Iðunn
Reykjavík, 1964
Stundum bíður ein sjálfheldan annarri heim. Ég var á ferð fram í bæjarfjallinu, las mig syllu af syllu með miklum erfiðismunum. Fjallið í klakabrynju. Þó mundi fuglinn farinn að setjast upp, enda hans tími kominn.Nýmeti höfðum við ekki séð mánuðum saman. Það kom því að sjálfu sér, að ég freistaði gæfunnar í fjallinu strax og einhver von var þar til fanga. Seint og um síðir kom ég á breiða greiðgenga hillu, þar sem fugl var fyrir og hafði orpið á klakann. En svona voru ekki venjulegir fuglar; hik í viðbrögðum þeirra, það vantaði í þá lífshrynjandina.
Þarna hafði ég meiri veiði en ég var maður til að bera. Með slíka byrði kæmist ég seint um klakað fjallið, svo ég valdi þann kostinn að setja mig í fjöru.
Brátt var stutt heim. Ég átti aðeins eftir að sullast yfir nokkrar urðir og sandbleytur. Vorsólin skein á bæinn. Hlíf var úti við með börnin, þegar mig bar að. Öll fjölskyldan fagnaði veiðimanninum eins og hann væri konungur. Ég leit grettur á konuna og sagði:
– Vorið er komið. Bráðum fer maður að líta á bátinn.
– Þú ert hálftröll, sagði hún og ekki bara að gamni sínu, og var tekin til við að reyta fuglinn. Garðar og Ragna hömpuðu svartdröfnóttum eggjum, og Garðar söng, að nú væri komið nóg, fugl og fiskur í sjó, hæ, hæ, hó.
Fljótlega hugðist ég fara aðra ferð í fjallið. Það varð engin fangaferð. Ljótar aurskriður lokuðu mér leiðina, og klakahengjur höfðu sprungið fram og grafið fugl og egg undir sér. Þá var að vekja bátinn af vetrardvalanum, þar sem hann hvolfdi uppi á hamrastalli langt fyrir ofan sjávarmál. Þegar á flot kom, réri ég lengi og rösklega án þess að hvílast, hafði engri mæði að kasta. Það var óstýrilátur fögnuður í brjóstinu og hríslaðist hægt en örugglega út um allan líkamann. Ég var á sjó, var aftur kominn á sjó og fann það fyrst nú í hverri taug, að það var komin ný árstíð, bjargræðistíminn, þegar allar leiðir eru frjálsar burt frá bænum og ég þýt um fjöllin þúsund eins og refurinn og sendist út um allan sjó eins og hver önnur sævarskepna . . .
Ég renni færi að gamni mínu, en það var ekkert að hafa, fiskurinn ekki genginn upp undir. Svo horfði ég á bæjarfjallið. Hafði ekki verið ætlunin að ráðast að því frá sjó? Eftir stutta stund var ég lentur, batt upp af bátnum og setti á brattann. Neðstu hillurnar auðar, en ofar voru breiður af fugli. Ég fór hratt, skrikaði fótur, tók naumast eftir því, hafði enga aðgæzlu, sá mig í huganum bera bátinn fullan af fugli og eggjum. En það voru engin egg lengur. Fuglinn sat yfir ófleygum ungum; dökkir hnoðrarnir nýskriðnir úr eggjunum, göptu kjöftum, ýluðu og tístu eftir æti. Fuglinn flaug ekki, þó ég reiddi að honum byssuskeftið, heldur hvæsti að mér og barði með vængjum ungunum til varnar.
Ég stóð þarna og hafðist ekki að.
Hvað kom að mér? Þótti mér björgin of auðtekin? Var það að finna til með þessum lífverum að kinoka sér við að aflífa þær? Var varnarleysi þeirra ekki ætið hið sama gagnvart byssunni? Þurfti ég að leggjast djúpt til að vita, að erindi mitt hingað var sjálfsagður hlutur, að líf og dauði gengur hvað upp í öðru óendanlega og getur ekki öðru vísi verið, ef lífið á að halda velli?
Eftir stund hafði ég sópað hilluna vendilega. Dauðir fuglar og emjandi ungar ultu umvörpum fyrir björg. Ég komst ekki hærra, en skaut þaðan, sem ég stóð, á fugl á næstu hillu fyrir ofan mig. Nokkru seinna féll stór skriða kippkorn fyrir utan mig. Það dimmdi í lofti af grjótfluginu, og sjórinn litaðist moldarblóði. Ég hallaði mér skjálfandi upp að berginu, og bergið skalf. Þegar ögn kyrrði, þreifaði ég á mér, fór höndum um mig allan, útlimi, brjóst, bak og höfuð, hægt og hikandi, eins og ég tryði því tæpast, að ég væri heill og óskaddaður. En ég var alheill. Það hafði ekkert komið fyrir mig. Oft hafði ég heyrt til skriðufalla, séð grjót og jarðveg losna og hendast undan brattanum, en aldrei upplifað neitt líkt þessu. Það var eins og ég væri inni í miðju grjótfluginu, það var eins og ég fyndi sjálft fjallið springa í fang mér. Þungan jarðareim lagði enn fyrir vit mín, og enn var strjált steinkast í fjallinu. Eitthvað hirt ég af fugli, en hraðaði mér síðan í bátinn.
Hlíf hafði heyrt drunurnar í fjallinu og litið dökkvann á sjónum. Hún kom við mig eins og ég kom við mig eftir að skriðan féll.
– Ég varð máttvana af hræðslu, hvíslaði hún.
– Þetta kom ekkert nærri mér, sagði ég.
– Ónei, vinur minn, en þú komst ekki strax undan röndinni.
– Ég hirti upp nokkra fugla, var ekki í neinni hættu lengur.
– Þú varst í mikilli hættu, hvíslaði hún og lagði armana fast utan um mig.
Enginn dagur er öðrum líkur að vorinu. Það spruttu lífssprotar upp úr jörðinni, grænir sprotar, og sólin lýsti stund og stund með fullum ljóma og var sumarsól. Fuglinn lék sér í stórum breiðum í lofti og sjó, og sprettharður fiskur beit á öngulinn. Vitaskipið kom í logni og glaðasólskini. Vitaskipsmenn hlóðu upp vörufjalli við lendinguna og fóru síðan. Ég bað þetta blessað fjall að gera svo vel að fljúga heim á hlað, en gekk jafnframt fast fram við burðinn, og víst smásaxaðist af fjallinu.
– Minnkar það, sem af er tekið, sagði ég við Gránu gömlu, en hún var nýkomin á grös og reif í sig án þess að líta á mig.
– Er nokkur veigur í henni lengur? sagði ég við Hlíf.
– Ertu að tala um hana Gránu okkar?
– Já, væri ekki hyggilegast að fá ungkvígu fyrir haustið?
Hlíf brosti. Það var sérstakt bros. Hún vissi, hvað ég hugsaði, að við ættum von á nýjum erfingja í vetrarbyrjun, og sagði:
– Ég trúi á Gránu mína og enga belju aðra.
– Þá trúi ég líka á Gránu, sagði ég og ætlaði þegar að rjúka á dyr til atlögu við vörufjallið.
– Bíddu andartak, sagði hún. – Ég fann bréf í póstskjóðunni, sem þú mátt til með að líta á strax. Það tekur enga stund.
– Hvaða bréf er það?
– Það er frá Haka skáldi.
– Haki? sagði ég í spurn.
– Já, hann hefur skrifað nafnið sitt aftan á umslagið, svo víst væri, að hann fengi bréfið aftur, ef það rataði ekki til þín.
– Óskiljanleg fyrirhyggja, þar sem Haki á í hlut, sagði ég, fletti í sundur bréfinu og las með Hakaröddinni. – Við engar manneskjur á ég brýnna erindi en ykkur, nýkominn heim úr langri reisu um gamla heiminn.
– Er hann orðinn svo mjög gamall? sagði Hlíf og var að tala við Haka sjálfan.
– Eftir öld er gamli heimurinn orðinn hæfilega gamall til að verða ungur á ný, sagði skáldið. – Sjálfur er ég mosavaxinn sterill, sem bíð eftir að fá málið aftur.
– Þá hafa flestir týnt niður að tala, ef þú hefur misst málið, sagði Hlíf. – Hvað hefur komið fyrir þig?
– Hreint ekki neitt, það er hryllingurinn. En það eru mikil tíðindi af ykkur. Þið hafið snúið heiminum frá ykkur. Það er að snúa heiminum að sér. Þið eruð á eyðistað, sem enginn veit með vissu, hvar er á jarðarkringlunni. Eru þau þarna ennþá? spyrja skammsýnir menn og vita ekkert í sinn haus. En þið eruð þarna ennþá. Allah sé lofaður fyrir það. Hinir vantrúuðu verða að trúa. Rödd ykkar hefur heyrzt frá þessum ægilega stað.
– Er hann svo ægilegur? sagði Hlíf.
– Ég segi ægilegur, af því flest er á einhvern hátt ægilegt, sem við þekkjum. Einn góður vinur minn hefur heyrt Vörð kalla upp skip og spyrja hvernig eigi að fara að því að slá.
– Og enginn kunni að svara honum neinu, sagði Hlíf.
Haka stökk ekki bros, þegar hann sagði:
– Engin manneskja undir sólinni skilur ykkur betur en ég. Sumir segja, að Vörður hafi komið illa við með höfuðið, þegar hann ákvað að gerast útilegumaður. Ég segi, að hann hafi komið við með höfuðið á hinn eina rétta hátt. Sjálfur hef ég nú komið við með höfuðið nákvæmlega eins og hann . . . Vinir mínir, ég bið ykkur að sýna mér sama skilning og ég sýni ykkur. Bendið mér á bæ, sem næst ykkur, lítinn snotran bæ, þar sem ég get sett saman bú.
– Segir hann þetta? Hlíf trúði mér tæplega. Svo trúði hún mér alveg, þegar hún hafði horft á mig andartak, og svaraði skáldinu:
– Hér eru margir eyðibæir, flestir skemmtilega skáldaðir, útidyrnar fornar burt og þekjan hrunin.
Haki hélt áfram:
– Ég ætla sjálfur að slá og raka, veiða fisk, skjóta fugl og klippa sauðina mína. Svo yrki ég eitt og eitt ljóð. Það kemur sjálfsprottið, lýkst upp eins eðlilega og augu manns að morgni.
Hér var þögn, svo hélt Haki áfram, með sínum ótilgerða hátíðleik:
– Kona heitir Indía Bessadóttir, útigangskvenmaður í beztu merkingu orðsins. Hún hefur alla tíð gengið á vegum fátækra skálda og listamanna og kann því fleiri úrræði, sem aðrir menn kunna færri, þegar vanda ber að höndum, og verður mín kona í útlegðinni. Þessi görl veit, að andinn er dauður á malbikinu, en rís upp í nýju lífi í grasinu.
Enn varð þögn. Hlíf þótti víst sem mælirinn væri fullur og skekinn. Bréfið var líka búið, en eftirskrift var nokkur, og skáldið sagði að lokum:
– Ég vil flytja í bæinn minn, þegar grös standa í fullum blóma. Við hvern á ég að tala? Hverjum að borga og hvað mikið? Hvað kostar bátur? Hvað kostar belja? Indíu fæ ég ókeypis.
– Hann er að gera að gamni sínu, sagði Hlíf.
– Hann er sannur reglubróðir, sagði ég.
– En þessi Indía?
– Hún mýsla?
– Hvað kallarðu konuna?
– Hún er lítil lipur mýsla. Ég hef einu sinni lent í þeim ósköpum að drekka með hanni molakaffi og hét því að gera það ekki oftar.
– Hverju ætlaður að svara Haka?
– Hann hefur gleymt þessu bréfi, það er síðan í vetur.
– En hann skrifar aftur?
– Hann gerir það ekki.
– Þú átti við, að hann kunni vel að varðveita skemmtilega hugdettu.
– Eitthvað svoleiðis. En nú fer vörufjallið að undrast um mig . . . Ég hélt af stað út að lendingu sem leið lá um urðina undir Hömrunum.
Hvað tíminn var kvikur og fljótur að líða; það voru undir eins komnir síðsumardagar. Ég studdist fram á orfhælinn og horfði á Garðar og Rögnu hlaupa saman upp með túngirðingunni. Nú mundi ferðinni heitið út í hagann til Gránu, Litla-Grámanns, bolakálfsins og Mósa. Hvaða bók var snáðinn með undir handarkrikanum? Þurfti ég að spyrja að því? Hann átti aðeins eina bók, stafrófskverið. Hlíf var sem næst mér með hrífuna, og ég sagði:
– Sjáðu börnin, þau hafa tekið kverið með sér í ferðalag út um grundir og móa.
– Þau eiga engan hlut, sem dýrin fá ekki að sjá, sagði hún og hélt áfram að rifja.
Fyrir stundu hafði Rúna reynt að tala við okkur, og enn heyrði ég þessi Rúnuorð:
– Skil ég þig rétt, Hlíf? Eigið þið von á barni? Kemurðu í vetrarbyrjun? . . . Og litlu seinna sagði Rúna. – Blessuð komdu nógu fljótt, mundu mig um að koma nógu fljótt.
Við höfðum hvorugt sagt neitt um þetta samtal. Nú gekk ég í flekkinn til hennar og sagði:
– Rúna vill helzt að þú komir strax.
Hlíf leit hægt upp frá hrífunni, hafði sýnilega verið að hugsa um þetta sama og ég.
– Ég ætlaði ekki að færa þetta í tal við hana fyrr en seinna, sagði hún.
– Nú ertu búin að því.
Hún án þess að brosa:
– Rúna stóð vel við höggi, hún spurði hvort ég kæmi ekki bráðum til manna.
– Hún bauð þér að hafa bæði börnin, meðan þú lægir á sæng.
Hlíf eftir nokkra þögn:
– Við höfðum hugsað okkur að Garðar verði hjá þér.
Við rifjuðum það sem eftir var af flekknum án þess að talast frekar við, síðan sagði ég:
– Það er bezt við tölum út um þetta, Hlíf.
– Þér þykir rétt, að ég taki Garðar líka með mér, sagði hún.
– Já, fyrst Rúna býðst til að hafa hann. Það er að öllu leyti betra.
Hún brosti og brosið sagði: Karlmenn eru ævinlega svolítið skrýtnir, þegar þeir tala um þessa hluti. Upphátt sagði hún:
– Ég veit, að þú verður ekki einn, þó að við förum öll burt . . . Og eftir stutta þögn. – En það er ekki eins og ég sé á förum, við eigum eftir að heyja mikið ennþá.
– Já, sjórinn hefur freistað mín meir en skyldi, og orfið vill ekki slá sjálfkrafa.
– Það gerir það nú samt, þegar bezt lætur, sagði hún og gekk burt, grönn og spengileg, líkt og engin breyting hefði orðið á líkama hennar. Svo hikaði hún í spori, kom aftur til mín og sagði. – Við skulum ekki tala oftar um þetta ferðalag, þú veizt, þá er eins og ég sé á förum.
– Það þarf ekki að tala meira um það, sagði ég.
– Ég er fegin að hafa stunið þessu upp við Rúnu, það er þá frá, sagði hún og hvarf til mín.
Svo var ég litla stund einn, síðan kom Ragna upp í fangið á mér, grönn og kvik og ljóshærð og var enn í paradísargarðinum, þar sem sársaukinn gleymist um leið og hann verður til. Og nú fékk ég að ganga um yndisgarðinn litla stund af því ég hélt á Rögnu, en þó aðeins sem framandi gestur.
– Bráðum ferðu langt burt, sagði ég.
– Til Litla-Grámanns, sagði hún.
– Nei, langt, langt burt.
– Til Gránu, sagði hún.
– Ennþá lengra.
– Til Mósa, sagði hún.
– Miklu lengra.
– Til Nerós, sagði hún.
– Veiztu ekki, hvað er langt í burtu?
– Jú, hjá bátnum, sagði hún.
– Veiztu ekki um lengra í burtu?
– Jú, hjá fuglunum í loftinu, sagði hún.
– Veiztu, hvar hún Rúna á heima?
– Já, í stöðinni, sagði hún.
Hér gafst ég upp. En ferðin um paradísargarðinn var ekki búin. Á einum stað fundum við Hlíf, þar sem hún sat í grasinu.
– Mér verður ekkert að verki í þessu glaða sólskini, sagði hún.
– Mamma, ég get farið lengra í burtu en fuglarnir, sagði Ragan.
– Nú hefur pabbi þinn verið að segja þér sögu.
– Það er svo langt, að pabbi veit það ekki sjálfur . . .
Ragna hló. Hún hafði komið auga á fiðrildi, og nú mundi hún vara eftir fiðrildinu. Og þarna skaut Garðar upp kollinum á bak við þúfu.
– Þú ert ekki með kverið þitt núna, sagði ég.
– Kverið, nei, nei, það er undir steini.
– Undir steini? höfðum við Hlíf bæði upp eftir honum.
– Já, bara núna, sagði Garðar, – Ég er alltaf að lesa fyrir kýrnar.
– Vilja kýrnar láta lesa fyrir sig? spurði Hlíf.
– Já, alltaf, og Mósi líka, og Litli Grámann kann að segja stórt og lítið ö, sagði Garðar og hljóp niður túnið með systur sinni.
Hlíf leit við mér og sagði:
– Veiztu betra, hann er að lesa fyrir kýrnar.
– Mig grunaði þetta, að okkar kýr mundu ganga menntaveginn, varð mér að orði og greip orfið, bara til að láta það slá sjálfkrafa í höndum mínum.