Óskar Aðalsteinn

Vonglaðir veiðimenn

Skáldsaga

 

 

Iðunn
Reykjavík, 1963

Copyright ©1963
All rights reserved


1

Það skipti engum togum; mér var beinlínis kippt inn í leigubíl og síðan ekið á burt. Mannránið var framið um ljósan dag í hjarta borgarinnar, og ránsmaðurinn var Gunnar nokkur Steinsen, stór og stálharður jaki, klæddur grárri einkennissnauðri hermannatreyju og samlitum kakibuxum. Það leyndi sér ekki í svip og hátterni Steinsens, að hann ætti brýnt erindi við mig, enda höfðum við ekki farið langt þegar hann dembdi yfir mig ósköpunum. En hann gerði það fallega, eins og hans var von og vísa, sagði af sönnu lítillæti:

– Ég hef tekið Grönnmannflugbát á leigu.

Mér brá ekki við smámuni þegar Steinsen var annars vegar, til þess þekkti ég hann alltof vel.

– Og hver á að fljúga? sagði ég.

Steinsen horfði á mig með líflegu brosi og sagði:

– Við fljúgum þangað sem milljónin bíður okkar.

Gunnar Steinsen var ævinlega með milljónafyrirtæki í kollinum. Hann var framkvæmdamaður af lífi og sál. En um nokkurt skeið, eða síðan í stríðslokin, hafði athafnaþrá hans ekki fengið að njóta sín sem skyldi. Annars gaf hann mér fyllilega í skyn, að nú mundi sprett úr spori svo um munaði. Það átti að gera stóra hluti strax í dag. Steinsen hugðist fljúga norður á afskekktasta útkjálka landsins með menn og vistir, setjast að í eyðibýlinu Hvestu í Sandvík, og stunda sjóurriðaveiðar af kappi næstu þrjár vikurnar. En þarna var, að sögn Steinsens, ein mikil silungsá, og bar hún nafn af bænum Hvestu. Fyrir slembilukku átti Steinsen að hafa fengið fregnir af þessari frábæru veiðiá, sem engum hafði til þessa hugkvæmzt að nýta að neinu gagni. Fólkið, sem í eina tíð bjó þarna norður frá, hafði heldur ekki haft neitt í höndunum til veiðanna. En nú skyldi ausa gullinu upp úr Hvestu, mörgum flugvélaförmum, að mér skyldist.

Vildi ég vera með – að sjálfsögðu á fullu verkamannakaupi?

Kannski var ég eitthvað í ætt við fiskana í sjónum og fuglana í loftinu. Ég átti í svipinn engan fastan samastað í landi, var togarasjómaður, en hafði gleymt mér í gleði einnar nætur, síðast þegar togarinn var í höfn – og misst af dallinum.

Nú var ég að uppbyrja nýtt ævintýr.

Og það var sólskin.

Og þarna leiddust tvær hlæjandi stúlkur arm í arm yfir götuna. Ég þekkti þær báðar, svona eins og tvítugur strákur þekkir kátar stúlkur.

– Já, heyrðu, Ívar Sölvason, þú kemur með, sagði Steinsen og hló notalega.

– Allt í lagi, anzaði ég.

– Fínt er, sagði Steinsen og hafði augun alls staðar. En hann var ekki á hnotskóg eftir hlæjandi stúlkum, heldur öðrum hjálparmanni. Hann vildi hafa tvo hjálparmenn við veiðarnar, auk tengdaföðurs síns. Og Steinsen hafði líka verið búinn að tryggja sér tvo ágæta stráka, en fantarnir höfðu bara svikið á elleftu stundu.

– Gatan er krökk af lausamönnum, sagði ég.

– Að vísu, ljúfurinn. En maður fer ekki með hvern sem er norður á eyðikjálka. Ég vil ná í stráka, sem eru vanir útigangi og illri meðferð, hahaha.

Í þessum töluðum orðum ókum við um eitt nýjasta og íburðarmesta bæjarhverfið. Húsin voru amerískar stælingar af öllum hugsanlegum stílfyrirbærum byggingarlistarinnar. Nú fórum við fram hjá kínversku skrauthýsi, þá grísku, svo komum við að egypzkri skrauthöll, og öll stóðu þessi furðuhús í dægilegum skrúðgörðum.

Steinsen lét bílinn stanza hjá egypsku skrauthöllinni, benti mér heim að henni og sagði:

– Datt mér ekki í hug, þarna hef ég strákinn.

– Betri mann geturðu ekki fengið, sagði ég alveg ósjálfrátt, strax og ég hafði komið auga á manninn í skrúðgarðinum. Hann var að þvo neðstu gluggarúður hallarinnar. Svo hafði Steinsen ekki fyrr borgað bílinn og sent hann burt, en hreingerningamaðurinn, langur og grannur náungi í hólkvíðum samfestingi, lagði frá sér kústinn og kom mjúkstígur eins og köttur yfir að grindverkinu til okkar. Þetta var hann Nói Marteinsson, með þetta líka rauða skegg og þessi síglöðu augu. Ég hafði stundum fengið inni hjá honum og gömlu konunni, móður hans, þegar ég var í bænum. Nói var miðaldra, og hafði lifað svo mörg og margvísleg ævintýr, að honum kom fátt eitt með öllu á óvart. Og þegar Gunnar Steinsen nefndi Grönnmannflugbát og Hvestusilung, þá brá Nói hönd á loft, líkt og hann vildi segja: Hér má ekki hafa hátt, bræður . . . En upphátt sagði Nói, og sveiflaði um leið arminum í átt til hallarinnar:

– Það er komið nýtt eldhús, og nýja eldhúsið kom fljúgandi frá New York. Og frúin flýgur vestur um á morgun, en nú er hún að lita sig sunnan undir vegg.

– Ne-ei, sagði ég.

– Gaman að sjá þig, Ívar, sagði Nói og hélt síðan áfram að tala um frúna. – Lita sig áður en hún flýgur vestur um, Ívar. Það er skemmtilegra að hafa réttan litarhátt, þegar maður fer að sýna kroppinn sinn vestur á Langasandi.

Steinsen hafði ekki augun af egypzka undrinu. Hann horfði á þetta nægtahús, eins og hann vildi gleypa það í einum munnbita, og sagði við Nóa:

– Þú gengur hér um eins og sjálfur séffinn.

Og Nói sagði:

– Marga nóttina hef ég setið að tafli með húsbóndanum. Þá er hann að hugsa. En á daginn víxlar hann milljónum, bæði heima og erlendis.

– Hann var ekki annað en betlari fyrir stríð, sagði Steinsen. – Nú er hann toppmaður. Þetta kallar maður að komast áfram strákar.

– Það er aðeins einn maður, sem mátar hann, sagði Nói kíminn og benti á sjálfan sig.

Með þetta héldum við á burt, gengum yfir götuna og niður þröngan stíg, sem lá á milli tveggja skrúðgarða. Og hér, þar sem skrauthýsin höfðu sprottið upp á stríðsárunum, eins og gorkúlur á mykjuhaug, hér varð allt í einu fyrir okkur örlítill og ósköp venjulegur timburbær;  hús Nóa Marteinssonar og móður hans. Íbúðin var eitt herbergi, og við urðum að beygja okkur þegar við gengum um dyrnar. Það var gluggalúka með krosspósti fyrir miðjum gafli, borð undir glugganum og tveir slitfagrir stólar. Og þarna var bekkjarkornið hans Nóa, og gaman að sofa á bekknum, af því maður kom ekki öllum skrokknum fyrir á honum. Rúmið gömlu konunnar var snoturlega uppbúið, og kötturinn gömlu konunnar svaf til fóta í rúminu hennar. Og það var ein mynd í húsinu, og hékk á veggnum yfir rúminu, máð biblíuglansmynd af engli, sem sveif um veglausa himinblána með ungbarn í örmunum . . .   Maður var kominn mannsaldur aftur í tímann, og skrauthýsin í kring orkuðu á hugann eins og fjarstæðukenndur draumur.

Nói sagði, að gamla konan hefði farið að heiman snemma í morgun, að gæta barna fyrir hjón, sem hefðu farið í stangarveiðitúr eitthvert austur í sveitir. En það væri kaffi á könnunni, sagði Nói líka, það þyrfti bara að bregða henni á suðuplötuna.

Steinsen stóð gleiður og hálfboginn, svo hann ræki sig ekki upp undir. Hann hneppti frá sér hermannatreyjunni, og samstundis sá í fjóra flöskustúta upp undir mittisólinni. Og Steinsen rétti eina flöskuna að Nóa með þessum orðum:

– Nú er enginn tími til að hita kaffi, ljúfurinn.

– Þú ert höfðingi í verunni, Steinsen, varð Nóa að orði.

Flaskan gekk á milli okkar, síðan stakk Steinsen henni aftur undir beltið og sagði:

– Jæja, strákar, þá er að koma sér í loftið, eða má ég ekki reikna með þér, Nói Marteinsson?

Nói gekk að rúmi gömlu konunnar, tók myndina af englinum niður af þilinu, hengdi hana síðan upp aftur, en nú þannig, að ranghverfa myndarinnar sneri að áhorfendum.

Steinsen hló stórum, svo sagði hann við Nóa:

– Þú ætlar þó ekki að ræna okkur allri guðsblessun?

Og Nói sagði:

– Ég hef snúið við myndinni af englinum. Það þýðir:

Sonurinn er farinn að heiman, og heimkomudagurinn er óviss.

 


 

2

Það þurfti öll ósköpin að flýta sér, en nú var ekki verið að taka bíl. Steinsen var eins og ísbrjótur í umferðinni, við Nói gengum fast á hæla honum, og Nói axlaði haglabyssuhólk og fullhá stígvél. Þannig var þrammað bæinn á enda, eða heim til Ársæls Jónssonar, tengdaföður Gunnars Steinsens. Ársæll var hrókur alls fagnaðar. Hann dansaði nýjustu dansana eins og ungur strákur, þótt hann væri kominn fast að sextugu, og stundum brá hann sér upp á pallinn og söng með hljómsveitinni. En fundum okkar Ársæls bar einmitt fyrst saman á dansleik, og ég man að Ársæll sagði við mig fyrstra orða:

– Þú kannast við Ársæl Jónsson frá Húsum.

En ég kannaðist því miður ekkert við Ársæl Jónsson frá Húsum. Og það var sýnilega nýjung fyrir Ársæl að hitta mann, sem ekki þekkti hann af orðspori, og hann hafði sagt:

– Ég hef þó stjórnað mörgum dansleikjum hér í bæ. Hvað um það, Ívar litli, þú þekkir mig áreiðanlega af börnunum mínum, og kannski konunni líka. En Sunnefa fegurðardrottning er dóttir mín, og Þórir knattspyrnukappi sonur minn, svo er ég giftur Svölu Sveins, bráðungri og fallegri konu . . .  Sjáðu, þarna er hún að dansa. Hún er eins og drottning. Hefurðu ekki dansað við hana? Þú mátt til með að dansa við hana. Þú gleymir því aldrei, hversu vel hún dansar. Annars er hún upptekin í allt kvöld. En ég skal nú samt . . .

Auðvitað hló ég að þessum litla manni, og þó hló ég ekki að honum. Hann var eins og skapaður til að hlæja að honum, en að þeim mönnum hlær maður kannski allra sízt. Ársæll var allur mjög smágerður og fríður sýnum, glaðlegur í viðmóti og dálítið á lofti. Og sagði manni ævisögu sína strax fyrsta kvöldið, sem maður skálaði við hann.

– Húsin, vinur minn, annáluð kostajörð. Einkum verður mér tíðhugsað um laxveiðina í Gljúfrá. Þetta átti nú aldeilis við drenginn. Svo giftist hann vinnusamri sveitastúlku, mestu gæðakonu, og fór að búa að Húsum. Okkur varð fimm barna auðið, og það var allt í svo föstum skorðum hjá okkur. Hugsaðu þér bara; öryggistilfinningin vermdi mann inn að hjartarótum . . .

Ársæli var ekki lagið að tala um það, sem miður fór. En hann hafði misst konuna meðan hún var enn á bezta aldri, flutzt til bæjarins og lifað af almennri vinnu, nú um árabil verið afgreiðslumaður í fiskbúð.

En það voru stríðsárin.

Á þessum nýliðnu sæluárum hafði Ársæll heldur betur sólað sig. Hann hafði gegnt forustuhlutverki í skemmtanalífinu í herskálunum, og legið við vötn og stórár með erlendum ungann úr sumrinu. Og það var hér, sem seinni kona hans, Svala Sveins, kom til sögunnar . . .  En svo ég minnist aftur á dansleikinn, kvöldið góða, þegar við Ársæll sáumst fyrst, þá kom hann mér loks í dansinn með Svölu Sveins, þótt dansherrarnir biðu hennar í hópum, eins og Ársæll hafði orðað það. Svo hafði ég ekki fyrr sleppt frúnni úr örmum mér, en Ársæll vatt sér að mér og sagði kampakátur:

– Þú brosir bara að mér, Ívar litli. Og ég skil þig vel, vinur minn. Já, er það ekki alveg óskiljanlegt, að hún, ekki þrítug manneskjan, skuli elska mig, fjörgamlan karlinn? –

En nú vorum við Steinsen og Nói komnir í áfangastað. Hér voru mjög látlaus hús, sýnilega reist fyrir og um 1930. Og í einu þessara húsa átti Ársæll íbúð. Hann hafði komizt yfir húseignina þegar hann gifti sig í seinna skiptið. Þau hjónin höfðu geymsluherbergi í kjallaranum. Þangað fór Steinsen með Nóa, og setti hann í að bera út í garðinn ýmiss konar farangur, sem þar var geymdur og tilheyrði veiðiskapnum. Að svo búnu tók Steinsen mig með sér upp í íbúðina, sem var á þriðju hæð. Í fatakróknum héngu einar þrjár glæsilegar kvenkápur, allar í ljósum sumarlitum. Og þarna var líka litli harðkúluhatturinn hans Ársæls, og brúni þunni frakkinn hans, sem tók honum rétt niður á hnjákollana.

Það var allt með sérstökum myndarbrag á heimili þeirra hjóna, og kom það mér sízt á óvart. Hitt stakk kannski í augun, hversu gegnfín frúin var á virkum degi. Hún var uppáklædd eins og tilhaldspíka, sem er að fara á ball. Annars var Svala Sveins heldur beinastór og ekki smáfríð, en viðræðuglöð og fjörleg í bezta máta. Og samtalið var strax í fullum gangi. Ársæll lék við hvern sinn fingur, líkt og þetta væri gleðisamkoma og hann sem óðast að drífa unga menn í dansinn með Svölu Sveins. Svo varð hann kannski eins og dálítið þögull, fyrst eftir að Nói hafði verið nefndur á nafn. Steinsen sýndi fljótlega á sér fararsnið, en Svala benti honum að sitja kyrrum og sagði:

– Ekkert liggur á, vélin fer ekki á undan þér.

Steinsen var svo snöggklipptur, að hárið líktist mest svartri regnhettu á egglaga hnakkamiklu höfði hans, og dimmgrá augun hvíldu með auðsætti velþóknun á Svölu Sveins, þegar hann sagði:

– En vélin er komin í gang, frú mín góð, og hún verður ekki stöðvuð aftur, fyrr en við höfum fengið eitthvað út úr fyrirtækinu, sem talandi er um.

– Segjum tvö, sagði Svala Sveins, stóð enn einu sinni á fætur og rillaði sér í mjöðmunum. Hún sat ekki kyrr stundinni lengur, en sýndi okkur aftur og aftur hversu vel hún var vaxin og hversu fagurlega hún hreyfði sig, og hélt áfram að tala. – Ég tek ekki á heilli mér, Gunnar, fyrr en flugvélin fer að sækja til ykkar veiðina. Og þið segizt fá í vélina á einum þrem fjórum dögum. Ég væri ánægð þótt það tæki vikuna. Annars er ég gáttuð yfir að enginn skul hafa orðið til að slá sér upp þarna fyrir norðan á undan okkur.

Og Steinsen sagði:

– Blessuð góða, þessi stórhöfðingjar hér syðra trúa ekki, að lítandi sé út á landsbyggðina eftir fljótfengnum peningum.

– Láttu þér gott þykja. Þið færuð ekki langt, ef einhver gúbbinn hefði narrað veiðiréttindin út úr Skæringi gamla, sagði Svala Sveins, leit á mig og bætti við. – Skæringur ætlar að slást í för með ykkur.

Er það þriðji hjálparmaðurinn? sagði ég.

Svala Sveins sneri sér í hring, svo ég gæti séð hana alla og sagði:

– Nei, hann ætlar bara að skjótast þetta með vélinni að gamni sínu. Hann á Hvestu og hokraði þar til skamms tíma, en er nú skransali hér í bænum. Og sá kann að græða. Hann er samansaumaður nirfill. Og hann er sísyngjandi um það, hver ósköpin megi hafa upp úr Hvestu, ef menn nenni að leggja sig fram. En þetta er svo hryllilega langt í burtu frá menningunni. Og hvernig er að sjá þar í land, Ívar? Þú hefur séð þetta allt af sjónum. Er það ekki ömurleikinn uppmálaður?

– Ef þú hífst af stórbrotnu og hrjóstrugu landslagi og æðandi brimsköflum, þá segirðu ekki að það sé ömurleikinn uppmálaður, sagði ég af því að mér kom ekkert skárra í hug.

Svala Sveins hryllti sér í herðunum og sagði:

– Segðu ekki meira. Ég sé þetta allt fyrir mér. Klettar og klungur og sjóðandi brim, alltaf brjálað veður, og hvergi nokkur lifandi manneskja, nema í Skeljavíkurvitanum. Og ég mundi ekki leyfa ykkur að fara til Sandvíkur, ef ekki væri fólk og sími í Skeljavík, og bara yfir eitt fjall að fara í vitann . . .  Og nú leit Svala á Ársæl í fyrsta sinn undir samræðunum og sagði: – Þetta er ægihátt fjall, og ég veit ekki nema þú ættir að vera kyrr í Hvestu, meðan hinir fara yfir í Skeljavík að síma.

– Þú ert að gera að gamni þínu, elskan mín, sagði Ársæll ljúfum rómi.

Svala Sveins horfði dálítið fallega á þennan smávaxna, snotra mann sinn þegar hún sagði:

– Það er beinlínis hetjulegt af þér, Sæli minn, að þú skulir ætla að leggja þig í þetta.

Ársæll hló smálega, svo sagði hann:

– Við megum ekki gleyma því, að það er oft dásamlega fagurt þarna norður frá um þetta leyti árs. Og satt bezt að segja, þá dreymdi mig um svona ferðalag, löngu áður en það barst í tal okkar á milli . . .  Og hann bætti við eftir stutta þögn. – En ég veit ekki, hvort Nói Marteinsson er heppilegur ferðafélagi.

Steinsen og Svala kímdu hvort við öðru, og Svala sagði:

– Ertu að gefa í skyn, að Nói sé einhver ónytjungur?

– Nei, nei, það er nú eitthvað annað, flýtti Ársæll sér að segja. – Nói er bezti maður, og verklaginn, þegar hann vill það við hafa. En hann er eitthvað skrýtinn og honum er ekki fyllilega treystandi, held ég.

Steinsen hló stórkostlega, og Svala Sveins réð sér ekki fyrir einhvers konar kitlanda. Ársæll hafði víst sagt einhverja óskapa fyndni:

– Mikið barn geturðu alltaf verið, Sæli, sagði loks frúin. – Þetta er orðin veiki hjá þér, vinurinn. Þú ert síhræddur við allt og alla.

Ársæll var brosleitur og bað okkur blessuð að taka ekki orð sín allt of hátíðlega, Nói væri alls enginn barnaskelfir. Og Ársæll hló með okkur og talaði í léttum dillandi tón.

Síminn hringdi.

Steinsen greip talnemann og gretti sig hressilega strax og hann heyrði röddina í símanum.

– Þetta er Skæringur Samúelsson, það bregzt mér ekki, sagði Svala Sveins og var öll á lofti.

Steinsen kinkaði kolli, skrollaði í símann og skammaðist. Og nú fór heldur betur að hvína í talnemanum.

– Naumast að karlrokkurinn blæs, hló Svala Sveins.

Steinsen lagði á og sagði:

– Allt í hershöndum, mín kæra frú. Skæringur rokvondur úti á flugvelli, æfur yfir að komast ekki í loftið. Og Nói húkir úti í garði yfir farangrinum. En hafið þið pantað bíl?

Nei, það var ekki búið að panta bíl, svo að Steinsen hringdi á bíl.

– Ég þarf að hafa hönd í bagga með farangrinum, sagði Ársæll.

– Gleymdu nú ekki pilluglasinu þínu, sagði Svala Sveins og enn eimdi eftir af hlátrinum í rödd hennar.

– Glasgreyið er í töskunni minni, ástin. Annars hef ég ekki þurft á því að halda lengi, sagði Ársæll og þrýsti konunni sinni að sér, en bara snöggvast, og svo örlítið meira, af því hún var svo blíð og eftirlát, síðan þaut hann á dyr með æskumanns látbragði.

Bílhorn var þeytt við garðshliðið. Já, var ekki eins og verið væri að blása til orrustu? Og þegar við Steinsen komum út í garðinn, þá voru þeir Nói og Ársæll í óða önn að bera farangurinn á bílinn.

– Haldið bara áfram út á völl, strákar, kallaði Steinsen til þeirra. – Ég fer heim að kveðja. Þú kemur með, Ívar . . .  Og lækkaði róminn. – Sniðug stelpa, Svala Sveins. Það urðu allir undrandi þegar karlinn krækti í hana. En íbúðin og mublurnar eru á hennar nafni. Já, hvað heldurðu, maður.


Vonglaðir veiðimenn 3. – 4.


Í aðalsíðu