Óskar Aðalsteinn

L Í F S O R R U S T A N

Skáldsaga

 

 

Iðunn
Reykjavík, 1964

Copyright ©1964
All rights reserved


ÞRIÐJI HLUTI


XXIII.

(bls.260)
Næst þegar öskurallið stóð sem hæst, var ég rifinn frá sorptunnunni, leiddur inn í skrifstofu og settur niður í leðurdreginn stól. Jafet Jónasson var hér að verki, fullur með orku, sem hann komst ekki yfir að eyða, og sagði:

– Þá hef ég orðið hvað hræddastur um mitt gengi, meðan þú skrifaðir Búfræðinginn.

– Svo lyppaðist ég niður, þegar sízt skyldi.

– Ekki var það allt þín sök. Erlendur sá ofsjónum yfir þessari Einarsvelsæld og rak á endahnútinn.

– Enginn veit, hvar góðri sögu lýkur, sagði ég og stóð á fætur.

Jafet gekk í kringum mig, horfði á mig frá öllum hliðum, eins og ég væri eitthvað sjaldgæft furðuverk, og sagði síðan:

– Þú gleymir ekki Erlendi fyrsta kastið.

– Hvað á ég að muna honum?

– Hann lokaði þig niðri í öskutunnunni, svona eru meisturum stundum mislagaðar hendur.

– Ég valdi tunnuna sjálfur, og nú ætla ég að fara og tæma þína tunnu.

– Enginn okkar hefur annað upp úr þér en skít og skömm, og ekki skánar þú í öskunni?

– Hvað hef ég unnið mér til óhelgi í öskunni?

– Það er spurning, sem margir velta fyrir sér.

– Jæja, þið hafið ekki hingað til haft áhyggjur út af öskukörlunum.

– Gættu þess, Vörður, að við höfum alla tíð átt öskukarla, sem bara voru öskukarlar.

– Þannig meint. Veit ég vel, að ég er enginn jafnoki fyrirrennara míns í faginu, Tomma halta, en þetta stendur til bóta . . . Ég gekk að dyrunum. Jafet stóð þar fyrir, tók smálega á mér og sagði:

– Ég ræð, hvenær hvolft er úr minni öskutunnu. Ætla að segja þér það síðastra orða, að þetta endar ekki nema á einn veg fyrir þér.

Ég fékk ekki leynt undrun minni og spurði:

– Ertu líka spámaður, Jafet?

Tilgangslaust að spyrja. Jafet bara glotti og hleypti mér út. Þetta var í fyrsta sinn, sem öskukarl lét Pétur spænska bíða eftir sér, svo að orð væri á gerandi, enda gekk svo fram af Pétri, að hann gleymdi að hrópa ókvæðisorð og settist steinþegjandi við stýrið. Það krimti ánægjulega í körlunum. Kannski höfðu þeir ekki fyrr upplifað öllu líflegra öskuskrall en það, sem nú stóð yfir. Að vera í öskunni hét á máli Inga sperrta, að klóra óværuna af bæjarbúum, Leópold nefndi það, að hvítþvo englaliðið, Enok, að gera hreint niður að nafla. Þeir slökuðu ekki á klónni allan daginn, stanzlaus hlaup með tunnurnar, varla að þeir gæfu sér tóm til að gleypa í sig. Það var háðung að klára ekki yfirferðina á einum degi, sögðu þeir. Þetta hafðist líka leikandi, nema í mestu aftökum og illviðrum. Það var líka háborin skömm, ef lögskipaður öskudagur féll niður, sem var fimmtudagurinn. Kom naumast það stórviðri á fimmtudegi, að ekki væri farið í öskuna. Aðrir dagar en fimmtudagar voru engir öskudagar. Það voru útillir öskukarlar, sem stimpuðust við tunnurnar, ef ekki var fimmtudagur. Tilveran hafði gengið úr skorðum. Karlarnir höfðu verið sviknir um hinn eina sanna öskudag.

 

 

Alla aðra daga en fimmtudaga voru við í steypiríinu í öskuskúrnum. Spænski Pétur sett okkur ríflega fyrir upp á daginn. Svona og svona margar hellur áttum við að steypa, svona og svona marga rennusteina og skolprör. Körlunum var það heilagt metnaðarmál að skila jafnan tilsettu dagsverki. Annað þótti háborinn vesaldómur og amlóðaháttur. Daglangt var keppzt við undir drep. Eitt sinn sagði Enok upp úr skorpunni:

– Spænski skrattinn er hættur að standa yfir okkur.

– Djöfsi sést ekki nema stórum og sjaldan, hnykkti Ingi á.

– Hann er eins og fljúgandi diskur, sönglaði Leópold.

Nú varð þögn meðan steypunni var komið í mótin. Þegar skorpunni lauk, tylltum við okkur niður og drukkum kaffið. Enok lagði undir flatt og sagði eins og mest við sjálfan sig.

– Vi-við erum tveim hrærum á e-eftir.

Ingi:

– Skrattinn hefur þá út af einhverju að rífast.

– E-ef hann gley-gleymir ekki að koma, skrollaði Enok.

Leópold:

– Hann skelfur um leið og hann kemur í dyrnar. Hörmungar heilsa sem maðurinn býr við, þarna skelfur hann og skelfur eins og strá í vindi.

Ingi leit á mig:

– Hvað hefur hlaupið í delann? Þá sjaldan þú yrðir á hann, hittir hvert þitt orð hann í vitlausa beinið, svo að ég tali nú eins og hann Tommi heitinn halti . . . Og hækkaði róminn. – Þú kannt, sko, réttu orðin, Vörður, – ja, mikill djöfull. Ef ég kynni eitt rétt orð, þá væri maður ekki að sperrast þetta í öskunni, ekki hann Ingi Jónsson.

Enok:

Betra? Sá spyr vizkulega. Að hafa réttan talanda, fíflið þitt, það er að hafa allt.

Leópold:

Þú gleymir Verði, að hann er í öskunni, þótt hann kunni hið eina rétta faðir vor á himnum betur en allir hinir kögursveinarnir.

Ingi horfði á mig með áfergju og sagði leyndardómsfullur:

– Hvort ég mundi ekki plumpa mig, hefði ég annan eins kjaft og þú.

– Þér dugar þinn kjarftur fullvel og hefur ekki yfir neinu að kvarta.

– Vertu ekki að fegra það, sem ekkert er, sagði Ingi næstum bljúgur. – Mín orð hafa aldrei komið niður í réttan stað. Þar í liggur munurinn á þér og mér, þér og okkur hinum. Og mikið andskoti tekur spænka kvikindið út, þó þú ekki nema bjóðir því góðan daginn.

Leópold:

– Hann má muna sinn fífil fegri, Pétur minn. Þarna stóð hann yfir okkur hvern kaffitíma, sem guð gaf, og rak okkur á fætur um leið og við vorum setztir á rassgatið.

Enok:

Hann ble-blessaði hvern bita, sem ofna-ofna í okkur fór.

Leópold:

– Og söng morgun- og kvöldbænirnar fyrir okkur.

Ingi drakk síðasta dreitilinn úr geyminum og sagði hlakkandi:

– Vörður hefur alveg farið með djöfsa. Sá kann að bjóða góðan dag, svo að bragð er að. En hvað er ég að þvaðra, sem ekkert kann fyrir mér og ekkert á nema fullt hús af börnum.

– Hvað eru börnin mörg? spurði ég.

– Mörg? hafði Ingi upp eftir mér.

Enok:

– Nú ste-stendur í Inga.

– Guð einn telur blessuð börnin, sönglaði Leópold.

Ingi:

– Fæ eitt og tvö á ári. Einu sinni voru þau tíu, þá hætti ég að telja, nennti því ekki lengur.

Leópold:

– Engillinn hefur fært okkur Flóru fjögur stykki, tvö af hvorri sortinni fyrir sig.

Enok:

– Ég á þau sex. Palla mín dó af því sjö-sjötta. Ég kvarta ekki, tengdamamma séru um heim-heimilið.

– Við erum allir hólpnir fyrir öskuna. Okkar dagur er fimmtu . . . Ingi steinþagnaði, honum hafði verið litið fram í dyrnar.

Þar stóð Pétur spænski.

Hann kom ekki lengra en í dyrnar, var grár í framan en ekki rauður, og hvarf burt í skyndingu án þess að yrða á nokkurn mann.

– Þekktuð þið stertimennið? gall Ingi við.

– Ekki var þetta hann Pétur minn, sönglaði Leópold.

– A-a-amen, sagði Enok í Pollastíl.  

 

Sunnudagur og gestakoma í Kistu; Flóra Leópoldskona, og ekki beinlínis smáfríð eða lítil á vöxt, virtist mikið fyrir sterka skjannalega liti, var í dimmblárri kápu, hárauðum kjól og með appelsínugulan klút á höfði. Flíkurnar voru eins og hver úr sinni áttinni, sýnilega nýlitaðar og marglitaðar við frumstæð skilyrði. En mikil var litadýrðin, og Flóra var kát og hafði margt að segja. Og ekki kom hún ein, var með litlu Flórurnar og litlu Pollana. Telpurnar höfðu rauða borða í hárinu, og strákarnir voru með bláa trefla. Ragna og Garðar hændust strax að þessum börnum og léku sér með þeim úti og inni. Flórubörnin voru sífellt að skella hurðum og trítla upp og niður stigann. Flóra gerði bæði að hlægja að þeim og hasta á þau.

– Þetta eru eins og flær á skinni, sagði hún. – Það er ekki von á því öðru vísi undan honum Leópold.

Hlíf kunni vel að meta svona gestkomu og sagði:

– Leópold hefði átt að sýna sig líka.

– Hann Leópold. Þú ættir að reyna að aka honum af stað. Hann sefur eins og rotaður selur, þó að þú æpir í bæði eyrun á honum. Þetta er svo sljótt . . . Flóra lækkaði flugið, þegar hún bætti við. – Ég kem nú eingöngu vegna hans Inga.

– Er eitthvað sérstakt með hann, spurði Hlíf.

Flóra var aftur uppi:

– Er ekki alltaf eitthvað með þessi karldýr? Eru þeir ekki oftast öfugir við það, sem þeir eiga að vera, hahaha?

– Þú segir vonandi engar fársfréttir . . . Hlíf hló.

– Búðu þig bara undir það versta. Maður æðir ekki inn á bláókunnugt fólk út af hreint engu.

– Jæja, þú gerir mig forvitna.

– Það verður heldur ekki meira –, jú, þú heldur auðvita, að ég sé snarvitlaus.

– Nei, svo slæmt er það ekki.

– Jú, jú, þú heldur það, þegar ég segi þér erindið manneskja. Sko, hann Ingi sperrti á sextugsafmæli næsta miðvikudag. Þura hans sagði hann 58, sjálfur vildi Ingi ekkert fortaka, þegar til alvörunnar kom, þá tók ég til minna ráða og lét prestinn skera úr.

– Og Ingi verður þá áreiðanlega sextugur á miðvikudaginn? sagði Hlíf.

– Eins mikið sextugur og hann getur nokkurn tíma orðið, karlrokkurinn. Þótt armur og ómögulegur sé, þá verður að sjá þetta við hann og gera eitthvað.

Hlíf:

– Þú átt við, að við öskukerlingarnar höldum honum veizlu.

– Eins og talað út úr mínu eigin hjarta, hrópaði Flóra. – En hún Þura má ekkert um þetta vita fyrsta fallið, gerir ekki annað en að flækjast fyrir, er rétt einu sinni komin á steypirinn, megum prísa okkur sælar, ef hún dettur ekki ofan í veizluna. Svo er það þetta, heillin góð, að ekki er nokkur vinnandi vegur að halda stórveizlu í skúrnum hjá Inga, rottukjallarinn minn er þó sínu verri, en aumast af öllur er þó grenið hans Enoks, tvær súðarkompur í bæjarkastalanum.

Hlíf varð mjög hýr við þessa ræðu og sagði:

– Þar með er allt upptalið, nema Kista. Hér er enginn veizlusalur eins og þú sérð, en við reynum að notast við stofuna og tjöldum því, sem til er.

– Þetta ætlar að verða logandi skemmtilegt, sagði Flóra stórhrifin. – Og þú skalt aldeilis fá að kenna á því, að ég er til. Hún Flóra flókatrippi verður heimagangur hjá þér næstu dagana. Við verðum að baka hverja ögn til veizlunnar hérna hjá þér. Það er sístækkandi gat á bakaraofninum mínum, og karlskrattinn hummar fram af sér að troða í það, hvernig sem ég rífst í honum.

Flóra hafði vart fyrr nefnt Leópold á nafn, en hann kom í eigin persónu og bar blikkkassa undir handleggnum.

– Sælt veri fólkið, sagði hann sínum söngvna rómi. – Er hér með smávegis, svo að hægt sé að starta veizlunni, vissi að ástaryndið mitt var komið hingað til að gera allt klárt.

Flóra lyfti sér á tá og sagði blaðskellandi:

Svona elskar hann mig óstjórnlega, eins og ég sé útvalin fegurðardís.

Leópold í aðdáunartón:

– Þú ert engri annarri herfu lík, litli engill.

Flóra hló af hjartans lyst.

 


Lífsorrustan – XXIII. (23) –