Það er síðla dags. ( . . .) Ég hamra á ritvélina allt hvað af tekur. Þá er allt í einu barið að dyrum, og í sama er hurðinni þokað frá stöfum. Komumaður stendur í dyragættinni og skimar í kringum sig. Þetta er maður við aldur, smávaxinn og mjósleginn, snerpulegur í hreyfingum, andlitið smáfellt, grópað djúpum rúnum, svipurinn festulegur, næstum þungur. Öðru hverju bregður fyrir körtnu brosi á þessu andliti, en á næsta augnabliki mildast brosið, og þá birtir skyndilega yfir svipnum. Þarna er kominn vinur minn, Sigmundur Guðnason frá Hælavík á Hornströndum. Hann verður fyrri til máls en ég og segir:
– Þú ert þá heima. Já, það má heyra smellina í maskínunni. Svo kem ég og glep fyrir þér við ritstörfin.
Ég bendi Sigmundi á stól og segi:
– Gerðu svo vel og fáðu þér sæti. Og ertu ekki með eitthvað nýtt í fórum þínum? Alltaf er nú gaman að heyra kvæði eftir þig.
– Ekki get ég borið á móti því, að ég er hérna með kvæðiskorn, svona á mínu vana hrognamáli. Þetta er ekki nema hálfkarað og hálfnakin beinagrind . . . Sigmundur lítur til lofts, það er eins og móðunni, sem jafnan hvílir yfir sjóndöprum augum hans, sé svipt burt, meðan hann mælir fram kvæðið:
Það detta úr lofti dropar,
dagurinn er að fæðast,
niðurlút og nauðug
varð nóttin burt að læðast.
Þó virtist mér hún vera
virðuleg í fasi.
Hún gaf þeim gleymskufriðinn,
sem guggna í dægurþrasi.
– Ég fæ að heyra framhaldið seinna, segi ég eftir nokkra þögn.
– Því lofa ég engu um. Þetta verður sjálfsagt aldrei barn í brók. Jæja, nú verð ég að fara, er raunar á hraðferð.
– Nei, blessaður farðu ekki að standa upp. Ég á erindi við þig.
– Og hvað svo sem? Get ég nokkuð fyrir þig gert?
– Já, bæði fyrir mig og aðra.
– Nú, það er dálaglegt. Láttu mig þá heyra, hvað það er.
– Ég ætla að skrifa um líf þitt og starf og kynni þín við ungfrú Iðunni.
– Þú ert svo háfleygur, að það er varla að ég skilji, hvað þú átt við. Þú ert að tala um kynni mín við sjálfa skáldgyðjuna. Þau hafa ekki verið mikil eða merkileg. Hún hefur aldrei látið dátt að mér. Og hvað lífi mínu viðvíkur, þá hefur konan mín sagt þér flest um okkar bardúss.
– Þú ert fæddur Hornstrendingur.
– Já, það er ég, og skal ekki trúa því, að þú dragir það í efa, þótt þú takir svona til orða. Og kannski ég drepi nokkuð á það, þegar ég slysaðist inn í þennan skringilega heim. Það var 13. desember árið 1893. Þá var sú versta jólafasta, sem komið hafði í tíð þeirra manna, sem þá lifðu og börðust sinni baráttu á Ströndum. Þá sá aldrei út úr dyrum allan mánuðinn út. Og á því sérðu, að það voru ekki ýkjahlýlegar viðtökur, sem ég fékk. Og þá gerðist sá sorgarleikur, að næsta sveit, Grunnavíkurhreppur, missti sex menn í sjóinn, unga og vaska menn, og var þetta tilfinnanleg blóðtaka fyrir fámennan hrepp að missa sex syni á einum degi. Og alltaf finnst mér, að koma mín inn í lífið sé eitthvað tengd við þennan raunalega atburð.
– Hvenær manstu fyrst eftir þér?
– Ég get ekki sagt, að ég muni neitt eftir mér, sem þýðingu hefur fyrr en um og eftir aldamótaárið. Það ár er mér að mörgu leyti hugstætt. Mér skildist, að eitthvað hátíðlegt væri á ferðinni. Af tali hinna fullorðnu varð ég þess vísari, að þessi tímamót þóttu á margan hátt merkileg og undursamleg. Það virtist vera komin einhver leysing í þjóðlífið. Menn bjuggust við betri og bjartari tímum og fögnuðu nýju öldinni heils hugar. Skáldin ortu frelsisljóð með mikilli hrifningu og af brennandi hjarta. Það var virkilega farið að bresta í hlekkjunum.
– Og hvað um æskuminningarnar?
– Já, einu sinni var maður barn, og tvisvar verður gamall maður barn. En hver á orð yfir slíkar minningar; þegar vonirnar eru fleygastar, og fljúga stundum hvað hæst, þegar mest syrtir að, – og undrin gerast, þótt þeir fullorðnu sjái ekkert gerast . . . Nú, það má svo sem hafa orð á því, að við vorum þarna fjórir leikbræður á svipuðu reki. Og margt var nú brallað. Það var ekki ósjaldan, að við lékum fornkappana, þá sem hvað mestur ljómi stendur af. En kátlegast mun þó hafa verið, þegar við lékum Sverri konung og birkibeina hans. Allir vildu vera konungurinn – vissulega. Og valdabaráttan varð oft afar hörð og tvísýn. En sá hlaut konungstignina, sem gat jarðvarpað öllum keppinautum sínum. Það fannst okkur eðlilegt og sjálfsagt, að konungurinn hlyti að vera hraustastur allra. – Það má ekki gleyma Mávatjörninni. Hún er norðanvert við bæinn í Hælavík. Þar þótti okkur félögum gott að vera; strípast og busla, með þeim ákveðna ásetningi að verða syndir af sjálfsdáðum. En sú nytsama íþrótt varð samt aldrei lærð, því miður. Bót í máli, að þarna áttum við mikinn skipaflota á sveimi fram og aftur um veraldarhöfin. Ein fleytan bar þó af öllum hinum, stór freigáta með gljáandi skrokk. Hún hét stásslegu og framandi nafni. Flotita. Þegar ég löngu seinna kom á þessar slóðir og reikaði fram með Mávatjörninni, urðu til nokkrar stökur, og hér er ein þeirra:
Sigling glæst hér sést nú eigi,
samt er flest í gömlum skorðum.
En hér eru engir birkibeinar,
sem berja á skjöld með stórum orðum.
– Hvað varstu gamall, þegar þú fórst fyrst á bjarg?
Sigmundur þegir við um stund, svipurinn verður innhverfur, líkt og maðurinn sé kominn í annan heim. Og hann er í öðrum heimi, heimi bjargsins. Loks segir hann:
– Bjargið. Þú hefur séð það. Þú hefur horft niður í hyldýpi þess, eins og ég gerði strax drengur að árum. Fyrst óttaðist ég það, mögn þess líkt og yfirskyggðu allt í mér. Ég vissi, að þarna höfðu orðið mannslys. Það fór um mig ónotahrollur, þegar ég sá mennina hverfa ofan í þetta í festinni. En seinna . . . Mér óx áræði, ég fór að verða að liði, svona smávegis. Og þá . . . ég segi þér það alveg satt, mér fór að þykja vænt um bjargið. Það eins og smáseytlaði inn í vitund mína, blandaðist geði mínu og blóði, í öllum sínum fjölbreytilegu tilbrigðum. Aldrei varð ég samt neinn atgervismaður í þeirri sókn, sem gerð var að bjarginu. En ég var fljótur, liðugur og þvælinn. Ég gafst ekki upp. Og svona var það, þegar ég fór að stunda róðra á smáfleytum, – um annað var ekki að ræða –, maður reyndi að seiglast, þótt lítið tognaði úr manni, og barði sjóinn með árinni oft furðu lengi án þess að fá nokkra hvíld . . .
Sigmundur þagnar, tekur allt í einu eftir því, að ég er að skrifa, og verður að orði:
– Vertu ekki að hafa þetta eftir mér. Þetta er svo merglaust og nauðaómerkilegt, að enginn nennir að lesa það. Ég hef álpast í gegnum lífið eins og hver annar bjálfi, og það er raunar öll mín saga. Strit og basl, en alltaf bjargaðist þetta einhvern veginn, og mest fyrir það, að ég á góða konu. Það er lífslán mitt, og þess vegna finnst mér, að ég hafi ekki yfir neinu að kvarta.
Sigmundur er kominn fram að dyrum, þegar ég segi:
– Hvenær fórstu fyrst að leggja stund á ljóðagerð að ráði?
Sigmundur færist allur líkt og í aukana við þetta ávarp, og verður nú hraðmæltari en fyrr:
– Kemurðu með það aftur. Ég á ekki að sleppa. Þá er að láta það af hendi, sem af manni er krafizt. Ég hef víst byrjað að bulla þetta strákur. Svo var þetta einhvern veginn landlægt í huganum. Lengi vel hirti ég ekkert um að hripa þetta á blað; datt ekki í hug að hafa svo mikið við. Mér fannst þetta eiginlega ekki vera annað en hortittir og leirburður og vildi helzt engan láta heyra það.
– Hvað kom þér svo til að halda þessu áfram, fyrst þú varst svo óánægður með það?
– Það var nú svona, að þetta varð áleitnara en ég bjóst við í fyrstu. Og þótt ég vildi loka öllum hurðum vendilega, þá var það einhvern veginn svo, að þetta gægðist alltaf út, og það illu heilli, því þetta vildi draga úr áhuga mínum og glepja fyrir mér við önnur meira áríðandi störf, en því mátti ég sannarlega ekki við. Þess vegna varð mér eitt sinn á að ljóða þannig á skáldgyðjuna:
Oft ég rölti á þinn fund,
orti ljóð af munni –
hef víst marga stolna stund
frá starfi á samvizkunni.
– Gleymdir þú ekki kvæðum jafnóðum, þegar þú trassaðir að skrifa þau?
– O, blessaður góði, jú, ég gleymdi. Þetta hvarf jafnharðan á þeim tíma. Og mér fannst það sannarlega hafa unnið sitt verk, þegar ég var búinn að hafa skemmtun af því í bili. Enda get ég ekki sagt, að ég eigi neitt eftir mig fyrr en eftir fertugsaldur, nema ef vera skyldi að konan mín hefði hirt eitthvað af þessu rusli. Svo er það, að nú kom það tímabil ævi minnar, að ég fór ekki að verða hæfur til mikilla skrifta. Ástæðan var sú, að þegar ég var tuttugu og átta ára veiktist ég í augum, með þeim afleiðingum að sjón minni fór hrakandi ár frá ári. Þessu fylgdi mikil vanlíðan oft og einatt. Innan við fertugsaldur var ég hættur að geta lesið á bók. Og þá fannst mér nú sannarlega, að mesti glæsibragurinn væri farinn af lífinu, því ég hafði sterka löngun til þess að lesa allt, sem ég gat náð til. En það var einmitt svo, að eftir að sjónin bilaði, átti ég meiri og greiðari aðgang að mörgum þeim bókum, sem ég hafði þráð að kynnast, en ekki getað veitt mér. Svo urðu bækurnar mér eins konar hefndargjöf, að mér fannst, því þeirra gat ég ekki notið. Þetta varð ósjálfrátt til þess, að ég sneri mér meira og meira að sjálfum mér, ef ég mætti orða það þannig, því þegar svona var komið, þá fannst mér þessi lítilfjörlega skáldgáfa mín verða minn bezti skemmtigjafi og dægradvöl.
– Hvað var þér hugstæðast að yrkja um?
– Ekkert öðru fremur lengi vel. Nei, ég gerði bögur um allt, sem datt í míg. Margar þessar stökur mínar urðu til um atburði líðandi stundar, sem fram hjá fóru og ýttu við stráknum í mér. EN eftir að ég tók að eldast meir að árum, fóru minningar æskuáranna að sækja fastar á mig og urðu mér þá tíðar að yrkisefni en flest annað. Þá sá ég ýmsa atburði æsku minnar í leifturmyndum, sem mér hafa orðið ógleymanlegar. Fegursta myndin, sem minningin geymir, er sólarlagið í Hælavík. Og ef ég mætti óska mér einhverrar óskar, þá held ég, að sú ósk yrði fyrst fyrir valinu, að fegurð þess og ljómi mætti lýsa mér inn í eilífðina. – Eftir að bækur urðu þér lokaður fjársjóður, hvað var það þá, sem öðru fremur stytti þér stundir auk ljóðagerðarinnar?
– Það mun líklega hafa verið útvarpið. En ég verð að segja það, að enda þótt ég hafi átt ótaldar ánægjustundir við útvarpið, þá hefur mér að sjálfsögðu þótt taka í hnúkana stundum. Látum vera með órímuðu ljóðin, en mun verr gengur mér að finna sætleikann og listina í sumum danslögunum. En þetta heitir víst að vera orðinn gamall og á eftir tímanum.
– Ljóðasyrpan þín mun ekki vera alllítil að vöxtum.
– Það má vera, en magnið skapar ekki gæðin. Ég hef ekki haft nein andleg efni til að búa þetta þannig úr garði, að það geti talizt frambærilegt. Enda aðstæður mínar báglegar til þess; engin menntun, hef aldrei á skólabekk setið, kann ekki annað mál en það, sem lært var af vörum fólksins. Og því hef ég yfirleitt látið þetta fjúka eins og það hefur komið fyrir af skepnunni:
Ég hef engum heiðir að tapa
og heldur ekki að vinna.
Ég hræðist ei harða dóma –
þeir hafa víst örðu að sinna,
sem ráða yfir auðlindum andans
og iðka sín háleitu fræði,
en snuðra eftir lággengislátum
í leirskáldsins verðlausu kvæðum.
– Hverjar voru ástæðurnar fyrir því, að þið hjónin fluttuð alfarin af Hornströndum?
– O, það voru nú þessar ástæður, sem flestum eru kunnar. Upplausnin var komin í algleyming á þessum stöðum. Einangrunin var orðin svo mikil, að unga fólkinu fannst það ekki geta við unað lengur.
– Þá fluttuð þið til Ísafjarðar.
– Jú, hér í nágrenni Ísafjarðar. Sem betur fer lentum við ekki inni í miðju bæjarkraðakinu. Við búum ekki við neitt Aðalstræti eða Silfurtorg, þar sem ærslin og gauragangurinn rífa inn á manni hlustirnar; ónei-nei.
– Hvernig hafa umskiptin verkað á þig?
– Það gæti orðið langt mál, ef ég ætti að fara að lýsa því. En mér er ljúft að geta þess, að umskiptin hafa létt hug minn á marga lund. Hér hef ég kynnzt mörgum mætum manninum. En þó vantar mig eitthvað. Og eitt af mörgu vil ég tilfæra: Mig vantar brimóðan sjó og blælygnan stundum, með öllum þeim tilbrigðum, sem úthafið hefur upp á að bjóða. Það er kannski skrýtið, en samt er það satt, að enda þótt þessar trylltu hamfarir hafi oft vakið mér ógn og kvíða, þá sakna ég þeirra mjög. Hver getur skýrt það? – Hér, þar sem ég bý, innst í Skutulsfirði, sé ég engan sjó, nema það, sem mér finnst vera eins og hver önnur lygn tjörn, sem aldrei skiptir skapi, en er alltaf kyrr og rétt steindauð . . . En enginn tekur það frá manni, sem maður einu sinni eignast; Strandirnar, mitt gamla og síunga umhverfi; þær myndir á ég og leik mér að þeim dags daglega, skoða þær og virði fyrir mér í huganum –, og þangað sæki ég þróttinn.
– En grípur þig ekki stundum löngun til þess að vera seztur að aftur á Hornströndum?
Sigmundur hefur um stund staðið fram við dyr. Nú þokast hann hægum skrefum inn á mitt gólfið, og allt í einu verður eins og glaðaljós í svip hans, þegar hann ælir að lokum:
– Skynsemin segir vissulega nei. Annars vil ég svara þessu með nokkrum stökum; þær fjalla um fyrstu ferðina mína norður – eftir að ég flutti hingað:
Hlakkandi gegn í háttinn í kveld –
heimþráin inn til mín læddist.
Komist ég norður, kveiki ég eld
í kotinu, þar sem ég fæddist.
Þar vil ég ákalla alföðurnáð,
þar er ég ei framandi gestur.
Þar heillar mig dýrðin um lög og láð,
þar er ljósguðinn æðsti prestur.
Þar liðu yfir mig skuggar og skin
skammdegið kallaði á vorið.
Þar átti æskan ellina að vin,
ef henni geigaði sporið.
Og þegar svo algleymið þokast mér nær,
þá sé ég víkina skína.
Megi þá himinsins blíðasti blær
bera henni kveðjuna mína.