Óskar Aðalsteinn Guðjónsson


Ljósið í kotinu


Skáldsaga



 

Prentstofan Ísrún
Ísafjörður, MCMXXXIX
Copyright ©1939
All rights reserved

 


Í þoku


5.


Það er djúp þögn.

Kvöldsólin kastar geislum sínum inn um loftsgluggann. Geislar hinnar hverfandi sólar leika um barnslega sakleysislegt andlit, sem hvílir í stórum vinnuhörðum höndum.

Vitund Hreins er að smá fjarlægjast hið áþreifanlega og staðbundna. Skynjunin hefir tengst hinni innri sýn. Lífi sínu til mikillar auðgunar sér hann nálgast og skýrast fyrir hugskotssjónum sínum hrynjandi mannlegrar líkamsfegurðar. Fötin, sem hylja hana, smá leysast upp og hverfa eins og ský af himinhvelfingunni.

Tilfinningarnar, sem vakna í sál hans, eru hreinar og lotningarfullar. Engin líkamleg lostasemd gerir vart við sig. Vitund hans stendur á blátindum hins skapandi ímyndunarafls, en hann hreyfir ekki hendurnar, snertir ekki á litskúf.

Endurminningin gægist upp á yfirborð vitundarinnar. Hann hafði séð þessa sýn áður, en á óæðra stigi. Þá gekk þessi líkami fyrir bæjarhornið á Kömbum . . .

Steinn er niðursokkinn í bókmenntir. Hann drekkur vitund sína ölvaða af skáldskap. Hann leggur bókina á kné sér og lítur yfir að rúminu til bróður síns. Hann sér eitthvað nýtt endurspeglast í augum hans, eitthvað, sem hann aldrei hefir séð þar fyrr. Hugur Hreins hlaut að dvelja við eitthvað unaðslegt, eitthvað, sem var ókunnugt Steini, en hann þyrsti eftir huldum sannleika.

– Var ekki yndislegt að dvelja upp til fjalla? Það kenndi dýptar og hrifningar í röddinni.

– Það var yndislegt . . . Djúp sannfæring og hreinn kærleikur lá í hreimblæ orðanna. Hendur Hreins hnigu máttlausar niður á rúmstokkinn. Hann fann allt í einu til þess, að sæla lífs síns var bundin innan of þröngra takmarka. Hann fann sig þurfa að gera einhvern hluttakanda í lífshamingju sinni. Hann fann, að hann gat engum trúað fyrir henni nema Steini bróður sínum. Hreinn Þorfinnsson horfði beint í augu bróður síns.

– Það er sæla þessa lífs að elska og vera elskaður.

Dýpt orða hans fór eldi um sál hins unga skálds. Hann þreifaði í sælublandinni leiðslu eftir hendi bróðurins.

Hið dýpsta í sálum þeirra hafði tengst órjúfandi böndum. Á þessu sviði voru þeir eitt.


6.


Haustið kom.

Þeir eru kaldir haustnæðingarnir. Í endaðan september komu fyrstu snjóar. Fjallhyrnurnar urðu hvítar, yfir þeim hvíldi kaldranalegur blær.

Það er kvöld og hráslagalegt veður.

Hreinn Þorfinnsson gengur hægt og hlóðlaust um Eyrina. Hann er að leita að Ingu á Kömbum, hann hafði séð henni bregða fyrir – fyrir innan gluggana hjá Lárusi kaupmanni.

Hann hefur lagt hendurnar á bakið. Yfir öllu fasi hans hvílir stirðleikablær.

Nóttin er komin, og fólkið á Eyrinni sofnað; það hefur gleymt áhyggjum og andstreymi lífsins, þessu, sem sífellt vofir yfir því, þar til dauðinn kemur; þá tekur eitthvað nýtt og óþekkt við, sem fólkið hugsar sjaldan um.

Hreinn Þorfinnsson elskar einveruna – þar er ekkert sem truflar. En í kvöld er hann á sífelldri leit eftir konu. Sál hans kennir tómleika, sem stöðugt magnast, en vonin dofnar, næstum hverfur í gný tómleikans.

Undir morgun gengur hann hægt og hljóðlaust upp í loftherbergið. Það heyrist ekkert brak né hnjask í stiganum. En upp frá sofandi líkömunum, sem hvíla í rúmunum í Kotinu, berast þyngslaleg hljóð, korr, blandað hryglu. Þeir eru gamlir og slitnir þessir líkamar; þeir höfðu ofreynt sig í lífsbaráttunni, – en lífið átti máski eftir að reyna þá meir.

Hann er lengi að afklæða sig, situr lengi hljóður og starir úr í loftið. Loks fer hann niðurundir, en liggur vakandi, festir ekki augun á neinu sérstöku. Hugur hans er ekki bundinn við neitt fast eða áþreifanlegt.

Hann er að hugsa um þetta innra, sálina, sem býr í hverri hugsandi veru. Inga á Kömbum . . . Nú finnst honum langt óbrúað bil á milli þeirra, en hann vonar, að þeim í sameiningu takist að brúa það með ástinni. Hún hefir kysst hann og sagt svo margt vingjarnlegt við hann. Hún hlýtur að elska hann. Það getur ekki verið blekking. Hinir unaðsríku kossar brenna enn á vörum hans. Ástin hlýtur að vera eins í hjörtum þeirra beggja. Annað kvöld sér hann háa og granna stúlku kom á móti sér út úr náttmyrkrinu. Hin fyrsta snerting við líkama hennar verður unaðsrík – ógleymanleg.

Hann sofnar með endurnærða von í hjarta sér . . .

Hreinn Þorfinnsson gekk fast að verki, en vinnan hafði ekki fróandi áhrif á tilfinningar hans. Hann fann ekki ánægju í vinnunni. En það var eins og létti frekar yfir honum um kvöldið, þegar hann kom heim. Hann ætlaði strax að fara út; hann efaðist ekki um, að Inga á Kömbum biði sín einhvers staðar úti í náttmyrkrinu.

Hann var óvenju fljótur að borða og fara í skárri fötin. Þau voru hrein, en mjög gömul. Hann hafði aldrei fundið til þess fyrr en nú, að það væri leiðinlegt að vera í fornum fötum. Hann óskaði þess innilega, að hann væri flott, eins og fólkið sagði um hann Anton. Og Hreinn var horfinn, án þess að fólkið í Kotinu vissi af.

Hann var eins og maður, sem leitar en finnur ekki. Honum varð oft gengið fram hjá húsi Lárusar kaupmanns. Honum fannst, að það væri ekkert líf í þessu húsi. Þarna stóð það, þögult, einmanalegt og eintrjáningslegt. Aldrei sá hann neina hreyfingu fyrir innan tjöldin, sem voru fyrir gluggum þess, eða heyrði neitt hljóð berast frá því. Hann bæði fyrirleit það og hataði. Inga á Kömbum var lokuð þarna inni í þessum eintrjáning, kvennamaðurinn, sem hann elskaði, hún sem átti svona yndislegt bros – og svona óendanlega mikla mýkt. Það var svo fjarlægt hug hans að hugsa sér hana annars staðar en úti í ósnortinni náttúrunni. Þar sem skiptast á grýttir heiðaflákar og hrikaleg fjöll. Honum varð ósjálfrátt hugsað til hæðarinnar, þar sem hún hafði legið við fætur hans í nýgræðingnum; þar naut hún sín fyllilega, og hann hafði orðið töfraður af að horfa á hana. Í hans augum var þetta hús gröf, nöturleg og köld, og þarna var Inga á Kömbum.

Það var orðið skuggsýnt. Neðan frá ströndinni barst vindsvali, sem gáraði sléttan hafflötinn. Hreinn Þorfinnsson gekk inn með hlíðinni. Á leið hans urðu margar grösugar lautir og hvammar. En haustveðráttan var byrjuð á eyðileggingu sinni. Þau voru visin, sum stráin. En þessir hvammar og lautir minntu hann á heiðina og Ingu á Kömbum . . .

Það var myrkur. Gráir, döggvotir steinarnir og hrímgaðar hæðirnar runnu saman fyrir augum hans og urðu að einni óreglulegri þúst, svo langt sem augað eygði. Allt var kyrrt – loftið þungt og mollulegt, – ekkert heyrðist nema skvampið undir fótum hans í forugum jarðveginum.

Hann fann til þreytuverkja í augunum; þau spegluðu alltaf þetta sama, óendanlegar raðir af þústum, sem eins og runnu saman við myrkrið – annað veifið.

Allt í einu staðnæmdist hann, kreisti aftur augun og hlustaði, eins og þegar villidýrið hlustar eftir hverri hreyfingu bráðar sinnar . . .  Var það lækjarniður . . .  var það hljóð hins tæra bergvatns, sem vakti og lífgaði hans fegurstu sálarkenndir? Fet fyrir fet fikraði hann sig áfram. Þetta hljóð hafði áður fundið hljómgrunn í sál hans, leyst fegurstu drauma hans úr læðingi, lánað sál hans vængi, og hann hafði lyft sér til flugs á vængjum ástarinnar og flogið inn á land hamingjunnar.

Fæturnir hættu aftur að hreyfast, augun störðu full vonar og ótta úr í myrkrið:

Tvær af þústunum fóru að þokast til og taka á sig myndbreytingar. Þær voru ekki dauðar, og þær hættu að vera skyldar döggvotum steinunum og hrímguðum hæðunum. Þetta var Inga á Kömbum og Ólafur verzlunarmaður hjá Lárusi.

Hreinn Þorfinnsson stóð kyrr í sömu sporum, óbifanlegur eins og klettarnir í fjallinu fyrir ofan Eyrina. Andlit hans var náfölt. Hendurnar knýtti hann saman á bakinu og þrýsti þeim inn í holdið, svo hnúarnir hvítnuðu. Höfuðið hneig þyngslalega niður á bringuna og hékk þar eins og dauður, tilgangslaus hlutur.

Manneskjurnar, sem sátu þarna fyrir innan og ofan veginn, smánálguðust hvor aðra. Hreyfingar kvenmannsins lýstu hikandi mótspyrnu, en í þeim var mýkt og taumlaus nautn. Smámsaman, með leitandi, fálmandi handtökum læstu líkamarnir sig hvor að öðrum og gáfu frá sér sælukenndar stunur, sem fjöruðu út – samhliða hreyfingunum. Magnkennt, svæfandi afl hafði læst sig um þá báða, samfara notalegri þreytu, sem seytlaði út í hvern líkamshluta.

Maðurinn á veginum stóð enn í sömu sporum. Hann hafði fundið eitthvað bresta innan í sér; það bjó í sálinni. Hjá honum vaknaði óstjórnleg löngun til að sökkva tönnum sínum í mannslíkama og finna blóðið flæða um vit sér. Fingur hans titruðu og eins og grófu sig inn í föt hans. Hann þráði að sökkva þeim á kaf í mannshjarta, rífa það í burt með rótum og kreista það í lófa sínum – finna dauðakippina smáfjara úr – hverfa, verða að engu.

Nú stóð hann þarna hreyfingarlaus. Það var eins og hann væri að stirðna upp og verða að dauðum eintrjáning.

Svo snéri hann sér þunglamalega við og hélt af stað sömu leið heim.

Hreinn Þorfinnsson nam allt í einu staðar og fór með hægri hönd ofan í buxnavasann. Þar varð eitthvað kringlótt og hart viðkomu fyrir fingrum hans. Það var gullpeningur. Hann handlék hann lengi, velti honum á milli handa sér og virti hann gaumgæfilega fyrir sér. Ókunnur maður, sem af tilviljun hafði séð eina af myndum hans, varð snortinn af innri tilfinningu, sem hann fann, að sér væri þörf á að njóta lengur en nokkur augnablik. Hann hafði því haft skipti á peningnum og myndinni. Þessi gullpeningur var fyrsta og sjálfsagt síðasta viðurkenningin, sem Hreini Þorfinnssyni mundi auðnast að hljóta í lífinu fyrir list sína. Hann stakk peningnum inn á sig, nálægt hjartanu; þar átti hann vað vera, meðan lífið lafði á hinum veika streng.

Enn á ný hélt hann áfram þessari ömurlegu göngu, fet fyrir fet. Það brakaði í öllum liðamótum líkamans, og honum heyrðust skóförin á forugum troðningnum gefa frá sér tómlegar stunur, þegar hann hægt og sígandi steig upp úr þeim.

Það hvein ömurlega í vindinum. Hann skók þennan hrörlega líkama til og frá eins og viljalaust verkfæri.

Hreinn fór ekki að hátta, þegar hann kom heim, heldur settist hann við koffortið sitt, tók hverja myndina á fætur annarri og virti þær fyrir sér með þeirri ró og stillingu, sem þeim einum er gefin, sem misst hafa alla löngun til lífsins.

Steinn Þorfinnsson horfði forviða á bróður sinn. Það hlaut eitthvað hræðilegt að hafa komið fyrir, eitthvað yfirnáttúrlegt eða honum óskiljanlegt. Í þannig löguðu ástandi eða undir þessu líkum kringumstæðum hafði hann aldrei séð bróður sinn. Það barst ónotalegt skrjáf til eyrna hans. Það fór óviðkunnanlegur skjálfti um líkama ungmennisins. Bróðir hans var að vinna ógurlegt verk. Hann var að rífa það niður, sem hann allan sinn aldur hafði verið að byggja upp. Hið unga skáld vissi, að sú von hafði ríkt efst í huga Hreins Þorfinnssonar, að honum tækist að reisa svo veglegt musteri, að allir tækju eftir því og virtu það fyrir sér með lotningu. En nú hafði hann rifið undirstöðurnar niður, aðeins voru eftir rústirnar, eyðilegar og tómar. Enginn mundi líta við þeim, – enginn mundi nokkurn tíma fá hugmynd um, hve vegleg bygging þarna hafði átt að rísa.

Steinn Þorfinnsson starði á bróður sinn í þögulli undrun, munnurinn opnaðist, tungan hreyfðist og varirnar bærðust, en ekkert hljóð fylgdi þessu látæði, það var eitthvað, sem þrýsti á raddböndin, eitthvað þungt, sem gerði honum erfitt um andardráttinn.

Hreinn Þorfinnsson sneri andlitinu að bróður sínum. Hann sagði ekkert – horfði bara á hann, köldum, tómlátlegum augum.

Steinn Þorfinnsson sneri sér undan. Hann vafði sænginni um höfuð sér og grúði sig niður í rúmið. Heit tárin runnu niður kinnar hans. Hann grét örlög bróður síns.

Það var ástin, það gat ekki verið annað afl. Hann elskaði hana þá svona innilega. Ást til konu gat þá orðið svona ótrúlega sterk. Hún hafði steypt sál hans í botnlaust fen, og hvenær mundi henni verða þaðan afturkvæmt? Það fór hitabylgja blandin sársauka um allan líkama Steins. Honum varð hugsað til Dagnýjar. Hann þrýsti saman vörunum. Svipur hans varð harður og fast mótaður. Tárin runnu stöðugt niður kinnar hans, þar til táralindin þraut. Þá urðu augun þurr eins og skrælnuð jurt. Óþolandi langur tími leið. Alltaf heyrðist þetta dularfulla skrjáf.

Hann var svo lengi að rífa hverja mynd, hann gerði það svo hægt og rólega. Það var eins og vitund hans stæði fyrir utan allt, sem hann gerði. Allt ásigkomulag hans lýsti kaldri ró, – án tilfinningar . . .

Þorfinnur gamli kom upp í loftherbergið um morguninn. Hann furðaði sig á því, að drengirnir væru ekki komnir á fætur. Hann hafði aldrei þurft að vekja þá til vinnu.

Það var ömurleg sýn, sem mætti þessum gamla manni þarna í loftherberginu. Hann stóð um stund niðurlútur og þögull. Það sáust litlar breytingar á hrufóttu, stórgerðu andlitinu. Augun voru máski enn myrkari en nokkru sinni fyrr. Lífið hafði verið honum stöðug, hlífðarlaus barátta. Hann hafði alla sína tíð sótt á brekkuna og átt veðrið í fangið. Það hafði kennt honum að taka við hverri byrðinni á fætur annarri með ró og þolinmæði, en þessi var ef til vill þungbærust.

– Við skulum koma, Steini minn. Hreinn getur víst ekki komið með okkur núna. Það var tómahljóð í rödd hans. Þeir stóðu þarna um stund, feðgarnir, og lutu höfði. Síðan héldu þeir af stað niður á Eyrina . . .

Hreinn Þorfinnsson situr í sömu skorðum og horfir tómlátlega á rústir lífs síns. Engin leikandi gleði, engin bardagalöngun, engar hugsjónir, engar vonir, eru til í huga hans. Það er kuldanæðingur lífsins, sem hefur tekið sér bústað í hjarta hans.

Hann stendur á fætur, hægt og hljóðlaust. Með hægfara hreyfingum gengur hann út úr þessu húsi, hann er að flýja eitthvað, sem býr í sál hans.

Það var liðið að kvöldi, þegar hann kom heim; hann kom jafn skuggalegur, hægfara og kuldalegur, – eins og þegar hann fór.

7.

Ljósið í kotinu:

Það hafði dofnað þessa hráslagalegu haustnótt. Öldurnar bylta sér ömurlega við fjöruborðið. Ómur þeirra suðar jafnt og þétt fyrir eyrum fólksins á Eyrinni, og fólkið í Kotinu heyrir best tómahljóðið í öldudyninum.

Steinn Þorfinnsson hlustar á þetta hljóð; honum finnst það minna á ömurlegan óm af útfararsálmi, sem sunginn er af fáeinum hræðum úr í vetrarkuldanum, þegar frost er og kafaldsflygsurnar smjúga alls staðar inn með klæðunum.

Hávarðína var að reyna að grípa til sokks og prjóna. Hún var svo ósköp hljóð núna, sagði svo sem ekkert við hana Fljóðu gömlu, sem sat þarna í einu horninu á eldhúskytrunni og var að drekka kaffi. Hún meira að segja missti hvað eftir annað niður lykkju. Augun voru full af tárum, og hún sá ekki nema í móðu. Líkaminn hristist ákaft, brjóstið gekk upp og niður af þungum ekka, tárin hrundu niður kinnar hennar í stórum dropum; þau voru heit þessi tár og féllu ört. Hún Fljóða gamla, þessi einstæðings aumingi, var að myndast við að bera svuntuhornið upp að augunum. – Maður getur svo sem samhryggst þeim, sem einhverja umhyggju bera fyrir manni, þótt minna blási á móti.

Hann Þorfinnur gamli, – hann hafði sama sem ekkert borðið þetta kvöld. Hann hafði heldur ekki sagt eitt einasta orð. Hann fór beina leið að hátta. Það var nú svo komið, að svefninn var honum kærastur – ef til vill kærari en Steinn, sem einu sinni var barn og hlustaði á sögurnar hans . . .

 

Anton Þorfinnsson svaf. Andlitið var langleitt og stórskorðið og hárið skollit. Svipur hans var gruggugur og lýsti stefnuleysi og hringlanda. En dagleg framkoma hans var stráksleg og ófyrirleitin. Hann vingsaði handleggjunum kæruleysislega í kringum sig, gekk teinréttur – og þó eins og þvingaður, einkum ef hann var vel til fara, en í fyrra hafði hann orðið náttúraður fyrir að ganga í fínum fötum.

Þessa ömurlegu haustnótt hafði hann orðið yfir sig fullur í fyrsta sinn.

Nú, hann gat andskotann ekki farið að standa á móti því, fyrst það var hann Jói, besti vinur hans, sem átti dálítinn dreitil neðan í flöskupöddu. Jói sagði líka, að maður væri miklu kaldari að tala við stelpurnar. Jú, það var allt satt, sem hann Jói sagði. Þarna hafði Anton næstum strax orðið spilandi kátur og fjörugur – og öllum liðið svo vel, eins og hann hefði hreppt helvítamikla lukku – svona fyrir ekki neitt. Jú, hann hafði nú rétt þorað að tala við stelpurnar. Hann hafði meira að segja rokið á þessa nýkomnu píu, Ingu, eða hvern skrattann sem hún hét, en hún hafði snúið upp á sig alla, eins og þegar tík snýr upp á skottið á sér, og þotið á auga lifandi bragði burt af ballinu með toppfígurunni honum Ólafi búðarloku, þeim fjárans uppalning. En hún þurfti samt ekki að halda, helvísk tófan, að þær snéru allar upp á sig, stúlkurnar á Eyrinni, þegar hann Anton Þorfinnsson ætlaði að bestilla hjá þeim einn koss, svona undir berum himninum í haustmyrkrinu.

Hann hafði verið úti alla guðslanga nóttina og ekki komið inn fyrr en seint um morguninn. Honum fannst þetta styttsta og sæluríkasta nóttin, sem hann nokkru sinni hafði lifað. Hann svaf lengi fram eftir deginum, án þess að vita nokkuð af sér.

Honum auðnaðist þó að vakna aftur til þessa lífs, en með ólgu fyrir brjósti, verkjum í maga og magnleysis dengingum um allan líkamann. Í nokkrum gusum spjó hann svo upp úr sér allri vellíðan næturinnar. Það kostaði hann meiri þjáning og kvöl en allt annað, sem hann hafði þurft að taka út í þessum heimi.

Það var eins og öfugstreymi í öllum hans líkama.

– Það væri svo sem ekki svo vitlaust, að reyna að stramma sig svolítið upp með kvöldinu og verða sætkenndur. Það er skrattans ekkert líf að vera ekki almennilega kátur þessa fáu daga, sem maður umgengst þessa landkrabba.

En litlu eftir að þessar hugsanir fæddust í vitund Antons Þorfinnssonar, fékk hann vitneskjuna um það, sem gerst hafði þessa unaðslegu haustnótt. Hún Hávarðína móðir hans sagði honum frá því.

– Svo þetta með þig, að þú skulir vera svo kaldur í garð þessara foreldramynda þinna, að leyfa þér að gera þig að aumingja, rétt fyrir framan ásjónuna á þeim . . . Einmitt núna . . . Endilega núna, . . .  já, núna, . . . o . . . ho . . . u . . . uuu . . .

Augun stóðu full af tárum, sem brátt hrundu niður móflekkóttar kinnarnar. Grátinum fylgdu sár sorg og þungar stunur.

Hið höndlaða ljósafl í sál hins unga manns fékk útrás. Nú voru þeir tveir, líkamarnir, þarna í eldhúskytrunni í Kotinu, sem hristust og skulfu af þungum grátekka.

Þeir fundu ósjálfrátt skyldleikann og leituðu hælis hvor hjá öðrum.

– Ég skal aldrei gera þetta aftur, góða mamma.

Röddin var rám og dimm, en innilega sannfærandi.


Ljósið í kotinu – 8. 9. 10.


Í aðalsíðu