Óskar Aðalsteinn

L Í F S O R R U S T A N

Skáldsaga

 

 

Iðunn
Reykjavík, 1964

Copyright ©1964
All rights reserved


ÞRIÐJI HLUTI


XXII.

(bls.247)
Öskubíllinn var á ferð um bæinn. Öskukarlarnir stóðu í sorphaugunum á opnum bílpallinum ataðir skarni. Andlitin grett, gretturnar stirðnað andsvar gegn þeim viðbjóði, sem orðið var þeim að vana. Bíllinn fór hægt, og í kringum hann og yfir honum bylgjaðist öskuskýið.

Ég greip fyrir vit mér og hraðaði mér í prentsmiðjuna. Þá vantaði handrit, svo að hægt væri að ljúka við fyrri forminn af blaðinu fyrir kvöldið. Áslaugur var í kompunni. Ég yrti ekki á hann, en skrifaði viðstöðulaust um viðbjóðinn, sem ég hafði haft fyrir augunum á götunni, og krafðist þess jafnframt, að þarna yrðu tekin upp skaplegri vinnubrögð, bæði vegna þeirra, sem unnu verkið, og bæjarbúa í heild, sem neyddust til að horfa upp á verklagið í öskunni og anda að sér ódauninum.

– Hvað ertu að skrifa? spurði Áslaugur.

– Það er öskudagur, anzaði ég og fékk honum greinina.

Hann varð allur annar maður eftir lesturinn, grettur og heldur óhrjálegur og sagði:

– Þetta er viðbjóður, sem enginn les án þess að kasta upp.

– En upp á þetta er boðið á götum bæjarins í hverri viku, anzaði ég.

Áslaugur var aftur orðinn sæmilega andlitsfríður og spurði:

– Hvað kostar þessi samsetningur?

– Hann er ekki til sölu.

– Ég skulda þér eins dánargrein, Vörður, borga hana með uppbót og kaupi þessa á tvöföldu verði.

– Hún er þegar seld.

– Ég trúi því ekki, sagði mjúka röddin. – Þetta er ósvífin árás á Einar Jóhannsson.

– Láttu mig um það.

Áslaugur í djúpum alvörutón:

– Mér er sama, hvað ég borga fyrir þessa grein, bara ef ég fæ hana.

– Þú mátt eiga dánargreinina, um þessa þýðir ekki að fjölyrða frekar.

Hann elti mig fram í prentsmiðjuna að sjá með eigin augum, hvort ég mundi afhenda prenturunum greinina til birtingar í Einarsblaðinu. Þegar ég gerði það, horfði hann snöggvast á mig með fölskvalausri aðdáun og var síðan farinn. Halli frá Görðum var hér um bil ofan í mér, meðan ég las próförkina. Kunni að koma svona fram, án þess að sýnast nærgöngull, virtist allur við sitt, þótt hann tæki vart eftir öðru en því, sem ég gerði.

Ekkert nýrra var við, það sem eftir var dagsins. Svo varð mikill hvellur eftir að blaðið var komið út. Einhver þjóstug rödd í símanum, sem ég þekkti ekki, sagði mér að mæta þegar í stað í einkaskrifstofunni minni. Þegar ég kom þar, voru þar fyrir, auk Einars flokksforingja, helztu klíkufélagar hans, yfirlögregluþjónninn, brunaliðsstjórinn og skósmiðurinn. Þessir menn horfðu á mig í dumbri þögn, eins og ég væri líkþrár.

Einar var svo reiður, að hann fékk ekki mælt, þegar hann reis á fætur og ætlaði að ávarpa mig. Hann benti mér að koma að borðinu. Ég þokaðist nær. Þarna voru nokkrir bréfsneplar, sem Einar hafði sótt í bréfakörfuna og raðað saman á skrifborðinu. Víst þurfti talsverða leikni og kunnáttu til að koma þessu heim og saman, svo að lesið yrði úr því. En Einar hafði líka pólití sér til aðstoðar. Annars var þessi gestaþraut minn tilbúningur eða ein leynigreinin mín um hreppapólitíkina. Þarna voru þeir allir í einum báti, stórpólitíkusar bæjarins, og ekki grímuklæddir lengur, en komu til dyranna eins og þeir voru fataðir. Þýðingarlaust fyrir mig að reyna að sverja það af mér, sem ég hafði skrifað, svo að ég sagði við Einar:

– Þú hefur haft svo mikið við að sækja þetta í bréfakörfuna.

– Helvítis hálfvitinn þinn, bölvað kvikindið þitt, hrópaði Einar.

Pólitíið brýndi raustina og sagði:

– Hverja skýringu gefur þú á þessum ótuktarskrifum?

– Enga, nema ég veit ekki hvernig ég hef farið að glopra þessu í bréfakörfuna, mátti vita, að rottan kæmist þar í það.

Við þessi orð opnuðust flóðgáttirnar hjá Einari, svo að um munaði. Klíkan tók svikalaust undir með honum og æpti á mig. Ég var að sjálfsögðu margrekinn frá blaðinu og forðaði mér burt áður en öskrin sprengdu í mér hljóðhimnurnar.

 

 

Seinna um daginn varð mér ljóst, að stóllinn minn í bæjarskrifstofunni var farinn veg allrar veraldar. Ég bað gjaldkerann að greiða mér þau laun, sem ég átti inni.

– Hvaða laun? spurði hann og bar ekki við að lyfta gleraugunum upp á ennið.

– Mér hefur ekki verið borgað út í hálfan mánuð.

– Það er hvergi bókað, að þú eigir hér ógreidd vinnulaun, var svarið.

Um þetta þýddi ekki að deila við gjaldkerann. Hann gerði ekki annað en það, sem yfirboðarar hans skipuðu honum að gera. Það átti að ræna mig kaupinu, af því komizt hafði upp um kauða. Var Einar kannski búinn að gleyma því, að á mjóum þvengjum læra hundarnir að stela?

Nú hafði ég ekkert til að framfleyta með heimilinu.

Af hverju ekki að tala við Einar á þann hátt, sem var vænlegastur til árangurs? Af hverju ekki að setja saman alfullkomna Einarsgrein? Slíka ritsmíð stæðist ekki bæjarstjórinn, og allt yrði jafngott og það áður var okkar í milli. Sjaldan eða aldrei hafði ég gengið eins ákveðið til verks og að þessu sinni – ,en allt varð ónýtt. Það var ekki rétti Einarstónninn. Hlíf sagði:

– Þú ert búinn að fá meir en nóg af þessu.

Ég gekk um gólf, svo snöggstanzaði ég og sagði:

– Af hverju að hætta við minnsta mótbyr?

– Þú veist vel, hvað ég er að fara, Vörður.

– Áttu við, að ég geti ekki lengur haldið á penna?

– Þetta eru útúrsnúningar. Þú tókst blaðið að þér af illri nauðsyn, en engri innri þörf, nema hvað það kitlaði hégómagirnd þína að sýna þeim fram á, að þú gætir þetta engu að síður en þeir sjálfir.

Ég horfði inn í sjálfan mig og sagði:

– Ég fór ekki út í þetta til að láta kasta mér burt.

– Þú fórst út í það af áhuga, sem ekki er lengur fyrir hendi.

– Láttu mig um þetta, Hlíf, bezt að hver fáist við sjálfan sig.

Það voru beinir skarpir drættir í andliti hennar, dýpri og fastmótaðri en áður, einkenni Hjörleifs Þórðarsonar. Hún sagði ekkert frekar, en lét mig einan.

Og enn reyndi ég að kalla fram hinn eina sanna Einarsstíl í því, sem ég skrifaði. Aftur og aftur henti ég skrifuðum blöðum frá mér – af því það var ekki Einarsstíllinn, Einarstónninn. Hann skildi koma, þessi tónn. Ég átti hann handbæran og hlaut að finna hann, einhenti pennann, skrifaði hraðar . . . Allt kom fyrir ekki, mér var lífsins ómögulegt að finna tóninn. – Þessi styrjöld stóð lengi dags. Þá hugkvæmdist mér að venda yfir í Jafetstóninn. Já, hvers vegna ekki að ganga að hinu ágæta tilboði Áslaugs Bergssonar og skrifa í Jafetsblaðið? Og enn beið ég ósigur. Einarstónn – Jafetstónn, ég kunni hvorugan. Þá fór ég inn í sjálfan mig, djúpt, djúpt, og skrifaði eins og mér var lagið. Það var minn eigin tónn, röddin í brjósti mínu. Aldrei fyrr hafði ég skrifað af öðrum eins jötunmóði. Krafturinn sem stýrði penna mínum uppsólg hverja hugsun mína, allt sem ég var sjálfur. Mér fannst þetta skrifkast örstutt. Samt stóð það í nokkra daga og nætur, með litlum hvíldum, öðrum en strjálum svefnstundum. Svo rann berserksgangurinn af mér jafnskyndilega og hann hafði komið yfir mig. Ástandið heima fyrir var ennþá alvarlegra, en ég hafði gert mér ljóst meðan skrifæðið geisaði í mér; engir peningar, börnin veik, öll þrjú, engin ráð til að kaupa þeim meðul. Nótt. Ég gekk um gólf með litla Vörð og reyndi að fá hann til að sofa. Hlíf sagði:

– Þau eru að komst yfir það versta. Þetta er bara kveffaraldur.

– Hvernig veiztu það?

– Það er ekkert annað. Hitinn er að lækka í þeim.

– Þú hefur engin meðul fyrir þau.

– Meðalasull bætir ekki svona lumbru.

Ég gekk um gólf með barnið og þagði.

– Vertu ekki að gera þér grillur, Vörður, sagði hún og las hug minn.

Ég beið dagskímunnar með vaxandi óþreyju, svo var drengurinn ekki fyrr sofnaður en ég ætlaði að snarast á dyr.

– Hvað ætlarðu að gera út svona snemma morguns? spurði hún.

– Ég fer í atvinnubótavinnuna. Þeir geta ekki neitað mér um það.

– Bíddu þar til birtir, bærinn er ennþá í fasta svefni.

– Þeir hljóta að taka mig í atvinnubótavinnuna, Hlíf.

– Þeir gera það.

 

Ég fót, meðan enn var hálfrokkið, varð fyrstur til að biðja um viðtal við bæjarstjórann þennan morgun – og beið árangurslaust þar til þeir lokuðu á hádegi. Á heimleið gekk ég hjá Valdórshúsi, en þóttist ekki þekkja það lengur. Þetta hús hafði verið selt. Þar bjó ókunnugt fólk. Bjarni bróðir minn var fluttur suður með fjölskylduna, hafði gerst stýrimaður á sunnlenzkum togara. Rúna farin. Mér var fróun í að hugsa til þess, að hún var hvergi nærri, eins og nú var ástatt fyrir okkur. Þegar heim kom sá ég að Hlíf hafði grátið.

– Hvað gerðist? spurði hún.

– Þeir eru á klíkufundi, en ég næ í þá samt og verð kominn í vinnuna á morgun.

– Ég vissi, að þú mundir ekki láta bugast, hvíslaði hún.

Það var hljótt í húsinu. Börnin sváfu, og nú þóttist ég vita, að þau drykkju í sig lífsaflið með hverjum andardrætti.

 

Aftur í bæjarskrifstofunni. Eftir stutta bið lét Erlendur Steingrímsson vísa mér gagngert inn til sín. Loksins þótti honum rétti tíminn upprunninn til að láta sem hann þekkti mig og myndi kínversku krána og krásarfötin.

– Þú vilt minnast gamalla kynna, sagði ég.

– Mér er næst að halda, að þú sért ekkert mótfallinn því, sagði hann, horfði framhjá mér höllu höfði og var innibyrgður í þögn sína.

– Það er orðið um seinan að tala um Erlend Halldórsson, þér, Erlendi Steingrímssyni, hefur fyrir löngu tekizt að ganga af honum dauðum, og gildir einu, hver Erlendurinn er. Ég kom hér til að biðja um vinnu. Ástæður mínar eru þannig, að ég á fullan rétt til atvinnubótavinnunnar.

Erlendur leit á mig með öðru auganu og sagði:

– Mig vantar ritstjóra að blaðinu.

Ég spurði ekki um, hvað hann ætlaði að gera við Halla frá Görðum, en sagði:

– Ef ég fæ ekki atvinnubótavinnuna nú þegar, þá leita ég réttar míns hjá öðru yfirvaldi.

– Það verður ekki atvinnubótavinna meir, var svarið.

– Þeir eru að vinna, og er á meðan er.

Orð mín virtust engin áhrif hafa á Erlend. Hann sagði, og kenndi hita í rómnum:

– Bókasafnið fylgir Deildarblaðinu. Þú hefur beðið eftir að komast þangað síðan þú fórst þaðan. Nú er tækifærið. Þú hefur fengið þá reynslu hjá Einari, sem þarf til að verða góður ritstjóri fyrir Deildina.

Orð hans snertu mig ekki, frekar en orð mín snertu hann.

– Tilgangslaust að halda þessu áfram, sagði ég. – Láttu mig hafa þá vinnu, sem mér ber.

Eitthvað, sem líktist brosi kom fram í svip Einars, þegar hann sagði:

– Ef þú vilt ekki bókasafnið, þá vantar mann í öskuna strax á morgun.

– Í öskuna, hafði ég upp eftir honum.

Þögn. Nú voru orðin hamrömm og hrópuðu í þögninni. Loksins fékk ég sagt:

– Ertu að bjóða mér að gerast öskukarl?

– Þér stendur safnið til boða, þú ræður hvort þú velur öskuna.

Ég þagði við, ekki til að hugsa, hér var ekki um neitt að hugsa og ekki um neitt að velja. Stundum er ógjörlegt að segja þau orð, sem manni ber að segja, þó tókst mér að segja þau:

– Ég fer í öskuna, sagði ég.

Erlendur var orðinn dökkrauður í andliti, stóð á fætur, gekk mældum skrefum fram á gólfið, nam staðar og sagði:

– Þú gazt skrifað fyrir Einar, jafnvel fyrir Áslaug, af hverju ekki líka fyrir mig?

– Ég er ónýtur ritstjóri, þegar á reynir, og þess vegna fer ég í öskuna.

Erlendur gekk alveg til mín, röddin lág og föst:

– Þú lærir það, sem á vantar hjá mér, ég ábyrgist það. Safnið bíður eftir þér, og þú getur ekki hafnað því.

Enn varð þögn. Ég var ekki að vega og meta þau orð, sem ég hafði sagt, ekki að taka neitt aftur, en kannski var vilji minn ekki nægilega styrkur. Erlendur gekk á lagið og sagði:

– Hverju svarar þú?

Svar mitt var borið fram af meira öryggi og þrótti en ég þorði að vona:

– Þessu verður ekki breytt. Ég fer í öskuna.

Erlendi varð orðfall. Andartak starði hann á mig opinmynntur. Honum hafði sjálfsagt loksins skilizt, að hann talaði fyrir daufum eyrum öskukarlsins.

– Klukkan hvað byrja þeir í öskunni? spurði ég.

Erlendur sagði þetta eina orð:

– Sjö.

Þegar út á götuna kom, þóttist ég eiga erindi í bókasafnið. Halli lauk upp fyrir mér. Ég sagði án þess að líta hann augum:

– Mætti ég vera hér einn litla stund?

Hann anzaði engu orði, en dró sig burt með bældum sáraukastunum. Það týrði á einu ljósi, og tunglið lýsti inn um gluggana. Bókamúrinn reis í kringum mig mikilúðlegur og hljóðbær eins og forðum. Hér var ekki hægt að hafa rangt við í hugsun. Hér dæmdist hver fölsk hugsun feig.

Var ég hræddur?

Ekkert í mannsmynd þóttist standa neðar öskukarlinum. Ég var þessi öskukarl. Ef ég óttaðist hann, þá þekkti ég hann ekki ennþá.

Skáldsnillingarnir, þeir voru hér nú, eins og fyrst þegar ég kom að þessum múr, ungur drengur, og slógu hörpur sínar. Það var ljúflingslag og rammaslagur. Ég hafði ekki farið héðan, færi ekki, þótt ég kæmist aldrei meir – og gat gert það, sem mér bar að gera . . .

 

 

Heima í Kistu beið mín gestur, Indía Bessadóttir. Við höfum ekki sézt síðan hún kom til mín í einkaskrifstofuna. Hún brosti hýrlega og sagði:

– Ég er komin til að gera allt gott aftur.

– Það er þér líkt.

– Hvaðan kemur þú? spurði hún.

– Úr bókasafninu.

– Bókasafninu, hélt kannski, að þú hefðir farið til Einars Jóhannssonar.

– Langar Einar að tala við mig?

– Blaðið veldur honum áhyggjum, sagði Hlíf.

– Það er slæmt, ég hef ekki lengur hug á því starfi.

Indía var hætt að brosa og sagði:

– Þú átt ekki völ á betra starfi, Vörður.

– Sendi Einar þig?

– Ég er ekki komin til að karpa.

– Heyri það. Þú ert sáttaboði.

– Segðu það, sem þú vilt, Vörður. Ég ætla að koma í veg fyrir, að þú gerir ófyrirgefanlega vitleysu.

– Gerðu það. En fyrst skaltu segja Einari, að Erlendur hafi ráðið mig í vinnu. Segðu honum, að ég byrji klukkan sjö í fyrramálið, þá veit hann, hvað það er.

Indía stóð hikandi á fætur og fálmaði um háls sér, líkt og henni væri þröngt um andardráttinn. Hún sneri sér að Hlíf, eins og hún vænti sér stuðnings hjá henni, og sagði með hryllingi:

– Veiztu, hvað hann er að tala um?

Hlíf svarði engu.

– Þú veizt það ekki, Hlíf. Ég veit það. Einar hefur sagt mér það. Þú manst eftir öskugreininni . . . Indía hrópaði:

– Guð á himninum varðveiti þig, Hlíf.

– Hvað á þetta að verða? spurði Hlíf.

– Þú trúir því aldrei, Hlíf. Hann er að segja okkur, að hann ætli að gerast öskukarl.

Hlíf horfði á mig í þögn og átti sýnilega í baráttu.

– ég hefði viljað segja þér frá þessu án milligöngu annarra, varð mér að orði.

– Þess þarf ekki . . . Hún hló stuttan. – Mig uggir, að fljótlega þyki þeim sorpið of gott fyrir þig.

– Ykkur finnst, að ég sé að sletta mér fram í það, sem mér kemur ekki við . . . Indía bar ótt á. – En ég get ekki horft á góðan mann fara í hundana. Þú hlýtur að skilja mig, Hlíf, hvað sem um Vörð er, að ég er hér til að hjálpa ykkur.

– Ætli ég skilji þig ekki nægilega vel, Indía mín. Þú ert velkomin hvenær sem er, nema þegar þú kemur til að frelsa okkur í nafni Einars Jóhannssonar.

Indía gekk í sveig hjá mér og að dyrunum, eins og hún fyndi þegar af mér sorpdauninn, og sagði:

– Sumt fólk er þannig gert, að það verður að fara um það eins og verkast vill.

– Eigum við ekki heldur að segja, að hver eigi nóg með sjálfan sig og sé lítið aflögufær fyrir náungann, sagði Hlíf.

Indía anzaði þessu engu, en leit á mig úr dyrunum og sagði:

– Ég trúi því ekki, Vörður, að þú gerir þetta, trúi því ekki . . .

Hún lokaði hurðinni fast á eftir sér.


Lífsorrustan – XXII. (21) –