Iðunn
Reykjavík, 1964
Fjöllin drógu að sér illviðrisskýin og huldu sig í þeim. Jólapósturinn fór fram hjá vitanum og í kring um landið. Eftirminnilegasta ferðalag fyrir eina póstskjóðu. Á miðjum vetri kom skjóðan aftur, og enn sem fyrr var hvergi lendandi við vitann. Allt útlit fyrir að skjóðan fengi aðra ókeypisferð í kring um land.– Það má stöðva þetta skjóðuspan, sagði ég við Hlíf. – Það má taka við henni fyrir sunnan fjöll.
Hlíf lagði frá sér flíkina, sem hún var að bæta og sagði:
– Þetta er tíu stunda ferð fram og til baka, þó að greitt sé farið.
Ég stóð á fætur og sagði:
– Það er upplagt skíðafæri. Ég verð kominn suður yfir á hádegi á morgun og heim aftur fyrir myrkur.
Hún var líka staðin á fætur og sagði:
– En ef hann dimmir að með snjókomu?
– Hann er búinn að ryðja úr sér öllum þeim snjó, sem hann á til.
Hún eftir nokkra þögn:
– Ég ætla ekki að letja þig, fyrst þú ert ákveðinn.
– Það er ekki hægt að mæna á eftir póstskjóðunni til eilífðarnóns, anzaði ég.
Við vildum bæði kalla umheiminn inn til okkar í líki póstskjóðunnar. Hálft ár síðan við höfðum séð nokkuð nýtt utan úr heiminum: Nýjar bækur, sendibréf, blöð og tímarit, að hugsa sér að hafa þetta allt í kringum sig, það var nýr himinn og ný jörð.
Nóttin var stillt og stjörnubjört. Í morgunsárið lýsti enn af stjörnum, og það var goluþytur, sem virtist koma af öllum áttum, bezta ferðaveður. Hlíf fylgdi mér upp fyrir túngirðinguna, hvarf aftur til mín eftir að hún hafði kvatt mig og sagði:
– Þarna fyrir sunnan fjöllin er þorp.
– Já, þar tek ég við póstskjóðunni. Einu sinni bjuggu þar tvöhundruð manns.
– Verst, að allir eru fluttir burt, sagði hún.
– Allir segirðu.
– Er það ekki?
– Það þarf ekki að vera.
– Jæja, þú ætlar ekki að gleyma að heilsa upp á símastjórann.
– Ekki ef hann er þarna að finna.
– Láttu hann samt ekki tefja of lengi fyrir þér. Ég hlakka til að fá umheiminn heim til okkar.
– Hann kemur fyrir kvöldið. Ég lofa því statt og stöðugt. Og mundu mig um að hafa stöðina opna í hádeginu. Þeir á varðskipinu segja þér fréttir af mér.
– Ég hef opið. Það er bara, að umheimurinn verði ekki of þungur til að bera hann á herðunum yfir fjöllin þúsund.
– Engin hætta, Hlíf. Þetta er ekki gamli heimurinn, sem sjaldbakan var að burðast með hérna fyrir lögnu lögnu. Þetta er nýi heimurinn, fisléttur og fullur af furðum.
– Jæja, ég má ekki tefja þig lengur, sagði hún og hvarf enn til mín og nú til að láta mig lausan.
Um miðjan dag kom ég ofan af fannhvítum fjöllunum þúsund og gekk inn í þorpið. Mörg húsanna höfðu verið rifin og flutt burt. Við eyraroddann voru rytjur af bryggju, fyrir ofan bryggjuna rifrildi af síldarverksmiðju. Ég hætti mér fremst fram á bryggjuhrófið og horfði út fjörðinn.
Ekkert varðskip.
Nú, það gat verið á bak við móskutjaldið, sem dregið hafði fyrir fjarðarmynnið. Og hér var ég – og þessi hús. Af hverju fór fólk að byggja þetta þorp? Fyrst kom hvalurinn og svo kom síldin. Og fólkið hélt áfram að stækka þorpið. Svo fór hvalurinn og síldin líka. Og embættismennirnir fóru burt, og stóri peningakassinn kaupmannsins fór burt. Og fólkið kunni ekki að lifa án embættismanna og peningakassa og fór líka burt.
Þetta dugði ekki. Ég sá ekki til skipsins. Hlíf var búin að opna stöðina og beið eftir að heyra frá mér. Hvað voru þeir að drolla? Ég átti að vera lagður af stað heimleiðis, ef allt væri með felldu. Ekkert varðskip – og tíminn leið. Ég stóð og glápti út fjörðinn, hafði ekki sett mig yfir þúsund fjöll til þess eins að koma tómhentur heim. Ég hlaut að bíða og glápa úr mér augun . . . Rökkrið kom á sínum tíma. Sá ég ekki mannamyndir í rökkrinu? Þar sem einu sinni var mannlíf, þar er það enn. Í þessum svifum sá ég veðurspámanninn. Hann stóð niðri við sjávarmörkin, bar við korgaðan himin, hafði hendur í vösum og veðraði út í loftið; illspá í svip hans.
Hvar var varðskipið?
Það dimmdi snögglega. Engin stjarna meir. Ekki að undra, þótt veðurspámaðurinn væri ljótur. Nú var ekki annar kostur betri en að fresta heimferðinni til morguns, hvað sem í skærist. Enn varð nokkur bið. Svo heyrðust mótorskellir á firðinum. Varðskipsmenn komu og fóru. Ég tók póstskjóðuna á bakið og lammaði með hana inn í þorpið.
Svartamyrkur.
Hljóð, sem minnti á þungan trumbuslátt, barst utan úr myrkrinu . . . Hvað ég sagði við varðskipsmenn? Þetta voru unglingar, sem í land komu, og þýðingarlaust að munnhöggvast við þá. Þeir höfðu enga orðsendingu til mín frá skipstjóranum og vissu ekki, hvers vegna þeir komu seinna en áætlað hafði verið. Ég bað þá fyrir skilaboð í vitann, að skipinu hefði seinkað og ég yrði um kyrrt næturlangt á Eyrinni. Þrír kornungir menn horfðu á mig stórum augum og einn þeirra sagði:
– Þú getur ekki verið hér í nótt.
– Ójú, strákar mínir, hér býr prýðisfólk.
Piltarnir litu skringilega hver á annan, svo litu þeir skringilega á mig, og enn varð sá sami þeirra fyrir svörum og sagði:
– Viltu ekki koma um borð og tala við skipstjórann?
– Hef ekkert við hann að segja, nema hann verður að koma skilaboðunum í vitann.
Strákarnir sögðu: Ókey, svo var sett á fulla ferð út fjörðinn.
Nú brast á með él.
Það var ekki seinna vænna að koma sér í húsaskjól. Ég fór inn um fyrsta gluggann, sem mig bar að. Þetta var ekkert innbrot. Glugganum var beinlínis lokið upp fyrir mér, og það gerði raunar enginn annar en símastjórinn með Áslaugssvipinn.
– Ég á það konunni minni að þakka, að fundum okkar ber hér saman, varð mér að orði.
– Hvað á maður ekki góðri konu að þakka, svaraði hann.
– Og skiptir engu, hvar maður setur sig niður í heiminum, bara ef maður hefur síma, sagði ég.
Mjúka röddin hvíslaði.
– Hér eru örfá númer og öll í úrvalsflokki.
– Hvert þeirra er best?
Þarna var komið að þagnarskyldunni. Símastjórinn svaraði engu, var líka með heyrnartólin á höfðinu og hvíslaði einhverju að einu útvalsnúmerinu.
Ég leysti fyrirbandið frá póstskjóðunni og steypti úr henni. Það var ekkert smáræði, sem úr henni valt, enda fer ekki lítið fyrir umheiminum, þegar allt kemur til alls. Símastjórinn var hættur að tala í símann og hjálpaði mér að búa um umheiminn í tveim böggum, sem ég ætlaði að hafa í bak og fyrir.
– Þetta er upp á hest, sagði hann.
– Í minni sveit er hver maður sinn eigin áburðarklár, svaraði ég.
Stormurinn skók húsið, svo að brast í hverju tré.
– Það er skollinn á stórhríðarbylur, sagði símstjórinn.
– Ónei, bara smáél, anzaði ég.
– Og kominn hörkugaddur, sagði símastjórinn.
– Maður veit lítið af kuldanum, þegar vel er kynt, símastjóri góður.
– Ég myndi ekki fara út úr húsi, ef ég ætti ekki brýnt erindi við kaupmanninn, sagði mjúka röddin. – Hérna í næsta herbergi bíður þín uppbúið rúm. Ég vona, að það fari vel um þig í nótt.
– Eins og ég væri heima hjá mér, sagði ég fullur þakklætis.
– En það er hirðin, sagði símastjórinn.
– Hvað viltu henni?
– Þú hefur fátt frétt af henni, Vörður, ekkert bréf um hana í öllum þessum pósti, ár síðan þú sendir hana frá þér. Hefurðu ekkert aðhafzt?
– Ég hef reynt að síma til Ósýnilega mannsins.
– Ha, Ósýnilega mannsins?
– Já, hann er oftast ósýnilegur og álíka örðugt að ná á hann í síma og að sjá hann.
– Hefurðu númerið hans?
– Ég hef þrjátíu númer stíluð á Ósýnilega manninn og eitt leyninúmer.
– Reyndirðu við leyninúmerið?
– Vitaskuld . . . Ég sagði símastjóranum leyninúmerið.
Hann horfði á mig með hátíðarsvip og sagði:
– Ósýnilegi maðurinn hefur komið sér upp nýju leyninúmeri. Geturðu ekki reynt við einhverja aðra?
Ég nefndi Sóleyjarkarlinn og Gullkarlinn, sagði, að þeir hefðu báðir málskjölin til athugunar, auk Ósýnilega mannsins, og ekki væri að vita nema sú athugun stæði eitt árið enn, áður en svar fengist um útgáfu skjalanna. Svo sagði ég.
– Höllum okkur að Ósýnilega manninum. Þú hefur leyninúmerið hans.
– Það er sama og að þekkja það ekki, var svarið. – Dauðasynd af manni í minni stöðu að gefa upp leyninúmer. Aðeins fjórir Íslendingar hafa aðgang að þessu númeri.
Ég starði á símastjórann, allt upp í loft með hirðina, leyninúmerið mér lokað, samt voru mikil og góð tíðindi í svip símastjórans.
– Hvað ætlarðu að segja mér? spurði ég.
Svarið var:
– Við höfum fengið hingað snjóbíl. Þú verður fyrsti farþeginn okkar yfir fjöllin þúsund. Snjóbíllinn gaular við gluggann þinn bráðsnemma í fyrramálið.
– Þetta vissi ég, þú kannt ráð við öllum mínum vanda, sagði ég þakksamlega. – Seinna geturðu áreiðanlega útvegað mér leyninúmerið –, og nú óska ég einskis frekar en að halla mér og njóta góðra drauma.
Þegar símastjórinn var farinn til kaupmannsins, langaði mig ekki lengur í bólið, þótt gott væri, en skauzt út um gluggann að gá til veðurs. Það var svartaél. Snjóþoturnar réðust að mér úr öllum áttum. Ég stóð kyrr, var efins um, hvort ég ætti að fara lengra. Mann fara ekki út í aftakaveður til að gá til veðurs. Bezt að stinga sér inn um gluggann aftur. Þegar til átti að taka var hann hvergi að finna lengur. Aftur hélt ég af stað. Það var strax á fótinn. Undarlega brattgengt á sléttri eyrinni, ef ég var þá ekki kominn upp í fjall. Svo slæmt var það ekki. Nú rofaði til. Ég sópaði snjónum frá vitum mínum og sá, að ég hafði klungrazt upp kirkjuhólinn. Þarna stóð lágreist svart guðshús með mjórri turnspíru og fjórum sexrúðugluggum, sem flestir voru brotnir. Dyrnar stóðu opnar og hurðin nær því af hjörunum. Hér var ekki messað fyrir aðra en þá, sem byggðu forsal vinda. Enn birti, svo að sá í kaldbláar vakir á himninum. Ég stanzaði rétt fyrir innan kirkjudyrnar. Stjörnur og tungl voru kirkjuljósin, stormarnir organhljómurinn, hvítamjöllin altarisklæðin. Naglföst Kristsmynd yfir altarinu. Regn, stormar og snjóbyljir höfðu nær því máð hana burt: Lærisveinarnir sváfu á verðinum. Jesú kraup fram á harðan steininn og bað föðurinn taka frá sér kaleik þjáninganna: Þó ekki sem ég vil.
Það syrti að mér éli. Hríðin stóð í gegnum kirkjuna. Snjórinn hlóðst á mig og blindaði mig. Í gegnum mjallarbrimið kenndi ég angan af aldagömlum trjám og smáblómum, sem sprungu út í dag. Og ég þóttist sjá Hlíf. Hún fór með börnin í fjósið, öll þrjú. Þau biðu í básnum hjá Litla-Grámanni, meðan hún mjólkaði Gránu. Og þau voru enn hjá dýrunum litla stund eftir að mjöltum var lokið. Það var óumræðilega gott að halla sér að Gránu, þegar óvissan og kvíðinn stríddu á hugann. Hlíf fór frá henni með börnin styrkari og öruggari en hún kom. Og þegar hún hafði háttað börnin, sagði hún þeim sögur þar til þau sofnuðu. Nú vakti hún ein – og ég bað fyrir henni, bað þess, að hún mætti heyra djúpa og kyrra rödd, sem segði henni, að allt væri tryggt, að hún gæti sofnað í trausti þess, að upp birti á fjöllum og ég kæmist heim heill á húfi: Elsku Hlíf, hlustaðu djúpt í eigin barmi, þá heyrir þú þessa rödd, og hún fylgir þér inn í svefninn . . . Hún heyrði röddina, þessi rödd bjó með henni. Ég fann, að bænir mínar voru heyrðar inni við altarið. Máttug tilfinning sagði mér það, aflið mikla, sem flytur fjöll, þótt þau standi kyrr, lægir öldurnar, þótt þær haldi áfram að rísa, kyrrir storminn, þótt hann geisi.
Aftur birti. Jesú leit fram í fannbarða kirkjuna og sagði:
– Þetta eitt er ótilbúið, að þjást í auðmýkt, að elska lífið eins og það er.
Mynd hans máðist burt í hvirflandi snjóþotudansi. Ég hraktist undan veðrinu niður kirkjuhólinn. Um síðir fann ég hreysið, sem geymdi póstskjóðuna. Nestið mitt var gaddfreðið. Sjálfur var ég orðinn dofinn á útlimum, stóð uppi næturlangt og barði í mig ylinn.