Síðasti bjargsigadagurinn vorið 1914
Ég glaðvaknaði laust fyrir klukkan sjö þennan morgun, full eftirvæntingar og tilhlökkunar. Ég átti að fá að far með á bjargið, þó ég væri ekki nema tólf ára gömul. Það jók mjög á ánægju mína og gleði, að Jakob, fósturbróðir minn, hafði komið heim kvöldið áður með eggjabátnum frá Bolungarvík í Hólshreppi, en þar hafði hann verið við sjóróðra um vorið. Hann var átján ára, kátur og skemmtilegur og hrókur alls fagnaðar.

Fóstra mín áminnti mig um að klæða mig nú vel, því víst gæti hvesst, þótt gott veður væri núna. Ég flýtti mér í spjarirnar og hljóp út á hlað. Þar var dálítill hópur af ungu og glaðlegu fólki; fimm karlmenn og tvær stúlkur. Þetta var brúnafólkið í dag. Og þarna stóð fyglingurinn okkar, Guðmundur Guðnason.

Jakob bað mig skreppa inn til mömmu og sækja matinn, sem við áttum að hafa á bjargið. Ég fór strax. Þegar ég kom aftur út á hlaðið, höfðu karlmennirnir lyft á sig eggjaskrínunum og stúlkurnar tekið kippurnar og matarpinklana. Og nú lögðu allir af stað út grundirnar og út að ánni. Áin var óbrúuð og ekki hægt að stikla hana. Piltarnir tóku því stúlkurnar og báru þær yfir ána. Jakob bar mig og hafði gaman af að láta mig vega salt á öxlinni á sér. Ég hrópaði og kallaði, óttaðist að Jakob myndi missa mig - og ég færi á höfuðið í ána. En þetta var aðeins leikur, enda hlógum við dátt, þegar komið var á bakkann hinum megin.

Og áfram var haldið. Jakob sagði okkur skoplegar sögur frá Bolungarvík, og við skemmtum okkur konunglega við að lifa þetta allt upp með honum. Óðar en varði, vorum við komin upp á Núpinn, en svo heitir vestasti hluti Hælavíkurbjargs. Þarna var ákveðið að byrja sigið og enda austast.

Fólkið lagði af sér eggjaskrínurnar og annan farangur. Fyglingurinn, Guðmundur Guðnason, tók festaraugað og klæddi sig í það, síðan setti hann brúarhjólið við fyrsta festarhaldið og sagði okkur að setja á festina.

- Við skulum biðjast fyrir, sagði hann svo.

Piltarnir tóku ofan húfurnar, og við vorum þögul nokkra stund. Að bænagerð lokinni signdu allir sig.

Fyglingurinn stóð nú upp og þokaðist fram í brúnartorfuna, athugaði, hvort laust grjót væri í festarhaldinu, þar sem festin lagðist, og hvarf von bráðar niður fyrir brúnina.

Jakob var á gægjum og hlustaði til Guðmundar.

Eggjasigið þennan dag var ekki annað en að hreinsa egg af hrifsingastöllum fyrir neðan brúnina. Hillu- og þræðingasig var margbúðið að síga, svo það var ekki mikil fengjavon í dag. Þegar tími þótti til kominn, var kveikt upp í hlóðunum og soðin egg og hitað kaffi. Síðan var aftur tekið til starfa.

Óvenju fljótt þokaðist hópurinn austur eftir brúninni. Klukkan var nú orðin sex og við komin austur á Trippabrekku. - Jakob hafði oft um daginn beðið fyglinginn að lofa sér í festaraugað, svo hann gæti náð sér í nokkur egg, en Jakob hafði ekki sigið áður. Lengi vel sinnti Guðmundur ekki þrábeiðni hans, en að lokum fór hann þó að ósk Jakobs, sem klæddi sig þegar í augað. Hann ætlaði að ná í fáein egg, sem við sáum skammt fyrir neðan brúnina.

Þegar fram í brúnina kom, bað Guðmundur Jakob að fara nú verlega og hreinsa, ef hann sæi lausa steina í brúninni. En Guðmundur lá á brúninni nokkuð frá festinni og hlustaði til Jakobs. Ég stóð þar hjá honum.

Þegar Jakob var komin niður á stallinn, beygði hann sig til að ná í egg. Þá sáum við, hvar steinn losnaði úr brúninni. Guðmundur kallaði þá til Jakobs að vara sig. Jakob rétti úr sér, en um leið flaug steinninn í höfuð honum með þeim afleiðingum, að hann féll í ómegin og hneig upp að berginu.

Guðmundur Guðnason spratt upp í skyndi, sagði hvernig komið væri, brá festarendanum utan um sig, lét gefa sig niður á stallinn til Jakobs og kom honum þannig fyrir í fangi sínu, að þeir voru báðir dregnir upp í einu. Þetta var þrautaganga fyrir fyglinginn og einnig fyrir brúnarfólkið. Enginn lá á liði sínu. Um líf eða dauða var að tefla. Og eftir örskamma stund voru þeir báðir komnir upp á brúnina.

Jakob var nú lagður á loðinn grasblett. Við tíndum utan af okkur öll þau föt, sem við máttum missa, og hlúðum að honum eftir bestu getu. Sár hans var athugað. Það var stór skurður aftan á höfðinu. Vatn var sótt í flösku, sárið þvegið, líndúkur bleyttur og lagður við sárið.

Eftir nokkra stund raknaði Jakob dálítið við. Þegar hann sá okkur öll döpur sitjandi þarna í hóp, leit hann af einum á annan, brosti örlítið og sagði hljóðlega:

– Af hverju eruð þið svona? . . . Síðan strauk hann með hendinni yfir ennið, stundi og sagði: – Þetta batnar; og féll svo í sama meðvitundarleysið aftur.

Ráð voru samantekin í snatri. Fyrst þurfti að fara strax af stað eftir lækni til Hesteyrar. Það kom í hlut Sigmundar Guðnasonar, bróður fyglingsins. Hann var leikbróðir Jakobs og góður vinur hans. Hann hljóp því strax af stað og fór hratt; læknirinn skyldi koma svo fljótt sem auðið væri. – Tveir menn fóru niður í Hælavík að sækja ullarteppi, en úr þeim átti að búa til hvílu handa sjúklingnum. Við, sem eftir vorum, sátum sem þéttast hjá honum, svo hann nyti sem best ylsins frá okkur. Til allrar lukku var mjög hlýtt í veðri, og ekki blakti hár á höfði. Strax og teppin komu, var hvílan útbúin og sjúklingurinn borinn í henni niður brattar hlíðarnar. Sú ganga var mönnum erfið.

Þegar Jakob kom heim og fóstra okkar hafði búið um hann eins og ástæður leyfðu, komst hann aftur til nokkurrar meðvitundar. Læknirinn, Jón Þorvaldsson, kom um nóttina, batt um sár sjúklingsins, en sagði fátt.

Dagar og vikur liðu. Jakob virtist smábatna, og sárið greri. En ef hann hreyfði sig eða settist upp í rúminu, var eins og sækti í sama horfið fyrir honum aftur. Seinast í júlímánuði versnaði honum, og eftir nokkra daga var hann látinn. Þá kvöldstund var þungt yfir Hælavík. Himininn grét með okkur. Það rigndi óskiljanlega mikið.

Fósturforeldrar okkar tóku þessu áfalli með hinni mestu hugprýði. Fóstra mín syrgði að vísu mikið, en fóstri minn sagði við hana:

– Við höfum nú misst sex börnin okkar, og þetta var það sjöunda. En þetta var allt að láni. Drottinn gaf, drottinn burt tók; sé drottins nafn vegsamað að eilífu.

Þannig var trúnaðartraust og trúaröryggi þessa fólks.

Fósturforeldrar mínir stóðu nú á sjötugu, og var því óneitanlega mikið farið að halla undan fæti fyrir þeim. Eins og ég hef áður sagt, þá var ég ekki nema tólf ára, þegar þessir atburðir gerðust. En ég fann svo sárt til með fósturforeldrum mínum, að ég gerði það heit með sjálfri mér, að ég skyldi aldrei fara frá þeim, heldur miðla þeim af því litla, sem mér mundi áskotnast í framtíðinni. Og það hefur áreiðanlega verið okkur fóstursystkinunum, sem eftir lifðum, mesta hamingjan að mega hafa þau hjá okkur, meðan þau þurftu manna með.

Frostaveturinn mikli 1918
Eins og kunnugt er, þá var þessi vetur annálaður um land allt fyrir frosthörkur. Á Ströndum hófust aðalfrostin laust eftir aldamót. Þá var hægt að ganga á ís frá Hælavík og þvert yfir í Kjaransvík og Almenninga, sömuleiðis frá Rekvík, yfir Hornvík og að Horni.

Húsakynni voru víðast hvar köld og léleg. Upphitunin var engin önnur en kamínur, sem notaðar voru til að sjóða á mat handa fólkinu, auk hlóðanna í torfeldhúsunum.

Þennan grimmdarvetur svarf kuldinn svo mjög að fólkinu, að óvíst var, hvernig farið hefði, ef fólkið hefði ekki verið klætt í hlý og góð ullarföt.

Meðan kaldast var, hélt ég á mér hita með því að kemba, spinna og prjóna tvær ullarskyrtur handa mér, en á meðan lét ég Friðþjófsljóð liggja á koddanum og lærði þau.

Ekki man ég til, að þessi vetur, þótt harður væri, yrði neinum að fjörtjóni.

Til marks um frostgrimmdina er það til frásagnar, að túnið í Hælavík sprakk á parti, og munu sprungurnar hafa verið um metra á breidd.

Athafnalíf og andleg menning
Á heimili fósturforeldra minna var ævinlega nægilegt að borða um sumartímann. Þá var aflað svartfugls og eggja og fisks til vetrarins, einnig fékkst þá talsverð mjólk, skyr og smjör, þótt kindurnar væru fáar. Fært var frá ánum, og þær mjólkuðu mjög vel. Fóstra mín mjólkaði venjulega frá fimm til átta ær fyrstu árin. Úr þeim fékk hún sex til níu lítra af mjólk á málum. Fóstra mín eignaðist aldrei skilvindu, en setti mjólkina í trogum.

Fyrri hluta sumars, um eggsigatímann, komu oft fiskiskip inn á Hælavík að sækja snjó til þess að frysta í beituna. Í bótinni fyrir vestan bæinn var oftast snjóskafl fram eftir öllu sumri. Við þessa menn höfðu bændur oft vöruskipti, létu þá hafa egg, en fengu harðbrauð, kaffi og sykur í staðinn. Þetta var samt allt í smáum stíl. Skipsmenn létu bændur einnig hafa færi og fiskiöngla, og sjálfsagt fannst þeim að láta eitthvað af salti fyrir snjóinn.

Ekki man ég eftir, að fugl væri látinn í vöruskiptum. Hann var plokkaður, sviðinn og saltaður niður í tunnur og geymdur til vetrarins. Fósturforeldrar mínir áttu oftast tvær fullar tunnur af saltfugli. Hann var jafnan soðinn í súpu, ef ákast var til.

Fiskurinn, sem aflaðist, var bæði saltaður og hertur til matar og sölu. Til matar var hert og saltað það smæsta úr fiskinum. Stærsti fiskurinn var seldur og keypt fyrir andvirðið lítils háttar af korni, kaffi og sykri til vetrarins. Hver einasti þorskhaus var rifinn upp og hertur og borðaður um veturinn. Lifrin var brædd og höfð til matar og ljósa. Oftast fengust skötur og sprökur. Skatan var kæst og geymd til vetrarins, en sprakan flökuð og hert; riklingurinn geymdur til vetrarins, en rafabeltin borðuð ný.

Í september var farið á grasafjall. Fjallagrösin voru mikið notuð í mat, bæði í brauð, kökur og grauta og í slátrið á haustin. Ekki fannst Hælavíkurkonum þær vera birgar af grösum til vetrarins, ef þær áttu minna en tvo tunnupoka af vel þurrkuðum og hristum grösum; þau voru ekki tínd, tekið úr þeim ruslið, fyrr en um leið og þau voru notuð.

Slátrunin fór fram seinustu sumarvikuna. Ekki mátti nefna að slátra fyrstu vetrarvikuna, það var álitið ólánsmerki. Kindurnar voru fáar fyrstu árin og því fátt til slátrunar. Oftast mun hafa verið slátrað þrem til fjórum kindum á heimili fóstra míns. Þar af var vænsti kroppurinn reyktur og notaður til jóla og páska. Það var því sjaldan kjöt á borðum og ekki notað nema á hátíðum og tyllidögum. Til sumardagsins fyrsta var alltaf geymt eitthvað lítið af slátri. Það var geymt í ósúru skyri, þannig að blóðmörskeppunum og lundavöfunum var raðað í dall og skyrlag látið undir og ofan á; lítill hlemmur var síðan látinn í mitt ílátið og bræddu floti hellt utan með hlemmnum og yfir hann, svo þetta var loftþétt, og geymdist slátrið því alveg óskemmt allan veturinn. Magálarnir voru soðnir og saltaðir dálítið, látnir í dall, fergðir og brætt yfir þá. Þeir voru einnig geymdir til sumardagsins fyrsta.

Nú hefur verið minnzt lítillega á þann forða, sem aflað var til vetrarins og ekki þurfti beinlínis að leggja út peninga fyrir. Korn, kaffi og sykur var hins vegar keypt, eftir því sem kaupgetan leyfði í það og það skiptið. Í Höfn í Hornvík var útibú frá Ásgeirsverzlun á Ísafirði, annað útibú frá þessari sömu verzlun var á Hesteyri í Jökulfjörðum. Í Höfn fengu bændur því korn, kaffi og sykur, annað hvort keypt eða lánað, gegn því að borga það, þegar hægt var. Stundum var ekki unnt að fá vöruna í Höfn. Urðu vændur þá, með þeim mönnum, sem þeir höfðu á að skipa, að bera varninginn á bakinu frá Hesteyri. Og eru til sögur um þessar erfiðu ferðir í frosti og fannkyngi á óvarðaðri leið. Bar það oft við, að menn villtust í þessum ferðum, og dæmi voru til þess, að þeir yrðu að grafa sig í fönn; en aldrei, svo ég muni eftir, urðu dauðaslys af þessum orsökum.

Störf karla og kvenna að sumrinu voru því aðallega fólgin í aðdráttum matvæla og fóðurs handa mönnum og skepnum. Konur jafnt og karlar störfuðu við eggsig. Konur voru á brúninni og báru eggin niður, en sigmaðurinn var alltaf karlmaður. Heimaverk kvenna á sumrum voru matartilbúningur, plokkun fuglsins, mjaltir og heyvinna, auk þjónustubragða. Á vetrum unnu konur ullarvinnu, því heimilisfólkið klæddist aðallega af ullinni, það sem hún dugði. Úr toginu af ullinni var spunninn þráður í hrognkelsanet, og veiddist oft vel í þau og gaf það mörgum svöngum saðningu. Á vetrum unnu karlar að skepnuhirðingu, smíðum og því um líku. Fóstri minn renndi skálar, diska, kúpur, ausur og tarínur. Bóndinn á hinu heimilinu smíðaði fötur, öskjur og ýmislegt fleira. Allur borðviður var sagaður úr rekavið, og voru þiljaðir níu álna langir bæir til gólfs og veggja með borðvið, sem sagaður var með flettusög. Langviðarsög var ekki til á heimilinu. Þetta var afar seinunnið og erfitt verk. En vinnan veitti þessu fólki sanna gleði, og aldrei heyrði ég það kvarta um, að starfið væri erfitt.

Þegar kom fram á útmánuði, var oft orðið lítið um föng. Aldrei smakkaðist nýmeti allan veturinn, þar til komið var fram á þorra og góu, að fuglinn fór að koma að bjarginu. En hann kom ekki það snemma nema í björtu og góðu veðri, og því oft lítið að hafa, þótt farið væri undir björg til
veiða. –

Um andlega menningu norður þar er það helzt að segja, að fólk kom þar innan um, sem hafði mikinn andlegan þroska, drakk í sig þann fróðleik, sem það náði í, bæði úr bókum og blöðum og fréttum úr umheiminum, svo litlar sem þær voru. Bókakostur var frekar lítill á heimilunum, helzt guðsorðabækur og Íslendingasögur. Ljóðabækur þeirra Bjarna Thorarensen, Jónasar Hallgrímssonar og Stefáns Ólafssonar, prófasts í Vallanesi, voru á heimili fóstra míns. Þessar bækur voru þrautlesnar.

Trúarlíf fólksins var yfirleitt traust og þróttmikið. Frá því ég man fyrst eftir mér, tíðkaðist að lesa kvöldlestra frá veturnóttum til sumarmála, líka alla sunnudaga og á stórhátíðum. Passíusálmar séra Hallgríms Péturssonar voru sungnir um langaföstu og lesnar kvöldhugvekjur Péturs Péturssonar biskups, og stundum Vigfúsarhugvekjur. Fóstri minn las Stefabænir eftir lestur, kunni þær utanbókar og kenndi okkur. Ég og Sigurður fóstbróðir minn kunnum þær allar enn þann dag í dag og gleymum þeim sennilega aldrei. Á miðvikudögum í langaföstu las fóstri minn miðvikudagsprédikanir eftir séra Vigfús. Á sunnudögum var lesin Vídalínspostilla annað árið, en hitt árið Péturs prédikanir. Fóstri minn las og söng sjálfur, þangað til hann var orðinn sjötíu ára gamall. Hann byrjaði að lesa húslestra þrettán ára gamall. Við fóstursystkinin héldum þeim sið að lesa húslestra, þar til við fórum að njóta útvarpsins.

Ég var átta ára gömul, þegar fóstri minn gaf mér Passíusálmana. Það var fyrsta bókin sem ég eignaðist. Ég hef víst aldrei orðið jafnhrifin af nokkurri gjöf. Þá sálma á ég ennþá.

Sumarið 1914, þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út, sló miklu felmtri á fólkið. Það var hrætt við eitthvað, sem það vissi ekki, hvað var. Fréttir bárust bæði seint og strjált, því að norðurum voru sama sem engar samgöngur.

Á Hornströndum var barnafræðsla mjög misjöfn framan af. Samt virtust flestir fullorðnir eiga það sameiginlegt að hafa áhuga fyrir því, að börnin lærðu að lesa og skrifa. Því var það, að frá þeim heimilum, sem ekki höfðu einhverra hluta vegna aðstæður til að kenna börnum, voru börnin send í dvöl til þeirra heimila, sem höfðu meiri möguleika til þess að uppfræða þau. Margoft voru börn send í læri til fóstra míns. Þá tók Sigurður fósturbróðir minn til að kenna þeim skrift og reikning. Og hann var heimiliskennari á Steinólfsstöðum í Veiðileysufirði í tvo eða þrjá vetur, hjá hjónunum Friðriku og Betúel, sem bjuggu þar hinu mesta myndar- og rausnarbúi. Þetta var í kringum 1918-19.

Fóstri minn kenndi mér að lesa. Eftir að ég hafði stafað stafrófskverið, var ég látin stafa í ýmsum guðsorðabókum eins og til dæmis í kvöldlestrarbókinni eftir Pétur biskup. Oft leiddist mér afar mikið að stafa þetta, því ég skildi það ekki. En eftir að ég komst í ljóð og sögur eftir Jónas Hallgrímsson, þurfti ekki að áminna mig um að stafa, því að innan skamms kunni ég bæði ljóðin og sögurnar utanbókar.

Sigurður fóstbróðir minn kenndi mér undir fermingu, skrift, reikning, landafræði, kverið og biblíusögurnar. Á hverju vori varð ég að fara í próf til Hesteyrar. Einn mánuð var ég í skóla hjá farkennara í Höfn. Hann hét Gísli og var úr Eyjafirði; ágætur kennari.

Þannig var þá barnafræðslan á þeim árum. En svo breyttist þetta töluvert. Börnin urðu skólaskyld, eins og það er kallað, voru tekin í skóla, þótt hægt væri að kenn þeim heima, en samt ekki fyrr en þau voru orðin læs.

Maðurinn minn varð fyrir því áfalli að missa sjónina að miklu leyti, þegar hann var aðeins tuttugu og átta ára gamall. Það kom því að mestu leyti á mig að kenna börnunum að lesa og skrifa. En þetta var nú ekki mjög örðugt verk, því börnin okkar voru öll námfús.

Fólk á Ströndum var mjög trúað á ýmsa yfirnáttúrlega hluti, svo sem eins og vofur, svipi dauðra manna, huldufólk og þessháttar. Um þetta gengu margar furðusögur, þótt fæstar þeirra verði raktar hér.

Árið 1912 fluttu hjón frá Horni að Hælavík. Þau hétu Lovísa Jónsdóttir, systir fóstra míns, og Baldvin Sigfússon. Lovísa sagði okkur krökkunum oft draugasögur og þær svo kröftugar, að við urðum stundum nær því vitskert af myrkfælni: Maður á Horni varð fyrir því óláni að verða sjálfum sér að bana með byssuskoti. Maður þessi hét Halldór. Sama kvöldið og þessi atburður skeði, þurfti Lovísa að skreppa fram í eldhúsið til þess að gá að grautarpotti. Sá hún þá, hvar Halldór stóð í dyrunum. Hún sneri við, sótti halasnælduna sína og lét hana ganga á undan sér, meðan hún fór í gegn um dyrnar. Vék þá Halldór til hliðar fyrir gömlu konunni. Öðru sinni sá Lovísa eitthvað í göngunum, sem líktist tungli í fyllingu. Hún gekk beint á það. Leystist þetta þá upp og varð að engu.

Baldvin maður Lovísu var einnig skyggn; sá í myrkri það, sem öðrum var hulið. Á yngri árum sínum var hann vinnumaður í Grunnavík í Grunnavíkurhreppi. Eitt sinn, þegar hann kom frá gegningum seint um kvöld og leið hans lá fram hjá kirkjugarðinum, sá hann kirkjugarðinn risinn, það er kirkjugarðurinn var þéttskipaður af framliðnu fólki. Og yfir þessu fólki hvíldi mikill hátíðleiki. Einn maður bar þó af öðrum, sem þarna voru, um líkamlegt atgjörvi og svipmót allt. Hann var höfði hærri en hinir, klæddur prestskrúða. Baldvini varð svo mikið um þessa sjón, að hann komst með naumindum til bæjar og lagðist strax í rúmið, en náði sér brátt aftur.

Talið var óbrigðult meðal við skyggnigáfu að bera messuvín á augun. Var það gert við Baldvin, og sá hann aldrei ofsjónir eftir það.

Því er mjög á loft haldið, að Hornstrendingar hafi verið rammgöldróttir, en lítið get ég af eigin reynslu sagt um, hvað hæft er í þessum orðasveimi. En eitt þykist ég vita, að Strandamenn hafa naumast notað galdra sína nema í þágu hins góða. Gamlan mann þekkti ég, sem sagt var um, að ætti galdrakver, sem hann geymdi undir koddanum sínum í góðum umbúðum. Þetta var alveg satt, að einhver bók var undir koddanum, vafin mjög vandlega í margs konar umbúðir. En mér fannst ótrúlegt, að sá maður hafi nokkuð haft með galdrahver að gera. Hitt er svo annað mál, að Hornstrendingar hinir gömlu kunnu að svara fyrir sig, einkum ef á þá var ráðizt að ósekju. Og ég skal ekki fortaka, að stundum hafi orðið að áhrínsorðum, það sem þeir sögðu.


  • Húsfreyja frá Hornströndum - 3 -