Iðunn
Reykjavík, 1964
X.
Loksins kom fyrsti sólargeislinn. Enginn dauðlegur maður hefur litið fegurra sólskin en við þennan dag. Ekkert gras var grænna en grasið okkar, engin fjöll svipmeiri en fjöllin okkar, enginn sjór blárri en sjórinn okkar. Það var eitt fjall og mörg fjöll, það voru blá fjöll, rauð og græn fjöll, bein og brúnahvöss fjöll. Og dröngum og skerjum líkt og skaut upp úr sjónum, og fuglar flugu hvarvetna. Og nú sáum við vitann í fyrsta sinn í sínu rétta umhverfi; hringlaga súla, hvít og rauð, með brjóstriði efst, og trjónaði á háhömrunum kippkorn fyrir utan lendinguna. Við gengum um sjóvott túnið, og börnin hlupu í slóð okkar og fögnuðu sólskininu. Nýjar og nýjar myndir komu og fóru, bjartar sólskinsmyndir, eitthvað, sem ekki var af þessum heimi. Þó var það heimurinn okkar. Annars dró fljótt fyrir sólu aftur og gerði dumbungsveður. En okkur hafði verið gefinn einn geisli og kannski áttum við hann ennþá. Lítill drengur hljóp um í varpanum og söng:Ha, hæ, hó,
dimman dó.
Hæ, hæ, hó,
sólin hló.
Það var kyrrð og blíða þótt ekki væri bjartviðri. Ég reri upp á hvern dag og aflaði vel, bæði af fiski og fugli . . . Eina nóttina hrökk ég upp af fasta svefni við vond umskipti. Það var kominn norðan stormur með miklu úrfelli. Veður og vindar, þessi öfl höfðu verið mér framandi, ég fann það bezt nú, þegar veðrið var í flestu, sem ég gerði og hugsaði. Minnsti goluþytur talaði sérstöku máli og átti persónulegt erindi við mig. Vindur og sjólag réð miklu um, hvað ég gerði og gerði ekki. Í gær sólskin, í dag stormur. Það drundi í húsinu, þegar stærstu rokurnar riðu á því, rigningin eins og foss á rúðunum. Og báturinn . . . Allt í einu sá ég bátinn fyrir mér, þar sem hann lá í urðinni undir Hömrunum . . .
– Hvað er að, þú kallar á mig? sagði Hlíf í svefnrofunum.
– Það er báturinn. Mér láðist að setja hann upp undir bergið, kom ekki í hug að hann hvessti.
– Heldurðu . . . ? Hún sagði ekki meira, hvorugt okkar. Það var aðeins bundið upp af bátnum og flóðið nýafstaðið. Við köstuðum á okkur einhverjum flíkum, svo streittumst við gegn veðrinu til sjávar. Sjóirnir þrumdu á urðinni, rigningin lamdi á berginu yfir okkur. Steinn fló úr hömrunum og kvarnaðist í grjótinu skammt frá okkur. Við tókum naumast eftir því.
Hvar var báturinn?
Hafði einhver óvættur hrundið honum út í brimgarðinn? Ég hafði ekki hirt um hann sem skyldi. Hvar stæðum við án hans? . . . Við hlupum í rigningunni og storminum eins hratt og við komumst. Og hérna . . . þetta var staðurinn, þarna átti hann að vera.
– Sérðu hann? hrópuðum við bæði.
Við sáum hann ekki. Snöggvast þótti mér sem ég með hugsunarleysi mínu hefði rænt okkur aleigunni. Eitthvað hvítt og úfið kom æðandi á móti okkur –, sjóirnir, og sædrifið dundi um okkur.
Þá sá hún bátinn.
– Hann er þarna, kallaði hún.
– Hvar?
– Þarna.
Ég sá hann, og við sáum hann bæði. Hann hékk á kaðlinum, sem ég hafði bundið upp af honum við grjótið. Brimið hafði kastað honum til í urðinni. Við héldum honum á réttum kili. Næstu augnablikin vissi ég naumast hvað gerðist, en báturinn hófst á milli okkar, og hann og við bárumst með aðsoginu upp urðina. Útsogið svarraði. Við fengum staðið það af okkur, læstum höndum í bátinn, sem hafði skorðazt í grjótinu. Á milli sjóa tókst okkur að smámjaka bátnum upp urðina. Loks stóð hann með stafninn í bergið. Ég kraup meðfram honum, þreifaði á honum, eins og ég væri að leita eftir aumum bletti á sjálfum mér.
– Er hann heill? kallaði Hlíf.
– Hann er heill, kallaði ég á móti.
Við brugðum yfir hann köðlum og súrruðum hann niður við grjótið.
– Nú getur ekkert afl hrifsað hann frá okkur, sagði ég.
Hún gekk fast við hlið mér í storminum og úrfellinu, sömu leið og við höfðum komið. Steinvölur féllu hátt úr hömrunum og flugu í kringum okkur. Við hugsuðum um bátinn. Enginn vissi, hversu mikils virði hann var okkur, nema við tvö, og við vissum það fyrst nú, þegar við höfðum tapað honum og fundið hann aftur.
Á bak illviðrinu brauzt sólin fram í fullu veldi. Ég gekk inn á hálendið og horfði á fjöllin þúsund, sem skildu á milli okkar og fólksins í landinu. Fjall á bak við fjall. Mundi ekki einhver segja, að hér væri ég eins og duftkornið í eyðimörkinni? Hvað fannst mér sjálfum? Ég horfði lengi á fjarlæga tinda, setti þá á mig, seiddi þá inn í hug minn, fékk þeim samastað hið innra með mér, horfði líka sömu augum á það, sem nær var; hóla og hæðir, kletta og giljadrög. Og eitt lítið fjallablóm leit til mín í djúpri kyrrð, sem ekkert hljóð fékk rofið. Lengi rölti ég um þessar blágrýtisurðir. Einstaka fell voru með jökulskafla á tindum og efstu brúnum. Á stöku stað voru blá kyrr tjarnaraugu í auðninni og spegluðu himininn og flosmjúk hvít ský, sem liðu áfram fyrir sunnan andvara. Og það var dýjamosi, svo fagurgrænn, svo unaðslega gulur og brúnn, að mig tók í innstu taugar . . . Loks kom ég á fjallaskarð. Þaðan sá ofan í næstu vík fyrir norðan okkur, breiða og djúpa vík, sem náði langt inn til landsins. Flugbrattar brekkur fyrir neðan skarðið, og héðan sá til margra bæja í hlíðum og dalverpum. Þegar grannt var skoðað, voru flestir bæirnir hálfhrundir og sumir alveg í rúst. Ég gerði stanz hjá einni slíkri bæjarrúst: Enginn mundi byggja þennan bæ upp í náinni framtíð og kannski aldrei. Eitt sinn hafði hann verið veltimbraður og hýst manneskjur ættlið eftir ættlið. Mér hugkvæmdist að hverfa áratugi aftur í tímann og hitta bóndann að máli. Þetta var mesti hæglætis maður, lét lítið yfir sér og sínum, var verkmaður góður til sjós og lands og kunni vel að segja sögu. Hér höfðu forfeður hans búið á sama hátt og hann sjálfur. Honum hafði ekki verið fleygt inn í hringiðu nýrra lífshátta, sem áttu sér engar rætur í honum sjálfum og hann eða hans kunnu engin skil á. Hann lifði ekki á vélaöld, þar sem er enginn fastur punktur. Hlutirnir urðu ekki úreltir og ónýtir í höndum hans, áður en hann lærði að þekkja þá. Hin fábreyttu vinnubrögð voru hin einu sjálfsögðu vinnubrögð. Hann þurfti ekki að læra allt upp aftur á fárra ára millibili. Vélin var ekki til fyrir þessum manni, heldur ekki heimsstríðið. Hann þekkti þetta hvorutveggja aðeins af óljósum sögusögnum, það varð ekki partur af lífi hans – og hraðinn óþekkt fyrirbæri. Þessi bóndi bjó við hin frumstæðustu skilyrði, en hann stóð föstum fótum á jörðinni og kunni þá dýru list að lifa lífinu í samræmi við aðstæður. Gott og vont var naumast til í hugarheimi þessa manns. Allt var bærilegt. Þessi bóndi hafði ekkert á lausu. Lífssýn hans speglaðist í viðmóti hans og framgöngu og setti mark sitt á flest, sem hann gerði.
Utar með víkinni og nærri sjónum stóð örlítið býli heilt og óskemmt, nema hurðin var fokin burt. Mér fannst sem gömul kona sæti fyrir innan gluggann og byði mér góðan dag, þótt komið væri kvöld.
– Af hverju sýndist þér hún vera mjög gömul kona? spurði Hlíf, þegar ég kom heim og sagði fréttir af ferðum mínum.
– Það er víst, að hún er fjörgömul, sagði ég.
– Hvað sagði hún við þig?
– Hún er búin að týna niður öllum óþarfaorðum, og flest orð eru óþörf.
– Hún bauð þér góðan dag.
– Já, og komdu sæll, vertu sæll og góða nótt, það eru hennar orð . . . Og eftir stutta þögn. – Hún sagði þetta við okkur bæði. Leiðin liggur um hlaðið hjá henni, ef við eigum einhvern tíma erindi norður í vík. Það er langt á milli ykkar, en þú ert nábúakona hennar, og henni þykir gott að eiga þig fyrir vin.
Hvergi þótti mér betra en á sjónum, þegar fiskurinn vakti og sótti á öngulinn; fiskaði sig sjálfur, eins og ég sagði að gamni mínu. Hann var að fiska sig sjálfur núna og titraði í greip minni, gapti rauðum tálknum. Ég var alllangt undan, báturinn hjó í gráðið, aldan þyngdist, byrjaði að hvessa af hafi. Lítil fleyta á veglausu úthafinu: bezt að hafa sig að landi, þótt erfitt væri að slíta sig frá færinu. Eftir skamman róður varð ég var við mann um borð. Þetta var ekki algjör nýlunda. Ég var sjaldnast langtímum einn á sjónum. Hvernig þessir menn komust um borð, þeir um það. Hinn nýkomni sat á þóftunni gegnt mér. Það var járnsmiðurinn, sem ég hafði séð í Jafetsspeglunum, horfði á glaða ölduna, eins og hún væri hans eina eftirlæti, og sagði:
– Þú ætlar að gera úr mér sögu.
– Allir menn eru brot úr sögu, sagði ég. – Þú lemur heitt járnið. Neistaflugið drífur um þig. Væri ekki betra að hafa meiri aðgæzlu?
– Heldurðu að ég móti járnið, ef ég hika með hamarinn á lofti?
– Hvað þýða þessi högg þín?
– Þau þýða það, að mér tekst að koma lagi á járnbútinn.
– Gleymdu ekki neistafluginu, sem hrynur af steðjanum. Svona járnsmiður, eins og þú, hann er allt í einu farinn að kveikja í út frá sér.
– Kveikja í, ætlarðu að gera mig að skemmdarvargi? Á ég að brenna húsin ofan af fólkinu?
– Þú veizt betur.
– Það held ég ekki.
– Ójú, karlinn. Þú kveikir í fólkinu. Þarna stendur það í ljósum logum af þínum völdum, og hver reynir að slökkva í sjálfum sér eins og hann bezt getur.
– Tekst það?
– Tekst og tekst ekki. Eldarnir, sem við kveikjum, brenna heitast í eigin barmi.
Járnsmiðurinn horfði á mig föstum svip og sagði föstum rómi:
– Reyndu ekki að bjarga mér, ef ill fer fyrir mér, eins og það er kallað. Ef ég leysi mig ekki sjálfur, þá gerir þú það ekki heldur.
Samtalið snögghætti, eins og klippt væri á þráð. Ég var kominn upp undir landtökuklettinn. Boðar risu og hnigu. Hvítur foss á bæði borð. Þungur hrynjandi í lofti frá fallandi bárum. Svona var oft, stríð alda, sem lífgaði í manni fjörfiskinn. Góð lög á milli. Fann þau á mér í réttan tíma. Ættararfur, gulli betri fyrir útskagakarlinn. Ég beið. Og Hlíf beið í fjörunni. Eftir litla stund var allt um garð gengið, ég lendur án þess nokkuð bæri út af.
– Eru ný tíðindi af sjónum? spurði hún kankvíslega.
– Nei, allt við þetta sama, anzaði ég og dró við mig orðin.
– Kom járnsmiðurinn? spurði hún.
– Hvers vegna dettur þér járnsmiðurinn í hug?
– hef ekkert heyrt frá honum síðustu dagana.
Við vorum byrjuð að gera að aflanum og kímdum bæði. Hún hafði haft einhverjar sagnir af því, að stundum slæddist maður og maður um borð í vitafleytuna.