Iðunn
Reykjavík, 1964
Óveðursnótt. Ég kveiki á stöðinni, ætlaði að lesa út veðrið, en fékk ekkert hljóð úr henni. Það hlupu stundum svona dyntir í hana. Oft dugði að dangla í kassann, svo hún færi að tala reiprennandi. Nú gekk hvorki né rak, hverju sem ég reyndi að finna upp á til úrbóta.– Hún verður góð í morgunsárið, sagði ég með sjálfum mér og fór að sofa.
Strax og birti hóf ég aftur að berja á kassanum í þeirri frómu von, að líf færðist í stöðina. Við hlustuðum öll af því engin rödd talaði til okkar að utan. Umheimurinn þagði.
– Erum við ekki minnsta mannkynið í allri tilverunni? sagði ég.
– Það er bara meðan stöðin þegir, sagði Hlíf.
Áður höfðum við vart tekið eftir því, að stöðin talaði, þar var svo sjálfsagt. Þegar hún hafði þagað daglangt, varð mér að orði:
– Hvað ætli sé að gerast úti í heiminum?
– Eitthvað meira en lítið, sagði Hlíf án þess að brosa.
– Af hverju heldurðu það?
– Þú heldur það líka.
Ég leit í hug minn og sagði:
– Jú, ég held það líka. Eitthvað mikið er að gerast, við höldum það bæði.
– Af því við fáum ekkert að heyra, botnaði hún.
Tveggja daga þögn í talstöðinni. Við gengum öðru vísi um en venjulega, töluðum öðru vísi, hugsuðum öðru vísi.
– Nú væri gott að fá að heyra, þó ekki væri annað en truflanir, sagði ég.
Hlíf eftir nokkra þögn:
– Það heyrist bráðum í stöðinni.
– Heyrist bráðum í henni? sagði ég í spurn.
– Já.
– Hvernig veiztu það?
– Það hefur bara eitthvað hrokkið úr sambandi.
Ég hristi höfuðið vantrúaður, en sagði þó:
– Má vera. Hver á að gera við það?
– Það hrekkur í samband aftur, sagði hún.
Okkur varð litið hvort á annað og vorum bæði alvarleg á svipinn. Ég spurði:
– Trúir þú þessu, Hlíf?
– Eiginlega. Hefur þér ekki komið svipað í hug?
– Nei, ekkert þessu líkt.
Við felldum talið.
Þegar stöðin hélt áfram að þybbast við og þagði þriðja daginn, sagði ég upp úr þögninni:
– Nú eru víst flestir búnir að gleyma okkur.
– Af hverju, pabbi minn? spurði Garðar hýr og glaður, hélt víst, að ég væri að byrja skemmtilega sögu.
Ég sagði eitthvað til að leiða hann af, nánast án þess að veita orðum mínum athygli. Það var orðið rokkið, en við höfðum ekki brugðið upp ljósi. Ekkert okkar tók eftir því, að tunglsgeisli gægðist inn um gluggann, fyrr en Ragna sagði:
– Sko tunglið.
Við fórum öll út að glugganum og horfðum á tunglið, og Garðar sagði:
– Það sér okkur, það horfir á okkur.
Og það kviknuðu stjörnur í skýjarofi og horfðu niður til okkar, eins og tunglið, sem var glettið og sjálfumglatt að vanda. Hlíf minntist á talstöðina og sagði:
– Fólk heldur sjálfsagt eins og er, að hún hafi bilað.
– Þeir senda bát með nýja stöð strax og gefur, sagði ég.
Það hélt áfram að birta í lofti. Fleiri stjörnur komu í ljós. Heimurinn í kringum okkur stækkaði óðfluga. Brátt ljómaði alstirndur næturhiminn yfir okkur. Það var enginn venjulegur háttatími þetta kvöld. Stjörnuborgirnar á himninum brostu til okkar. Svo komu logaskær síkvik norðurljós. Þá stóðumst við ekki mátið lengur, en fórum út með börnin, þótt komin væri nótt, bara til að hreyfa okkur undir stjörnuhimninum. Garðar sá stjörnuhrap og sagði, að einhver engill hefði misst kertið sitt.
Næsta dag brast hann enn á með norðanbyl. Þegjandi talstöðin minnti aftur áþreifanlega á sig. En hvað skeði ekki þrátt fyrir þögnina?
Það voru komnir gestir.
Það voru þeir Vilmundur og Aron, það er að segja, ég hafði eftir raddir þeirra og látbragð. Rödd Vilmundar, unglingslega skær rödd:
– Hvernig var það, Aron minn, þegar þið Geirþrúður fenguð símann að Klöpp?
Hlíf kunni vel að meta þessa gestkomu og örvaði mig með svip sínum og brosi. Ég hélt ótrauður áfram og nú með mjórri Aronsröddinni:
– Það gerðist svo sem ekkert, sem í frásögu er færandi, nema hvað við fengum símann á undan hreppstjóranum, föður þínum, sem og sjálfsagt var, þar sem Geirþrúður er ljósmóðir.
Vilmundur:
– En var ekki hringingarapparatið eitthvað í ólagi?
Aron:
– Það var ekkert að hringingarapparatinu, sem orð er á gerandi, datt að vísu strax krafturinn úr rafhlöðunni, svo ég brá henni á maskínuna, og þá var allt í góðu standi.
Vilmundur:
– Þú bakaðir rafhlöðuna eins oft og Geirþrúður þurfti að hringja. Þegar það dugði ekki til, lét hún þig sjóða rafhlöðuna við hægan eld.
Hlátur. Börnin voru ekki síður glaðleg en við eldra fólkið. Karlarnir komu það oft í heimsókn, að ekki var unnt að gleyma þeim. Hlíf ávarpaði mig eins og ég væri Aron og sagði:
– Það munaði mjóu, að hún Geirþrúður þín kæmist í hreppsnefndina síðast, þegar kosið var.
Vilmundur varð fyrir svörum:
– Hún barðist eins og hetja, bráðum áttrætt gamalmennið, var sítalandi við hvern mann, síhringjandi og sískrifandi. Já, þær eru orðnar miklar bréfaskriftirnar að Klöpp. Já, þær eru orðnar miklar bréfaskriftirnar að Klöpp. Þau hjónin eru ekki fyrr komin í rúmið en hún sendir Aron eftir skrifföngum. Hann er á sífelldum þönum úr rúminu og í það fram eftir allri nóttu að sækja nýja penna og nú bréfsefni. Hreppsómögum og öðrum ómerkingum skrifar Geirþrúður á umbúðapappír, en fyrirmönnum og höfðingjum á bezta skrifpappír með gullrönd og rósaflúri.
Aron hátt uppi:
– Vilmundur var stórhræddur í kosningunum, og mátti líka vera það. Það voru örlagaglettur, að hún gamla mín skyldi ekki setjast í sæti hans í hreppsnefndinni.
Garðar vappaði í kringum mig og sagði:
– Stóri fiskurinn, Aron, talaður um stóra fiskinn.
Hlíf:
– Já, hljóp ekki hvalavaða á Klapparfjörur í fyrrasumar? Geirþrúður hefur kunnað vel að meta þann feng.
Aron var allur á lofti og sagði:
– Jú, jú, kona góð, mesta guðs blessun, sjö unghveli. Slík björg hefur ekki komið áður á okkar fjörur. Guðs mildi, að þetta fór ekki allt upp hjá Vilmundi og þeim feðgum.
Vilmundur:
– Það var þá, sem Geirþrúður gerði bæ sinn að hvalastassjón og þyrmdi engu nema gestastofunni. Þessi stofa er fræg um allar sveitir. Þangað inn fær enginn að stíga fæti nema útvalin höfðingsmenni. Annars mun stofan eitthvað hafa látið á sjá eftir grútaratið. Mestu stórtíðindin eru samt þau, að það koma í hlut Arons að hakka allt spikið í hakkavél númer átta.
Aron gall við:
– Það er haugalygi. Hakkavélin var númer tíu.
Vilmundur:
– Ég gef það eftir. Númer tíu. En það eitt er víst, að frá þessu verki hefði hver maður gengið, annar en Aron á Klöpp.
Aron:
– Hvaða endemis vitleysa. Þetta gat hver liðléttingurinn. Mér fipaðist aðeins undir lokin, var víst farinn að snúa vélarskrattanum svona í draumi á meðan ég svaf, en sú heimska rjátlaðist fljótlega af mér.
Hlíf sagði:
– Og nú ertu staddur hér á Svarthömrum, Aron minn.
Aron:
– Þetta er engin hemja, kona góð. Vilmundur laug því í mig, að við ættum að taka manninn. Hið sanna er, að við erum gerðir út upp á stórt kaup í brjálæðislegt flandur til að lesa einum skuldara stefnu, sem hann getur hundsað að vild sinni. Hefði ekki mátt ganga að síma? Ónei, ónei. Ferleg óspilunarsemi með almannafé. En hvað eru mín orð hjá því, sem Geirþrúður á Klöpp mun segja hér um?
Þannig lauk þessari heimsókn. Svo komu nýir gestir að morgni, sem var sunnudagsmorgunn. Af gömlum vana skrúfaði ég frá messunni, eins og ekkert væri athugavert við stöðina. Eitthvað fiktaði ég líka við gangverkið í kassanum – og fór þá ekki sjálfur dómkirkjupresturinn að tala. Að vonum trúðum við tæpast eyrum okkar. Hlíf varð að orði:
– Er nokkuð að marka þó vígður maður geti talað í stöðina?
– Gætum betur að, anzaði ég og stillti á Öngulsfjörð.
Þaðan heyrðist líka sannkölluð messa.
– Sko til, þú hefur haft rétt fyrir þér, Hlíf, sagði ég.
– Í hverju svo sem?
– Þú veizt vel, að það sem hrökk úr sambandi, er nú aftur hrokkið í samband.
– Jæja, er það, sagði hún og hló við.