Óskar Aðalsteinn Guðjónsson


Ljósið í kotinu


Skáldsaga



 

Prentstofan Ísrún
Ísafjörður, MCMXXXIX
Copyright ©1939
All rights reserved

 


Í þoku


3.


Hreinn.

Hann var í vegavinnu fyrir handan heiði.

Á kvöldin, þegar vinnu var lokið, gekk hann oft langt inn á heiðina, stundum svo langt, að hann sá hilla undir vesturfjöllin, sem umkringja eyrina, Hann hafði ánægju af þessum göngum, einkum er loftið var bjart og skinið frá kvöldsólinni varpaði töfralínu sínu um náttúruna í kring.

Það var oft liðið langt á nóttu, þegar hann kom aftur til tjaldanna. Verkamennirnir voru þá löngu sofnaðir. Vinnan var erfið og ekki vanþörf á að njóta hvíldarinnar. Þeim þótti hátterni Hreins einkennilegt . . .

Hreinn Þorfinnsson var á leið yfir heiðina.

Veður var stillt og milt. Smá skýslæður mynduðust hér og hvar á bláu himinhvolfinu. Þær voru óvenju hvikular og fljótar að taka myndbreytingum.

Hreinn gekk mjög hratt. Hann hafði lagt hendurnar á bakið og horfði mest niður fyrir sig. Yfir svip hans hvíldi deyfð og ró. Andlitsdrættirnir voru hreinir og mjúkir, ómótaðir eins og á barnsandliti, en samt minntu þeir á tómleika og vonleysi.

Vindblástur kom innan af heiðinni. Skýslæðurnar dökknuðu óðum og umvöfðu himininn dökkum bólstrum, sem smá dreifðu úr sér. Inna stundar mátti búast við úrfelli. Hreinn átti veðrið í fangið á heimleiðinni. Hann fór því að hugsa til heimferðar. Framundan lá brött hæð, en af henni var gott útsýni yfir fjöllin í vestri. Þau voru há og hrikaleg, girt hamrabeltum efst, en sundurskorin af giljum og skriðum niður undir láglendi.

Hann herti gönguna og var fljótur þennan spöl, sem eftir var upp á hæðina. Honum varð litið ofan eftir veginum, sem hlykkjaði sig í bugðum og beygjum milli holta og barða, en hvarf síðan fyrir hátt leiti. Ofan til við leitið sá hann eitthvað kvikt, sem sótti á brekkuna. Það var stúlka.

Hann ætlaði strax að snúa við og halda heim, en honum fannst hann endilega þurfa að líta við áður. Það var eitthvað í fasi þessarar stúlku, sem hann hafði unun af að horfa á.

Þá fór stúlkan að veifa til hans vasaklútunum sínum. Honum þótti það undarlegt, en kunni samt ekki við að hlaupa í burtu. Það fór titringur um líkama hans – og ekki laust við, að roði færðist í kinnarnar. Hann hafði lítið gefið sig að kvenfólki – og nú – svona uppi á háfjöllum.

Hún var mjög móð af göngunni.

– Ó, mikið lifandi skelfing var ég heppin að hitta yður hér. Þér ættuð nú að vera svo góður að lofa mér að fylgjast með. Ég er annars ári hrædd um, að hann ætli að fara að gera eitthvað vont. Hún sagði þetta brosandi og fleygði sér í grasið við fætur hans.

– Já, yður er það meira en velkomið. Hann var fljótmæltur. Honum var það ókunnugt, hvernig ungar stúlkur vildu, að ókunnir karlmenn töluðu, þegar þær hittu þá svona langt í burtu frá öðrum.

Honum varð litið á kvenmanninn, sem lá þarna í nýgræðingnum við fætur hans. Hún var frekar há og grönn, mjúklega vaxin og samsvaraði sér vel. Hárið gult og mikið. Andlitið smágert og slétt eins og á telpu um fermingu. Augun heiðblá og barnslega sakleysisleg. Varirnar þunnar, og blóðmiklar. Í öllum línum líkamans virtist fjör og þróttur. Það fór notaleg kennd um líkama Hreins Þorfinnssonar, kennd, sem hann raunar kannaðist við, en aldrei hafði orðið eins ljós og nú. Það greip hann sterk þrá til að varpa sér niður í grasið við hlið stúlkunnar og faðma hana að sér. En hann stóð hreyfingarlaus með hendurnar á bakinu án þess að segja nokkuð. Augu þeirra mættust. Roðinn varð enn dekkri í andliti hans. Krampakenndir drættir fóru um allan líkamann. Hjartanlegur hlátur hennar rauf kyrrð fjallanna.

– Eigum við ekki að halda áfram? sagði hún og stóð á fætur, snör og liðug í snúningum.

– Jú, jú, það er víst réttast. Hann var eitthvað annars hugar, og tungan vafðist fyrir honum. Stúlkan var víst búin að gleyma, að þau þekktust ekkert.

Svo héldu þau af stað, hlið við hlið, yfir heiðina. Það dimmdi óðum. Skýjabólstrarnir uxu jafnt og þétt og dökknuðu að sama skapi; brátt höfðu þeir breitt úr sér um allan himininn og hulið allt gráleitri móðu. Það rigndi, en lítið í fyrstu. Rigningarinnar gætti þó meir, af því veðrið var í fangið.

Þögn . . . Ekkert heyrðist nema skrjáfið í fótum þeirra við mölina á veginum.

– Ætlar þú langt? spurði stúlkan.

– Nei, hérna til tjaldanna austan undir heiðinni, sagði hann rólega. Honum þótti vænt um, að hún skyldi segja eitthvað.

– Nú, þú ert einn af vegavinnumönnunum. Ég sá ykkur í fyrradag, þegar ég fór framhjá. Áttu heima á Eyrinni? bætti hún svo við eftir dálitla þögn.

– Já, ég á heima á Eyrinni.

– En hvað heitirðu? Hún leit brosandi framan í Hrein.

– Ég heiti Hreinn, sagði hann hratt, síðan bætti hann við hikandi: – En þú?

– Inga, sagði hún eins og annars hugar . . .

– En, heyrðu, sagði hún svo dálítið vandræðalega og smeygði um leið hendinni ósköp mjúklega undir handarkrika hans. – Ég á heima á Kömbum. Hefur þú nokkurn tíma komið að Kömbum?

Jafnskjótt og hann varð var hinnar mjúku snertingar, vaknaði unaðsrík hugsun í sál hans: Inga á Kömbum. Átti það þá að verða hún?

Hann svaraði stúlkunni eins og úti á þekju:

– Komið að Kömbum? Nei . . .

– Heldurðu þú vildir vera svo góður að fylgja mér undir túngarðinn?

– Jú, ég get fylgt þér heim undir túngarðinn.

Það var þá svona að kynnast stúlku, hugsaði hann.

Þau hvíldu sig einu sinni á leiðinni undir háum hól. Þar var hlé. Hún hjúfraði sig upp að honum.

Þó honum væri kalt og hann væri blautur inn úr, þá fann hann samt ylinn frá líkama hennar.

– Hvað varstu annars að fara, Hreinn? spurði hún eftir dálitla þögn.

– Ég var bara að ráfa þetta að gamni mínu. Það var tómahljóð í röddinni.

– Nú, sagði stúlkan hálf hissa og spyrjandi. Svo hló hún lágt og seiðandi og hjúfraði sig enn fastar upp að honum.

Hreinn sagði ekkert né gerði, heldur sat áfram í sömu stellingum. Samtalið datt niður. Þögul héldu þau áfram yfir heiðina. Nóttin í kring var líka þögul, nema hvað vindurinn og regnið þusuðu. Þannig leið langur tími. Svo hættu þau að ganga. Þau voru komin heim að túnhliðinu á Kömbum.

– Jæja, þá er ég nú komin heim, mælti hún glaðlega. Svo leit hún í augu hans og sagði undur blítt: – En hvað þú varst góður að fylgja mér svona langt. Hún tók undir höku hans og horfði um stund í augun, blá, djúp og barnsleg. Síðan kyssti hún hann á hálfopinn munninn.

Þau stóðu bæði grafkyrr um stund. Þau fundu hvergi orð, sem hæfðu þessu, sem nú hafði gerst. Hreinn Þorfinnsson stóð þarna eins og steingervingur fyrir framan Ingu á Kömbum. Hann horfði beint í augu henni, eins og hann læsi hugsanir hennar. Það hafði kviknað ljós í augum hans. Á bak við það ljós var nýfædd von, sem hann var viss um að mundi verða að veruleika. Inga á Kömbum elskaði hann. Hann þráði ákaft að opna hjarta sitt, segja henni hve heitar tilfinningar hann bæri til hennar – og hve sæll og hamingjusamur hann væri í návist hennar. En hann fann sig ekki mann til þess. Máski henni þætti líka undarlegt, ef hann færi að segja þess háttar – svona undireins.

– Við sjáumst máski seinna. Það var lotningarkenndur tilbeiðslublær yfir rödd hans.

– Já, voða væri það gaman. Það var eins og hún vaknaði af einhverjum deyfðardróma, eins og hugur hennar hefði verið bundinn við eitthvað fjarlægt. – Ég er vistráðin í Eyrarkaupstað í vetur, en í kaupavinnu fyrir norðan hjá frænda í sumar. Svo tók hún fast utan um hann . . .

– Góða nótt, sagði hún lágt, og varir þeirra lukust saman – urðu eitt.

– Góða nótt Inga, sagði hann innilega.

Hún snéri sér frá honum og gekk inn um hliðið. Hreinn Þorfinnsson stóð í sömu sporum og horfði á eftir henni. Hann hafði unun af að virða fyrir sér þennan háa og granna kvenmannslíkama. Hver hreyfing var tákn fegurðar og frjálsræðis. Svo leit hún við og veifaði klútnum. Hreinn lyfti hendinni eins og ósjálfrátt í kveðjuskyni. Svo snéri hann heim á leið.

Hið ömurlega veðurhljóð var þagnað, og það var komin uppstytta. Skýin voru eins og gegnsæjar hvítar slæður, sem umvöfðu himininn hér og hvar. Hreinn Þorfinnsson gekk hratt áleiðis til tjaldanna. Það mótaði fyrir barnslegri gleði í andlitinu, og auðsýnilegur þróttur og fjör var í hverri hreyfingu hans. Honum hafði verið rétt hjálparhönd, þar sem vonleysið grúfði yfir honum. Hann var viss um, að með Ingu á Kömbum við hlið sér væri honum unnt að bera það ok, sem lífið hafði lagt honum á herðar. Máski honum tækist líka að sprengja það af sér og þar með lifa framtíðardraum sinn í þessu lífi. Hann hóf höfuðið hátt og lét hlýjan svala hins komandi vors leika um það. Máski sá dagur kæmi, að landar hans viðurkenndu verk hans?

Inga á Kömbum, bergmálaði í sál hans. Hún hafði verið send honum á óskiljanlegan hátt til að græða hið djúpa sár, sem heimurinn hafði sært hann.

Það var vor í sál Hreins Þorfinnssonar, og hann vissi, að þess yrði ekki langt að bíða, að það breyttist í yndislegt sumar.

Vegavinnumennirnir voru að klæða sig til vinnu, þegar hann kom til tjaldanna. Þeir litu í fyrstu hálf spyrjandi hver framan í annan, en hristu síðan höfuðin – skilningsvana.


4.


Hvar er heimur ævintýrisins?

Í ímynduninni.

Steinn er hættur að lifa í þeim heimi. Hin lifandi náttúra og fólkið á Eyrinni gjörbreytti afstöðu hans til lífsins. Hann hafði lært að skoða lífið í gegnum gler þess áþreifanlega og verulega.

Hvað voru sögurnar hans?

Ævintýri án veruleika. Hann brosti að þeim. Hér var ekki ein setning um hið sýnilega líf.

Hann var 16 ára ungmenni. Augu hans eru djúp og dökk, andlitið er vel lagað og karlmannlegt, yfir því hvílir fastur rólyndisblær. Líkami hans er stórgerður, en hörund hans mjúkt. Í öllu fasi hans og framkomu liggur óþreytandi vilji og festa. Í hjarta hans búa stórir lífsdraumar.

Hann þráði að kynnast lífinu. Hann vildi læra að þekkja lífið. Hann vissi, að fyrr gæti hann ekki dregið upp af því sannar myndir, samið verulegar sögur, fullkomin skáldverk, sem gætu lifað í þjóðarhjartanu. Hæfileiki hins skapandi máttar bjó í sál hans, hann heimtaði útrás, hrópaði á verkefni til að vinna úr. Hið daglega líf með öllum þess kostum og brestum, það var efniviðurinn, það hlaut fyrst og fremst að vera hlutverk skáldanna að syngja um það, en ekki byggja skýjaborgir, sem hvergi eru til nema í hugum þeirra. Hann gat hrifist af þvílíkum skáldskap, en hann festi ekki nú orðið eins djúpar rætur í sál hans og hið verulega.

Hann vann á reitunum á sumrin. Stundum stóð hann og horfði á fólkið, sem var á stöðugu iði um reitina. Þarna voru ungir og óharðnaðir unglingar, sumir mjóir og renglulegir og sýndust í hverju spori ætla að sligast undan fiskbyrðinni, aðrir tápmeiri og röskari, fastir fyrir – og eins og hnitmiðuð hver hreyfing; þær endurspegluðu þrek og þor.

Gömlu mennirnir voru flestir hægfara, lotnir í herðum, gráir fyrir hærum, drættirnir í andlitinu slappir, en þó eins og falinn væri í þeim þrái og þrjóska, eitthvað seiglukennt, sem ekki mundi láta undan, fyrr en lífið slokknaði útaf. Það voru margar gamlar konur á reitunum. Þær voru flestar riðandi, hendur þeirra magrar og bólgnar af erfiði, andlitin skorpin og hrukkótt, augun þrútin og vot. Aðrar áttu meiri skerpu og lífsþrek; þær töluðu oft mikið, sögðu stundum ljót orð.

Fljóða gamla:

Honum varð oft starsýnt á þetta gamalmenni, þar sem hún var að bogra við að breiða eða hrýgja fisk. Þessi kona hafði, síðan hann mundi fyrst eftir sér, alltaf verið í fiskinum, hún kom líka stundum í Kotið, sat þar oft lengi í horninu hjá maskínuómyndinni – með sjóðandi heitan kaffibolla milli horaðra fingranna. Andlit hennar var kringlumyndað, það lá gulur fölvi yfir því, – allt var það rist, þvers og endilangs, af ótal djúpum hrukkum. Nefið var lítið og eins og hvarf í andlitið, munnurinn innfallinn og eins og herptur saman, augun lítil og lágu innarlega, hárið grátt og féll í flygsum fram af höfðinu. Þessi kona fór stundum í hart við konurnar á reitunum, – rödd hennar var skjálfandi og rám. Hann gat ekki annað en hlutstað, þegar hún talaði, hún sagði alltaf fá orð, en það voru svo stingandi orð, – þær þögðu lengi á eftir, hinar konurnar. Þá brosti Fljóða. Bros hennar var ógeðslegt, augun sukku á kaf, munnurinn víkkaði, svo það sást skína í fjögur heiðgul tannbrot. Hún hafði einkennileg áhrif á hann, þessi kona.

Þorkalta gamla:

Hún kom enn á reitana, gamla konan. Mikið var hún nú samt orðin hrum, skjögraði þetta áfram í einhverri leiðslu. EN hún var nú samt að reyna að basla þetta fyrir lífinu. Aldrei gerði hann Jóakim hennar ærlegt handtak. Hann var mesti aumingi, sá varla nokkurn tíma guðs glaðan dag.

Einu sinni hafði Steinn horft á þessa konu tína sprek niður við flæðarmálið. Mynd hennar stóð honum lifandi í huga. Hrukkurnar í kringum munn hennar dýpkuðu, augun drógust saman, það lá gleðiblær yfir andlitinu. Fótatak hennar var óákveðið, en þungt. Mölin hraut undan fótum hennar og þyrlaðist í allar áttir. Þorkatla var oftast hálf bogin, rétti fram magrar og sinaberar hendurnar eftir hverri smá spýtu, sem varð á vegi hennar. Annað veifið rétti hún sig upp, riðaði dálítið á fótunum, strauk hendinni yfir ennið og hélt síðan áfram að tína sprekin. Henni hafði sóst verkið vel. Þess var heldur ekki langt að bíða, að hún hefði fyllt pokann sinn af spýtnarusli. En svo hafði hún líka tekið þetta of nærri sér. Hún fann auðvitað til þreytuverkja um allan líkamann, og þá einkum í fótleggjum og baki. Ósjálfrátt varð henni þreifað um brjóst sér. Sjálfsagt sló hjarta hennar óvenju hægt, engu líkara en það væri að gefast upp að fullu og öllu. Andlitið var aftur komið í sínar vana skorður. Ánægjan, sem vinnan veitti, þvarr jafnt og áreynslan. Þessi kona var orðin svo þreytt og þjökuð, svo einmana og yfirgefin, dauðinn mundi verða síðasti sólargeislinn í lífi hennar . . .

Það voru margar ungar stúlkur á reitunum. Þær voru svo lífsglaðar. Margar voru nettar um sig, með roða í kinnum og hvikul augu. Hreyfingar þeirra bentu á taumlausa mýkt og lífsgleði. Dillandi hlátur þeirra bergmálaði einkennilega í sál hans. Hann horfði eins og á þær allar, óvenju lengi og rannsakandi.

– Ó, hann er svo mikið einkennilegur hann Steini í Koti, sögðu þær sumar og hlógu við.

Dagný Halldórsdóttir:

Það var hún vina hans. Með svo djúp og dökk augu, svart hár, svo fallegt bros og aðlaðandi hræringar í smávöxnum líkamanum. Hann hafði aldrei sagt við hana orð. Hann hafði bara brosað til hennar, og þá hafði hún líka brosað til hans. Það hafði komið hiti í kinnar hans og einhver notaleg kennd hlaupið um allar taugar líkamans. Svo hafði hún líka roðnað og titrað. Hann fann það svo vel, að hún var vina hans.

Já, – hann stóð oft frá sér numinn og horfði á fólkið, stundum svo lengi, að einhver tók eftir því og ýtti við honum. Þá kom roði í andlitið. Hann kepptist svo við vinnuna, að líkami hans var í einu svitakófi.


Ljósið í kotinu – 5. 6. 7.


Í aðalsíðu