5. Í berjamó
Næsta morgun gerðist það, sem aldrei hafði komið fyrir áður. Gamla konan kom ekki með morgunmatinn til Gulla. En Gulli var alltof hugbundinn við framtíðarfyrirætlanir sínar, að hann , veitti því nokkra sérstaka athygli til að byrja með. En þegar tíminn leið svo fram að hádegi, að gamla konan lét ekki sjá sig utan dyra, fór Gulli að gerast talsvert forvitinn um hagi hennar og gekk heim að húsdyrunum. Útidyrahurðin var kviklæst, og Gulli læddist hljóðlega inn fyrir.
Þarna blasti við honum óvænt sjón. Gamla konan svaf enn í rúminu sínu. Hún var í hvíta, stóra náttkjólnum sinum og með hvítu.nátthúfuna sína á höfðinu.
Gulli tyllti sér á rúmstokkinn og beið þess að fóstra ávarpaði hann.
Ekkert heyrðist nema tifið í gömlu klukkunni á veggnum, og ekkert gerðist lengi vel, nema hvað allt í einu birti í stofunni. Það var komið glaðasólskin. Hin dökku illviðrisský brunuðu örhratt burt og földu sig bak við fjarlæg fjöll.
– Ertu þarna Gulli litli?
– Já, fóstra mín, sagði hann og brosti glaðlega við gömlu konunni, því nú var ekkert að óttast lengur. Svo sagði hann.
– Það er kominn dagur og þú hefur gleymt að vakna.
– Ónei, ég hef engu gleymt, Gulli litli. Meðan ég lifi, man ég það,. sem ég þarf að muna. En ég er þreytt og verð að hvíla mig í dag. Hænsnin verða að sjá um sig sjálf, og þú verður að sjá um þig sjálfur. Geturðu það?
– Já, það ætti ég að geta, fóstra mín. Sérðu ekki, hvað ég er orðinn stór?
Örlítið bros lék um varirnar á gömlu konunni, þegar hún sagði:
– Þú rennur upp eins og fífill í túni. Þú ert hraustur og þú þarft mat þinn, en engar refjar. Ég hef reynt að tína í þig allt það bezta, sem ég á, en nú er trogið þitt tómt. Við skulum samt ekki láta það hryggja okkur. Þú færð þér rófur úr garðinum mínum, eins margar og þú getur í þig troðið. Mundu.mig um það. Ég get ekki hugsað til þess, að þú sért svangur.
– Ég mun ekki svíkjast um að borða rófurnar, sagði Gulli.
– Nei, þú svíkst ekki um það, litli hrekkjalómurinn þinn, sagði gamla konan, og nú brá fyrir glettni í starandi augnaráði hennar.
– Segðu mér, Gulli minn, sagði hún svo. – Er hann ekki hættur að rigna?
– Jú, það er komið glaðasólskin, fóstra mín. Og hafið er slétt og bjart eins og spegillinn þinn.
– Jæja, barnið gott. Þetta er fallegur dagur. Sól skín í heiði. Jarðargróðurinn stendur nú með fullum blóma. Þú ert ungur eins og sjálfur sumardagurinn. Og þú átt að vera úti í sólskininu í allan guðslangan dag, en vitjaðu mín samt, áður en sólin gengur undir.
– Já, fóstra mín, sagði Gulli og hraðaði sér út.í sólskinið.
Það var nýr, grænn litur á grasinu, og fíflarnir og sóleyjarnar höfðu fengið nýjan gullslegan ljóma. Allt var nýtt og töfrum slungið, jafnvel hænsnin voru skrautlegri að sjá en nokkru sinni fyrr.
Þetta var sjálf óskastundin. Gamla konan ætlaði að sofa í allan liðlangan dag, og Gulli mátti ráða sér sjálfur. Hann var því ekki lengi að leita uppi útgöngudyrnar góðu. Og eftir stund var hann kominn út á þjóðveginn á leið til þorpsins. Hann var fullur eftirvæntingar, en hann fór sér samt afar hægt. Hann kærði sig ekki um að fá yfir höfuðið, eða verða til á þorpsgötunni aftur, eins og í fyrsta skiptið, sem hann fór út í heiminn. Nei, nú ætlaði hann að skemmta sér konunglega. Ása hlaut að vera komin út í sólskinið. Kannski færu þau saman í berjamó. Og þá ætlaði hann að hvísla að henni leyndarmálinu sínu. Og Ása mundi brosa við honum og segja:
– Þú ert mesti lukkuriddari. Fólkið þitt á einmitt heima í þorpinu. Og nú skal ég sýna þér, hvar það er.
Þegar Gulli nálgaðist innsta húsið í þorpinu, heyrði hann að það ómaði allt af glöðum barnsröddum. Og nú komu börnin út í sólskinið. Það voru þrjár stúlkur og tveir drengir. Börnin héldu á stórum fötum í höndunum. Þetta voru bláar og hvítar og rauðar berjafötur og ljómuðu eins og dýrgripir í sólskininu.
– Við skulum koma við hjá henni Ásu, sagði ein stúlkan. Ég hef lofað. henni mömmu hennar að taka hana með til berja.
– Þið verðið að fara inn í Dal ef þið ætlið að koma við hjá. henni, sagði annar strákurinn.
– Þú ert að skrökva, sagði stúlkan.
– Nei, hann segir þetta alveg satt, sagði minnsta stúlkan í hópnum. – Hún mamma hennar Ásu er fyrir sunnan. Og hún Ása verður hjá henni ömmu sinni í Dal, þangað til mamma hennar kemur aftur.
– Þá heimsækjum við hana Ásu á morgun, sagði stúlkan, sem fyrst hafði talað. – Það er draumur að fara inn í Dal.
Nú hlógu strákarnir. Og svo hlógu stúlkurnar líka.
Gulli heyrði þetta allt saman. Honum þótti þetta síður en svo slæmar fréttir. Hann ætlaði líka að heimsækja Ásu í Dal. Já, því það var draumur að fara inn í Dal.
- Grísinn, grísinn! hrópuðu strákarnir, sem. nú höfðu.komið auga á Gulla. Þeir gerðu þegar aðsúg að honum og hröktu hann á undan sér niður í fjöruna..Stúlkurnar tóku ekki þátt í þessum leik, en þær horfðu broshýrar og spenntar á aðförina, og sú elzta þeirra sagði:
- Varið ykkur á grísnum. Hann mun launa ykkur lambið gráa.
Þetta var ekki til annars en að espa strákana.um allan helming. Um stund barst leikurinn fram og aftur um fjöruna. Gulli var kominn í svo mikinn vígahug, að hann hafði þegar gleymt allri óttatilfinningu. Hann vissi, að hrekkjalómarnir ætluðu sér að hrekja hann í sjóinn. En ekki færu þeir nú í berjamó á meðan.
Gulli fékk villt strákunum sýn með því að skjótast á bak við stóra steina. Stutta stund misstu þeir af honum með öllu, en litlu seinna gátu þeir króað hann af úti á lágum en grýttum tanga. Og nú slepptu þeir sér alveg. Þeir rifu upp grjót í fjörunni og köstuðu að Gulla. Grjótinu rigndi niður með dunum og dynkum allt umhverfis hann. Þessa vopnuðu árás gat Gulli ekki staðizt, svo hann setti sig í sjóinn og krafsaði sig svo aftur í land. Hann bjóst þegar við nýrri árás. En nú voru strákarnir búnir að fá nóg af þessum leik og þutu með hrynum miklum á eftir stúlkunum, sem höfðu lagt hræddar á flótta í átt til fjalls.
Gulli var enn í miklum vígahug og hljóp eins hratt og fæturnir gátu borið hann á eftir krökkunum. Hann vildi ekki fyrir nokkra muni missa af strákunum. Hann ætlaði að sýna þeim hver hann var, og það strax í dag.
Börnin staðnæmdust í hlíðinni spottakorn fyrir innan og ofan þorpið. Þar var hið ákjósanlegasta berjaland. Hlíðin var vaxin lágvöxnu kjarri og lyngi. Berin voru fullþroskuð. Fagurgrænt og rauðleitt berjalyngið og dimmgrænt skógarlaufið ilmaði sætlega í sólskininu. Smáfuglar sentust grein af grein og sungu sumarljóð, og hér og þar niðuðu silfurbjartir lækir ljúfum rómi.
Gulli hafði nú komið sér fyrir í þéttvöxnum runna og horfði þaðan á börnin, sem sátu í skjólgóðu rjóðri og köstuðu mæðinni. Þau höfðu ekki orðið hans vör. Og kannski höfðu þau gleymt honum með öllu. Þau töluðu um ber og aftur ber. Hér var allt svart af berjum. Og þau ætluðu að koma heim með stóru, litfögru föturnar sínar fullar af vel þroskuðum berjum. Brátt spruttu þau á fætur og dreifðu sér um lyngbrekkurnar og móana þarna nærlendis, með berjatínurnar sínar í höndunum. Berjaföturnar og nestið sitt höfðu þau skilið eftir í rjóðrinu.
Gulla var með öllu runnin reiðin. Skógarilmurinn, niður hins rennandi vatns og kliðmjúkar raddir smáfuglanna, gerðu honum svo ljúft í geði, að honum fannst hann geta fyrirgefið hrekkjalómunum allan ótuktarskapinn. Brátt sá hann, hvar þeir komu báðir saman inn í rjóðrið. Þeir voru með fullar tínurnar af berjum og losuðu úr þeim í föturnar sínar. Berjaföturnar þeirra voru rauðar. Litlu síðar komu tvær af telpunum og svo sú þriðja, líka með fullar tínur af stórum ljósbláum og svörtum berjum, sem þær létu í föturnar sinar. Og aftur og aftur komu börnin með fullar tínur. En löngum var rjóðrið autt.
Öðru hverju læddist Gulli að fötunum og leit niður í þær, einkum þær rauðu. Og hann var harla kímileitur.
Börnin voru afar kappsöm við berjatínsluna. Það hækkaði líka ört í fötunum. En þegar rauðu föturnar voru orðnar vel hálfar af berjum, skeði dálítið nýstárlegt. Gulla hafði hugkvæmzt að fremja svolítið meinlaust hrekkjabragð. Hann fór með trýnið niður í báðar rauðu föturnar, hvora eftir aðra, og þrýsti því varlega en fast niður í berin, svo þarna mynduðust alldjúpar holur. Að svo búnu hafði Gulli sig aftur inn í runnann og beið þess hlakkandi, hvernig hrekkjalómunum yrði við.
Hann þurfti ekki lengi að bíða. Brátt varð uppi fótur og fit í rjóðrinu. Strákarnir urðu ókvæða við, þegar þeir sáu verksummerkin, kenndu stúlkunum um allt saman, fullyrtu, að þær hefðu laumast í föturnar og krækt sér í ber. En þegar stúlkurnar sýndu þeim fram á, með því að jafna í fötunum, að ekkert hefði verið tekið úr þeim, þá ráku strákarnir upp stór augu og urðu hreint orðlausir um stund. Loks sagði annar þeirra:
– Þetta er eitthvað. undarlegt.
– Já, þetta er alveg furðulegt, sögðu telpurnar einum rómi. En eftir nokkra þögn sagði elzta telpan:
– Hér hefur enginn venjulegur maður verið að verki. Þið mættuð bara þakka fyrir, ef þið fengjuð að halda berjunum ykkar, eins og þið létuð við grísinn.
– Eins og svínið sé hér? sagði annar strákurinn.
– Það má þá vera hér, sagði hinn. – Við hræðumst ekki einn grísarrindil.
– Nei, þið látið mannalega, sagði þá elzta stúlkan. – En hræddir eruð þið. Þið eruð kríthvítir í framan af hræðslu.
Nú töluðu öll börnin í senn. Stúlkurnar vildu halda því fram, að gamla konan vissi lengra nefi sínu, og að hún, eða jafnvel sjálfur grísinn, hefði verið hér að verki. Strákarnir reyndu að sprengja út úr sér hreystiyrði. En að lokum urðu börnin ásátt um það, að halda sig saman á berjamónum um stund og koma síðan öll samtímis í rjóðrið, og vita hvort nokkuð sérstakt hefði skeð. Að svo búnu héldu þau á burt.
Gulli brá sér þegar inn í rjóðrið og fór að rauðu fötunum eins og í fyrra skiptið, nema hvað hann leyfði sér nú að fá sér væna berjavisk.
Maður skyldi nú ætla að börnin létu til sín heyra, svo um munaði, næst þegar þau komu í rjóðrið. En svo var þó ekki. Góða stund horfðu þau orðlaus ofan í rauðu föturnar, síðan horfðu þau hljóð og alvarleg hvert á annað. En allt í einu sagði yngsta telpan:
– Sjáið þið ekki, að svínið hefur farið með trýnið niður í föturnar?
Börnunum stökk ekki bros, en þau hneigðu höfuðin samþykkjandi.
Og enn skeði óvæntur atburður. Gulli rak trýnið út á milli greinanna, svo börnin sáu hann, og rumdi ánægjulega, en á samri stundu var hann þotinn inn í runnann aftur. Þegar enginn veitti honum eftirför, sneri hann sömu leið til baka. Og nú sá hann, að strákarnir stikuðu stórum skemmstu leið niður að þjóðveginum með föturnar sinar. Þeir áræddu víst ekki að vera lengur í berjum þennan dag. Hið saklausa hrekkjabragð hafði því alveg náð tilgangi sínum. Stúlkurnar héldu hins vegar áfram að fylla tínurnar sínar.
Þær þurftu heldur ekkert að óttast, þar sem þær höfðu ekkert illt verk unnið.
Gulli skreið ánægður inn undir laufþakið á einum runnanum. Í milli greinanna sá hann rennandi vatn. Þetta var litill, kátur lækur. Og þarna settist. skógarþröstur á mjóa, blaðfagra grein, sem bar við blikfagurt vatnið – og söng.
Gulli hvíldi sig þarna lengi, baðaður sól og umvafinn ilmi hins unga sumardags. Gleði hans var rík og djúp. Já, hann hafði skemmt sér konunglega. Nú lét hann sig dreyma. Draumar hans ilmuðu eins og jörðin, og þeir voru þrungnir af vatnaspili og þrastasöng.
Hann ætlaði sízt af öllu að bregðast henni og reis því skjótlega upp af hinum græna, mjúka beð sínum og hraðaði för sinni heim til gömlu konunnar.
Í næsti kafla . . .
Í efnisyfirlit