Húsfreyja frá Hornströndum

Ef að greina eg skal þér í efnum vöndum
eyðiplássið allt á Ströndum:
ólíkt er það Suðurlöndum.

H.H.


Hvert er erindi mitt norður á Strandir? Þetta er engin skemmti- eða forvitnisferð. Ég er ekki túristi. Ég fer norður til að gerast vitavörður Hornbjargsvitans. Mér bauðst vitavarðarstarfið og tek boðinu með fögnuði. Þetta er samt enginn venjulegur fögnuður. Ég veit ekki, hvað ég er að fara út í. Hef aldrei litið Hornstrandir eigin augum, hvað þá heldur stigið fæti þar í gras, þekki ekkert til norður þar, nema af afspurn og úr bókum. En ég vil komast burt úr fjölmenninu, komast inn í sjálfan mig og fá tryggt næði til ritstarfa. Enginn dagur án skrifta. Þetta er mitt fyrsta boðorð. Þetta eru örlög mín og álög, að skrifa mig sundur og saman. Þarna er tækifærið: Hornstrandir – Hornbjargsvitinn.

Og einn bjartan júlídag árið 1947 held ég og fylgdarmaður minn af stað frá Kvíum í Jökulfjörðum sem leið liggur yfir fjöll til Látravíkur austan Hornbjargs. En í gær kom ég með Djúpbátnum í Jökulfirði. Félagi minn í þessari fyrstu ferð minni um Strandfjöll heitir Pétur og er sonur Sigmundar Guðnasonar, vitavarðar Hornbjargsvitans. Pétur Sigmundsson er gervilegur ungur maður og með afbrigðum óþvingaður í tali og framkomu. Hann hefur alizt upp við björgin, glímt við þau frá því hann var drengur, og sú orrusta hafði gætt hann fasthygli, samfara léttri lund, og hert í honum bakfiskinn. Pétur er vanur fjallaferðum, ég hins vegar alls óvanur svona slarki og mæðist fljótlega, enda dregur oft í sundur með okkur Pétri. Hann staldrar öðru hvoru við og bíður mín. Brátt kemur þar, að mér finnst bilið á milli okkar ískyggilega langt, og drykklanga stund sé ég ekkert til ferða Péturs. Og hvergi sér út yfir háfjallaauðnina. Við sjónarrönd blána fjallgarðarnir uppi, líkt og vaxa inn í himininn.

Mér fer ekki að verða sama. Hef ég týnt fylgdarmanninum? Og hvað er norður og hvað suður, frá þeim punkti, sem ég nú stend á . . . ? Ég sný mér í allar áttir, og að sjálfsögðu kem ég loks auga á Pétur allt annars staðar en ég hafði búizt við. En hann var að forvitnast um kindur, segir hann mér, þegar fundum okkar ber saman, og hann bætir við kíminn:

– Þú ert að liðkast.

– Hvað ætli við verðum lengi? spyr ég.

– Við ættum að hafa það á fjórum tímum . . . Pétur lætur sér ekki stökkva bros.

– Þú fórst þessa sömu leið á liðlega tveim tímum í gærkvöldi, segi ég.

Pétur anzar þessu engu, en bendir út yfir auðnirnar og hermir mér örnefni. Svo er hann eins og þeytispjald út og suður, niðri í gilskorningum og uppi á fjarlægum bungum og hæðum, bara ef hann sér eitthvað kvikt, en vitjar mín öðru hverju til þess að aðgæta, hvort ég haldi réttu striki.

. . . Ný útsýn. Öræfin að baki. Ég sé hafið og standlengjuna. Myrkblá bergþil rísa upp af spegilsjó, grópuð djúpum giljum, skálum, hvilftum og grænum víkum; Hornstrandir í sóldýrð.

Ekki mikið seinna komum við á Axarfjallsbrúnina, en svo nefnist fjallið austanvert við Látravík. Látravíkin er einasta græn skál þarna í sjálfu bjarginu. Og ég verð að játa það, að mér finnst óhugnanlega djúpt niður í þessa litlu vík og voveiflega skammt fram af hengiflugunum og hamrabásunum, sem taka við rétt fyrir framan vitavarðarhúsið.

Nú er skammt til bæjar. Og það er skemmst frá að segja, að heimafólkið tekur mér eins og ég sé einn af fjölskyldunni. Auk þeirra hjóna eru fjögur börn þeirra heima, tvær dætur og tveir synir, ungt og hressilegt fólk, sem ger ekki í felur, þótt ókunnugan mann beri að garði. Stúlkurnar sitja við hannyrðir, broshýrar og blómlegar. Þetta eru skær vorblóm.

Sigmundi Guðnasyni vitaverði hef ég áður kynnst lítillega vestur á Ísafirði. Hann er sérstæður maður um margt, vel skáldmæltur og mikið vel heima í þjóðlegum íslenzkum bókmenntum. Sitt hvað höfum við rabbað saman, og mun sumt af því skrafi birtast á þessari bók.

Kona Sigmundar, Bjargey Pétursdóttir, er hávaxin og tíguleg í framgöngu, manneskja, sem margt hefur reynt, en baslið hefur síður en svo smækkað hana. Hún skiptir ennþá fagurlega litum, þó hún hafi nú gyllt fimmta tuginn, er glaðvær og tápmikil kona, þægileg í viðmóti og raungóð. Það er bæði fróðlegt og skemmtilegt að heyra Bjargeyju Pétursdóttur segja frá. Hún er góður fulltrúi allra þeirra kvenna, sem lifað hafa og barizt sinni baráttu á Hornströndum. Saga hennar er saga þeirra. Ég mun nú rekja þá sögu, eins og Bjargey sagði mér hana, og fer frásögn hennar hér á eftir.

Fyrstu sporin
Einnar nætur gömul var ég flutt frá móður minni vegna mjólkurleysis, en þar tíðkaðist ekki að leggja barnið á brjóst. Ég var flutt að Horni, og þar dvaldi ég í fjórtán vikur. Síðan var ég flutt til Hælavíkur og tekin þar í fóstur af hjónum, sem bæði voru komin hátt á sextugsaldur. Í Hælavík dvaldi ég svo í þrjátíu og fimm ár samfleytt. En ég er fædd 5. júní árið 1902, í Rekavík bak Höfn á Hornströndum í Sléttuhreppi. Foreldrar mínir, Petrólína Elíasdóttir og Pétur Jóhannsson, bjuggu í Rekavík.

Það var þröngt í búi hjá foreldrum mínum. Árið eftir að ég fæddist, fluttu þau til Hælavíkur. Þar voru þau tæp tvö ár í húsmennsku, eða þar til faðir minn lézt snögglega úr svæsinni lungnabólgu. Nú stóð móðir mín ein uppi með fimm börn, það elzta var sex ára. Heimilið var leyst upp, og börnin fóru á tvist og bast. Þung munu spor móður minnar hafa verið, þegar hún hafði skilið sig við síðasta barnið, en það var drengur og bar nafn föður okkar. Móðir mín var mjög heilsutæp, enda oft undir læknishendi. Hún andaðist í Reykjavík árið 1912.

Fósturforeldrar mínir, þau Guðfinna Arnórsdóttir og Kristján Jónsson, voru mér mjög góð. Þau höfðu eignazt sjö börn, fimm þeirra dóu ung í æsku, eina stúlku misstu þau átján ára gamla, en einasta barnið, sem þau áttu eftir – það var stúlka – flutti til Akureyrar og lét líð til sín heyra. Fósturforeldrar mínir höfðu, þegar hér var komið, tekið til sín fjögur fósturbörn og reynst okkur öllum eins og beztu foreldrar.

Fóstri minn, Kristján Jónsson, var meðalmaður á vöxt, herðamikill og nokkuð stórfelldur í andliti, með hátt og hvelft enni og björt augu, skeggið hvítt og mikið, svipurinn virðulegur. Hann var hæglátur í framgöngu og skemmtilegur í viðræðum. Hann var mikill fræðaþulur, kunni utanbókar kynstrin öll af sálmum og kvæðum. Passíusálmana kunni hann spjaldanna á milli og fjölda marga hugvekjusálma, einnig kvæði eins og Lilju Eysteins, Vinaspegil og Heimspekingaskóla, svo lítið eitt sé nefnt. Fingrarím kunni hann og notaði daglega. Almanak keypti hann ekki. Hann skrifaði mjög setta og læsilega hönd, enda skrifaði hann oft upp hálfar og heilar bækur, sem spillzt höfðu af raka eða illri meðferð. Ég lærði fingrarím af fóstra mínum, þegar ég var þrettán ára, en gleymdi því í önnum dagsins, eftir að ég varð fulltíða.

Fóstra mín, Guðfinna Arnórsdóttir, var tæplega meðalmanneskja á vöxt, þéttvaxin, nokkuð toginleit í andliti, ljós yfirlitum og bauð af sér góðan þokka. Hún var rólynd og kunni sér ævinlega hóf, á hverju sem gekk, og áttu þau það bæði sameiginlegt, fósturforeldrar mínir. Guðfinna, fóstra mín, var með afbrigðum laghent kona; sneið og saumaði karlmannaföt, og saumaði hvert nálspor í höndum, því aldrei eignaðist hún saumavél. Hún var gengin á næstu bæi, jafnvel í næstu sveit, til að sauma spariflíkur, enda hef ég ekki, hvorki fyrr né síðar, séð jafnvel gengið frá flíkunum og hjá henni og eldri fósturdóttur hennar.

Ég man fyrst eftir mér, þegar ég var þriggja ára. Fóstra mín hafði lofað mér með sér í brúðkaupsveizlu austur að Horni. Ég var þar að leik með börnunum í brekkunni fyrir neðan bæinn. Svo varð mér fótaskortur og valt niður brekkuna, en á leiðinni missti ég af mér rauða topphúfu, sem fóstra mín hafði prjónað handa mér. Ég fór að gráta og kallaði á fóstru mína. En allt í einu sá ég, hvar hávaxin og myndarleg kona stóð hjá mér. Þessa konu hafði ég ekki séð áður. Hún talaði hlýlega til mín, en fékk samt engu tauti við mig komið. Seinna var mér sagt, að þetta hafi verið föðuramma mín. Afi og amma fluttu frá Vatnsnesi í Húnavatnssýslu, námu land í Látravík og bjuggu þar við hin erfiðustu skilyrði um árabil. Afi minn, Jóhann Halldórsson, var prýðisvel hagmæltur og ágæt refaskytta. – En svo við víkjum aftur að rauðu topphúfunni fögru, þá er það til frásagnar, að fóstra mín fann hana fljótlega fyrir mig – og þar með var allt gott aftur.

Rökkurstund
Í baðstofunni var hálfrokkið – og fólkið svaf í rökkri. En brátt heyrði ég hljóðskraf frá einu rúminu. Og ég, sem var aðeins átta ára gömul, hraðaði mér að rúminu, sem hljóðið barst frá, því þar vissi ég, að fóstbræður mínir voru að segja hvor öðrum sögur. Þeir gátu ekki sofið í rökkri. Eins var með mig. Ég settist á rúmið á milli þeirra og hlustaði. Þegar sögurnar voru þrotnar, fóru fóstbræður mínir í leikinn: Hvað gerðir þú við peningana, sem frúin í Frakklandi gaf þér? Þú mátt kaupa allt fyrir þá nema já og nei og svart og hvítt.

Brátt varð koldimmt í baðstofunni, og ég hypjaði mig upp í rúmið til fóstbræðra minna. Svo fórum við að raula vísur og kvæði. Eldri fóstbróðir minn áminnti mig um að hafa hljótt, svo fólkið vaknaði ekki.

Klukkan sló eitt högg. Hún var þá ekki meira en hálf sex ennþá. Skelfing var þessi rökkurstund lengi að líða. Ég hlakkaði svo ósegjanlega mikið til kvöldvökunnar, vegna þess að ég átti hálfa óskrifaða pappírsörk. Fóstri minn hafði fengið sendibréf frá séra Páli í Vatnsfirði þennan dag, og í því var meðal annars þessi fannhvíta pappírsörk. Ég hafði hugsað mér að skrifa á hana kvæðið: Sáuð þið hana systur mína.

En hvað er þetta?

Það . . . það snöggbirti í baðstofunni. Ég hentist fram úr rúminu og yfir að borðinu, sem var undir eystri gaflinum, en um leið skall eitthvað í gólfið. Í sama bili sá ég hvers kyns var. Tunglið hafði á auga lifandi bragði og í fullri stærð skotizt upp fyrir fjallsbrúnina, og frá því var birtan, sem lýsti upp baðstofuna.

– Nei, sjáið þið nú blessað tunglið, hrópaði ég yfir mig hrifin.

Fúsi, en hann var vinnumaður á heimilinu, spratt þá upp af rúmi sínu, þreif í öxlina á mér, hristi mig til og sagði í umvöndunartón:

– Skammastu þín, stelpa, fyrir að blessa tunglið. Veiztu ekki, að draugar og forynjur birtast oft í tunglslíki?

Nei, þetta hafði ég ekki heyrt. Fúsi hélt áfram:

– Og svo hefur þú skellt niður lýsislampanum hennar fóstru þinnar. Hann hékk þarna á borðröndinni.

Ég var alveg í veifu. Fóstra mín var nú komin á kreik; fólkið hváði vaknað við öll þessi ósköp. Og fóstra mín sagði:

– Fúsi, því læturðu svona við telpuna? Þetta var óvart hjá henni.

Fúsi snautaði að rúminu sínu og muldraði í barm sinn:

– Það er nú ekki verra en vandinn. Allt á að vera óvart gert hjá þessari stelpu, þegar í henni er bölvuð óþekktin.

Ég skipti mér ekkert af nöldrinu í Fúsa, en hljóp til fóstru minnar, lagði handleggina um hálsinn á henni og kyssti hana. Svona var hún fóstra mín alltaf mild og góð. Augnabliki seinna hljóp ég til fóstra míns og sagði við hann:

– Pabbi, er það satt, að ég megi ekki blessa tunglið?

Þá sagði fóstri minn og brosti við:

– Hver segir þér það nú, barnið mitt?

– Hann Fúsi, anzaði ég hálf vandræðalega.

– Nú, var það hann Fúsi. Jæja, en þú mátt nú jafnt blessa tunglið og sólin. Þetta er allt drottins handaverk.

Nú var ég ánægð. Fyrst hann fóstri minn sagði það, þá mátti treysta því. Hann vissi allt, og hann skrökvaði aldrei.

Ljós var tendrað í baðstofunni, rokkarnir byrjuðu að raula og kambarnir að urga. Þessi rökkurstund var liðin.

Fimbulvetur
Veturinn 1909-10 var afar harður. Um sumarmál voru bæði hey og matur mjög gengin til þurrðar í Hælavík. Kristján fóstri minn átti eins og hálfs árs gamlan nautkálf, sem hann varð að lóga vegna þess, hve þröngt var orðið í búi hans. Hann lagði því að stað ásamt vinnumanni sínum og sextán ára unglingi af hinum bænum – en í Hælavík var tvíbýli – til Hesteyrar með kálfinn til slátrunar á Heklu, en svo hét hvalveiðistöðin, sem Norðmenn starfræktu á Hesteyri; síðar var þar rekin síldarstöð af Kveldúlfi h.f.

Þessi umrædda ferð var farin síðasta þriðjudag í vetri. Þann dag var sæmilegt veður og gangfæri. Stóðu því vonir til, að máski færi nú eitthvað að létta yfir og minnka frost og fannkoma.

Frá Hælavík að Búðum liggur leiðin um Skálakamb, og er það einn erfiðasti fjallvegur, sem um getur á Ströndum. Þeim félögum gekk ferðalagið að óskum; veðrið hélzt sæmilegt og náðu þeir til Hesteyrar um kvöldið.

Næsta dag, sem var síðasti vetrardagur, gerði enn hríðarveður. Á sumardaginn fyrsta vöknuðum við fóstra mín við það, að baðstofan lék á reiðiskjálfi. Það var komið aftaka norðaustan rok með stórhríð og bitru frosti.

Fóstra mín var mjög veðurhrædd. Hún fór því á fætur í skyndi og hjálpaði mér við að klæða mig, það sem ég gat ekki sjálf. Síðan lét hún mig lesa morgunbæn og faðirvorið. Ég man, að hugur minn staðnæmdist við bænina í faðirvorinu: Gef oss í dag vort daglegt brauð. Ég hef sennilega verið svöng. Eftir stund fórum við niður, og fóstra mín vakti eldinn í hlóðunum. Hún hafði falið hann í móköggli um kvöldið, látið stein á og moð yfir. Þannig lifði eldurinn alla nóttina. Eins og venja var hitaði fóstra mín mjólkurblandið, en nú var hvorki brauð né sykur með því. Það var ekki til á heimilinu. Fóstra mín átti eitthvað af söltuðum svartfugli og fjallagrösum, en ekkert ákast, eða malað bygg eða bygggrjón. Eins var ástatt á hinu búinu. Við krakkarnir drukkum mjólkurblandið, þó allslaust væri, með góðri lyst. Fóstra mín sauð svo saltfugl í miðdegismat. Súpan var soðin úr fjallagrösum. Okkur krökkunum fannst hún beisk á bragðið, en borðuðum hana samt.

Illviðrið hélzt í tvo daga, en þá birti upp. Og fóstri minn og félagar hans komust heim heilu og höldnu með fullbyrði af kornvöru, kaffi og sykri. Strax sama kvöldið voru sumardagskökurnar bakaðar, þótt sumardagurinn fyrsti væri liðinn. Þetta var siður, sem ekki mátti bregða út af.

Meðan Kristján fóstri minn var í þessari ferð, hafði fóstra mín látið slátra frá heyjum sex gemlingum. Ég man, að hún var döpur þann dag. Við og við runnu tár niður föla vangana, tár, sem hún strauk burt með handarbakinu. – Fóstri minn hafði vonað, þegar hann fór að heiman, að tíðarfarið færi batnandi, svo hann gerði ekki ráð fyrir, að hann yrði nauðbeygður til að fækka kindunum. En fyrst stórhríð gerði aftur, varð ekki hjá þessu komizt.

Enn urðu vond veður og oft með mikilli ofankomu. Segja má, að ekki brygði til hins betra fyrr en á uppstigningardag. Þá gerði eindæma hlýviðri. Þetta var eins og þegar bezt og blíðast er á vorin. Og snjórinn og klakinn runnu líka óvenju fljótt niður.

Þessi hörkuvetur gekk í garð með stórhríð og frostbáli á Mikjálsmessu, eða 29. september. Þann dag fóru þrír menn frá Hælavík að sækja lömb til næsta bæjar, Rekavíkur bak Höfn. Þegar þremenningarnir komu til Rekavíkur, tóku þeir lömbin, sem voru fjórtán talsins, og héldu síðan af stað með þau áleiðis til Hælavíkur. Litlu seinna skall óveðrið á. Komust þeir við illan leik yfir Atlaskarð og niður á Hraunbrekku í Hælavík. Þá var veðurofsinn orðin slíkur, að þeir félagar stjórnuðu sér ekki lengur. Urðu þeir, þó illt væri, að skilja lömbin eftir og komust sjálfir við illan leik til bæjar.

Fárviðrinu linnti ekki fyrr en eftir tvo sólarhringa. Var þá strax lagt af stað að vitja um lömbin. Aðeins tvö þeirra fundust uppistandandi, en víða sáust fætur upp úr fönninni. Var nú hafist handa og leitað í snjónum, og eftir langa og erfiða leit fundust öll lömbin. Tólf þeirra voru lifandi. Það var í senn ótrúlegt og undursamlegt. Eftir að búið var að skera mestu brynjuna úr ullinni, gátu lömbin flestöll staðið, en tvö af þeim höfðu rotazt. Nú var sóttur sleði niður í Hælavík og lömbunum ekið á honum niður í bæ.

Ég man vel eftir því, þegar komið var með lömbin heim. Piltur, sem var með í ferðinni, sagði mér frá hrakningunum.


  • Húsfreyja frá Hornströndum - 2 -