Óskar Aðalsteinn

L Í F S O R R U S T A N

Skáldsaga

 

 

Iðunn
Reykjavík, 1964

Copyright ©1964
All rights reserved


ANNAR HLUTI


IX.

(bls. 105)
Jólfur var farinn. Myrkrið var áfram. Einn morgun sem oftar rak ég á eftir Gránu upp með læknum. Ef ég danglaði í hana, stóð hún helzt alveg kyrr og nusaði í áttina til mín, líkt og hún vildi segja: Hvað liggur á? Eins og ég fari ekki mínu fram þó þú veifir snærisspotta. Ég er ég, hollast fyrir þig að hafa það hugfast.

Brátt skildi með okkur. Ég hélt áfram einn míns liðs. Kyrrt veður, dimm kyrrð, grasið eins og skuggi af sjálfu sér, og strjálir regndropar féllu í dimmunni. Ljós lifði í bænum lengst af deginum og slokknaði inn í myrkrið, þegar mig hafði borið skammt undan. Það var strax á brattann. Landið sem lófastór blettur undir fótum mér. Lækurinn þagði. Þarna eygði í fjárhúsin í myrkrinu. Hér hafði verið sauðlaust síðustu árin.

– Reyndu að koma þér upp kindum. Þær rása um óbyggðirnar. Þótt þú leitir að þeim dögum saman, sérðu ekkert af þeim. Eins víst, að þú gangir fram á vein þeirra næsta vor.

Þetta sagði Jólfur. Var kannski eitthvað eftir af honum hér á staðnum, þó hann væri farinn burt? . . . Undir eins var ég kominn í hvolfið innst í víkinni. Það var eggslétt í botninn með einstaka stórum steinum hér og þar. Nú heyrðist niðurinn frá læknum í brattri fjallshlíðinni og dýpkaði kyrrðina í kringum mig. Ég bað um einn lítinn sólargeisla, eitt bjart augnablik, að ég mætti sjá grænt hvolfið í svipsýn. Ó, þessi græni skæri litur. Ó, að mér gæfist andartaks sólskin, eitt andartak í albjörtu sólskini, og ég skal einskis biðja framar . . .

Það tjóaði ekki að standa hér og bíða uppfyllingar óska sinna. Ég hélt á brattann, en brátt komst ég ekki hærra; ókleift bergið reis í fang mér og girti víkurkrikann landa á milli. Ég stjáklaði meðfram berginu, þreifaði á því, danglaði í það með hnýttum hnefa, eins og ég vildi þoka því til hliðar. Þannig hélt ég áfram um stund, síðan settist ég undir klettariðið og horfði í hug minn:

Hvers vegna að halda þessu áfram? Þetta var ekki í fyrsta sinn, sem ég hafði gengið meðfram hamraveggnum og freistað uppgöngu úr víkinni, en ævinlega árangurslaust. Einhvers staðar átti samt að vera op í hamragirðinguna, hestgengt skarð.

En var nokkurt skarð?

Hvernig var hægt að ganga framhjá því aftur og aftur, án þess að finna það? Myrkrið . . . Jú, það var hnausþykkt myrkur. En ég hafði hvað eftir annað þreifað á berginu berum höndum allt um kring, og hvergi getað fundið glufu, sem hægt væri að troða sér upp um, hvað þá hestgengt skarð. Kannski Jólfsvættirnir hafi tekið sig til og troðið upp í skaðið . . . Mér tókst ekki að telja úr mér kjarkinn, en hélt ótrauður áfram leitinni að skarðinu líkt og ég héldi mig þrátt fyrir allt grípa það báðum höndum á göngu minni meðfram bergveggnum.

Og það fór svo.

Skyndilega var mér leiðin upp á háfjallið greið og auðgengin. Skarðið var fundið. Ég stóð í því. Frískur öræfavindur lék um mig. Mér voru frjálsar leiðir til allra átta og kaus að halda þegar til bæjar að segja frá fundi mínum. Fyrir hreina tilviljun hafði ég loksins runnið á skarðið; klettur beint neðan undir því, sá skarfur hafði villt um fyrir mér í myrkrinu. Mér fannst ég hafa gert stórkostlega uppgötvun og himin höndum tekið: Það var hægt að komast upp úr þessari myrku steinþró, þar sem vitinn var staðsettur, og á alfaraleið milli byggða, er einu sinni stóðu í blóma, en nú voru löngu týndar. Í svipinn þótti mér sem ég hefði fundið þetta skarð fyrstur manna og að ekki mundu önnur skörð betri í víðri veröld.

Þegar niður á jafnsléttu kom fór ég að venju ótal krákustíga, áður en ég sá bæinn. Síðan lá ekkert á, fannst mér. Það mátti bíða agnarstund að segja góðar fréttir. 'i þessum svifum stóð Mósi hjá mér í dimmunni. Það brást naumast, að hann stæði kyrr, þegar ég nálgaðist hann, lyfti höfði og tifaði eyrum. Og Mósi fékk að heyra, hvernig ég fann skarðið. Hann kunni vel að meta góða sögu.

Og nú tók ég sprettinn. Heima leit ég eitthvað í svip Hlífar, er minnti á það sólskin, sem við bæði þráðum. Börnin voru fyrir löngu orðin þreytt á myrkrinu og inniverunni, en nú virtist mér hýrara yfir þeim en oft áður.

– Pabbi hringdi, sagði Hlíf. – Hann var að óska okkur til hamingju með Skuggabjörgin.

– Var gott samband?

– Já, bara sæmilegt.

– Ég hélt ekki, að pabbi þinn léti heyra til sín þetta fljótt.

– Það var ekki eftir neinu að bíða fyrir hann. Hann veit, að við erum ekki þeir kálfar að hlaupa að óreyndu frá því starfi, sem við tökum að okkur.

– Nei, en fær hann ekki seint skilið hvers vegna við hlupum einmitt hingað?

– Ósköp ertu eitthvað skemmtilega mikið á lofti, sagði hún. – Hvað hefur komið fyrir?

– Það er ekkert smáræði. Þú skalt búa þig undir að heyra mikil tíðindi.

Nú rann upp fyrir hanni ljós og hún sagði:

– Er það skarðið?

– Já, ég hef fundið skarðið.

Hún þekkti söguna um leit mína að skarðinu. Nú sagði ég henni frá því hvernig gátan leystist.

Hún hló.

– Nei, þú mátt ekki hlæja að mér, Hlíf, sagði ég.

– Ég er eins mikið að hlæja að sjálfri mér og þér. Þú varst næstum búinn að fá mig til að trúa því, að þetta skarð væri ekki til í dæminu.


Lífsorrustan – X (5) –