Í kolgrænum sjó
Það var einu sinni sem oftar, að Gísli Brimnes fór með flutning á skektu frá Seyðisfirði til Loðmundarfjarðar. Þeir voru þrír félagarnir. Báturinn mátti heita í fyllsta máta hlaðinn. Flutningurinn var eingöngu mjölvara, í tvö hundruð punda sekkjum. Þetta var nokkru fyrir jól. Veður mátti heita dágott, en brim var og undiralda mikil. Svo var haldið inn Loðmundarfjörðinn, án þess nokkuð sérstakt bæri til tíðinda, – og Gísli lagði í ósinn. Hann var búinn að fara oft um þennan ós og þekkti hann því eins vel og sjálfan sig. En í þetta skipti mistókst honum innsiglingin. Straumur var harður út á móti brimfallinu, báturinn fékk sjó ofna á sig og hvolfdi. Gísli var einn syndur af þeim félögum, náði strax til þeirra, þar sem þeir velktust í sjónum, skipaði þeim að hanga í sér, en varast eftir mætti að tefja fyrir sér á sundinu. Þetta lánaðist undursamlega vel og tók fljótt af. Gísli kom mönnunum í land, og voru þeir jafngóðir eftir sem áður.
Nú hafði bátinn rekið út úr ósnum, og brimið þvældi honum aðra stundina að, en hina frá, á hvolfi. Mjölpokarnir flutu eins og korkur á sjónum, Gísli hikaði ekki, en lagðist þegar aftur til sunds og nú í því augnamiði að bjarga bátnum. Fljótlega lánaðist honum að ná handfestu á fangalínunni, hneppti henni á öxl sér og synti síðan með bátinn í dragi að klöpp utan við ósinn. Þar komu menn hans honum til hjálpar. Nú var ein árin rekin á land, en hinar voru allar í sjó. Þá varð Gísla að orði:
– Hvernig í helvítinu eigum við að notast við eina ár í þessu foráttubrimi. En þarna fljóta mjölsekkirnir á sjónum, rétt að kalla við nefið á okkur, – og í þá veðum við að ná.
Félagar Gísla tóku heldur dræmt undir orð hans, annar þeirra sagði:
– Það er illt að standa hér holdvotur í frostnæðingi og fara svo að bjarga farangri úr sjó.
Gísli glotti við og mælti:
– Ef kalt er í ykkur blóðið, þá hitnar það bezt við erfiðið.
Þeir félagar fóru nú á bátnum með þessa einu ár í gegnum brimið – og lánaðist þeim brátt að ná inn árunum. Að svo búnu innbyrtu þeir helminginn af mjölpokunum í senn; þær urðu því tvær ferðirnar um ósinn. Með þessu var fyrirbyggt, að sama óhappið endurtæki sig aftur, enda fór nú allt að óskum.
Nú hélt Gísli með menn sína inn að Sævarenda, en þangað var stytzt til bæjar. Þar var tekið á móti þeim félögum með kostum og kynjum. Þá voru gerðir út sendimenn frá Sævarenda á fund þeirra, sem varninginn áttu, og hirtu eigendurnir hann við ósinn. Sagðist þeim svo frá, að mjölið hefði verið óskemmt með öllu, nema hvað skorpa hefði myndast við strigann. – Þetta fékk því betri endi en á horfðist um sinn.
Stökkið
Það var ósjaldan, sem Gísli Brimnes flutti fólkið á Nesi í Loðmundarfirði milli Seyðisfjarðar og Loðmundarfjarðar. Þá bjó Bjarni gullsmiður Pálsson í Neshjáleigu í Loðmundarfirði. Kona hans var Jóhanna Björnsdóttir, systir Ragnhildar í Loðmundarfirði, en hún var kona Páls Ólafssonar skálds.
Þessir mannflutningar tókust mjög giftusamlega. Þó brá þar eitt sinn út af til hins verra. Það var skömu fyrir jól, að Jóhanna, kona Bjarna gullsmiðs, kom að máli við Gísla og bað hann skjóta sér til Loðmundarfjarðar. Veður var engan veginn gott, norðangarður og sjór mikill, enda var Gísli tregur til fararinnar og sagði:
– Nú þykir mér veðurútlitið heldur ljótt, Jóhanna mín. Við skulum því fresta þessu til morguns og vita, hvort ekki lægir.
Jóhanna varð litverp við og anzaði:
– Já, en mér ríður á að komast heim strax. Stutt er nú til jóla, eins og þú veizt, og ég á allt eftir ógert.
Gísli kom ekki með frekari úrtölur, en sagði:
– Þá er að reyna þetta, en hræddur er ég um, að þessi ferð verði okkur minnistæð.
Til fararinnar valdi Gísli sína beztu menn, þá Jón bróður sinn og Ingvar Gíslason . . . Þegar komið var út á Borgarröst mitt á milli lendinga í Brimnesi og Loðmundarfirði, skall hann á með svartabyl, og sjórinn og brimið færðist í aukana. Samt var haldið áfram, þar til komið var allt upp undir lendingu við Neshjáleigu. Fólk á landi kom þegar auga á bátinn og fór með veifur, en það þýddi, að ólendandi væri þar.
Nú var úr vöndu að ráða. Jóhanna kvaðst ekki halda lífi fyrir kulda og ágjöfum, ef hún kæmist ekki á land, en yrði að hrekjast til baka aftur, var þó búið að tjalda yfir hana þeim spjörum, sem þeir félagar gátu framast losað við sig.
Gísli þekkti vog þarna skammt frá lendingunni, djúpan og þröngan og klettar beggja vegna, – og sneri bátnum þangað. Sjórinn gekk alli inn í vogsbotninn. Tók bergið í móti í hvert sinn, sem ólag rann inn, og kastaði því síðan til baka með heljarafli. Ofsinn og hamfarirnar voru það miklar, að Gísli sá þegar, að ekki mundi reynast viðlit að halda báti þarna inni. En um leið og hann sneri frá – flaug honum í hug, að máski tækist honum að henda sér út úr bátnum á milli sjóa og upp á klöpp, sem var öðru megin við voginn – , en ef sjórinn næði honum uppi á klöppinni, mundi engin von um líf. Gísli lét slag standa og skipaði piltum sínum fyrir verkum:
– Róið inn með klöppinni og út aftur með sama, þegar ég gef ykkur merki, og skeytið ekki um neitt annað en róðurinn, hvað svo sem kanna að bera fyrir augu ykkar.
Strax og róðurinn var tekinn inn voginn, greip Gísli Jóhönnu í fang sér, setti sig í stellingar, hljóp síðan í loft upp og útbyrðis, um leið og báturinn rann að klöppinni, náði henni – og komst á burt með konuna undan næsta sjó. Og vandalítið reyndist Gísla að skila sjálfum sér aftur um borð lausum og liðugum.
Stuttu eftir þennan atburð kom Bjarni gullsmiður Pálsson að máli við Gísla og kvað þau hjónin aldrei fá fullþakkað honum hina ógleymanlegu liðveizlu.
Gísli hló við, svo sagði hann:
– Þetta kostar ekki neitt.
– Jæja, sagði Bjarni. – Hvað get ég gert fyrir þig, sem kostar hreint ekki neitt?
– Það kemur einhvern tíma, anzaði Gísli.
Og Bjarni gullsmiður sagði:
– Eitt ætla ég að gera, smíða þér neftóbaksdósir, það má ekki minna vera.
Bjarni lét ekki sitja við orðin tóm. Dósirnar voru úr silfri og þóttu mikið þing. Á lokð var grafin mynd af sjómanni, sem stóð í stafni á skipi sínu og hélt á konu í fanginu. Átti þetta að minna á atburðinn í vognum. Lengi vel bar Gísli minjagripinn ekki á sér, en greip rétt til hans – svona til að seðja forvitni vildustu vina sinna. En svo var það einu sinni, að Gísli hafði gripinn með sér á dansleik, sem haldinn var á Hánefsstöðum í Seyðisfirði. Þegar þetta gaman var úti, datt í Gísla að líta í síldarnet, sem hann átti liggjandi á firðinum. Netið var búið að vera þarna lengi án þess nokkur branda slæddist í það. En nú var strjálingur af síld í öllu netinu. Gísli varð hýr við þessa óvæntu sjón, greip til minjagripsins og fékk sér duglega í nefið. Af kappgirninni, sem greip hann við að ná síldinni, láðist honum að ganga nægilega vel frá gripnum í vasa sínum. Hann hafði heldur ekki tínt margar síldar úr netinu, þegar dósirnar nudduðust upp úr vasanum og týndust í sjóinn. Gísli sá gripinn hverfa undir netið, hugðist steypa sér á eftir honum, ef hann mætti með einhverju móti handsama hann, en sá þegar, að hann mundi ekki sleppa við netið. Fyrir það hafðist hann ekki að. – Þótti Gísla þetta illur atburður, sem vonlegt var.
Gísla saga Brimnes . . . - 4 -