Þegar ég var drengur og lífsskoðanir mína og lífsviðhorf að byrja að krauma í deiglunni, varð mér oftar hugsað til eins sérstaks manns, sem fáir þekktu, en ýmissa snilldarmanna, sem allur heimurinn dáði. Þessi tiltekni maður stendur enn í dag í sérstöku ljósi fyrir hugarsjónum mínum. Mér finnst hann enn sem forðum einn af mikilmennum þjóðarinnar. – Í bernsku þóttist ég geta dregið meiri lærdóma af lífssögu þessa manns en flestra annarra. Þó hafði ég aðeins numið sögu hans af bókum, mest smáritum eftir hann sjálfan og blaða- og tímaritagreinum. Í minningabók, smákveri sem gefið var út að honum látnum, er mynd hans prentuð á gljápappír framan við titilsíðu kversins. Oft varð mér starsýnt á þessa mynd. Hún brenndi sig inn í vitund mína; er þar jafnskýr nú og á bernskuárunum. Myndin sýnir fölan mann yfirlitum, tekinn og grannan. Augun eru stór, blik þeirra heitt, þar sem leikast á síkvik birtubrigði. Andlitið er mjúkformað, en í gegnum kyrrðina og friðinn, sem hvílir yfir þessu föla andliti, má kenna sárljúfan lífsfögnuð . . . Þetta er myndin af Sigurði Kristófer Péturssyni, eins og ég lærði að þekkja hana.
– – –
Kristófer var sextán ára að aldri, þegar hann gerðist vistmaður í holdsveikraspítalanum í Laugarnesi (1898). Spítalinn hafði þá nýlega verið reistur að frumkvæði og með fjármagni erlendra mannvina. Kristófer var með fyrstu sjúklingunum, sem þarna fengu inni. Hann var þeirra langyngstur. Kornungur maður á þessum stað –, hvar með vonir hans og drauma? Víst var hann harla einmana fyrstu árin sín í Laugarnesi og átti í hörðu sálarstríði.
Kristófer var fæddur af bláfátæku foreldri og bjó við skort og allsleysi í uppvextinum. Hann vann hin erfiðustu störf á sjó og landi. Verkalaunin voru vosbúð, kuldi og næringarskortur. Þá þegar hafði hann tekið veikina, einn ægilegasta sjúkdóm, sem þá þekktist. Er til meira lífsdrama en felst í þessari lýsingu, þegar litið er til þess, að Kristófer var búinn alhliða gáfum og baráttuþreki? Spítalinn var honum í vissum skilningi eins konar höfn. Þar þurfti hann ekki að leggja á sig líkamlegt strit, sem þverrandi kröftum hans var algjör 0fraun. Þarna var ekki vosbúðin, kuldinn og næringarskorturinn. En Kristófer hafði þegar gert sér ljóst, að önnur mögn eru til manninum miklu fjandsamlegri en þau, sem nú voru nefnd; hvað hann sjálfan snerti þessi sjúkdómur, sem fólk kinokaði sér við að nefna á nafn.
Hugarstríð hins unga manns gaus upp aftur og aftur með litlum hvíldum: Hvað beið hans í hælinu? Var hann kominn hingað til að deyja eftir skamma dvöl? Eða yrði það hlutskipti hans að búa við harmkvæli langan ævidag? Var nokkur millivegur fyrir holdsveikan mann? Hvar var þessi algóði og kærleiksríki guð, sem hinir hempuklæddu töluðu um? Hvar var réttlætið í tilverunni? Hvers vegna lifðu sumir heilbrigðir, aðrir vanheilir? Hver stjórnaði þessum æðisgengna leik, sem nefndist líf, og til hvers var hann á svið settur? Var það aðeins dauðinn einn, sem hitti alla jafnt að lokum?
Myrkur . . . myrkur. Löngum dvaldi hugur Kristófers í því svartamyrkri, þar sem dauðinn var eina bjargráðið til lausnar frá þeirri kröm, sem honum var búin. Hann hljóðaði í nauð sinni, án raddar, í algjörri ytri þögn. Í hörðustu sviptibyljunum sótti sú hugsun á hann að svipta sjálfan sig lífi. Aftur og aftur drakk hann þjáningabikarinn í botn, þennan bikar, sem æ ofan í æ fylltist á barma.
En það voru stormahlé. Kristófer fékk stundarfró. Það kyrrði yfir hug hans. Um sinn var lífið honum aftur mennskt líf. Stormurinn liðinn hjá í bili. Hið innra með sér leit Kristófer svipaða eyðileggingu og sjá má í náttúrunni eftir stórviðri. Hugarblómstrin voru hnípin og hrelld. Og þó : : : Þrátt fyrir allt var hann ekki bara þessi veikbyggði líkami, heldur að auki hugsandi vera, hvernig svo sem bar að skilja það hugtak. Hann viðurkenndi með sjálfum sér, að með hugsýki sinni hefði hann vegið gegn sínum innri manni, og það sem verra var; hann hafði vegið gegn þeim, sem vildu honum vel og veittu honum stuðning í bágindum hans. Þakklætiskenndin varð honum fyrsti geislinn í myrkrinu.
Svo komu jólin: "Engar stundir ársins eru eins yndislegar og aðfangadagskvöld. Sérhver jól eru foss í fljóti tímans," segir Kristófer tuttugu og fimm árum síðar, í ávarpi til samvistarmanna sinna, sjúkra og heilbrigðra. Og hann segir ennfremur um þessi fyrstu jól sín í Laugarnesi: "Ég vildi, að ég gæti lýst fyrir ykkur undruninni, sem við urðum gagntekin af, er við sáum jólatréð standa í allri ljósadýrðinni. Það var skreytt hinu fegursta skrauti, sem fæstir höfðu hugmynd um, eða ef til vill engan sjúkling hafði órað fyrir, að væri til. En undruninni verður ekki lýst. Munið, að þetta var fyrsta jólatréð, sem við sáum."
Slíkur ljómi gat á stundum leikið um lífið, þar sem nóttin verður hvað lengst og dimmust. Þrátt fyrir allt var lífið óendanlega fjölbreytt. Og kannski voru möguleikarnir til að lifa lífinu á mannsæmandi hátt eins ótölulega margir og það var óendanlega fjölbreytilegt. Kannski var engin mannvera svo illa sett, að hún gæti ekki fundið lífsgleðina í einhverri mynd, einasta ef aðlögunarhæfileiki hennar væri nógu næmur og viljinn stálharður.
– – –
Í nauð sinni leitar maðurinn jafnan á fund síns bezta vinar. Bókin var lengi vel sá vinur, sem Kristófer átti beztan. Síðan hann mundi fyrst til sín, hafði hann ekki látið bók fara fram hjá sér ólesna, mætti hann sjálfur ráða. Nú var honum frjálst að lesa og nema eins mikið og hann kærði sig um. Hér komu einstæðir hæfileikar hans og óþreytandi eljusemi fagurlega í ljós. Hann hafði ekki verið lengi í hælinu, þegar hann hóf reglubundið nám á eigin spýtur. Þannig lærði hann dönsku, ensku, þýzku og esperantó, og náði fljótfengnum og frábærum námsárangri. Og fagrar bókmenntir urðu honum um sinn kærkomnasta lesefnið. Þá gat verið hugljúft að bera við að yrkja ljóð – og nema tónfræði. Þá smíðaði Kristófer sér langspil, en fékk ekki leikið á það sökum sjúkdómsins. Af sömu ástæðu var honum fyrirmunað að leika á hælisorgelið. Hitt var honum gleðigjafi, að sumir samvistarmenn hans námi hjá honum hljóðfæraleik.
En hamingjan var hinum unga manni ámóta hverful og loftspeglanir á lognkyrru hafinu. Ein minnsta hugarhræring fékk stundum myrkvað spegil sálarinnar. Samstundis sló dökkum skuggum á rísandi bylgjur hugans: Líf hans var eins og blaktandi strá. Líkaminn eins og hrynjandi hús, þar sem brátt stæði ekki steinn yfir steini. Ennþá gat hann haft ferlivist. Ennþá gat hann beitt hendinni sér til hjálpar. Hvað yrði það lengi? – Hvers vegna var hann ekki eins og einn af þessum trúmönnum? Trúmaðurinn spurði ekki um rök fyrir tilvist guðdómsins, hann einasta trúði því, að alvitur og algóður guð stjórnaði tilverunni, að öllu lífi væri borgið í náðarfaðmi guðs, hvernig svo sem veröldin velktist. Ef kristin kirkja var spurð um rök fyrir kenningum sínum, þá svaraði hún og sagði: Spyr þú ekki um rök, bið þú ekki um skýringar. Guðs vegir eru órannsakanlegir. Trú þú og vak, og guð mun veita sál þinni frið.
En Kristófer gat ekki trúað í blindni og án skilnings. Stöðugt knúði hann dyr hinna miklu leyndardóma og bað um skýringar:
Hver er ég – hvaðan kom ég – hvert fer ég?
Enginn á Íslandi leitaði eins hvíldarlaust og ákaft lausnar á leyndustu ráðgátum tilverunnar og þessi ungi maður.
Um sinn hafði Kristófer svo að segja biblíuna eina bóka við að styðjast í þessari leit sinni. Orð Krists voru honum sem lifandi vatn. Mynd Jesú frá Nasaret var honum kærust mynda – lífssaga hans stærsti heimsviðburðurinn. Þarna var mátturinn, krafturinn og lósið. En samt; efinn var enn sá níðhöggur, sem lét Kristófer vart í friði eins stutta stund. Hvað um kraftaverkasögurnar í Nýja testamentinu? Hvernig bar að skilja þær? Voru þær aðeins þjóðsaga eða veruleikinn sjálfur? Hvað um sjálfa upprisuna? Hvar voru algildar sannanir fyrir þessum undrum? Kristófer gat ekki haft hönd á þeim. Hvað þá heldur, að hann gæti fellt sig við ýmislegt í kenningakerfi kirkjunnar, sem staðið hafði óbreytt öldum saman.
Kristófer brann í andanum. Engin orð lýsa honum betur allan ævidaginn. En þarna – mitt í stríðinu – stóð hann einn. Um þessi mál átti hann í rauninni enga viðræðendur. Ekkert þráði hann heitar en að eignast vin, sem hann gæti sagt leyndustu hugrenningar sínar.
Óskin er máttug.
Vitrir menn segja, að allir fái óskir sínar uppfylltar, eigi þær sér rætur í innstu verund mannsins. – Kristófer hélt áfram að heyja baráttu sína einn í fimm ár; þá varð ósk hans að veruleika.
Ný yfirhjúkrunarkona réðst að spítalanum; fröken Harriet Kjær. Þau Kristófer voru aldrei ókunnug hvort fyrir öðru. Við fyrstu sýn fóru hughrif á milli þeirra, sem knýttu með þeim ævilöng vináttubönd. Hiklaust, átakalaus, opnaði Kristófer hug sinn fyrir fröken Kjær. Hún varð hluttakandi í dýpstu gleði hans og sárustu kvöl. Hin þrotlausa andlega barátta hans varð lifandi þáttur í sál þessarar konu. Frá því fröken Kjær kom í hælið, leið ekki sú stund í vökulífi Kristófers, að hún væri honum ekki nálæg í gleði hans og baráttu. Að vísu stóð hann við lokaðar dyr. Hann skildi ekki örlög sín, hafði ekki fundið nein skynsamleg rök fyrir þeim dómi, sem skapanornirnar höfðu kveðið upp yfir honum. En kannski hafði hann einmitt nú náð að skynja lífið í þeirri fegurð, sem mannlegur hugur megnar. Sú fegurð birtist honum í hugarferli Harriet Kjær. Og hann sá þessa fegurð í brosi hennar – og þegar hún horfði í augu hans.
– – –
Loksins – loksins rofaði svartamyrkur sálarinnar.
Það urðu vetrarsólhvörf í hugarheimi Kristófers, eftir að hann af alhug tók að leggja stund á guðspekileg fræði. Hann kynntist þessari andlegu hreyfingu, þegar er hún barst til landsins, var einn af frumkvöðlum hennar hér heima og vann henni allt, sem hann mátti. Í guðspekinni fann hann anda sínum fulla svölun. Fyrir tilstyrk hennar eignaðist hann nýja útsýn yfir lífið og tilveruna. Við ástundun þessara fræða skildist honum brátt, að lífið er eilíf verðandi, mannssálin hafi alltaf verið til og muni varða það um alla framtíð. Þessi jarðvist mannsins sé aðeins hverfult stundarfyrirbrigði á hinni eilífu vegferð hans um lönd lífsins og dauðans. Vökulíf í hinum æðri heimum væri óhugsandi, ef maðurinn gengi ekki veg þjáningarinnar og lærði þannig greinarmun góðs og ills. Lífið sé undið af tveim meginþáttum, illum og góðum, og vitundin öðlist þroska sinn í ölduhreyfingunni, sem verður af samspili þessar tveggja eðlisþátta.
Hér er ekki ætlunin að fara lengra út í þessa sálma. Þetta á ekki að verða kennslustund í guðspeki. En í birtunni frá þessum fræðum skynjaði Kristófer tilveruna í nýju og upphöfnu ljósi: Lífið var ekki lengur tilviljunarkenndur óskapnaður. Óverðskulduð gleði og óverðskulduð þjáning fann sér ekki lengur stað í hugarheimi hans. Hugrór skoðaði hann örlög sín í ljósi guðspekinnar. Hinn ægilegi sjúkdómur, holdsveikin, var ekki lengur óumberanlegur, heldur óhjákvæmilegur þáttur í þroskaferli hans.
Tungumálakunnáttan og hin önnur menntun, sem Kristófer hafði aflað sér, kom honum að ómetanlegum notum við guðspekinámið. Hvert nýtt guðspekirit, sem honum barst í hendur, olli honum undursamlegri gleði og andlegri fullnægingu. Hann var sem nýr maður, fullur af starfsþrótti. Hann gerðist rithöfundur, skrifaði ótaldar blaðagreinar og smárit um andleg málefni, gerðist mikilvirkur þýðandi guðspekilegra rita og samdi einstætt rit um íslenzkt mál. Ritháttur hans einkenndist af skýrleik og bar í sér hljóm af fornnorrænum rithætti. Á bak við þennan stílsmáta lá þrotlaus vinna. Hann las fornritin stöðugt, gagnkynnti sér þýðingar Jóns Þorlákssonar á kviðum Miltons, Hómersþýðingar Sveinbjarnar Egilssonar og önnur öndvegisrit tungunnar.
Þegar hér var komið, hafði fæturna bilað Kristófer svo, að hann varð að halda kyrru fyrir innan veggja hælisins. En hann hafði brotið af sér alla fjötra. Hann var síður en svo fangi í búri. Hann hafði kastað sér út í starfið, svo sem heilbrigður væri. Hann spurði ekki, hversu lengi honum mundi endast líf og heilsa til að vinna hugsjón sinni. Hann einasta vann. Í starfinu gleymdi hann sjúkleika sínum. Hann var ekki þarna – í þessari fátæklegu sjúkrastofu. Fáir hafa verið víðförlari og meiri alheimsborgarar, í beztu merkingu orðsins, en Kristófer Pétursson. Lífssaga hans sýnir, að frelsið og hamingjuna er hvergi að finna nema í hugarheimi mannsins.