Óskar Aðalsteinn

L Í F S O R R U S T A N

Skáldsaga

 

 

Iðunn
Reykjavík, 1964

Copyright ©1964
All rights reserved


ANNAR HLUTI


XXII.

(bls.256)
Kannski vildi ég flýta því, sem fram átti að koma; lá andvaka seinni hluta nætur og beið dögunarinnar. Kuldastrengurinn stóð gegnum mig strax og ég kom út fyrir dyrnar. Það var fjúk með talsverðu frosti. Neðarlega á Eyrinni, sem næst sjónum, stóð öskuskúrinn svonefndi. Hurðin var í hálfa gátt, öskukarlarnir mættir, þeir Enok, Leópold og Ingi sperrti. Ég heyrði til þeirra út um opnar dyrnar. Þeir skrolluðu og skopuðust að aðskotadýrinu, sem brátt mundi sýna sig í allri sinni dýrð, eins og Leópold orðaði það.

– Þetta er ein lygin úr spænska skrattanum, gall Ingi við. – Hvenær hefur það spurzt, að stórherrarnir láti ritstjóra sína í öskuna?

Enok sagði:

– Brá-bráðum fer E-erlendur sjálfur í öskuna.

Um leið og karlarnir urðu mín varir felldu þeir talið. Það varð vandræðaleg þögn. Ég bauð góðan dag. Þeir önzuðu með flissi og rámum rokum.

– Á ekki að fara að byrja? spurði ég.

Ingi varð fyrir svörum:

– Sá spænski ræður því. Hann var ekki að vanda þér kveðjurnar við okkur í gær.

Leópold í söngnum tón:

– Eins og hann Pétur hefur elskað þig heitt undanfarnar vikur. Hann var eins og engill hvert sinn, sem hann talaði um þig.

– Svo sá hann, hvað var undir sauðagærunni, sagði ég. – Þá er að taka því, piltar. Ég vona, að vel fari á með okkur.

Það hummaði í körlunum. Ég þóttist vita, hvað þeir hugsuðu: Hélt þessi ritsnápur kannski, að askan væri afar einfalt mál, að hvaða dóni sem var gæti tekið að sér að vera öskukarl? Ég skyldi tala við þá að leikslokum. Þeir kóktu upp á mig, líkt og þeir tryðu því tæplega ennþá, að ritstjórinn væri orðinn einn af þeim. Enok steig nú feti nær mér en hinir, lágur og breiður á bolinn, hnýttur af ára þrældómi, hafði staurhandlegg, fingurnir hálfkrepptir inn í lófann, og handleggurinn stóð út frá bolnum eins og dauður hlutur. Hann otaði honum í átt til mín og sagði með tungubroddinn tifandi út í hægra munnvikið:

– Vi-við verðum saman um tunnu.

– Hvernig þá?

Karlarnir hlógu, nema Enok, sem var mjög grettur. Hann var það víst alltaf, en nú var honum áreiðanlega venju fremur skapfátt. Spurning mín var víst tæpast svara verð, samt sagði Enok:

– Þú kemur í stað Tomma. Hann rak upp tærnar í vikunni, sem leið.

– Það eru slæm kaup í mér fyrir þrælvanan mann, anzaði ég.

Karlarnir þögðu, en héldu áfram að glenna upp á mig skjáina, fengu sig ekki fullsadda á að skoða mig. Þeir voru í frakkaræflum utan yfir vinnufötunum og gyrtu sig snærum. Enok fékk mér drusluna af Tomma og sagði um leið:

– Þetta skýlir vel í kul-kuldanum, hei-heilagsandafrakki. Tommi fann hann í pre-preststunnunni.

Karlarnir hlógu. Ég fór í frakkann og gyrti mig snæri. Ingi sperrti sneri skyggninu á húfu sinni aftur, Enok hafði það út í vangann, ég lét það snúa fram eins og venjulegt var. Leópold bar grænt skyggnislaust pottlok á höfði, sem helt líktist kvenhatti, og fest í silfurnæla. Leópold var lágur vexti, baraxlaður, bjúgfættur, með bogið nef og stór blá augu. – Eitt sinn hafði Ingi verið sperrtur. Nú var hann lotinn í herðum, mjór og krankalegur, þó eimdi enn eftir af sperringnum í höfuð- og handaburðinum. Kannski voru þessir karlar ekki út af dauðir ennþá, kannski voru þeir eitilharðir inn við beinið. Var ekki dulið glott á bak við gretturnar? Sjálfsagt áttu þeir eftir að lesa yfir mér, svo að um munaði. Ég yrði að vonum tekinn inn í regluna með tilhlýðilegri viðhöfn. Enok var líklegur til að byrja, hann sagði:

– Þú getur ekki verið ve-vettlingalaus.

Ég hafði búizt við allt öðru en þessu. Hvað um það, vettlingalaus var ég, hafði gleymt þeim heima, hafði líka gleymt að fara í peysu innan undir jakkann, mikið að ég fór ekki út á sokkaleistunum líka.

– Ég næ mér í vinnuvettlinga, sagði ég.

– Já, reyndu það, hrein í Inga. – Í þessum gaddi dugar ekki nema svellþykkir kútar. Askan er ekkert skrifstofuföndur, skaltu vita.

Leópold fór inn á sig eftir vænum belgvettlingum, tróð þeim í handarkrika minn og sagði:

– Hafðu þá, er alltaf birgur af kútum, hún Flóra mín sér um það.

Ég fékk ekki tóm til að þakka fyrir mig. Pétur spænski var kominn með öskutrogið. Hann þóttist ekki sjá mig, en ók af stað í loftinu um leið og við bröltum upp á bílpallinn. Og öskuskrallið var í algleymingi. Ég elti Enok, smaug með honum um húsasund og hálffennta garða eftir öskutunnum. Hann hafði kraftblakkarorku í staurhandleggjum, kreppt krumlan eins og járnkrókur. Stundum missti ég af tunnu, var ekki nógu fljótur til, tunnan komin á loft áður en mig varði. Enok hafði slengt henni á bakið og kallaði um öxl sér:

– Þú ve-venst, hehehe.

Strax og rjúka fór úr drafinu á bílpallinum gerðist mér þungt yfir höfði, og það var eins og innyflin vildu upp úr mér. Svo kastaði ég upp ofan í öskutunnu, hafði flýtt mér á bak við hús á undan Enok, var enn að kúgast, þegar hann bar að. Hann ýtti við mér, svo að ég gleymdi mér ekki í draumum mínum, svipti um leið tunnunni á bak sér og var horfinn. Við gengum samhliða inn í næsta húsasund. Enok gapti upp á mig, tungubroddurinn tifaði út í hægra munnvikið, svo kom:

– E-ertu orðinn gó-góður?

– Þetta var ekkert.

Þegar við stönzuðum við næstu öskutunnu, rak hann enn upp á mig augun og sagði:

– Ka-kannski hefurðu tekið um-umferðapestina.

Hann var ekki að hæða mig. Honum var alvara með það, sem hann sagði. Sjálfur var hann víst fyrir lögnu búinn að gleyma því, að nokkur sérstakur ódaunn væri af skarninu. Annars rjátlaðist mesta vesöldin af mér eftir því, sem á leið morguninn. Snjódrífan var uppstyttulaus. Við þengdum okkur þétt saman við stýrishúsið og leituðum skjóls, hver hjá öðrum fyrir gjólunni, meðan ekið var í nýjan áningarstað. Leópold fór með sand af gleðivísum, Enok og Ingi skrolluðu undir, eitthvað hló líka niðri í mér. Polli hafði tón, sem kitlaði. Upp úr miðri vísu sagði hann við mig sínum sönglandi rómi:

– Hefurðu séð hana Flóru mína?

Ingi svaraði fyrir mig:

– Það má nú sjá minna brikki.

Leópold horfði á mig bláum stórum augum og sagði:

– Hún Flóra hefur aldrei verið nein fegurðardrottning . . . Hann sagði þetta eins og Flóra væri fegursta kona heims.

– Mér lízt stórvel á kerlinguna þína, sagði ég.

Ekki minnkaði aðdáunin í svip Leópolds, þegar hann sagði:

– Verst hvað hún Flóra mín missir hárið, varla nokkurt strá eftir á hausnum á henni, fjandakornið hún getur hulið skallana. Og tennurnar, þær detta úr henni hver af annarri, ekki orðin sjón að sjá upp í hana Flóru.

Bíllinn stóð kyrr. Pétur öskraði á okkur. Við rukum af stað eftir öskutunnum. Brátt var miður dagur og hafði birt upp. Fólk hópaðist út á göturnar. Kannski gláptu sumir á mig, en aðeins andartak. Fólk hafði um annað að hugsa en öskukarlana, þó ekki væri nema að forða sér burt. Einu sinni eða tvisvar bar ég fulla öskutunnu á bakinu og spretti vel úr spori. Enok hældi mér óspart við þá Leópold og Inga sperrta. Pétur hleypti engum okkar inn í bílinn til sín, en æpti á okkur hversu lítið hlé, sem varð á vinnunni.

– Áfram djöflarnir ykkar, öskraði Pétur.

Eitt sinn barði ég á bíldyrnar. Pétur rak rauðþrútið höfuðið út um gluggann og hvæsti:

– Hef ekkert við níðing og svikara að tala.

– Öllum getur orðið á í messunni, sagði ég. – Gleymdu því ekki, Pétur minn, að oft hefur Búfræðingurinn yljað okkur báðum um hjartaræturnar.

– Aldrei hef ég vitað svikara fá háðulegri málagjöld en þig, öskraði Pétur og skellti aftur glugganum.

Karlarnir horfðu skældir út í loftið, æmtu ekki né skræmtu gegn Pétri, sem var höfuð þeirra og herra.

Kvöld. Bíllinn farinn burt, öskukarlarnir tíndust hver til síns heima. Enok kallaði á eftir mér:

– Sleypi-steypiríið á morgun.

Hann var að minna mig á vinnuna í öskuskúrnum, sem mundi falla mér í skaut eins og honum og félögum hans. Þegar heim kom, bjó Hlíf mér bað í stórum þvottabala á miðju eldhúsgólfinu. Þrátt fyrir rækilegan þvott, tókst mér ekki að þvo af mér öll einkenni öskukarlsins – og kærði mig ekki um það.

 


Lífsorrustan – XXII. (22) –