Að Héðinshöfða
Það er stundum haft á orði í seinni tíð, að þeim Íslendingum fækki mjög,sem skeri sig svo greinilega úr öllum fjöldanum, að ekki fái dulist, að þarna fari menn, sem annað tveggja eða hvort tveggja hafi mög sérkennandi skaphöfn eða séu gæddir meira líkamsatgjörfi en venjulegur röskleikamaður.
Sjálfsagt er eitthvað til í þessu, og má skýra það með ýmsum dæmum, þótt fæst þeirra verði talin hér. Breyttir lifnaðarhættir þjóðarinnar eru í þessu tilviki mestir áhrifavaldar. Fáir búa lengur úr alfaraleið, og menn mótast því ekki svo mjög eingöngu af sjálfum sér, sínum nánustu, næsta umhverfi sínu og fábreyttum atvinnuháttum, sem stóðu í stað áratugum saman. Fyrir ekki ýkjalöngu unnu menn flest verk svo að segja með berum höndunum og urðu að treysta á eigin hyggjuvit og harðfylgi í baráttunni um lífsgæðin. Nú hefur orðið gagnger bylting á þessu sviði. Menn beita ýmiss konar vélum og stórvirkum tækjum við flest, sem vinna heitir, bæði til sjós og lands. Opin vélarlaus fleyta er ekki lengur til sem lífsbjargartæki. Stórir hópar manna vinna sama verkið, og ekkert annað en þetta eina starf; þar má með sanni segja, að allir skrúfi sömu skrúfuna eða ýti á sama hnappinn. Svo eru kallaðir til sérfræðingar, ef eitthvað út af ber. Við þetta hafa störf manna einhæfzt mjög, svo ekki sé meira sagt. Menn þurfa ekki lengur að vera færir í flestan sjó, hvað þá heldur afrendir að afli til þess að komast sæmilega af. Mörg lífsgæðin eru nú beinlínis lögð upp í hendurnar á fólkinu í landinu; lífsgæði og munaður, sem fáir léu sig dreyma um fyrir nokkrum áratugum.
Það, sem hér hefur verið talað um og margt fleira, hefur, óneitanlega haft það í för með sér, að nú draga menn meiri dám hver af öðrum en fyrr á tímum, þótt ekkert kindarhöfuð sé eins, líkt og þar stendur. – Hér má taka of djúpt í árinni. Að sjálfsögðu verða ævinlega til sérstæðist persónuleikar með þjóðinni – ógleymanlegir menn. Ég hef átt því láni að fagna að kynnast við nokkra slíka, einkum þó af eldri kynslóðinni, þótt fæstra þeirra verði getið á þessum blöðum. Einn í hópi þessara manna er Gísli Gíslason Brimnes. Saga hans verður ekki rakin hér til neinnar hlítar. Tilgangurinn með þessum þáttum er aðeins sá, að varðveita nokkrar svipmyndir frá lífsferli þessa einstæða karlmennis.
Ég sá Gísla fyrst drengur að árum. Mér varð á að staldra við og horfa á manninn, sleppti ekki af honum sjónum, fyrr en hann var kominn úr augsýn. Ef nokkur maður hefur nokkru sinni komið mér fyrir sjónir líkt og hann sé genginn út úr kappaliði fornsagnanna, þá var það Gísli Gíslason. Og mér finnst hann ekki hafa breytzt með árunum, nema hvað hárið er orðið alhvítt . . . Þegar þessir sagnaþættir eru færðir í letur, hefur Gísli búið að Héðinshöfða við Seljalandsveg á Ísafirði í hartnær þrjátíu ár, – og hefur fjögur ár um áttrætt. Hann er meðalmaður á hæð, breiður á bolinn, eldsnöggur í viðbrögðum, augun stálblá og liggja djúpt undir loðnum brúnum, andlitsdrættirnir fastmótaðir, þar sem hver lína ber í sér síkvika skerpu. Gísli er mikill skapmaður, en kann sér jafnan hóf, ef ekki er leitað á hann af allt of mikilli frekju. Þrátt fyrir háan aldur vinnur hann enn fullan vinnudag og heldur nokkrar kindur sér til dundurs í hjáverkum . . .
Gísli Gíslason fæddist að Svínafelli í Öræfum 25. maí 1967. Foreldrar hans voru þau Gísli Jónsson bóndi þar og kona hans, Guðný Einarsdóttir. Auk Gísla eignuðust þau hjón tvö börn, Guðrúnu og Jón. Svínafellið var leigujörð, en Gísli bóndi átti Fagurhólsmýri í Örævum ásamt systkinum sínum, og flutti þangað búferlum, þegar Gísli yngri var á öðru árinu. Eftir þriggja ára búsetu á Fagurhólsmýri missti Gísli konu sína og brá þegar búi. Gísli yngri fór þá á vist til móðurbróður síns, Ingimundar Eiríkssonar á Seyðisfirði. Gerði Ingimundur hið bezta til systursonar síns.
Eins og brátt mun að vikið, var Gísli ekki gamall að árum, þegar hann fór fyrst að taka til hendinni, svo um munaði. Og í broddi lífsins festi hann ráð sitt og gekk að eiga Kristínu Þóraðardóttur. Var það mæt kona, vel mennt að þeirra tíma sið og reyndist traust stoð bónda sínum og börnum. Þeim hjónum varð sjö barna auðið og tóku þrjú börn til fósturs. Flest manndómsár sín var Gísli á Austfjörðum, en lengst af hefur hann verið búsettur á Ísafirði. Fyrstu árin hans vestra voru mikil erfiðleikaár bæði til sjós og lands. En þrátt fyrir talsverða fátækt á þessu tímabili ævinnar tókst þeim hjónum að koma börnum sínum vel til manns. –
Nú er svo komið, að Gísli situr einn að Héðinshöfða ásamt dóttur sinni Guðnýju. Hún ber um margt svip af föður sínum, og er allt með myndarbrag hjá húsfreyjunni á Héðinshöfða. Þar er gott að koma. Gísli er kjarnyrtur og kappsamur í viðræðum, og hefur sínar ákveðnu skoðanir á hverjum hlut, sem ekki verður við hróflað. Þó er hann mér hvað minnisstæðastur, þegar hann kemst í reglulegt frásagnarskap, og lýsir fyrir mér ýmsum atburðum frá sjómannsferli sínum austur á fjörðum. Þá er eins og brimgnýr í röddinni og glettið bros mildar fastmótaða andlitsdrættina. Ég mun seint gleyma þessari rödd og þeirri lífsfyllingu, sem magnaði frásögn hans. En það var ekki fyrr en eftir allnáin kynni, sem ég fékk hann til að leysa frá sagnaskjóðunni. Gísla virtist það eðlislægt að hafa sem fæst orð um sjálfan sig. Og engan mann þekki ég, sem kann sögur af Gísla Brimnes meðan hann var og hét, eins og hann sjálfur orðar það.
Fyrst þegar Gísli byrjar að segja mér frá, má hann helzt ekki sjá mig taka upp ritföng. Þá er beinlínis eins og ég sé orðinn að umskiptingi í augum hans og vart í húsum hæfur. Ég fer mér hægt og segi:
– Það verður nú enginn heimsbrestur, þótt ég hripi eitthvað upp eftir þér.
Gísli hálferrinn, en galsafenginn tónn í röddinni undir niðri:
– Nei, ég verð nú líklegast síðastur mann til að steypa heiminum. En þessar sögur mínar eru ekki til að halda þeim á lofti. Svona sögur eru hreint og klárt kallaðar lygasögur nú til dags.
– Menn segja nú svo margt, sem þeir ekki meina, malda ég í móinn. Gísli hlær við þessum orðum og segir:
– Það á helzt enginn að hafa verið maður með mönnum á Íslandi síðan í grárri forneskju. Hvað um það; sá er eldurinn heitastur sem á sjálfum brennur. Ef ég hef einhvern tíma áorkað einhverju, sem veigur er í, þá hafa ástæðurnar beinlínis knúið mig til þess hverju sinni og oft heimtað meira af mér en ég hef verið maður fyrir . . . Nú, þú mátt svo sem halda þessum sögum mínum til haga, ef þér sýnist svo. Og ef þær birtast, áður en ég legg upp laupana, þá get ég skemmt mér við það, að menn segi mig kominn á raupsaldurinn.
– Hverju hefurðu heft einna mesta ánægju af síðustu árin?
– Kindunum mínum. Ég er þá dauður, ef ég læt þær frá mér. Það er alltaf gaman að eltast við þær – og mest, þegar þær frenjast upp um allar hlíðar og kletta.
– Þú vinnur hjá bænum og hefur gert lengi. Hvernig fellur þér sú vinna?
– O, svona og svona – æi-já, þetta eru mest aukvisastörf . . . Gísli hristir sig og kveður nú fastar að orði. – Þó koma fjörkippir innan um og saman við. Aldrei er leiðinlegt að fást við grjótið. Það fer í mig kappsemin, þegar ég bisa við að rífa upp jarðvasta steina, einkum ef molarnir eru stórir og eins og tengdir jörðinni með óslítandi rótum.
Stundarþögn, sem þó er engin þögn. Í svip og yfirbragði Gísla lifir og hrærist ósögð saga. Ég geri mér vonir um, að það sé ein af gömlu góðu sögunum hans. – Og ég verð ekki fyrir vonbrigðum.
Gísla saga Brimnes . . . - 2 -