Óskar Aðalsteinn

Ennþá gerast ævintýr

Saga handa litlum börnum

Með 20 myndum
eftir

Sigurð Guðjónsson

 

_______________________________


6. Fóstra og mamma

_______________________________

Ævinlega var þægilegur ilmur í stofunni hennar fóstru. Hún geymdi reyrvönd í fatakistunni sinni og undir koddanum sínum. Og stundum brenndi hún lynghríslu til að auka á ilminn umhverfis síg. En nú var Gulli ekki fyrr kominn inn í stofuna hennar en einhvern annarlegan óþef lagði á móti honum. Gamla konan horfði á hann með þessu starandi augnaráði, eins og í morgun, og rödd hennar var mild eins og þá, en lægri og þróttminni:

– Ertu þarna, Gulli litli?  sagði hún.

– Já, fóstra mín. En hér er svo vond lykt. Af hverju kemur hún?

– Hún kemur af meðulunum hennar Siggu hómu, barnið gott. Þau eru römm og kraftmikil, en ég er orðin svo mikið ónýt og duglaus, að þau gagna mér vist lítið úr þessu.

Nú skildist Gulla, að fóstra væri ekki bara að hvíla sig, heldur væri hún mikið veik, og að ef til vill mundi hún deyja. Hún hafði aldrei verið veik fyrr en nú, svo að Gulli vissi til. Og nú mundi hann eftir því, að hún hafði stundum sagt honum, að þegar að því kæmi, að hún risi ekki úr rekkju að morgni, þá mundi hún ekki komast úr rúminu aftur, heldur slokkna útaf eins og ljósið á kertinu, þegar blásið er á það. . . .  Gulli var þögull um stund og hugleiddi þetta með sjálfum sér.

– Þú hefur ekki verið ein í dag, fóstra mín, sagði hann loks.

[ Spegillinn ]

Gulli varð meira en lítið undrandi þegar hann sá sjálfan sig í speglinum.

– Það hefur vist mörgum verið hugsað til mín í dag, sagði gamla konan, og nú var eins og rödd hennar kólnaði. – Hér kom gömul vinkona mín. Hún lét hreppstjórann vita, hvernig komið var fyrir mér, og yfirvaldið sendi mér konu slátrarans til þess að þjónusta mig, líkt og ég væri reifastrangi. . . .  Gamla konan hreyfði höfuðið órólega á koddanum, á meðan hún talaði. Hún var víst að berjast við hugsanir sínar. Það voru sjálfsagt dimmar hugsanir. En brátt voru þær farnar, og bjartar hugsanir komnar í staðinn. Gulli var alveg sannfærður um það, því nú var fóstra aftur svo blíð í máli, þegar hún sagði: – Farðu nú og leiktu þér að speglinum, elskan mín. Hann er í eldhúsglugganum, og þú mátt leika þér að honum eins lengi og þig lystir.

Gulli hlýddi. En hann varð meira en lítið undrandi þegar hann sá sjálfan sig í speglinum. Trýnið á honum var allt heiðblátt úr berjunum. Ætli fóstra hafi séð þetta? Nei, hún gat ekki séð það. Hún var svo afar sjóndöpur. Mundi Ása þekkja hann svona á sig kominn? Og mundi nokkur grís geta tekið hann fyrir sinn jafningja, svona bíldóttan í framan?

[ Kerlingin ]

– Hvað ertu að draugast hér, ódrátturinn þinn.

Nú var tekið heldur óþyrmilega í Gulla, og hann hristur duglega til. Svo sagði lág og.hvöss rödd alveg við eyrað á honum:

– Hvað ertu að draugast hér, ódrátturinn þinn. Reyndu að snáfa á dyr.

Gulli hnipraði sig sagman og leit á árásarmanninn, sem var stór og digur kerling, og vissi að þarna var komin kona slátrarans. Hún rétti honum vel úti látinn kinnhest, fyrst á hægri vangann, svo á þann vinstri, síðan ýtti hún honum út um dyrnar og skellti hurðinni á eftir honum.

Gulli staldraði við á dyraþrepinu og neri á sér trýnið. Satt að segja logsveið hann í andlitið. En það gerði ekkert til. Það gerði heldur ekkert til, þótt kerling slátrarans hefði rekið hann á dyr. Hann tók ekkert mark á henni.

Það var komin nótt. Og nóttin var björt eins og fegursti sóldagur. Og hver var ekki á vappi þarna um hlaðvarpan önnur en hún Doppa gamla. Gulli gekk til hennar, og um stund gengu þau hljóð um garðinn í ljósi næturinnar. Svo sagði gamla Doppa:

– Við vitum það bæði, vinur minn, að nú er hún að kveðja okkur, hún húsmóðir mín og hún fóstra þín.

– Og hvað verður þá um ykkur hænurnar? sagði Gulli.

– Þú spyrð um það, en hugsar ekkert um sjálfan þig, sagði Doppa.

– Ég veit að ég kemst einhvern veginn af, Doppa mín. En mér þætti leitt, ef ég fengi ekkert að vita, hvað yrði um ykkur.

– Jæja, blessaður minn, sagði Doppa. – Ég er nú eina gamla skrukkan í húsinu, eins og þú veizt. Hinar eru allar ungar og í góðu gengi, og við þeim vilja allir taka. Það máttu reiða þig á.

– Þú átt við að þær fari í nýja vist? sagði Gulli.

– Já, það hef ég verið að reyna að gera þeim skiljanlegt.

– Þú stendur bara í ströngu, Doppa mín.

– Jæja, nokkuð svo, sagði Doppa með hægðinni. – Þær voru fyrst dálitið smeykar. Þær óttuðust um sinn hag, ef gamla húsmóðirin þeirra dæi. En ég reyndi að tala um fyrir þeim, og nú eru þær rólegar aftur.

– Já, svona eiga hlutirnir að vera, Doppa mín.

– Ég er nú fyrst að taka eftir því, að þú lítur ekki rétt þokkalega út, sagði gamla hænan.

– Þú. ert bæði blár og rauður í andliti. Hún hefur þó vonandi ekki sýnt þér á sér lúkurnar, nýja húsmóðirin?

– Hún klappaði.mér eitthvað lítillega á aðra kinnina, en liturinn er bara venjulegur berjablámi, sagði Gulli og brosti.

Doppu stökk ekki bros. Hún nam staðar við dyrnar hjá sér, um leið og hún gekk inn: – Nú get ég róleg hvílt mín lúin bein. En þú hefur víst fyrst um sinn um annað að hugsa en svefn og hvíld.

– Ég þarf að skreppa til þorpsins, sagði Gulli og gekk þegar út á þjóðveginn. Og meðan hann þó sér í andliti við svolitla lækjarsprænu, hugsaði hann um það, að nú væru ástæður hans slíkar, að hinir ólíklegustu hlutir gætu gerst í lífi hans á hverri stundu, og að öruggast væri, að hann leitaði uppi fjölskyldu sína án tafar, þótt Ása væri hvergi nærri.

[ Frjáls ]

– Ég þarf að skreppa til þorpsins, sagði Gulli og gekk þegar út á þjóðveginn.

Þegar Gulli kom inn í þorpið, var þögnin þar svo djúp og kyrrðin svo algjör, að honum varð í fyrstu hverft við. Húmbláir skuggar dottuðu í skotum og húsasundum, en hér og þar sló hinn rauði bjarmi næturinnar eld á gluggarúðunum, svo engu var líkara en að sum húsin stæðu í ljósum loga. Þetta var fagurt, en þó leyndardómsfullt.

Gulli læddist hægum skrefum á milli húsanna og leit inn í hvert skot og hvern afkima. Hann varð strax margs vísari, ekki um fjölskyldu sína, heldur leyndardóma næturinnar. Hann komst að raun um það, að nóttin býr jafnvel yfir yndislegri töfrum en sjálfur sóldagurinn.

Um það bil sem loftið varð bláljóst, heyrði Gulli að einhver söng með hans eigin rödd í næturkyrrðinni. Já, þetta var hans eigin rödd. Þó var þessi rödd bæði skærari og mýkri en hans. Hann gekk á hljóðið, hægum en hiklausum skrefum. Öðru hverju nam hann staðar og hlustaði, fullur eftirvæntingar og hljóðlátrar gleði.

Röddin barst frá lágu byrgi að húsabaki. Gluggi var á byrginu. Og nú sá Gulli þá sjón, sem hann hafði svo lengi þráð að sjá. Inni í byrginu hvíldi ung grísamóðir og söng vögguljóð yfir sofandi börnum sínum, þar sem þau hvíldu við brjóst hennar.

– Þetta er hún móðir mín, og þetta eru bræður mínir og systur, hvíslaði Gulli í eigin hug, og í augum hans stóðu blikfögur fagnaðartár. Hann horfði hljóður og sæll á móðurina og börnin og hlustaði hugfanginn á vögguljóðið, sem móðirin kvað yfir sofandi börnunum. Hann þyrfti ekki annað en að taka undir ljóðið með móður sinni, svo hún þekkti hann á ný og byði hann velkominn heim.

En Gulli söng ekki. Hann gerði á engan hátt vart við sig. Hann mátti það ekki. Hann átti skyldum að gegna við fóstru sína. Þær skyldur varð hann að rækja, í hversu mikla hættu sem hann annars stofnaði sér með því. En nú voru allar hættu svo litlar, af því hann hafði séð mömmu, og nú voru engir örðugleikar svo stórir, að ekki væri hægt að sigrast á þeim.

– Ég ætla enn að hlusta á eitt lítið ljóð af vörum móður minna, svo fer ég til fóstru, hvíslaði Gulli í eigin hug.

Og hann hlustaði á ljóðið, síðan læddist hann hljóðlátlega á burt.

[ Gulli - fóstran - kerlingin ]

Í hægindastólnum hennar fóstru svaf tröllslega vaxin kona.

Þegar Gulli kom inn í stofuna til fóstru sinnar, var hún þar ekki ein fyrir. Í hægindastólnum hennar fóstru svaf tröllslega vaxin kona. Hún hafði krækt saman stórum höndunum á brjósti sér. Þetta var kona slátrarans. Gulli óttaðist hana ekki. Hann gekk hugrór fram hjá henni og staðnæmdist við rúmið hjá fóstru sinni. Fóstra var vakandi. Hún var glaðvakandi og horfði á Gulla með broshýrum og björtum augum. Það var næstum eins og þetta væru augun hennar Ásu. Og röddin hennar fóstru hljómaði líkt og.þrastasöngur, þegar hún sagði:

– Þú ilmar rétt eins og laufguð hríslan í hlíðinni, barnið gott.

Nú þótti Gulla sem hann þyrfti ekki lengur að leyna neinu fyrir fóstru sinni. Hann sagði henni ótilkvaddur, hvernig hann hafði komizt að heiman, og hvað hann hafði haft fyrir stafni, allt síðan hún hafði lokað hliðinu með stóra lásnum. Hann talaði hægt og rólega og alveg blátt áfram. Og augun í henni fóstru urðu stöðugt bjartari eftir því sem hann talaði lengur. Svo sagði hún með tindrandi björtum augum:

– Ég sá þig í skógarhlíðinni í dag, Gulli litli. Og ég sá allt það, sem þú varst að segja mér frá. Engillinn, sem bráðum fylgir mér inn í himininn, sýndi mér það allt í speglinum sínum. Sá spegill leynir engu. Hann er bjartari en sjálf sólin, og mannleg augu fá ekki litið í hann fyrr en á dauðastundinni.

– Og í þessum spegli hefur þú séð, hvað ég var mikið berjablár, fóstra mín?

– Já, ég sá berjablámann á andlitinu á þér. Og ég vísaði þér á spegilinn minn gamla, svo þú gætir séð það sjálfur. Ég vissi, að þá myndir þú baða á þér andlitið, og kæmir til mín hreinn og vel til hafður, því þér er þrifnaðurinn í blóð borinn.

– Og hvað sástu meira í bjarta speglinum, fóstra mín?

– Ég sá hug þinn allan í speglinum, Gulli litli. Ég sá óskirnar þínar, og ég sá draumana þína. Og þessi sjón hefur glatt mig mest á lífsleiðinni. Ég var eigingjörn fóstra. Það er kannski fyrst nú, sem ég er þess verð að kallast fóstra þín.

– Spegillinn, sagði Gulli. – Sástu mig í bjarta speglinum hjá mömmu? Fæ ég að vera hjá henni, eftir að þú ert farin burt með englinum?

– Engillinn leyfir ekki að um það sé talað, vinur minn. Ég leyni þig engu, sem ég má segja þér, og máli skiptir. En eftir að ég fer burt, mun hreppstjórinn afhenda slátraranum þig til ráðstöfunar. Þú munt lenda í margvíslegum raunum, elsku barnið mitt. Samt fer ég örugg burt með englinum. Já, ég fer örugg og róleg. Ég sá hjartað þitt í speglinum og veit, að þrátt fyrir allt ertu gæfubarn.

Gamla konan rétti sig upp í rúminu og kyssti Gulla á ennið, svo hallaði hún sér útaf aftur og horfði djúpum, björtum augum út í ljósbláa sumarnóttina.

Litlu seinna svaf Gulli værum svefni á hvítum hálminum í stíunni sinni.

_______________________________

Í næsti kafla . . .
Í efnisyfirlit

_______________________________