Árið 1942 fluttum við svo á Hornbjargsvitann og dvöldum þar í fimm ár. Vitastarfið féll mér mjög vel. Það er gott staf og þroskandi að tendra leiðarljós og gæta þess, að vitinn lýsi að staðaldri upp myrkrin. Og ekki síður ánægjulegt að senda sæfarendum, sem stundum fara villir vegar í blindhríð og náttmyrkri, leiðarmerki á öldum ljósvakans. Þetta þjónustustarf hefðum við hjónin viljað vinna allt að leiðarlokum. En ýmsar erfiðar aðstæður komu því til leiðar, að við yfirgáfum blessaðar Hornstrandirnar okkar 19. júlí 1947 og fluttum til Ísafjarðar.
Nú eru flestir ungarnir flognir úr hreiðrinu. Við erum tvö eftir með yngsta soninn, – eigum heima góðan spöl fyrir innan sjálfan kaupstaðinn, við Seljalandsveg, og höfum dálitla grastorfu. – Og mér líður vel, meðan ég hef gras til að ganga á og blóm til að hlúa að og kú og kindur til að hugsa um og fæ að vinna heilbrigð sveitastörf.
– – –
Eydd byggð
Ég byrjaði þessi skrif með því að geta um fyrstu svipsýn mína af Hornströndum og tek þar aftur upp þráðinn að lokum . . . Ég er orðinn vitavörður á Hornbjargsvita. Þá er enn búið í Furufirði, Bolungavík og Reykjafirði.
Við hjónin erum ein í vitanum ásamt syni okkar á fyrsta ári. Það er hásumarsblíða. Um stund getum við vart merkt skil á nótt og degi. Litskrúð sólnáttanna fær jafnvel hrjóstrin til að blómstra fyrir augum okkar.
Ég er búinn að vera marga daga um kyrrt, þegar ég bregð mér yfir bjarg og rölti daglangt um hlöðin á Horni. Þarna er ekkert kvikt að sjá. Lágreist bæjarhús á brekku niðri við sjóinn og nokkur amboð í túninu bera ein vitni um það, að hér hafi verið lifað og starfað.
– Af hverju fór fólkið burt?
Málið smáskýrist fyrir mér. Það kemur vetur, harðari og lengri en ég hafði áður lifað. Svo kemur yndislegt sumar, en afar stutt. Og enn vorar –, ónei, það vorar ekki. Næsta vor ríður vorið fyrir ofan garð á Hornströndum. Ísbreiða liggur upp undir landið, og napur norðanvindur næðir um ströndina fram í miðjan júní. Kalblettir eru víða í túnum, grasnyt sáralítil, og varla hægt að hirða strá fyrr en á haustnóttum. Og nú eru þeir horfnir á brott þessir fáu nábúar okkar – og allt í kringum okkur mannlaus auðn.
Hvítar og ljósar þokur, en oftar dökkar og úrsvalar, grúfa stundum svo vikum skiptir yfir þessu byggðarlagi, einkum um háannatímann. Norðanáttin er þarna allsráðandi mestan hluta ársins. Víkur og firðir liggja fyrir opnu hafi. Aldan gengur óbrotin upp undir björgin og á fjörurnar. Milli bæja er yfir fjöll og firnindi að fara. Þarna sækja menn ekki hver annan heim nema með nokkurri áhættu, ef eitthvað er að veðri. Langt er í kaupstað og samgöngur sama og engar. – Þetta eru hörð lífsskilyrði og stórum óvægari en annað fólk í landinu á við að búa.
Og því fór sem fór: Hornstrendingar hafa allir yfirgefið átthafa sína og reist sér ból í þjóðbraut. Hornbjargsvitinn er nú eina byggða bólið á öllum Norðurströndunum. En römm er sú taug . . . Ungir og aldnir Standamenn koma ennþá norður á hverju vori; fara í bjarg, skjóta fugl, afla fisks og rekaviðar. Að koma norður og dvelja þar um stundarsakir er Strandamönnum mikið tilhlökkunarefni. Þetta fólk á örðugt með að trúa því, að "blessaðar Hornstrandirnar" verði óbyggðar um ár og aldur.