Fast þeir sóttu sjóinn
Þegar eftir ferminguna gerðist Gísli Gíslason þénandi piltur á Hánefsstöðum í Seyðisfirði, og stuttu síðar réðst hann sem fullgildur háseti til Sigurðar Eiríkssonar á Brimbergi á Brimnesi, þá fjórtán vetra. Báturinn hét Beta. Þetta var opinn bátur með norsku skektulagi, ekki mjög lítill og sæmilegt sjóskip. Þeir voru þrír skipverjarnir á Betu: formaðurinn, Sigurður Eiríksson, og þeir bræður Gísli og Jón Gíslasynir.
Þess var skammt að bíða, að Gísli gengist undir eldskírn sem skipstjórnarmaður. Hann var ekki búinn að far í margar sjóferðir, þegar þeir félagar urðu fyrir afdrifaríku áfalli á djúpmiðum út af Seyðisfirði. Þessir atburður varð með þeim hætti, sem nú skal frá sagt:
Snemma morguns var siglt upp til lands í stóra stormi. Ekki hafði verið siglt lengi, þegar holskefla reið yfir bátinn, sem var þungur af fiski, og þrúgaði hann svo mjög niður, að hann maraði í kafi, en undir seglum samt.
Nú var bágt til bjargar. Naumast gátu bátsverjar vonað, að þeim auðnaðist að sleppa lifandi út þessari klófestu. Brátt var sem margt gerðist í senn. Formaðurinn skipaði að fella seglin. Hann hafði ekki fyrr sleppt síðasta orðinu en Gísla þótti sem hann yrði tvíefldur. Hann hrópaði þegar til Jóns bróður síns, sem stóð við siglutréð:
– Hífðu seglið í topp!
Jón gegndi skipuninni á augabragði, en formaðurinn sagði ekki orð. Hann var beinlínis eins og dauður hlutur eftir áfallið.
Strax og seglið var komið í topp, komst dágóður skiður á bátinn, sem lá inn á miðjar þóftur í sjó. Í sömu svifum náði Gísli handfestu á stýristaumunum, en þeir höfðu flotið á sjónum, og fékk hann haldið bátnum uppi. Og enn skipaði hinn ungi skipstjórnarmaður fyrir verkum:
– Reyndu, Jón, að ná í allt lauslegt, sem þú getur hönd á fest og haldut þér síðan við keipinn.
Þessu var hlýtt, en ekkert heyrðist til Sigurðar formanns, meðan á öllu þessu stóð.
Nú sigldi Gísli bátunum í kafi um stund. Sjórinn skolaði öllu lauslegu fyrir borð, fiski og öðru nema því litla, sem Jón fékk handsamað. Og enn reis kvika yfir bátinn og skar hann mjög niður, að um stund var tvísýnt, hvort siglingin yrði mikið lengri. Eftir þennan sjó lánaðist Gísla að sigla bátnum upp í aftur. Nú kyrrðist það mikið, að unnt reyndist að ausa. Formaðurinn hafði ævinlega fötu í bátnum bundna við röng. Þetta varð þeim félögum til bjargar, – og komust þeir heilir að landi.
Sigurður Eiríksson reri ekki til fiskjar eftir þetta. Hann náði sér sæmilega, en varð þó aldrei samur maður eftir. Hann bað Gísla að taka við bátnum. Gísli var fús til þess, þá fjórtán vetra, eins og fyrr var sagt. Gísli var svo formaður hjá þessum sama Sigurði í fimm ár samfleytt. Var haft fyrir satt, að jafnan stæði fiskur á hverjum öngli hjá Gísla. Hann hafði líka ævinlega góðum mönnum á að skipa. Jón, bróðir hans, sem þótti afburða sjómaður, var lengst af með honum þau árin, sem hann reri frá Brimnesi.
Eftir þetta tímabil eða fimm ára skipstjórn, var Gísli orðinn með eftirsóttustu formönnum austur þar. Sigurður Jónsson á Brimnesi, sem manna á meðal var nefndur Sigurður ríki, enda vildi á hann auðurinn, varð þó til að bjóða Gísla betri kjör en flestir aðrir. Gísli réðst því sem formaður til Sigurðar á bát, sem hét Gráni. SIgurður ríki var ekki að merkja skip sín með stássnöfnum. Gráni var færeyskur, með stærri bátum, eftir því sem þá gerðist af opnum báti að vera, og sæmilegt sjóskip. Samt þótti Gísla báturinn heldur lítill, fannst hann oft gera sér erfiða sjósókn, enda sótti Gísli oftast langt til hafs. Og ekki brást honum fiskilánið, eftir að hann gerðist formaður hjá Sigurði ríka. Enda varð lítið lát á því, að útvegsbændur byðu Gísla formennsku á bátum sínum. Einkum sótti Konráð Hjálmarsson í Mjóafirði fast eftir að fá Gísla Brimnes, en Gísli var þá almennt farinn að ganga undir því nafni. Gísli fór þó hvergi. Sigurður ríki sá fyrir því, og oft sagði hann eitthvað á þessa leið við Gísla:
– Þeir mega bjóða og bjóða sem þeir vilja. Ég skal samt alltaf vera hæstur með kjörin. –
Nú var Gísli hjá Sigurði Jónssyni á Brimnesi í þrjú ár. Síðan hugðist hann stofna sjálfstæða útgerð, enda efnazt dálítið. Hann brá sér því til Þórshafnar í Færeyjum þeirra erinda að festa kaup á tveim bátum til útgerðarinnar – og fór enga erindisleysu. Hann fékk skipin – annað þeirra var tíu manna far, en hitt heldur minna – á umsömdum afgreiðslutíma með miðsvetrarferð Díönu hinnar dönsku, sem þá var í förum milli Íslands og Danmerkur . . . Þegar nú bátarnir voru komnir, þá vildi Sigurður ríki á Brimnesi fyrir hverja muni slá sér í útgerð með Gísla um tíu manna farið. Sigurður bauðst til að borga helming útgerðarinnar á móti Gísla, sem yrði formaður á bátnum. Gísli legði svo til tvo menn af áhöfninni og Sigurður aðra tvo. Hann skyldi velja mennina svo góða, að Gísli gæti vel við unað. Þá skyldi Gísli hafa frían kost, þjónustu og húsnæði há Sigurði fyrir sig og bátsverja sína, meðan þeir hefðu félag saman um útgerð. Og eitt enn – og það ekki veigaminnst: Ef Gísli yrði sex ár samfleytt með Sigurði, yrði útgerðin upp frá því með öllu eign Gísla. Þetta voru þau vildarkjör, að ekki var mögulegt að sleppa þeim, enda tók Gísli boðinu.
Haustið eftir Færeyjaförina tók Gísli sér far til Reykjavíkur og settist í stýrimannaskólann. Næsta vor gekk hann svo út með full skipstjóraréttindi; mátti færa hundrað tonna skip í kringum Ísland.
Veturinn, sem Gísli var við nám syðra, var hann til húsa hjá Þorláki Jónssyni hótelmeistara. Þar var þá þénandi stúlka að nafni Kristín Þórðardóttir. Fór vel á með þeim Gísla. Þegar svo Gísli var aftur kominn til Seyðisfjarðar, skrifaði hann Kristínu og kvaðst geta útvegað henni góðan starfa eða ráðskonustöðu hjá Sigurði Jónssyni á Brimnesi. Það varð að ráði, að stúlkan flutti austu og vann Sigurði, meðan þeir Gísli höfðu félag saman um útgerð.
Gísli fiskaði vel eins og jafnan áður. Gammurinn, en svo nefndi Gísli nýja bátinn, sem hann var formaður fyrir, reyndist traust og gott skip í sjó, á hverju sem gett. Hann var þá með stærri bátum opnum austur þar, bar um fjögur tonn.
Ekki fóru neinar verulegar hrakningasögur af sjósókn Gísla Brimnes þau árin, sem hann var í útgerð með Sigurði ríka – utan einu sinni. Þá voru þeir á fiskimiðum úti, báðir bátarnir frá Sigurði. Sunnanstormur var á, og straumur lá á móti. Af þessu verða oft stórir sjóar, sem springa og gera mönnum mikinn óleik á opnum bátum. Elías Sigurðsson var þá formaður á öðrum bátnum og með honum tveir menn. Nú urðu þeir atburðir, að mikill sjór sprakk á Elías með þeim afleiðingum, að bátinn fyllti, og hvarf hann þegar í djúpið með allri áhöfn.
Gísli var þar nærri á Gamminum, hafði vakandi auga með öllu, sem gerðist, og hrópaði þegar til sinna manna:
–Nú sigli ég okkur í beðið, þar sem báturinn sökk. Og verið þið nú handfljótir, piltar, ef þið gætuð náð í einhvern af mönnunum.
Í sömu svipan var Gísli kominn þar, sem báturinn gekk niður, og lánaðist piltunum hans þegar að bjarga tveim af áhöfninni. Þá sá Gísli, hvar þriðja manninn rak að stýrinu hjá honum. Gísli gat strax náð til mannsins og hélt honum föstum við öldustokkinn, þar til piltar hans komu til og hjálpuðu honum að innbyrða manninn. Þetta björgunarstarf tók svo stutta stund, að hinir sjóhröktu menn voru jafngóðir eftir. Þegar Gísli Brimnes kom úr þessum hrakningum, varð Sigurði ríka að orði:
– Aldrei er þér ofborgað, Gísli. En enginn getur borgað þér lánið, sem þér fylgir.
Sigurður Jónsson á Brimnesi var heldur smávaxinn maður, en vel fylginn sér, þeldökkur á hár og bjartur yfirlitum, hæglætismaður hversdagslega, viðræðugóður, en gat verið þögull á milli. Allir, og mest þeir, sem áttu eitthvað undir hann að sækja, mátu hann og virtu, enda sýndi Sigurður mönnum sína fulla tiltrú og mat hvern mann að verðleikum.
Kaldir fjötrar
Meðan Gísli Brimnes var hjá Sigurði ríka, hafði hann aukastörf á vetrum, sem stundum urðu honum býsna harðsótt. Þetta voru vöruflutningar á nokkrar hafnir þarna eystra. Menn frá Brúnavík, Njarðvík, Borgarfirði, Húsavík og Loðmundarfirði sóttu þá yfirleitt alla kaupstaðarvöru til Seyðisfjarðar. Þessum mönnum þótti ekki verra að hafa Gísla með sér á heimleiðinni sem formann, einkum í svartasta skammdeginu. Þarna voru slæmar hafnir að undanskildum Borgarfirðinum, og ævinlega mátti búast við misjöfnu á veturna. Gísla lánaðist vonum framar í þessu ferðavolki. Hann fór oftast fótgangandi heim aftur. Sjaldnast var feitum hesti heim að ríða, því lítið var upp úr þessu að hafa.
Einu sinni sem oftar slógu Brúnvíkingar og Njarðvíkingar sér saman á bát fyrir jólin að sækja varning til Seyðisfjarðar. En þegar þangað kom, fylltist allt af hafís. Flotinn hvíti var það mikill, að ekki sást út yfir hann nema af hæstu fjöllum.
Aðkomumennirnir lágu með varning sinn í hálfan mánuð, svo að ekki losnaði það mikið frá, að þeir kæmust leiðar sinnar. Veður hafði verið stirt. En eftir þessa löngu við gerði loks blíðskaparveður. Ísinn grisjaði það vel á Seyðisfirði, að sýnt þótti, að hægt yrði að skríða í gegnum hann og með löndum. Þá komu aðkomumennirnir strax að máli við Gísla og báðu hann að taka að sér skipstjórnina. Nú vildu þeir freista þess að komast heim með varninginn, halda út með svokölluðu Bjargi og út á Dalaröst, en þar var auður sjór að sjá og allt til Glettinganess við Borgarfjörð.
Gísli taldi óvit að fara fyrir utan allan þennan ís jafnlanga sjóleið, þó nennti hann ekki að neita mönnunum um liðveizlu sína. Gekk greitt að komast út fyrir ísbreiðuna, en hún var miklu meiri en menn höfðu getað séð frá landi, náði allt út á dýpstu mið.
Nú var haldið með ísbrúninni alla leið á opna Húsavík. Þegar þangað kom, gerði stífan storm af vestri með hörkufrosti, og rak ísinn á þá félaga með hröðu skriði. Var nú ekki um aðra leið að velja en fara inn í ísinn og leitast við að kljúfa í gegn á milli jaka í átt til lands.
Þetta var barizt við, en árangurslaust. Þrátt fyrir harðfylgi skipverjanna bárust þeir á haf út á undan storminum með ísnum. Og það er skemmst frá að segja, að ekki urðu þeir lausir við ísinn, fyrr en þeir voru komnir það djúpt, að aðeins sá merkja fyrir landi.
Nú voru þeir á auðum sjó. Með sama var róðurinn tekinn að landi, barið á móti straumi, efit því sem þrekið leyfði. Þessi barningur tók þá félaga langt á annan sólarhring. Eftir þann tíma náðu þeir loks upp að Borgarnesi, sem er yzti tanginn á Brimnesi. Þarna reru þeir inn á vík og hvíldu sig um stund. En þessi hvíld var verri en ekki. Hinir köldu fjötrar, frostnæðingurinn, nístu hold og bein og lömuðu vilja og viðnámsþrek skipverja svo mjög, að þeir gátu vart borið ár á móti nokkrum vindi, en vindur stóð beint út fjörðinn. Nú voru góð ráð dýr, hugsaði formaðurinn, síðan mælti hann til skipverja:
– Við verðum að svínbinda bátinn í vognum og fara síðan á göngu inn í Brimnes.
Snjór var mikill uppi og því ófærð til göngu. Eftir stutta þögn varð einum skipverjanna að orði:
– Við erum jafndauðir, þótt við förum á landi, eigum ekkert þrek til að klofa ófærðina inn í Brimnes.
Gísli óttaðist hvað mest, að frostbruninn yrði skipverjum að fjörtjóni, ef þeir létu undan þreytunni og héngu hreyfingarlausir fram á árarnar. Þeir yrðu því undir öllum kringumstæðum að hafa á sér stöðuga hreyfingu. Eftir stutta þögn sagði Gísli allt að því hörkulega:
– Eitt ráð er enn, og verðið þið annaðhvort að taka því eða fara á göngu. Ég skal freista þess að komast einn inn að Brimnesi og sækja hjálp, þó með því eina skilyrði, að þið róið stanzlaust fram og til baka á vognum, þar til hjálpin berst. Ef einhverjir svíkjast undan merkjum, þá verða hinir, sem halda út, að gefa þá upp, svo þeir hlóti verðuga refsingu.
Allir játtu þessu. Gísli lagði síðan af stað og komst klakklaust í Brimnes. Þar var honum vel fagnað, þar sem flestir töldu þá félaga af; slíkt var ekki einsdæmi, þegar Gísli átti í stórræðum.
Nú var strax brugðið við til bjargar þeim, sem biðu á vognum. Til þeirrar farar voru valdir sex vaskir menn, og skiluðu þeir skipverjunum og bátnum með fljótri ferð inn í Brimnes.
Hrakningsmennirnir stóðu allir sem einn við þau loforð, sem þeir höfðu gefið formanni sínum – og fyrir það héldu þeir lífi.
Gísla saga Brimnes . . . - 3 -