Húsfreyjan unga
Annan dag nóvembermánaðar árið 1920 giftist ég Sigmundi Guðnasyni, leikbróður mínum. Sigurður Sigurðsson, fóstbróðir minn, var giftur Stefaníu Guðnadóttur, systur Sigmundar. Þau hjónin bjuggu á helmingi jarðarinnar Hælavík. Og nú tókum við hinn helminginn til ábúðar. Bústofninn var frekar lítill; fimm ær og einn veturgamall hrútur. En við vorum svo óheppin að missa öll lömbin um sumarið og veturgamla hrútinn líka. Þann fyrsta september árið 1921 fæddist okkur sonur, sem var vatni ausinn og nefndur Pétur. Bar hann nafn föður míns. Á næsta ári, þann sextánda september, fæddust okkur svo tvær dætur. Þær voru mjög litlar, enda fæddar löngu fyrir tíma. Mig undrar ennþá, að það skyldi takast að halda lífi í litlu stúlkunum í lélegu og köldu baðstofunni, sem við bjuggum í ásamt Sigurði fósturbróður mínum. Á Hornströndum var engin ljósmóðir, en tengdafaðir minn sat yfir mér að þessum þrem börnum.

Í baðstofunni var lítil kamína einhólfuð. Hún var aðeins notuð til að hita á henni kaffi og sjóða og hita fyrir börnin, og við hana voru barnarýjurnar þurrkaðar. En stundum varð ég að grípa til þess ráðs að þurrka rýjurnar innanklæða á sjálfri mér. Börnin voru nú orðin sjö í báðum fjölskyldunum, það elzta fimm ára gamalt. Alls fæddust okkur hjónum átta börn, fjórar stúlkur og fjórir piltar á sextán árum. Það var því oft æði þröngt í búi. En bóndi minn var mjög sparsamur og gætinn í fjármálum og eyddi engum eyri í óþarfa. Með guðs hjálp þurftum við því aldrei að þiggja sveitarstyrk. Enda býst ég frekar við, að það hefði ekki verið gert fyrr en í fulla hnefana, með þeirri réttarskerðingu, sem það hafði í för með sér í þá daga; sviptingu atkvæðisréttar og háði og fyrirlitningu þeirra, sem betur máttu sín í lífsbaráttunni. Ég minnist þess nú í sambandi við þetta, þegar ég sá fátæku konuna gráta yfir því, að henni var fyrirmunað að neyta atkvæðis síns, vegna þess að þau hjónin höfðu fengið eitthvað lítið hreppslán um veturinn til þess að kaupa brauð fyrir sjö sveltandi börn.

Sigurður og Stefanía voru barnmörg, áttu alls þrettán börn. Þau voru því oft mjög fátæk, en þáðu aldrei hreppslán. Og aldrei heyrði ég þau kvarta. Þau voru samhent í því að fala allt drottni á vald. Naumast hef ég kynnzt fólki, sem borið hefur sjúkdóma og hinar sárustu raunir með jafnmikilli hetjulund og þau hjónin. Tvo syni sína misstu þau í æsku, en ellefu börn lifa. Í hópi þeirra eru mínir beztu vinir. Sigurður var ágætur smiður, bæði á tré og járn; smíðaði rokka og margt fleira. Hann smíðaði rennibekkinn sjálfur og lét ána drífa hann. Stefanía var mesta myndarkona í öllum verkum sínum, rösk og áhugasöm um öll verk, svo af bar. Það var gaman að vinna með Stefaníu. Minningarnar frá leikjum okkar og starfi væru efni í heila bók.

Vorið 1936 fluttu Stefanía og Sigurður til Hesteyrar. Við söknuðum þeirra mikið, en bjuggum ennþá eitt ár í Hælavík með börnunum.

Leitað læknis
Það var að áliðnum septembermánuði árið 1928, að atburðir þeir gerðust, sem nú verður sagt frá. Þá voru nýafstaðnar réttir. Lömbin, sem selja átti, voru höfð heima við, því póstbáturinn átti að koma frá Ísafirði næsta dag, og ákveðið var að flytja lömbin með honum til Ísafjarðar til slátrunar.

Kvöldið áður hafði komið til mín gestur frá næsta bæ, Rekavík bak Höfn. Það var Stefán bróðir minn. Hann kom þeirra erinda að leita lamba í Hælavík, en fann þau ekki. Stefán ætlaði ekki að stanza nema stundarkorn. En þegar hann var ferðbúinn, fékk hann svo slæman tannverk, að hann gat vart af sér borið. Og þar sem komið var kvöld, bað ég hann að vera um nóttina. Morguninn eftir var Stefán orðinn talsvert bólginn, en heldur hafði verkurinn minnkað. Ég vildi ekki, að bróðir minn héldi heimleiðis svona á sig kominn, og var hann því um kyrrt.

Póstbáturinn kom um sjöleytið um kvöldið. Þá var flutt fram féð. Hjálpuðu allir þar til, sem vettlingi gátu valdið. Engir fullorðnir karlmenn voru á heimilunum nema húsbændurnir. Þeir urðu að fylgja fénu til Ísafjarðar, sjá um slátrun á því og kaupa forða til vetrarins. Við konurnar urðum því að taka bátinn í land og setja hann upp í naust. Stefán, þó lasinn væri, vildi fyrir hvern mun hjálpa okkur við að setja bátinn, og gekk það með ágætum. En þegar Stefán kom heim aftur, versnaði honum krankleikinn um allan helming. Bólgan var út frá yzta jaxli, og bólgnaði niður í kverkarnar. Ég hitaði vatnsbakstra og lagði við vangann. Bróður mínum hægði heldur við þetta í bili.

Næsta morgun var Stefán orðinn mjög bólginn niður í kverkarnar, enda átti hann orðið örðugt með andardrátt. Nú voru góð ráð dýr; enginn karlmaður heima við, sem gæti vitjað læknis. Við Stefanía, sambýliskona mín, ráðguðumst um, hvað gera skyldi. Og varð það að ráði, að ég færi eftir lækni til Hesteyrar, en Stefanía tæki að sér öll störf heima, meðan ég væri fjarverandi. Hlutverk hennar var engu minna en mitt. Hún átti að gæta þrettán barna, það elzta var tíu ára, og annast um sjúklinginn. Við létum eldri börnin gæta þeirra yngri, meðan við mjólkuðum fimmtíu og átta ær og tvær kýr.

Nokkru fyrir hádegi lagði ég svo af stað yfir Skálakamb áleiðis til Hesteyrar. Ég fór svo fljótt sem ég mátti. Vestanvert við Skálakamb er bærinn Búðir. Þar var tvíbýli. Enga mannhjálp var þar að fá, því báðir bændurnir höfðu farið til Ísafjarðar daginn áður með póstbátnum, svo þarna voru ekki aðrir heima en húsfreyjurnar, börn og gamalmenni.

Þegar ég kom að Búðum, frétti ég, að önnur húsfreyjan lægi veik með yfir fjörutíu stiga hita. Hún hafði skyndilega veikzt um nóttina. Ég stanzaði aðeins, meðan ég fékk mjólk að drekka og hlýddi á nákvæma lýsingu á veikindum konunnar. Tengdaforeldrar mínir, háaldraðir, voru til heimilis að Búðum. Tengdafaðir minn var ennþá við sæmilega heilsu, að öðru leyti en því, að hann hafði misst sjónina. Þegar ég kom upp á baðstofuloftið, heyrði ég, að hann sagði:

– Guð minn góður. Mikið er nú að vera orðinn aumingi og geta ekki neitt.

Ég sá tár hrjóta af blindum hvörmum hans, en bað hann örvænta ekki; ég gerði sem ég gæti til þess að ná í lækninn. Svo kvaddi ég og fór.

Það var alauð jörð í byggðum og gott yfirferðar, en á fjöllum hafði fennt fyrir þrem dögum. Þegar ég kom á Þrívörðu – þangað mun vera þriggja kílómetra ferð frá Búðum – staldraði ég við stundarkorn. Kaldan svala lagði af fjöllum, og fannst mér hann næða í gegn um mig. Ég var með opin brjóst, hafði barn á brjósti. Þess vegna mun ég hafa fundið sárara til kuldans en ella. Sem snöggvast hvarflaði að mér að snúa aftur. En þá datt mér í hug Stefán bróðir minn, veika konan á Búðum og tár gamla mannsins, tengdaföður míns. Þetta nægði. Ég lét ekki hugfallast, heldur hélt áfram upp snarbrattann með miklu meiri ákafa en áður. Ég hafði ekki klukku og vissi ekki, hvað tímanum leið. Loks komst ég í Kjaransvíkurskarð. Eftir það var undanhald, fyrst niður brattar brekkur, þá tók við langur vegur, sem nefnist Brúnir. Og loks komst ég á Kústbrekku, en þessi brekka er rétt fyrir ofan Hesteyri. Ég hélt áfram niður brekkuna og létti ekki fyrr en ég kom að húsi læknisins, sem var innsta húsið á Hesteyri.

Jón gamli Þorvaldsson læknir kom sjálfur til dyra. Hann var dálítið undrandi að sjá mig þarna og sagði:

– Hvað er nú að?

Ég sagði honum alla málavöxtu.

Gamli læknirinn varð hugsi um stund, svo sagði hann:

– Nú er ekki gott í efni. Hún fósturdóttir mín liggur mjög veik, og ég get ekki yfirgefið hana, fyrr en ég hef séð áhrif af meðali, sem ég hef gefið henni, en það verður ekki fyrr en eftir þrjár eða fjórar klukkustundir.

Eftir að við höfðum rætt þetta um stund, urðum við ásátt um, að ég færi að hitta Bjarna bróður minn að máli, en hann var þá á Hesteyri, og bæði hann að útvega bát og menn, til að flytja okkur inn í Hesteyrarfjarðarbotn.

Þegar ég hafði lokið þessum erindum, heimsótti ég vinkonu mína, sem þarna bjó, og þáði af henni góðgerðir og gott atlæti. Ég beið svo róleg, en ei að síður fannst mér biðin furðu löng.

Klukkan sex um kvöldið kom Bjarni að sækja mig. Þegar við komum niður að sjónum, voru þar sex karlmenn fyrir, fjórir, sem ætluðu að róa okkur inn eftir, og tveir læknar. Jón gamli Þorvaldsson hafði aðstoðarlækni. Það var fóstursonur hans, Högni Björnsson að nafni. Jón læknir sagði mér, að fósturdóttur sinni liði nú nokkuð betur, og hefði hann því fósturson sinn með sér, til þess að hann yrði ekki einn á leiðinni til baka.

Þegar við komum í Hesteyrarfjörð, kvöddum við ræðarana, og ég þakkaði þeim góðvild þeirra að létta okkur hina erfiðu göngu með þessum flutningi. Við þrjú lögðum svo af stað upp brattann. Þegar við komum í Kjaransvíkurskarð, var nær því orðið aldimmt. Ekki veit ég ennþá, hvernig við komumst niður í víkina í öllu þessu myrkri. Þegar komið var niður á Þrívörðu, fann ég, að skórnir, sem ég hafði á fótunum, voru að flosna utan af mér. Þetta voru gönguskór af bónda mínum, snúraðir leðurskór. Ég tók þá um morguninn, vegna þess að ég treysti þeim betur en görmunum, sem ég hafði. Gúmmískó eða gúmmístígvél hafði ég ekki eignazt þá. Ég settist niður og lagaði skóna í fljótheitum, síðan var ferðinni haldið áfram.

Í túninu í Kjaransvík – bærinn var fyrir nokkru kominn í eyði – kom gamli læknirinn auga á tvo hesta, sem þar voru. Hann kvaðst þekkja annan þeirra, því hann hefði oft borið sig áður, og sagðist mundi taka hann og ríða honum heim að Búðum. Ég sagði lækninum, að hinn hesturinn væri aflógaskar, sem ekki kæmist úr sporunum. Þeir spurðu mig samt, hvort ég vildi ekki reyna að sitja á honum heim að Búðum. Ég þekkti gripinn og kvað nei við, sagðist heldur vilja ganga. Yngri læknirinn settist á bak skepnunni og ætlaði að spretta úr spori. En Gráni gamli vissi nú, hvað hann vildi, og fór ekki hraðar en hann var vanur, enda þótt útlærður læknir sæti á bakinu á honum. Og þar kom, að læknirinn varð að teyma Grána alla leið heim að Búðum, þar sem hann kunni ekki við að skilja hann þarna eftir.

Klukkan var um ellefu, þegar við náðum til bæjar. Líðan veiku konunnar var svipuð og um morguninn. Læknarnir skoðuðu hana vandlega. Meðan á þessu stóð, notaði ég tækifærið og fékk átta ára gamla telpu til þess að sjúga mig. Brjóstin voru orðin mjög hörð og sár. En við þetta hægði mér mikið í brjóstunum.

Stuttu eftir miðnætti lögðum við af stað yfir Skálakamb. Þegar við komum austur fyrir Búðir, dró yngri læknirinn dálitla lukt upp úr vasa sínum og kveikti á henni. Og þvílíkur dásemdar geisli í myrkrinu. Þó var ljósið ekki stærra en af litlu kerti. Okkur gekk ágætlega yfir fjallið og komum í Hælavík um klukkan tvö um nóttina. Ég bað læknana að bíða mín í frambænum, meðan ég hitti Stefaníu að máli – en hún vakti eftir okkur – og spyrði hana eftir Stefáni bróður mínum. Sagðist henni svo frá, að honum liði nú miklu betur; ígerð eða kýli hefði sprungið niðri í kverkunum um kvöldið, og eftir það hefði strax bráð af honum. Varð hann fljótlega albata af þessum krankleika.

Meðan læknarnir athuguðu Stefán, tók ég níu mánaða gamlan son minn og lagði hann á brjóstið. Hann tók rösklega til matar síns, elsku drengurinn. Seinna frétti ég, að hann hefði lítið vilja þiggja af því, sem honum hafði verið boðið um daginn. Þegar hann hafði svolgrað mikið úr báðum brjóstunum, opnaði hann augun, horfði á mig og brosti sínu yndislegasta brosi, sem veitir móðurinni hina dýpstu sælu. Ég lagði hann á koddann og fór síðan að draga vosklæðin af gestunum. Svo bauð ég þeim að borða, og kusu þeir helzt skyr og rjóma, en af því var nóg til í mínu búi þessa stundina.

Læknarnir ætluðu að leggja af stað heimleiðis árla morguns. Ég bjó um þá í rúminu okkar hjónanna. Ekki get ég sagt, að ég hefi farið af fötum þessa nótt, því upp var ég komin klukkan fimm um morguninn og hitaði kaffi handa læknunum. Svo lét ég þá hafa mjólk og smurt brauð með sér í nesti.

Húsfreyjunni á Búðum batnaði bæði fljótt og vel, og sömu söguna var að segja um fósturdóttur gamla læknisins.

Flóðbylgjan mikla
Sumarið 1934 var mikil óþurrkatíð á Hornströndum. Hey hröktust og voru mjög ónýt. Af þessum ástæðum keyptu bændurnir á Búðum og í Hælavík nokkuð af síld sem bætiefni í hið skemmda hey. Þetta haust fengu Hælvíkingar lánaðan stóran bát í Höfn í Hornvík til þess að flytja á féð fram í póstbátinn. Tveir dagar voru liðnir, síðan bændurnir í Hælavík komu heim frá því að fara með sláturféð. Þennan dag var foráttubrim, nokkurs konar flóðbylgja. Við vorum því uggandi um bátinn í naustinu og ákváðum að setja hann upp fyrir hjalltóftir, sem voru uppi á bökkum.

Þegar við komum í naustið, tókum við eftir því, að grjót hafði gengið undir skut bátsins. Var því ekki til setu boðið. Leystum við bátinn úr böndum og settum hann með erfiðismunum upp fyrir hjalltóftirnar. Við vorum ekki nema fjögur, bændurnir og við konurnar.

Síldarfat eitt mikið var í hjalltóftinni, sem taka þurfti úr, svo hægt væri að færa það úr stað, en þarna þorðum við ekki að hafa það lengur. Við Stefanía hlupum því heim eftir bala undir síldina. Hlaðið fyrir framan bæinn mun hafa verið tíu metra langt fram á bakkana, en sjálfir bakkarnir voru um fimm metrar á hæð.

Ég skauzt sem snöggvast inn í bæinn. Þegar ég kom út aftur, sá ég, að stór alda hafði brotnað á hlaðinu, þar sem ég gekk þurrum fótum fyrir augnabliki, og freyddi löðrið á móti mér. Ég sá einnig, að báran hafði flandrað inn í bæinn hjá Stefaníu. Og nú beið ég, þangað til dró út aftur, síðan hljóp ég yfir hlaðið, og Stefanía mætti mér við vegghornið nyrðra. Í þessu sáum við stórfenglega sjón: Tuttugu síldartunnur, sem staðið höfðu á bakkanum, og tuttugu til þrjátíu stórviðartré og sitt hvað annað lauslegt var á floti uppi í á og upp undir hlíð. Báran hafði brotnað á bakkanum og flætt upp yfir láglendið. Þegar út dró, sáum við, að báran hafði lyft undir síldarfatið í hjalltóftinni og hvolft úr því ofan í bátinn, sem við höfðum nýlokið við að setja.

En hvað var orðið af olíufatinu, sem staðið hafði á grundinni? Hvað var orðið af öllu ljósmetinu til vetrarins fyrir bæði heimilin? Það virtist ömurleg staðreynd, en sjórinn hafði tekið það frá okkur.

Við stóðum þarna öll ráðþrota. Engin leið var að ná í olíu frá Ísafirði svona seint á hausti. En harla ömurlegt var að hugsa til þess að þurfa að lifa í myrkri allan veturinn.

Einhver okkar hafði orð á því, að við skyldum nú öll sameinast í bæn til guðs og biðja hann að færa okkur ljósmetið aftur. Ég efast ekki um, að bænarinnar hafi verið beðið af heilum hug og í barnslegri trú á guðs kærleika og almætti. En hvað um það; olíufatið lá óskemmt fyrir innan ána morguninn eftir, komið úr sjónum, og ekki nokkur dropi farið til spillis.

Og mikil var gleðin yfir þessum fundi, ekki sízt hjá öllum barnahópnum. Börn kunna illa við að sitja í myrkri. Börnin og ljósið, þetta er eitt og hið sama.

Óveðursnótt
Ég man ekki eftir öllu meira sterkviðri en því, sem skall á eins og hendi væri veifað aðfaranótt þess sextánda september árið 1936. Þá gerði vestan hvassviðri um land allt. Bóndi minn hafði farið vestur á Ísafjörð með lömbin til slátrunar, og ég var ein heima með börnin. Stefanía og Sigurður voru flutt til Hesteyrar, þegar þessir atburðir gerðust.

Klukkan rösklega eitt um nóttina vaknaði ég við það, að eitthvað datt niðri í bænum, og fylgdi því mikill skruðningur og undirgangur. En óhljóðin héldu áfram, löngu eftir að kyrrt var orðið niðri. Ofviðri var brostið á. Það brast og gnast í baðstofunni, líkt og allt ætlaði um koll að keyra þá og þegar.

Ég fór strax fram úr, fleygði einhverju yfir mig, vakti elzta drenginn minn, og bað hann að koma með mér niður. Mér varð litið út um gluggann, en sá ekkert nema hvítt gufurokið á sjónum og svartar flygsur fljúga örhratt fyrir gluggann.

Ég og sonur minn gengum þegar niður og sáum strax, hvers kyns var: búrglugginn hafði brotnað, skilvindan dottið niður af hillu og á gólfið, og hurðin á skúrnum fram af bæjardyrunum hafði þeyzt upp á gátt. Við byrgðum þegar dyrnar og gluggann eins vel og okkur var unnt. En dragsúgurinn í bænum var slíkur, að ljós gat hvergi lifað, hvorki uppi né niðri.

Sonur minn vildi helzt leggja sig aftur. En þar sem ég bjóst alveg eins við því, að baðstofan muni fara þá og þegar, dreif ég börnin í skyndi niður í herbergi, sem var niðri á gólfi. Enda var þegar orðið ólíft í rúmunum. Veðurofsinn hafði svipt torfþekjunni af vestari hlið baðstofunnar og þrýst mold og bleytu inn um súðina og niður í rúmin. Börnin sofnuðu næstum strax, eftir að þau voru komin niður, en ég og elzti sonur minn vöktum.

Stórviðrið geisaði alla þessa nótt og slotaði ekki fyrr en í birtingu næsta morgun. Ég og elzti drengurinn minn fórum þá strax út. Var þá ljótt um að litast: Tvö fjárhús í tóft, fimmtíu hesta hey hrist undan böndum og farinn helmingurinn af því. Framdyrnar af baðstofunni, sem Stefanía og Sigurður höfðu búið í – farnar. Þarna var ekkert eftir nema tætlur.

Nú var að ná heim fénu, og fundum við það fljótlega. Við mjólkuðum ærnar á hverjum degi, eftir að lömbin höfðu verið tekin frá þeim. En nú var ekkert hús til að reka inn í. Við gripum því til þess ráðs að hreinsa það mesta úr fjárhústóftunum af torfi og grjóti, svo við gætum rekið féð inn í tóftirnar. Þetta tókst vonum framar, þótt erfitt væri.

Litlu seinna kom unlingspiltur frá Búðum. Hann hafði þá sögu að segja, að á Búðum hefði veðrið tekið tvo báta og svipt af grunni tveim heyhlöðum fullum af heyi. Þá hafði sitt hvað fleira lauslegt farið í súginn.

Við fórum heim með piltinum og hituðum kaffi. Já, nú var afmæli dætra minna, tvíburasystranna. Þær voru fjórtán ára í dag, en ekki nema önnur þeirra heima.

Þegar ég segi frá þessu, hefur Hælavík verið í eyði um árabil. Um þetta býli hefur bóndi minn kveðið þessar vísur:

Kveð ég þig nú, kæra vík,
kannski í hinzta sinni,
þar til síðast ligg ég lík
lifirðu í vitund minni.

Í högum þessa heimalands
er hljóðlát minning falin.
Þar er gleði gamals manns
í geislum vorsins alin.


  • Húsfreyja frá Hornströndum - 4 -