Óskar Aðalsteinn

L Í F S O R R U S T A N

Skáldsaga

 

 

Iðunn
Reykjavík, 1964

Copyright ©1964
All rights reserved


ANNAR HLUTI


IX.

(bls. 100)
Ekki voru flutningarnir fyrr um garð gengnir en Jólfur hafði orð á því við mig, að sjálfsagt væri að flota bátinn og kippa upp nokkrum sporðum. Ég gekk ekki á eftir honum með þetta. Var það annað en karlagrobb að ætla að sér á sjó í þessum botnlausa sorta? Jólfur gerði samt alvöru úr þessu, sat einn undir árum, kærði sig ekki um mína aðstoð. Eftir nokkur áratog veðraði hann út í hnausþykka súldina og breytti stefnunni örlítið, en réri síðan góðan spöl jöfnum föstum róðri. Það var skriður á fleytunni. Jólfur virtist ekki þreytast hið minnsta við róðurinn. Það var nú eitthvað annað. Það var eins og féllu af honum fjötrar og hann yrði allt annar maður á sjónum en landjörðinni. Í þessu rétt að kalla straukst báturinn við klettadrang.

– Þarna smaug ég laglega með Svartadrang, karl minn, sagði Jólfur. – En nú er ráð að fara ekki lengra, ef við viljum ná sama landi aftur.

Þá var setzt undir færi. Við slitum upp einn og einn fisk. Jólfur hló dátt í hvert sinn, sem beit á hjá honum. Fína tónsins gætti meir í rödd hans en venjulega, og hann varð opinskár og orðmargur:

– Maður álpast út í þetta vitastúss vegna veiðivonarinnar, sagði hann. – Bíddu bara þar til fiskurinn glæðist að ráði. Þá man maður ekki skammdegið lengur, þennan óvætt, sem étur mann lifandi, án þess þó að drepa mann alveg. Allt er dautt í manni, nema óttinn. Heyrirðu það, dautt og margdautt. Maður fer ekki úr rúminu, lýkur ekki upp augum, nærist ekki . . . Hann hló. – Skrýtið að tala um þetta yfir færi, þá er það ekki til. Ekkert mótdrægt lengur, hreint ekki neitt . . . Og gleymdu ekki fuglinum og eggjunum í bæjarfjallinu, maður minn. En hafðu þig strax að landi, þegar þú sérð brjóta við skerin. Þar verður allt sjóðvitlaust á augabragði. Og ef þér skyldi detta í hug að rölta á eftir tófu, láttu þá ekki teygjast of langt inn á fjöllin. Kannski sýnist þér, að þú sjáir þar mann. En það er þá enginn venjulegur maður, máttu vita, heldur óvættur, sem vill æra úr þér vitið . . . Jólfur hló léttan. – Venjulegur maður, nei, hingað á enginn venjulegur maður erindi. Og þitt eigið heimafólk –, já, hvað gerist? Láttu mig vita það. Kerlingin mín var ekki verri en aðrar kerlingar. En hvernig varð hún hér? Ekki meira um það. Liðið er liðið.

Það var á hjá Jólfi, feitur þaraþyrsklingur. Hann horfði á fiskinn sprikla í greip sinni og hló. Þegar við komum að landi þyrmdi yfir hann. Hann stóð lotinn og ætlaði naumast að hafa sig upp úr fjörunni. Svo snerti hann varla við nýrri soðningunni, en gretti sig velgjulega framan í húsköttinn og sagði nöprum róm:

– Neró, Neró, já, Neró, það er þitt nafn.

Ekkert húsdýranna hafði hann nefnt með nafni í okkar eyru. Við fundum upp á að kalla köttinn Neró, klárinn Mósa og kúna Gránu. Jólfur hafði ekki skipt sér af því fyrr en nú.

– Þú hefðir nú kannski getað sagt okkur nöfnin á húsdýrunum, varð Hlíf að orði.

Jólfur anzaði þessu engu, en sagði hægt og bítandi:

– Það er ekki verra þó þið vitið það, að fyrsti vitavörðurinn sem hér var, hengdi sig í fjárhúsunum.

– Ég get mér til um framhald sögunnar, sagði ég.

– Jæja, anzaði Jólfur.

– Já, ætli karlinn gangi ekki aftur. Það er ekki draugagangur ef þeir dauðu liggja kyrrir.

Jólfur í djúpum alvörutón:

– Þið fáið að heyra fótatakið hans hér í húsinu, þegar haustar að og fer að dimma.

– Hann ætti þá að gera vart við sig núna, sagði Hlíf. – Ekki vantar myrkrið.

Jólfur eftir nokkra þögn.

– Þið viljið ekkert við mig tala. Ekki hafið þið nefnt einu orði, hvað það var, sem dró ykkur hingað.

Það ættir þú að geta sagt þér sjálfur, sagði ég. – Við fórum hingað af sömu ástæðum og þú, til að sjá okkur farborða.

Jólfur svaraði engu, en gekk á dyr. Hlíf leit á mig og sagði:

– Það verður hver að vera eins og hann er gerður.

 

Litlu seinna fór Hlíf út, að svipast um eftir Garðari. Hann fékk að dunda sér stund og stund sunnan undir húsgaflinum. Hún hafði stöðugt eftirlit með honum. Nú kom hún að vörmu spori og sagði:

– Ég finn hann ekki. Hvar getur barnið verið?

Þegar við höfðum leitað árangurslaust um stund, varð mér að orði.

– Kannski hefur hann farið út um hliðið.

– Hvernig þá. Hann getur ekki opnað það.

– Það getur hafa verið kviklæst, sagði ég.

Hún grét þegar við komum að læstu hliðinu. Við hlupum í dimmunni og kölluðum á drenginn. Morgum sinnum fórum við meðfram girðingunni, sem lá um hamrabrúnina, og sáum sömu myndina í huganum, ég fann það á hreyfingum hennar, heyrði það í andardrætti hennar, það var sama mynd í huga okkar beggja; lítill drengur, sem lá limlestur í urðinni undir hömrunum . . . Klettarnir bergmáluðu hróp okkar:

– Garðar, Garðar.

Henni varð fótaskortur. Ég hjálpaði henni á fætur og sagði næstum fagnandi.

– Hann leikur sér oft í kjallaratröppunum. Hann hefur farið þangað núna.

Hún sá óttann í augum mínum. Ég gat ekkert sagt frekar. Við stenfndum heim að húsinu, fórum hratt. Ekkert heyrðist nema sár andardráttur hennar. Húsið var autt og tómt. Aftur vorum við úti í myrkrinu og klettarnir bergmáluðu hróp okkar:

– Garðar, Garðar.

Stundum missti ég af henni í sortanum, og hrópaði nafn hennar í stað drengsins.

Skyndilega stóðum við kyrr.

Maður kom utan úr súldinni og leiddi drenginn við hlið sér. Öll vorum við hljóð, eins og ekkert okkar þyrði að rjúfa þögnina. Loks kom ég þessu upp:

– Heyrðirðu ekki til okkar, Jólfur?

Ekkert svar.

– Hvar var barnið? sagði Hlíf og tók drenginn í faðm sér.

Það var eins og andlitið á Jólfi væri strokið burt í þokunni. Hann sagði seinlega, um leið og hann sneri við okkur baki:

– Ég var að koma neðan úr fjöru, og fann hann í brekkunni.

Hlíf hélt enn á drengnum eftir að við vorum komin í hús.

– Ég var bara að leika mér, mamma mín, sagði hann.

– Já, ég veit það, vinur, sagði hún. – En þú mátt ekki fara einn frá bænum.

– Ég var ekki einn, mamma mín, hann Jólfur leiddi mig, sagði Garðar og skokkaði inn í stofu til Rögnu systur sinnar.

Hlíf leit við mér og sagði:

– Það skiptir ekki mestu máli, hvernig þetta vildi til. Hitt verð ég að muna að láta drenginn ekki vera nokkra stund einan úti við meðan dimmviðrið helzt.

 

Jólfur lét ekki sjá sig meira þennan daginn. Þegar hann kom ekki í kvöldmatinn, fór mér að þykja nóg um. Hann hafði herbergi uppi á lofti. Mér datt í hug að líta þangað inn. Þar lá Jólfur háttaður niður í rúm, gráfölur í andliti og virtist mjög af honum dregið.

– Þetta er bara smálumbra, umlaði hann.

Ég þóttist vita, hvað að væri og sagði:

– Vitaskipið á að vera hér eftir tvo daga.

– Þeir ljúga, var svarað veikum rómi úr rúminu.

– Má bjóða þér nokkuð að borða?

– Æi-nei, ekki núna, anzaði Jólfur og sneri sér til veggjar.

Hlíf vitjaði hans, þegar hún frétti hvernig komið var, huggaði til í kringum hann og fékk hann til að drekka svolítið af heitri mjólk.

Um morguninn sá litla stund í bláan sléttan sjó við landtökuklettinn. Það var munaður að horfa á þennan bláma í öllum sortanum. Hlíf kom að sjá, Garðar kom að sjá, Ragna kom að sjá. Jólfur –, hann var næstum alúðlegur þegar ég leit inn til hans, sagðist vera orðinn góður af lumbrunni þó hann treysti sér ekki á sjó, ekki í dag . . . Ég hratt á flot, lónaði stundarkorn á bláa blettinum undan landtökuklettinum, tíndi upp nokkra fiska og heldur fleiri en í gær. Blái bletturinn varð fljótlega uppsólginn af myrkrinu. Einhvern veginn tókst mér samt að rata heim í vörina, gerði að veiðinni og hélt síðan til bæjar. Hlíf var kímileit og sagði:

– Þú spyrð ekki tíðinda.

– Ég get gert það. Er kannski eitthvað að frétta af loftinu?

– Smávegis. Karlinn kom hér áðan blaðskellandi og bauð upp á brennivín.

– Ekki minna. Maður þarf þá tæpliega að hlaupa eftir lækni?

– Ég veit ekki nema þess sé full þörf, sagði Hlíf. – Þú hefðir átt að sjá hann drattast út úr eldhúsinu, þegar ég vildi ekki þiggja brennivínið hans. Hann var eins og vofusvipur.

Hurðin þokaðist hægt frá stöfum. Jólfur kom í gætina og var þessi vofa, sem Hlíf talaði um. Hann starði á mig og sagði loðmæltur:

– Þú hefur logið til um skipið!

– Hver hefur frætt þig á því?

– Þið eruð engar fyrirmyndar manneskjur, hrópaði Jólfur. – Ég vil ekkert hafa saman við ykkur að sælda . . . Hann slagaði að talstöðinni, kallaði aftur og aftur á vitaskipið, en fékk ekkert svar.

Fleira sáum við ekki til hans fyrr en daginn eftir. Skipstjórinn á vitaskipinu hafði þá tilkynnt komu sína, skipið rétt aðeins ókomið. Naumast hafði ég áður séð Jólf hressilegri. Hann sagði fátt, en horfði á flest með rétta auganu, var sífellt á þönum út og inn, hló glaðlega með sjálfum sér og raulaði lagstúf. Að lokum hvarf hann út í sortann með skipsbátnum, án þess að kasta á okkur kveðju.

 


Lífsorrustan – IX (3) –