Óskar Aðalsteinn

L Í F S O R R U S T A N

Skáldsaga

 

 

Iðunn
Reykjavík, 1964

Copyright ©1964
All rights reserved


ANNAR HLUTI


IX.

(bls. 93)
Þarna voru Svarthamrarnir –

Þarna hvar? Hver sá þá? Ströndin var grafin í niðdimmri þokusúld. Skipstjórinn á vitaskipinu hafði áttað sig á nokkrum hvössum tindum, sem stóðu upp úr þokuhafinu. Erfitt var að komast í skipsbátinn fyrir sjógangi. Undir landtökuklettinum var dauðalogn. Jólfur vitavörður stóð í fjöru, þegar við lentum. Ekki kastaði hann á okkur kveðju. Kannski var enginn tími til þess. Hér varð að hafa snör handtök, svo að allt færi ekki í sjóinn. vitaskipsmenn sögðust ekki koma aftur fyrr en með útfallinu. Ógjörlegt væri að skipa á land í sama.

Ég hélt á Rögnu. Hlíf leiddi Garðar við hönd sér. Hún laut að telpunni og hlúði að henni. Við stigum aðeins nokkur skref, vissum ekki, hvort við áttum heldur að halda inn eða út með til að komast í hús. Fjaran var ein stórgrýtisurð. Yfir okkur risu Hamrarnir og átu sig saman við kólguskýin hið efra. Það var dimmt eins og á skammdegisnóttu.

Jólfur bograði yfir farangri, sem borinn hafði verið upp undir klettana. Nú rétti hann sig upp og stikaði fram hjá okkur, smávaxinn, mjósleginn, snöggur í hreyfingum, og sagði um leið og hann hvarf í þokunni:

– Haldið ykkur fast undir berginu. Aldrei að vita hvenær losnar um stein . . . Röddin var gróf með fínum titrandi undirtón.

Stígurinn lá í ótal krókum um rennvota urðina. Víða urðu stórbjörg á vegi okkar. Garðar vildi ganga óstuddur, en datt í grjótinu, beygði af og leyfði móður sinni að leiða sig. Í gærkvöldi höfðum við kvatt þau Rúnu og Bjarna á bryggjunni. Bjarni hlóð á mig margvíslegum ráðum, sem áttu ekki að vera ónýt útskagakarli. Rúna grét yfir okkur. Hún trúði því tæpast enn, að við ætluðum út í þennan voða, eins og hún nefndi vitastarfið . . . Hlíf gekk fast upp við mig og sagði í spurnartón:

– Jólfur er einn í vitanum?

– Já, það sögðu þeir um borð. Það er víst mánuður síðan konan og börnin fóru burt.

– Hann hefur ekki minnzt á það við þig í símanum?

– Nei, við töluðum ekki meira en hægt var að komast af með. Sambandið var slæmt.

Hún eftir nokkra þögn:

– Það er allt á hreinu með viðskiptin ykkar í milli?

– Ég verð að treysta því.

Hún þagði við svarinu. Jólfur hafði sagt, að hesturinn væri kominn til ára sinna og kýrin líka. Samt réð hann mér til að kaupa. Hesturinn væri traustur þó gamall væri, og kýrin dropasöm. Og báturinn, hann væri hreinasta afbragð, ég fengi ekki betri bát . . . Í þessum svifum vikum við þvers úr vegi fyrir einu bjarginu, og Hlíf varð að orði:

– Þetta eru engir smámolar. Hvað hefur orðið af karlinum?

– Ætli hann sé ekki kominn upp á hamrabrúnina.

– Þá fer að styttast, sagði hún – Ekki er farið með hestinn um þessi klungur.

– Jólfur sagði mér, að fjaran væri hestgeng. Mér lízt ekki á það. Annars er erfitt að átta sig á þessu meðan varla sér út úr augum . . . Nú reis snarbrött brekka í fangið, milli tveggja flughamra. Þarna lá vegurinn upp á brúnina. Þegar upp kom, sáum við móta fyrir húsinu í þokunni. Það var allstórt steinhús. Sjálfur vitinn sást ekki vegna dimmviðris. Mér hafði verið sagt, að hann stæði austast á hömrunum, þar sem þeir risu hvað hæst yfir sjó.

– Þetta hús virðist vera einn drangurinn, sagði Hlíf.

– Það er holur klettur með dyr og glugga. Þú bjóst ekki við slíkri höll?

– Nei, ég hélt ekki, að við ættum að búa inni í sjálfu fjallinu, sagði hún og hló við.

Útidyrnar voru aftur. Við kunnum ekki við að berja að dyrum, þar sem þetta var okkar heima, og gengum óboðin í bæinn. Það var sams konar lykt í þessu húsi og þar sem ekki hefur verið búið lengi. Jólfur var að hella upp á könnuna. Hann hafði ekki tekið af sér höfuðfatið, sem var kollhá svört skyggnishúfa. Hann hafði lítið og mjótt andlit, stuttklippt grátt skegg á efri vör, var tileygður á vinstra auga. Þegar hann sagði ekkert góða stund, varð Hlíf að orði:

– Seztu bara, ég skal sjá um kaffið.

Jólfur svaraði þessu engu, en leit á mig og sagði:

– Þú ert sjálfsagt með matvöru upp á árið.

– Ekki er ég nú svo forsjáll, hef hugsað mér að birgja mig upp með haustferðinni.

Jólfur skákaði til okkar bollum, benti þegjandi á kaffikönnuna, reykti pípu sína og sagði eftir nokkra þögn:

– Ætli haustveðrin láti sig nokkru varða þá skipakomu?

– Er ekki of snemmt að spá um það nú, snemma vors, hvernig muni viðra að hausti? sagði Hlíf.

Jólfur sat með afturlukt augu, andlitið kafið í tóbaksreyk, og sagði án þess að ljúka upp augum:

– Hvernig lízt frúnni á staðinn?

– Það er lítið ennþá. Súldin er alls staðar eins.

– Er það?

– Það held ég. Hefur þetta leiðindaveður staðið lengi?

– Það verður varla sagt, að hér sjái nokkurn tíma til sólar, var svarið.

– Ég kalla, að þú segir tíðindi, anzaði Hlíf og brosti snöggu brosi.

– Hér þornaði ekki af strái í allt fyrra sumar, sagði Jólfur hægt og seint.

– Það verður sjálfsagt skárra í sumar, sagði ég.

Jólfur leit upp á mig með ranga auganu og sagði:

– Betur að svo færi. En talið þið við þann, sem hér var á undan mér, ef þið trúið ekki orðum mínum.

– Var hann miklu lengur en þú; eitt ár? spurði Hlíf.

Jólfur reis snöggt úr sæti og sagði:

– Ég vil ekki spá illa fyrir ykkur. Sjálfsagt finnið þið hér þá hamingju, sem þið leitið að . . . Hann snaraðist á dyr.

Hlíf eftir nokkra þögn:

– Hvað verður karlinn hér lengi?

– Hann á að kenna okkur að gera veðurathuganir. Vitaskipið verður á suðurleið eftir nokkra daga og tekur hann.

– Fór konan hans suður með börnin?

– Já, og tók með sér flestar eigur þeirra hjóna, eftir því sem þeir sögðu mér á vitaskipinu.

Enn var þögn. – Aumingja karlinn, sagði svo Hlíf. – Hann verður kannski skárri þegar frá líður. Varla getur hann orðið öllu leiðinlegri.

Jólfur snaraðist inn í þessu og að talstöðinni til að senda út veðrið. Hlíf vildi fá að tala við Rúnu. Jólfur taldi öll tormerki á, að það væri hægt.

– Er ekki hægt að tala? hafði Hlíf upp eftir honum. – Hvernig sendi þú skeytin? Einhvern veginn kemur þú þeim frá þér.

– Stundum vill það farast fyrir, var svarið.

Hlíf beið eftir frekari skýringum. Loks kom frá Jólfi:

– Ég skipti við stöð hérna fyrir austan, Öngulsfjörð, skást samband við þann stað. Vestur yfir heyrist sjaldan neitt, fjöllin taka úr.

Aftur þögn.

– Það er svona alltaf, sagði Jólfur upp úr þögninni, og röddin titraði. – Aldrei gott samband, ævinlega slæmt. Það er eins og maður sé að kalla út í tómið. Orðin slitna í sundur. Stundum heyrist ekkert nema brestir. Þið fáið að reyna þetta og hvað mest í skammdeginu og byljaveðrum. Maður endurtekur og endurtekur, en ekkert heyrist nema veðurgnýrinn.

Við Hlíf litum hvort á annað. Jólfur sneri að okkur baki og kveikti á stöðinni. Honum gekk sæmilega að koma frá sér veðurskeytinu og bað um Rúnu.

– Þú getur reynt, sagði hann við Hlíf og fékk henni taltólið.

Eftir nokkra bið kom Rúna í símann. Sambandið var ekki bara vont, það heyrðist ekki orð.

Jólfur hló stuttan, svo sagði hann með niðurbældum ofsa:

– Þarna hafið þið það. Svona er það. Svo segið þið mig ljúga.

– Það höfum við alls ekki sagt, anzaði Hlíf snöggum rómi.

Jólfur næstum hljóðlega:

– Hvað viltu segja við konuna?

– Er ekki þýðingarlaust að hafa orð á því?

– Þeir í Öngulsfirði geta borið á milli.

– Ég vil þá gjarnan, að hún fái að vita, að ferðin hafi gengið að óskum og að okkur líði öllum vel, sagði Hlíf.

Jólfur kom þessu rétt boðleið, slökkti síðan á stöðinni og var farinn. Hlíf var orðin glaðleg og sagði:

– Rúna er vonandi ekki lengur með lífið í lúkunum okkar vegna . . . Hún hló – Ég hlusta ekki á vitleysuna í karlinum. Það eru ekki alltaf þessar truflanir. Ég tala við Rúnu, þegar við höfum komið okkur fyrir.

 

Á fjörunni tókst að koma varningnum í land. Vitaskipsmenn gengu hratt fram, stikluðu öruggum fótum á flughálu grjótinu undir þungum byrðum. Þetta var búið fyrr en varði og skipið farið. Svo bar ég á sjálfum mér um urðina, að brekkunni, sem lá upp á hamrabrúnina, og breiddi strigadruslur yfir vöruna til að verja hana fyrir vætunni. Ekki hafði ég verið lengi að, þegar ég þóttist skyggna eitthvert ferlíki í þokusuddanum efst í brekkunni. Þarna var Jólfur kominn og hafði klárinn í taumi. Mér varð starsýnt á hestinn. Hann var illa genginn undan vetrinum. Jólfur sá víst, hvað ég hugsaði og sagði:

– Hann er ekki eins afleitur og hann sýnist vera, enda fyrir nokkru kominn á grös.

Ég þagði. Jólfur hélt áfram:

– Ekkert vit í að bera þetta á sjálfum sér. Þú verður aldrei búinn með því móti, svo ég náði í klárinn fyrir þig og lagði á hann.

– Mér líst ekki á að fara með hann yfir urðina.

– Ekki það. Til hvers keyptirðu hann, ef ekki má nota hann?

– Ég beiti honum fyrir kerruna, þegar ég hef borið varninginn hingað inn eftir.

Jólfur hló storkandi.

– Fyrst þú telur sjálfsagt að etja honum á grjótið, þá get ég reynt það, sagði ég.

– Mikið var að þú tekur sönsum. Ég skal fara fyrir fyrstu ferðina, sagði Jólfur og hélt þegar af stað út með berginu.

Ég hafði ekki teymt hestinn langt, þegar hann stóð kyrr. Jólfur sneri sér við og kallaði:

– Danglaðu í klárinn, maður, láttu hann gegna þér.

Aftur fékk ég hestinn af stað. Fótaburðurinn á hálu grjótinu var reikull og lasburða. Þegar utar kom, varð hann víða að stíga yfir stóra hnullunga. Leiðin var um hálfur kílómetri. Ég hafði snör handtök við að láta upp á hestinn. Hann víxlaðist undir byrðinni og komst ekkert úr sporunum.

– Þetta er ekkert vit, sagði ég.

– Hvað er ekkert vit? spurði Jólfur.

– Þessi meðferð á skepnunni.

Jólfur hló dátt.

– Láttu mig, sagði hann svo og þreif tauminn.

– Þú ferð of geyst, sagði ég.

– Ég er hér ekki í fyrsta sinn í dag, gegndi Jólfur.

Þá hnaut hesturinn undir byrðinni.

– Djöfullinn eigi þig, hvæsti Jólfur. – Á lappirnar með þig.

Hesturinn brauzt um, en fékk ekki komið undir sig fótunum. Jólfur reiddi keyrið. Ég greip um handlegg hans og sagði:

– Þetta er minn hestur, hann kemur þér ekki við, þú berð hann ekki.

Ég varpaði byrðinni af hestinum. Þegar hann var staðinn upp, sneri ég mér aftur að Jólfi. Hann var hljóður og gneypur. Mér þótti sem ég hefði verið ginntur til óhæfuverka og beið þess að Jólfur segði eitthvað sér til réttlætingar. Hann þagði þar til við vorum komnir að brekkunni og ég hafði sleppt hestinum lausum, þá sagði hann:

– Þér verða lítil not af hestinum, ef þú þolir ekki að sjá hann hnjóta.

Þögn:

– Svona var ég líka fyrst, aftók með öllu að fara með hestinn undir Hamrana, hélt Jólfur áfram. – En maður venst ýmsu hér á vitanum. Þú líka, þú gefst upp á að bera á sjálfum þér þessa þrælaleið.

Enn sagði ég ekkert, var runnin reiðin. Þetta var lítill og pervisalegur maður. Hvernig átti hann að bera drápsklyfjar hina erfiðu leið um urðina? Hann stóð þarna í sömu sporum, þegar ég hóf burðinn að nýju, svo fór hann án þess að hafa fleiri orð.

Aftur hóf ég sama verkið næsta morgun. Jólfur kom í fjöru um miðjan dag og bauðst til að aka varningnum heim á hlað. Ég þagði við.

– Við erum engir óvinir, sagði hann mæðulega.

– Ekki voru það mín orð, anzaði ég og lét í kerruna með honum.

Litlu seinna lauk ég burðinum og tók við keyrslunni. Klárinn gerði ekki betur en að draga upp brekkuna með hálft hlass. Jólfur stóð á brekkubrúninni og hafði á hraðbergi ísmegilegar athugasemdir um vinnulag mitt. Langaði sýnilega til að hleypa mér upp. Ég þóttist hafa annað þarfara að gera en munnhöggvast við hann. Kannski náði hann sér helzt niður á mér í veðrinu. Ef ég gerði skekkju, hýrnaði verulega yfir honum. Þegar mér tókst upp, og hann gat ekki sett út á hjá mér, horfði hann á mig með ranga auganu og stundi við . . . Eitt sinn varð Hlíf að orði við mig:

– Hann er bara góður karlinn, þegar hann horfir á mann með ranga auganu.

 


Lífsorrustan – IX (2) –