Óskar Aðalsteinn

L Í F S O R R U S T A N

Skáldsaga

 

 

Iðunn
Reykjavík, 1964

Copyright ©1964
All rights reserved


ANNAR HLUTI


X.

(bls. 114)
Einn dag bar það til tíðinda, að ég fletti upp í Íslenzkum þjóðháttum eftir Jónas frá Hrafnagili og þuldi í hálfum hljóðum. Á þessu gekk góða stund. Loks varð Hlíf að orði: – Ætlaður að læra heyskapinn af bók?

Ég horfði á hana eins og forpokaður kennari, tók henni glettnina óstinnt upp og sagði:

– Sannaðu þekkingu þína í þessum efnum. Segðu mér, hvað heita orfhælarnir og hvað eru þeir margir?

– Eins og það sé nokkur vandi að spyrja upp úr bók, anzaði hún. – Þú veist ekki einu sinni, hvernig á að halda á orfinu.

Ég strangalvarlegur:

– Það er enginn Íslendingur svo tröllheimskur, að hann haldi öfugt á orfinu.

Hún hló.

– Þetta er satt, sagði ég fastmæltur, leit í bókina og bætti við með lestrarhreim. – Það hefur verið talið sjálfsagt að slá tún, þegar biðukollur færu að myndast.

– Það er gott og blessað, sagði hún. – Vandinn er samt óleystur, því hvað eru biðukollur?

Hún var svo tælandi glaðleg, að mér var næst skapi að gleyma þeim forpokaða kennara, sem ég var að burðast við að vera, en sagði þó þurrum rómi:

– Það er létt verk að snúa út úr fyrir manni. Þú hefur engu svarað um orfhælana, en þeir eru tveir, sá efri heitir kerling, sá neðri karl, en húnninn bónakarl.

– Þarna fór illa, sagði hún. – Tveir karlar og ein kerling á sama bæ, á slíku heimili er friðurinn úti.

Ég hætti að vera þessi leiðinlegi kennari og elti hana í kringum matborðið, náði henni ekki fyrr en eftir mikið hringsól og sagði:

– Nú verð ég að fara.

– Hvað ætlaður að gera?

– Slá.

– Það er ekki hundi út sigandi.

– Þá er bezt. Þetta er rekjan. Og biðukollan fokin út í veður og vind.

Svo stóð ég í túninu. Undir eins bar ég orfið rétt við mig. Þetta er í blóðinu. Allar kynslóðir á Íslandi, utan sú síðasta, hafa slegið með orfi og ljá. Og þarna stóðu stráin, eftir að ég hafði slegið þau, líkt og hér væri kominn meistari Magnús sálarháski. En nóta bene, stráin stóðu raunar flest rótföst, eftir að ég hafði reitt ljáinn að þeim. Þau Grána og Mósi komu að girðingunni og gláptu á mig.

– Hvað eruð þið að góna? hrökk út úr mér.

Þau voru á svipinn líkt og þau vildu segja:

– Hvers konar fífl er hlaupið í túnið?

– Bráðum hleð ég múgum, sagði ég rogginn.

Þau ruku burt í fússi.

Ég var einn eftir með orfið og barði í kringum mig í jötunmóð, skar ofan af stráunum eða lagði þau hreinlega út af, án þess að losa þau frá rótinni. Og mínir góðu skárar voru skurðir í svörðinn. Hlíf kom og sagði, að þetta væri ekki nokkru lagi líkt.

– Þetta hvað? hváði ég.

– Að standa á að þarflausu í svona vatnsaustri.

– Heldurðu það gangi betur í sólbreiskjunni?

– Þetta lærist fljótt, sagði hún.

– Hvað þarf að læra, það er ekki stórt að læra, anzaði ég.

Hún hló.

Mér var ómögulegt að hlæja með henni. Satt að segja var ég farinn að efast um, að mér tækist nokkurn tíma að hafa ofan í beljuna.

– Komdu inn og fáðu þér sopa, sagði Hlíf.

Sopinn var alltaf vel þeginn. Ég gaf mér ekki tíma til að setjast niður, en skvetti í mig úr bollanum frammi í dyrum, var síðan aftur rokinn á teiginn. Og viti menn; það var sem orfið væri ekki sama þrælslega amboðið og áður. Það rétt að kalla lék í höndunum á mér. Mér varð á að hætta og skoða gripinn vandlega. Að sjálfsögðu var þetta sama spíkin. Hver átti að hafa skipt um hana? Ef eitthvað hafði gerzt, þá hafði skipt um mig. Skyndilega kunni ég réttu tökin, kunni að slá. Svona einfalt var það. Hvað hafði Hlíf ekki sagt, og hverju hafði ég ekki svarað henni. Hæ –hó. Ég sló eins og fæddur snillingur, hlóð múgum, sem ég er lifandi maður, stórum bólgnum múgum.

Um nóttina dreymdi mig, að ég stæði á og reiddi orfið. Ég sló túnið leikandi létt á örstuttri stundu. Það var tíu sinnum stærra en í raunveruleikanum. Hlíf kom í slægjuna til mín, í bláum klæðum huldunnar, með slegið gullhárið og gullbelti um sig miðja, leit á öll þessi ókjör af grasi og sagði alvarleg í bragði:

– Þetta er ekki nema ofan í beljuna.

– Ætli það sé nema upp í nös á ketti, anzaði ég – og þar með var draumurinn búinn.

En í alvöru – hvað þurfti ég mikið af töðu til þess að vera birgur? Um morguninn stalst ég enn í Þjóðhættina. Og þarna stóð það skýrum stöfum. Ekki var þetta neitt til að fárast út af. Álfkonan í draumnum var heldur stórtæk, blessuð. Það var gott. Sízt yrði ég of birgur í sláttarlok.

Eftir hádegið glaðnaði til. Börnin léku sér í slægjunni. Hlíf dreifði úr. Ég var álíka uppbólginn og múgarnir, sem ég hlóð, leit um öxl mér og sagði við konuna:

– Þú þenur þig aldeilis.

Hún svaraði um hæl:

– Bíddu bara, þar til ég raka þig upp að rassi.

– Kannt líka að vitna í Þjóðhættina, anzaði ég upp úr miðri skorpunni.

Um kvöldið breiddi flekkurinn fagurlega úr sér í túninu.

– Við verðum að ná þessum stráum upp áður en rignir, varð mér að orði.

Huldan mín sagði:

– Og afsanna þar með Jólfskenninguna.

Við áttum ekkert flatt í næsta úrfelli. Svo fengum við að sjálfsögðu ofan í þegar verst gegndi. Hvenær kemur ofan í undir öðrum kringumstæðum?

 

Á reiðingsbogann okkar var skráð ártalið 1897. Mundu ekki fáir trúa því, að við notuðumst við amboð, sem var þrefalt eldra en við sjálf? En þetta var mesta þarfaþing. Það þurfti aðeins að kippa í spotta, svo hlypi ofna af. Við vorum líka ekki lítið hrifin af þessu amboði. Við vorum líka rígmontin af orfinu og ljánum og hrífunni og hestakerrunni. Hér sást fátt eitt af tuttugustu öldinni. Við vorum einyrkjar á átjándu öld og allt aftur í gráa forneskju. Einhvers staðar í órafjarlægð var tuttugasta öldin og vélin í fullum gangi. Mér varð litið á skínandi hafflötinn og sagði:

– En sú blessuð blíða dag eftir dag.

– Það er einmuna bjart og kyrrt, sagði Hlíf.

– Kyrrð og birta, hafði ég upp eftir henni.

Kannski voru þetta einu orðin, sem okkur langaði til að segja í svipinn. Íveruhúsið gleymdist löngum. Við áttum helzt heima við lækinn og á þerrivellinum og í hvolfinu inn af víkinni. Börnin sofnuðu iðulega í flekknum eftir daglangan leik. Um lágnættið sveif sólin með haffletinum, svo hvarf hún litla stund, einungis til að koma aftur. Garðar fékk að sitja ofna í milli, þegar heyið var flutt í hlöðu, annar var hann á sífelldu stjái út um öll foldarból og talaði við Mósa og Gránu og Neró, líkt og þau væru manneskjur. Ragna trítlaði við hlið bróður síns næstum hvert sem hann fór. Stundum gaf hún okkur blóm og strá. Stráið var skært blóm, þegar hún rétti okkur það.

Ekki bauð okkur í grun, að kyrrðin yrði snögglega rofin.

Það var árla morguns, ég nýkomin á sjó; logn, blá loft, hafið spegill. Svo umturnaðist allt í einni svipan. Bálviðri skollið á. Spegill hafsins molaðist eins og undan þungu höggi. Brimskaflar risu. Bátinn rak örhratt í átt til lands. Víkin eitt brot. Engin stund milli ólaga. Dulið heljarafl hafði mig á valdi sínu, henti bátnum í loftköstum og öskraði á mig úr hverjum bárufaldi. Ég barðist við að víkja bátnum undan stærstu sjóunum, kom litlum vörnum við, fékk brimhvolfurnar yfir mig aftur og aftur.

Hvernig ég komst úr þessari ógn; ég veit það ekki. Það var sem margt gerðist í einni svipan. Nokkrum sinnum sá ég landtökuklettinn rísa skammt undan. Þá eins og dró úr ferðinni á bátnum. Litlu seinna fann ég landjörðina undir fótum mér. Hlíf var þar fyrir. Okkur tókst að hemja bátinn og koma honum undan sjóunum. Ekkert orð kom fram yfir varir okkar, meðan við vorum í fjöru. Hún hafði orðið að loka börnin inni. Þau voru hrædd og grétu lengi eftir að við komum heim.

Hver skyldi trúa því, að ekkert sæi eftir af óveðrinu næsta morgun. Þá voru blá loft og hafið spegill, kyrrðin slík, að stakur fugl heyrðist blaka væng úti á víkinni. Djúpt í brjóstinu vakti ódeyfður sársauki eftir hamfarirnar og magnaði sóltöfrana nær því óbærilegum fögnuði . . . Undir kvöld kom ég að Fallegutjörn, sem ég nefndi svo, þegar ég leit hana fyrst snemma í sumar. Fallegatjörn var alllangt inni á hálendinu, stóð undir gróðurlausu felli, umkringd stórgrýtisurð. Álftahjón undu á tjörninni með unga sína, fannhvít fjölskylda, lifandi mjallarbrim, og þokaði sér þétt saman á bláskyggðum vatnsfletinum. Þessi sýn, mitt í auðninni, var mér jafnný í kvöld og þegar ég leit hana fyrst. Hafði ekki einhver völva tekið mig undir arm sinn . . . ?

Ég var lengur að heiman en ég hafði gert ráð fyrir. Það var oft þannig þegar ég fór í leiðangur. Svo var ég ekki fyrr kominn í hús en ég varð þar einn eftir með börnunum. Hlíf hélt áleiðis inn að Fallegutjörn, kvaðst eiga þangað heimboð í kvöld. Hún hafði ekki fyrr farið ein síns liðs burt frá bænum, og það var nær því tveggja stunda gangur að tjörninni. Ég hafði ýst fyrir henni leiðinni eins og ég bezt kunni. Var samt ekki hæpið, að hún fyndi Fallegutjörn?

Skömmu fyrir lágnættið festi ég smáblund. Svo var ég glaðvaknaður og þótti sem rökkrið væri niðamyrkur, gekk út og horfði upp í skarðið.

Engin hreyfing.

Hún ætti að vera komin aftur. Hvað tafði hana? Ekki veit ég, hversu oft ég fór inn og út, gat enga stund verið kyrr. Það var rökkur litla stund, þótt mér þætti það eilífðartími. Svo birti fljótt.

Þá sá ég unga konu í ljósum klæðum hátt í hlíðinni.

Hvar skyldi þessi kona vera? Ég þóttist ekki alveg öruggur og vildi því ekkert segja. Mig langaði til að vekja börnin og taka þau með mér út á túnið, en sat á mér og fór í rúmið. Litlu seinna hóf ég sama rápið og var nýlagztur fyrir, þegar Hlíf kom. Að sjálfsögðu var ég steinsofandi, annað kom ekki til mála. Ég heyrði hana fara af klæðum og sagði upp úr svefninum:

– Var einhver dís svo góð að fylgja þér að Fallegutjörn?

– Það er mér næst að halda, sagði hún. – Ég kom að tjörninni í glampandi sólskini.

Nú mundi ég eftir sofandi manninum og sagði:

– Ég hef sofið eins og rotaður selur.

Hún hló.

– Hvað? sagði ég og gleymdi að hafa aftur augun.

– Ég sá þig fimm sinnum úti á hlaði. Þér hefur ekki komið dúr á auga, sagði hún, steypti yfir sig náttserknum og kom til mín.


Lífsorrustan – X (7) –