt á aðra viku, gerði versta slagviðri. Hann lét veðrið samt ekki aftra sér frá því, að fara í sína venjulegu rannsóknarferð um garðinn. Hann var úti lengi nætur, en varð einskis vísari. Þegar hann kom inn í stíuna sína aftur, hríðskalf hann af kulda og vosbúð.

Og nú lét hann alveg bugast. En hann hafði ekki grátið lengi, þegar hann varð þess var, að einhver hafði læðzt inn til hans. Hver var það? Hver var kominn til þess að raska ró hans um hánótt?

Gulli leit fljótlega upp, og hann var ekki lengi að koma auga á þann, sem kominn var. Og undrun hans varð svo mikil yfir því sem hann sá, að hann gleymdi á samri stundu tárum sínum og trega. Þetta var ein af elztu hænunum hennar fóstru, grádröfnótt, virðuleg hæna. Hún hafði hreiðrað nostursamlega um sig í einu horninu og horfði þaðan stillilega á Gulla. Og nú sagði hún hægt og kyrrlátlega:

- Já, það er sem þér sýnist, þetta er bara hún Doppa gamla. Þú fyrirgefur, að ég skuli koma á þessum tíma sólarhrings, en ég á brýnt erindi við þig.

Gulli var nú orðinn forvitnari en orð fái lýst. Hann reyndi þó að leyna tilfinningum sínum og sagði rólega:

– Ég hélt nú að slátrarinn hefði haft þig á burt með sér, þegar hann kom hér síðast, Doppa mín.

- Það er ekki nema von þú héldir það, sagði Doppa með sömu hógværðinni og fyrr. – Hann tók þær allar, gömlu vinkonurnar mínar. Nú er bara ungt fólk eftir í húsinu. Ég ein er gömul og ónýt.

– Já, ég skil þetta ekki, sagði Gulli. – Ég hef ekki séð þig fyrr en nú, síðan Surtur og gömlu vinkonurnar þínar fóru.

– Ég hef haft mig lítið í frammi, sagði gamla hænan: – En í nótt afréð ég loks að líta til þin og segja þér drauminn minn.

Nú var þögn. Hvorugt þeirra sagði neitt góða stund. Svo sagði Doppa, og það var bara eins og hún væri að tala við sjálfa sig:

– Það var nóttina áður en slátrarinn kom.. Hún dóttir mín vænti barnanna sinna. Við áttum von á að sjá þau koma úr eggjunum nær sem helzt. Og ég ætlaði. að vaka með henni dóttur minni og fagna með henni, þegar stundin kæmi. En hvernig sem ég barðist við sjálfa mig, þá gat ég ekki haldið mér vakandi. Svo sofnaði ég og hvarf inn.í draumaveröldina.. Mér þótti sem kominn væri bjartur dagur. Ég var á ferli í garðinum og átti mér einskis ills von. En allt í einu féll dimmur skuggi yfir grasið, og það kólnaði skyndilega í veðri: Ég vildi flýja þennan kulda og þetta myrkur, og mér þótti sem alls staðar væri sól og ylur, nema þarna í garðinum. Eftir augnablik var ég svo komin út í sólskinið og ylinn.

Doppa tók sér smáhvíld. Gulli horfði.stöðugt.á,hana, og nú hvíslaði hann:

Þú varst kominn út? Þú komst út úr garðinum?

Ja, í draumnum, sagði Doppa.

– Það er allt hægt í draumum, sagði Gulli. stillilega. – Í draumi hef ég opnað stóra lásinn,.sem er fyrir garðshliðinu. Ekkert er auðveldara. Ég hef opnað hann aftur og aftur. Og í draumi hef ég hvað eftir annað leikið mér að því að smjúga út og inn um þéttriðna möskvana á vírnetinu hérna í kringum blettinn. Í draumum er eins og engin girðing sé til. Var nokkur girðing í draumnum þínum?

– Ójú, og hún var svo há að ég gat ekki flogið yfir hana, sagði Doppa.

– Og hvernig komstu út? hvíslaði Gulli.

Þá sagði Doppa:

– Ég labbaði á bak við húsið hennar fóstru þinnar. Þar vex stikilsberjarunni fast upp við vírnetið, eins og þú kannski veizt. Og þarna sá ég að nokkrir möskvar höfðu brostið í vírnetinu, og um þessa glufu komst ég út í ylinn og sólskinið.

Gulli fagnaði ekki. Hann laust ekki upp neinu sigurópi. En hann sagði mjög hugsi á svipinn:

– Já, þetta var allt saman í draumnum þínum. Mér kemur það ekki á óvart, Doppa mín. Ég gæti sagt þér marga svona drauma.

Doppa lét nú sem hún heyrði ekki og sagði:

– Þetta var nú draumurinn minn. Og víst varð mér hálf illa við, þegar ég vaknaði. Mér þótti sem þessi draumur boðaði ekkert gott. En ég fékk brátt um annað að hugsa. Börnin hennar dóttur minnar vora nú komin í heiminn, og ég hafði í mörgu að snúast; og ég vissi að það voru erilsamir dagar framundan. Dóttir mín er ung og óreynd, og ég orðin sein á mér og ólipur við ungbörn. Ég gat samt orðið henni að talsverðu liði, og það gladdi mig innilega. En draumurinn skyggði á gleði mína. Mér fannst endilega, að einhver mikil hætta vofði yfir, og ég færði þetta í tal við gömlu vinkonurnar mínar. Þær vildu ekki hlusta á mig. Veðrið var svo dásamlegt, og allir voru í sólskinsskapi. En allt í einu sá ég, hvar slátrarinn slangraði heim að hliðinu. Þá þótti mér sem sólin sortnaði á himninum og ískuldi færi um mig alla. Og nú var ég ekki lengur í neinum vafa um það, hvað draumurinn þýddi . . . Doppa gamla var hljóð um stund. Það var íhygli í svip hennar, og ekki leit hún upp, þegar hún sagði. – Svona var nú þetta. Og mér fannst, að ég gæti ekki yfirgefið hana dóttur mína eins og á stóð fyrir henni. Mér fannst, að ég yrði að hjálpa henni eftir megni, meðan börnin væru að komast á legg.

Gulli hóf ósjálfrátt höfuðið og sagði:

– Hvað gerðirðu, Doppa?

– Það var allt eins og í draumnum, barnið gott, sagði gamla hænan.

Gulli þagði góða stund. Svo sagði hann hægt og varfærnislega, líkt og hann tryði ekki sínum eigin orðum.

– Það var allt eins og í draumnum: Það var alveg nákvæmlega.eins og í draumnum, segir þú. Og svo flýttir þú þér inn í stikilsberjarunnann, strax og þú komst auga á slátrarann.

- Já, þannig var það, sagði gamla hænan. – Ég fann brostnu möskvana í vírnetinu, og ég hélt mig að heiman þar til slátrarinn var farinn burt með Surt og gömlu vinkonurnar mínar.

Nú átti Gulli örðugt með að þjóta ekki þegar af stað og sannprófa þetta, sem gamla hænan var að segja. En hann sat á sér og sagði:

– Hvers vegna kemur þú til mín? Af hverju ertu að segja mér þessa sögu?

– Ég veit, að frelsisþráin vakir í brjósti þínu. Ég veit, að þig dreymir um frelsið dag og nótt, sagði gamla hænan, og örlitið tár féll af hvarmi hennar niður í hvítan hálminn.

Gulli þagði.

– Marga nóttina hef ég heyrt þig tala upp úr svefninum, Gulli litli, hélt Doppa áfram. – Þá ertu frjáls ferða þinna eins og þig lystir. En á daginn ertu eins og hver annar útlagi. Fóstra þín mundi sjálfsagt vilja skera sig í stykki, ef það mætti verða þér til heilla, að hennar áliti. En henni er ekki gefið að skilja þig. Og þess vegna keypti hún stóra lásinn og setti hann fyrir hliðið . . .  Doppa hafði horft í gaupnir sér, meðan hún talaði. Nú leit hún á Gulla:

– Þú hefur opnað fyrir mig garðinn, sagði hann líkt og í spurn. – Á ég að trúa því, að leiðin út úr garðinum standi mér opin og frjáls?

– Þú getur sjálfur sannprófað það, þegar þú vilt, sagði Doppa.

– Hundrað sinnum, þúsund sinnum, hef ég leitað að smugu, en enga fundið, sagði hann.

– Betur sjá augu en auga, sagði gamla hænan.

Að vörmu spori var Gulli: þotinn á dyr, án þess að sinna freka um Doppu gömlu. Hann skeytti ekkert um slagviðrið, en skundaði eins hröðum skrefum og hann mátti yfir þveran garð inn og inn í stikilsberjarunnann. Hann brauzt um bæði fast og lengi, áður en hann varð nokkurs vísari, en loksins fann hann það, sem hann leitaði að. Já, þarna voru nokkrir möskvar brostnir í netinu. Gatið var nægilega stórt, svo Gulli gat skriðið þar út og inn. Þarna hafði hann oft áður leitað af sér allan grun, en ævinlega sézt yfir þessar dyr. Hvers vegna? Hann fengi sjálfsagt aldrei neitt fullnaðarsvar við þeirri spurningu. Eitt var að, að gatið var ekki alveg niður við jörðu, og lim stikilsberjatrjánna vatt sig þarna um vírnetið, og gat það hæglega hafa villt honum sýn.

[ Smugan ]

Loksins fann hann það, sem hann leitaði að.

Þegar Gulli hafði farið nokkrum sinnum út og inn um þessar dyr, flaug honum í hug að brjótast til þorpsins þegar í stað, og vita, hvers hann yrði vísari. En hann hvarf strax frá þessari hugmynd aftur. Hann var ennþá í alltof miklu uppnámi vegna hins nýfengna frelsis, til þess að hann gæti aðhafzt nokkuð af viti. Og nú ætlaði hann ekki að láta loka sig inni aftur fyrir eintóman klaufaskap og óaðgæzlu.

Gulli fór því sömu leið til baka og hann hafði komið. Hann mætti Doppu gömlu undir húsgaflinum. Þar var hlé fyrir veðrinu. Það var ósköp að sjá Doppu. Hún riðaði á fótunum og var öll líkt og úr lagi færð.

– Jæja, þú hefur þá fundið útgöngudyrnar, sagði hún móð og másandi.

Gulli rumdi ánægjulega.

– Það er gott, sagði gamla hænan. – Ég er sárfegin að þurfa ekki að fara lengra í öllum þessum veðraham. Ég hélt að ég ætlaði aldrei að komast þessi fáu skref yfir hlaðið, veðrið var svo afskaplegt.

– Ég fylgi þér heim að dyrunum þinum, gamla mín. Þú getur stutt þig við mig, sagði Gulli, og þekkti sig vart fyrir sama grís og hann hafði verið fyrir stuttu. Hann var svo glaður.

– Já, ég þakka þér fyrir hugulsemina, sagði Doppa gamla.

Svo gengu þau saman yfir hlaðið í sterkviðrinu.

_______________________________

Í næsti kafla . . .
Í efnisyfirlit

_______________________________