Gísla saga Brimnes


– þættir af Gísla Brimnes (5)

Hrakningar á Vestdalsheiði
Oft var það svo, að Gísli Brimnes hafði vart stigið fótum af skipsfjöl, en hann gekk til ýmiss konar veiða á landi. Iðulega sótti hann upp á Fljótsdalshérað, og gisti jafnan á fjallabæjum yfir blánóttina . . . Það var eitt sinn sem oftar að vetrarlagi, að Gísli lagði leið sína upp á Hérað í dýrasnatt, ver helzt að svipast um eftir hreindýrum, hafði nýskeð lagt að velli sitt fyrsta hreindýr. En lítið varð úr veiðiskap í þetta skiptið. Gísli hafði ekki dvalizt lengi á heiðinni, þegar sendimaður kom til hans með bréf frá Sveini Jónssyni í Brimneshjáleigu. Í bréfi þessu fór Sveinn þess á leit við Gísla, að hann hjálpaði sendimanninum að koma góðhestsefni niður á Seyðisfjörð. Sveinn hafði fest kaup á hestinum í Eiðaþinghá á Héraði.

Gísli tók þessu vel að fara með Ingvari, en svo hét sendimaður Sveins, rúmlega miðaldra maður, góður drengur, en ekki mikill fyrir sér. – Svo leggja þeir félagar á heiðina snemmdegis næsta morgun. Dimmt var í lofti með nokkrum stormi. Þetta var ekki fallegt veðurútlit, enda hafði Gísli haft nokkurn útbúnað í varúðarskyni, áður en hann lagði upp frá Eiðaþinghá; tjaldað vaðmálsdúk yfir hestinn og fengið léðan kaðal, svo hann gæti dregið folann upp aftur, ef hann félli í einhverja ófæruna.

Nú var allt tíðindalaust, þar til þeir félagar komu upp á miðja heiðina. Þá var líka eins og kastað yfir þrumu; á augalifandi bragði var komð grimmdarfrost með svo glórulausri hríð af norðaustri, að vart sá fram fyrir fæturna. Var nú jafnbágt að snúa til baka og halda ferðinni áfram. Af tvennu illu valdi Gísli þann kostinn að brjótast áfram yfir heiðina, en seint gekk ferðin. Þegar tók að dimma af nóttu með hríðarveðrinu, varð Gísla að orði við samfylgdarmanninn:

– Má vera, að mig sé farið að bila ratvísin. Þó hygg ég, að við séum nú allnærri fjallgarðinum Bjólfi. Ég er þó ekki viss um, að ég nái dalnum. Ef það mistekst, þá er eins víst, að við föllum fyrir björg í Bjólfi. Það mun því ráðlegast, að við setjum okkur hér í fönn og bíðum átekta næturlangt.

Ingvar játti þessu.

Þeir félagar bjuggu síðan um sig í snjónum. Þeir höfðu mýlt góðhestsefnið og haft taugarendann með sér inn í snjóhúsið, en folinn stóð fyrir utan í skaflinum. Leið nú af nóttin, og voru þeir þarna í snjóhúsinu. Daginn eftir geisaði sama óveðrið. Og það er skemmst frá að segja, að þeir félagar hírðust í snjóhúsinu í tvo sólarhringa, án þess að nokkurt lát yrði á veðurógninni. Þeir höfðu hvorki vott né þurrt til að nærast á og voru orðnir votir af að liggja í snjónum. Gísli sá þegar, að óvit væri að halda þarna til öllu lengur, og þá mest vegna Ingvars. Líðan hans var orðin slík, að sýnilegt var, að hann mundi ekki halda lífi öllu lengur, ef hann fengi ekki hið bráðasta aðra og betri aðhlynningu en hægt var að veita honum í snjóhúsinu.

Þegar í þetta óefni var komið, tók Gísli það ráð að brjótast út úr fönninni. Síðan gróf hann niður skammt frá til að vita, hvernig jarðlagið væri, ef hann gæti á þann hátt áttað sig eitthvað á því, hvar þeir mundu helzt niður komnir. Þarna var jarðlaust undir. Gísli var það vel kunnugur á þessum slóðum, að hann vissi, að ekki var jörð undir, fyrr en komið væri af sjálfri heiðinni og að hallinu ofan í dalinn. Ef honum auðnaðist að halda fast á veðrastrenginn, færi vart hjá því, að hann næði dalnum. Þannig taldist honum til að minnst kosti. Á þessa varð að hætta, um annan kost var ekki að velja úr því sem komið var.

Gísla dvaldist stundarkorn við þessar athuganir sínar og umþenkingar, að svo búnu gekk hann í snjóhúsið aftur. Þar var ljót aðkoma. Það, að húsið var opnað, hafði haft þau áhrif á Ingvar, að nú var hann að sjá sem dauður væri. Gísli þreif til hans, hristi hann og hvatti til að standa á fætur. Þetta varð til lítils. Ingvar rumskaði rétt við sér og sagði mjög ógreinilega:

– Nei, ég get ekki . . . get ekki hreyft mig.

Gísli reyndi enn að tala í hann dug og kjark. Allt kom fyrir ekki; hann fékk engin svör. Þá fór Gísla að leiðast þófið og sagði hranalega:

– Þá færð þú að bera beinin hérna . . . Að svo mæltu hóf Gísli Ingvar upp á örmum sér og hafði hann með sér út úr snjóhúsinu. Nú varð ekkert lífsmark greint með Ingvari lengur. Gísli kunni ekki við að skilja hann eftir inni á öræfum, ef hann mætti annað. Hann greip til þess úrræðis að taka voðina af folanum – en hann hafði borizt hetjulega af til þessa – og sveipaði henni um Ingvar. Svo brá hann kaðlinum utan um allt saman, undir hendur mannsins, hnýtti síðan taugarendanum fyrir aftan bógana á hestinum og lét hann draga Ingvar eftir fönninni.

Þannig var haldið áfram í nærfellt klukkustund. Gísli hafði hugann meira við ferðalagið en það, sem folinn dró, enda stóð honum nokkur ógn af fjallinu Bjólfi . . . En allt í einu tók Gísli eftir því, að lífsmark var með manninum. Ingvar var farinn að brjótast um, þar sem hann dróst eftir fönninni. Hreyfingin hafði gert þann hita í hann, að lífið sagði aftur til sín. Gísla stökk bros undir klakagrímunni og hugsaði:

– Já, kynleg eru örlögin.

Eftir stutta stund gat Ingvar staðið á fætur og haldið sér í faxið á hestinum. Þannig gekk hann með, það sem eftir var leiðarinnar niður af heiðinni. Á Vestdalseyri náðu þeir félagar um nóttina. Þar var þeim vel fagnað og að þeim hlynnt eins og föng voru til.

Gísli hafði ekki farið villur vegar. Þótti mönnum það eitt út af fyrir sig furðu gegna, eins og veðrið hafði verið.

Þetta ferðalag þjarmaði mjög að Gísla, en engan bilbug gerði það honum samt.

Gísla saga Brimnes . . . - 6 -