Óskar Aðalsteinn

L Í F S O R R U S T A N

Skáldsaga

 

 

Iðunn
Reykjavík, 1964

Copyright ©1964
All rights reserved


ANNAR HLUTI


XI.

(bls. 120)
Í fyrstu snjóum gerðist það eitt sinn, að Garðar kom þjótandi að utan og hrópaði:

– Það eru komnir menn!

– Menn? sögðum við einum rómi.

– Já, já, menn. Þeir eru uppi í fjalli.

– Eru þeir margir? spurði ég.

– Það er einn lítill og einn stór.

Við Hlíf litum hvort á annað. Drengurinn trúði því sýnilega, að hann hefði séð menn í fjallinu, togaði í höndina á mér og sagði:

– Komdu, pabbi, komdu og sjáðu.

Þegar út kom, benti Garðar til fjalls og sagði:

– Þarna, sjáið þið bara . . . þarna . . . lítill karl og stór karl.

Við reyndum að sjá það, sem Garðar sá. Hlíf varð fyrri til að veita því eftirtekt. Það voru tvær mannamyndir, sem komu fram í snjóbörðum klettum fyrir neðan skarðið. Hún talaði við Garðar um myndirnar. Hún sagði honum, að þetta væru bara snjómenn, eins og hann væri sjálfur að búa til stundum. Hann vildi ekki sanzast á þetta, fyrr en við hjálpuðum honum að byggja snjóhús, og svo varð snjókarl og snjókerling að standa fyrir framan húsið.

Að hugsa sér að sjá ókunna menn, tala við þá, skipta hugsunum við þá, glaðlegar samræður, nýjar raddir, svo voru þetta bara snjómenn. Annars þurftum við ekki að kvarta í þessum efnum. Það var gestkvæmt hjá okkur flest kvöld, já, ég las upphátt úr sögubókum. Sögupersónurnar kom kvöld eftir kvöld, sumar þeirra hurfu ekki aftur á brott. Brátt varð mikill viðburður; vitaskipið kom. Ólendandi við vitann, svo ég ákvað að fá brýnustu lífsnauðsynjar lagðar á land norður í vík. Við áttum enga kaffibaun og mjölvaran á þrotum.

– Það er langt aðsækja þetta norður í vík, sagði Hlíf.

– Ég hef tímann fyrir mér.

– Færðin er slæm, Vörður, glerhálka á fjallinu. Þú getur ekki komið hestinum við.

– Ég fer þetta á járnum. Það smávinnst.

Og það smávannst. Verst var að klungrast um flughálar skarðsbrekkurnar þarna norður frá. Varningnum höfðu þeir komið fyrir í sjávarhúsi, sem stóð á malarkambi undir háum bökkum. Ég hafði jafnvel búizt við að sjá ekki neitt af þessu fyrst um sinn. Kannski er dýrasti munaðurinn í því fólginn að láta sig vanta það, sem ekki er hægt að vera án. Ég batt upp á mig í bak og fyrir, eins og ég þóttist geta borið, og lagði þegar af stað heimleiðis. Leið mín lá um hlaðið hjá gömlu konunni. Áðan, þegar ég gekk hjá garði hennar, sá ég ekkert til hennar. Nú þótti mér sem hún væri við gluggann og talaði til mín:

– Góðan daginn, sagði gamla konan.

– Ég mun eiga mörg spor fyrir gluggann þinn á næstunni, sagði ég.

– Góða nótt, sagði gamla konan. Hún var svo gömul, að hún talaði úr eilífðinni og sagði því jafnan réttu orðin.

Kaffið ilmaði svo að segja áður en ég kom inn úr dyrunum heima hjá mér. Krakkarnir fengu sælgæti og smáleikföng. Póstskjóðan var útbelgd af fréttum og furðusögum um umheiminn. Enginn tími til að hyggja að slíku í bráð. Ég hafði naumast fyrr fundið kaffibragðið á tungu minni en ég stóð á fætur og ferðbjóst.

– Ætlarðu aðra ferð í dag? spurði Hlíf.

– Já, ég kem kannski nokkuð seint heim. En það er tunglskin og sjálfsagt að nota veðrið á meðan það er gott.

Hún hneppti að mér úlpunni og sagði:

– Skilaðu kveðju minni til gömlu konunnar. Mér þykir gott að vita af henni þarna, þegar þú ert einn á ferð.

– Góða nótt, sagði ég að gamni mínu og lagði upp í nýja ferð norður í vík.

 

Það gerði blota og vonzkuveður, áður en mér tókst að ná heim allri vörunni. Brátt batnaði aftur, færð á fjallinu var með bezta móti, og ég hafði Mósa með mér norður í vík. Eitt sinn þegar ég kom úr ferð síðla dags, hafði Hlíf borið lostæti á borð, en enginn maður sýnilegur, hvorki í eldhúsinu eða stofunni. Átti ég að trúa því, að komnir væru gestir? Höfðu kannski snjómennirnir breyst í venjulega menn? Og hvar var fólkið? Ég fann Hlíf í skrifstofunni, sem ég nefndi svo. Hún sat við skriftir. Börnin léku sér á gólfinu.

– Hvað er nú? varð mér að orði.

– Ég er að slá botninn í bréfið til Rúnu. Það eru komnir menn . . . Hún hló.

– Hvaða menn? datt út úr mér.

– Þú mátt gæta þín, Vörður. Bezt fyrir þig að fara í felur strax, var svarið.

Ég leit í kringum mig.

– Hér er enginn gagnlegur felustaður, sagði hún spozkum rómi. – Hingað eru komnir embættismenn, hreppsnefndarmaður og vitni.

– Eru þeir kannski farnir yfir fjall að leita mín?

– Þeir lögðu sig eftir matinn. Ég held þeir hafi ekki ennþá orðið þín varir. Þeir eru úr nyrztu byggðinni fyrir austan okkur.

– Hvað voru þeir lengi á leiðinni norður? spurði ég hálfvegis út í loftið.

– Það veit ég ekki, en þeir eiga trillu austur í næstu vík, töldu ólendandi við vitann.

– Þetta er ekkert spaug, sagði ég.

Garðar hljóp fram og aftur um gólfið, svo kom hann snöggvast til mín og sagði:

– Þeir eru góðir, pabbi minn. Þeir gretta sig og hlæja.

– Jæja, sagði ég.

Garðar hvarf aftur að gullunum sínum. Einn glugginn var kræktur upp. Nú heyrðist greinilegt fótatak, sem staðnæmdist hjá glugganum, síðan kvað við mjó og lífleg rödd:

– Hver veit nema hann sé heima við, maðurinn, þótt blessuð konan segi annað. Þessir fantar eru kræfir.

Hlíf stóð við hlið mér og hvíslaði broshýr:

– Þetta var Aron, vitnið.

– Hann hefur falið sig í fjárhúsunum, sagði hæglætisleg rödd undir glugganum, full með glettni.

– Þetta var Vilmundur hreppsnefndarmaður, hvíslaði Hlíf og bætti við, þegar ekkert var sagt undir glugganum: – Hann fór þessa ferð fyrir föður sinn, hreppstjórann, sem er orðinn heilsuveill og ekki til langferða. Og allt er þetta úr af Magnavíxlinum, sem þú skrifaðir upp á í fyrrasumar.

– Nú þannig, hvíslaði ég á móti. – Víxillinn hefur verið afsagður.

Hún átti erfitt með að hlægja ekki upphátt:

– Já, Vilmundur er með stefnu á þig, maður. Þú átt að mæta hjá yfirvöldunum fyrir sunnan.

Ræskingar undir glugganum, svo sagði Aronsröddin:

– Ha, falið sig, í fjárhúsunum, segirðu. Herjans dólgur er hann, ef . . . ef þú ert ekki að glenzast.

Vilmundarröddin:

– Náðu í handjárnin fyrir mig, þau eru í pokanum mínum.

Aron:

– Guð hjálpi þér, Vilmundur. Seint myndi hann faðir þinn úttala sig svona gáleysislega um alvörumál. En komdu nú, höfum tal af manninum . . .

Raddirnar fjarlægðust. Næstum samtímis sáum við tvo menn í túninu. Annar vildi sýnilega varna hinum að halda í átt til fjárhúsanna. Það mundi vera Vilmundur, ungur og vasklegur maður að sjá. Aron var langur og mjósleginn, gráhærður og við aldur, en furðu snerpulegur í fasi og snerist réttsælis og rangsælis í kringum Vilmund í túninu.

– Þeir ætla að gera alvöru úr því að taka mig fastan, sagði ég.

– Sérðu Aron, sagði hún. – Hann er aldrei kyrr. Ég held Vilmundur sé alveg búinn að rugla karlinn. Hann sagði kostulegar sögur af Aroni og konu hans, Geirþrúði, svo Aron heyrði sjálfur. Þú hefðir átt að heyra til þeirra.

– Ég missi ekki af neinu, þeir verða í nótt. Og ég myndi fara með þeim í fyrramálið, ef sápuframleiðandi væri ekki aðalmaðurinn á víxlinum.

Garðar hafði þotið út, nú sáum við hann hjá gestunum í túninu.

– Hann er vís að segja þeim, hvar ég er, sagði ég.

– Áreiðanlega, Vörður. Ég skal fela þig í fataskápnum.

– Geymdu það til morguns, heilsum fyrst góðum gestum.

Aron tók undir sig stökk út á hlið, óðar og hann sá mig. Vilmundur brosti hýrlega . . .

Þeir félagar voru um kyrrt yfir blánóttina, en héldu heimleiðis strax í dögun.

 

Nú gerði löng byljaveður. Snjóþoturnar steyptu sér yfir bæinn af fullkomnu miskunnarleysi. Erfitt reyndist að koma veðurskeytunum í gegnum illviðrishaminn, en gekk þótt seint gengi. Leiðin út í vita gat orðið tafsöm og lá sums staðar tæpt á hamrabrúninni. Eftir því sem þessum ferðum fjölgaði, var eins og fæturnir rötuðu sjálfkrafa, skipti þá litlu þótt ekki sæi út úr augum. En til hvers var að kveikja á vitanum, hvað gagnaði að rífa snjóinn af vitarúðunum, fyrst enginn sá ljósið? Þannig spyr ekki vitavörður. Enginn veit hvenær hríðinni linnir og ljósið klýfur myrkrin langt til hafs.

Vitinn logaði. Þó sást ekki ljós. Slíkt er myrkrið í alveldi sínu. Dögum saman horfði vitinn blindum augum út í myrkrið. Svo kom upprof. Þá brauzt ljósið fram, brimandi ljós, sem leið hægt en örugglega út yfir sollinn hafflötinn. Samtímis sáum við annað vitaljós í miklum fjarska.

– Oft horfi ég á þetta ljós, Vörður, sagði Hlíf. – Er fólk þarna?

– Sömu hjónin voru þar í þrjá áratugi. Síðustu árin hefur gengið illa að fá þangað fólk.

Hún sagði ekkert. Við horfðum á vitaljósið. Tveir vitar – og heilsuðust um óraveg í gegnum myrkrin.

– Hvað kom þér í hug? sagði hún.

– Að þeir sjái hvor til annars.

– Mér kom það líka í hug, sagði hún.

Það var upprof á milli bylja, en fljótlega gerði sama moldviðrið aftur. Þegar ögn birti á ný, hugsaði ég til hreyfings. Í vetrarbyrjun fann ég skothús spottakorn inni á hálendinu, svolítið kofahróf, rétt að maður gat troðið sér inn í hann með byssuna, ákjósanlegur verustaður eftir langar innisetur heima í bæ. Og nú var ég albúinn til skothúsferðar. Það var snemma dags og dimmt yfir.

– Allt annað en einsýnt veðurútlit, sagði Hlíf. – Hann skellur yfir fyrr en varir.

– Við sjáum til með það. Ég á stutt heim úr kofanum.

– Kuldinn er bitur, sagði hún.

– Ekki til skaða, ég er vel búinn.

– Kemurðu aftur fyrir nóttina?

– Þætti þér verra þó ég kæmi ekki fyrr en á morgun?

– Ég veit, að þú verður þar ekki, nema sæmilega fari um þig, sagði hún og kallaði á börnin til að kveðja mig.

Stuttu seinna hélt ég að heiman á skíðum. Það var djúpfenni og vafðist fyrir mér að hafa upp á kofanum, að síðustu datt ég ofna á hann fyrir tilviljun. Svo bjóst ég um, eins og föng voru til, lá á grúfu með höfuðið fram í byrgismunnann, og lét byssuna vera sem næst mér. Út í snjóinn hafði ég borið æti fyrir refinn. Þegar ég kom úr fyrstu skothúsferðinni, varð Hlíf að orði:

– Ekki gæti ég legið svona ein tímum saman úti á eyðihjarni.

– Það er ekki eins afleitt og þú heldur.

– Þú ferð ekki eingöngu vegna tófunnar, sagði hún. – Það er eitthvað viðkomandi járnsmiðnum.

– Stundum er tilvalið að gleyma honum.

– Gleymirðu honum í skothúsinu?

– Það kemur fyrir.

– Eitthvað hugsarðu þó.

– Ekki þegar bezt lætur.

Mér þótti sem ég heyrði hlátur hennar inn í kofann til mín. Það var byrjað að hríða, en hann var hæglátur í því. Fljótlega kenndi ég kulda og stirðleika í skrokknum, fékk raunar kófið beint framan í mig, reis á fætur og hlóð að mestu upp í byrgismunnann.

Svo lá ég kyrr.

Í skothúsinu voru það óskráð lög að hafast ekkert að, að samsamast tímanum án þess að vita að hann sé til, og þó að vera sívökull hvert andartak fyrir hverju minnsta hljóði, sem barst að utan.

Þetta var hægara ort en gert. Fyrstu klukkustundirnar var líkami minn eitthvað allt annað en ég átti að venjast, fannst mér. Hann vildi ekki vera þessi kyrri drumbur, sem ég sagði honum að vera. Hann vildi hreyfa sig og mér virtist hann kvarta undan kulda að ástæðulausu. Þá átti heyrnin örðugt með að sætta sig við að fá ekkert andsvar. Ég stóð hana að því, hvað eftir annað, að búa til hljóð úr ímynduninni einni saman. Ásækin rödd sagði:

– Það er einhver að læðast úti í muggunni.

– Það er enginn að læðast, sagði ég.

– Stattu upp, sagði önnur rödd.

– Ég ætla ekki að fæla burt tófuna, anzaði ég.

Enn önnur rödd sagði:

– Fátt er ánægjulegra en að rétta hraustlega úr ganglimunum.

Ég þagði. Raddirnar héldu áfram, ein þeirra sagði þetta:

– Það er sérvizka úr þér að hafa ekki klukku. Nú getur þú ekki vitað, hvað tímanum líður.

Ég gat ekki orða bundizt og sagði:

– Klukkan er bezt þegar hún stendur eða þegar maður gleymir henni heima hjá sér.

Það vantaði ekki raddirnar, þær voru ísmeygilegar, mjúkar og í margs konar tælandi tilbrigðum. Og enn lét skrokkurinn ekki af sínu nauði. Annars varð hann einna fyrstur til að hlýða mér og hafa hægt um sig. Svo má illu venjast að gott þyki. Þar kom einnig, að raddirnar þokuðust fjær, með sitt suð og nudd um að gera eitthvað allt annað en við átti í skothúsi. Ég var orðinn tiltölulega sáttur við vistina í kofagreyinu um það bil sem myrkrið féll á. Ekki var liðið langt á nóttu, þegar það eitt var eftirsóknarvert að skilja ímyndun frá veruleikanum, að heyra þau hljóð ein, sem voru raunveruleg, að bíða án þess að bíða. Það er gömul og góð saga, að maðurinn hefur allt, þegar hann biður ekki um neitt.

Nóttin –, var hún löng eða stutt? Ég kann engar sögur um það. Hugsunin fór sér stundum svo hægt, að ég varð hannar nánast ekki var. Það voru beztu stundirnar í skothúsinu. Þá var heyrnin skörp án átaka, vakan léttari en létt.

Tófan kom í skotmál skömmu fyrir birtingu og féll fyrir kúlunni áður en hún fengi snert ætið. Mínútu fyrr var sem ég sæi í gegnum skothúsvegginn. Hún mjakaðist áfram með flenntar nasir og hungruð augu, nær og nær krásinni, nær og nær hinztu stund sinni. Veru minni í skothúsinu var ekki þar með lokið. Ég hélt þaðan heimleiðis með þrjár tófur síðla dags. Sjaldan var ánægjulegra að heilsa konu og börnum en eftir slíka ferð. Og það var nýtt að koma í fjósið. Grána var ný, og Mósi var nýr. Þá var járnsmiðurinn líka alveg nýr af nálinni. Satt bezt að segja hafði verið lítið mannsmót á honum upp á síðkastið. Nú kom hann aftur til dyranna eins og hann var klæddur og sagði við mig:

– Þú gerðir góðan túr.

Svar mitt kom hiklaust:

– Það kemur sér líka betur fyrir okkur báða.


Lífsorrustan – XI (8) –