Iðunn
Reykjavík, 1963
7
Að síðustu var Ársæll einn eftir við silungatjörnina með drauma sína. Menn vilja gjarnan vera einir þegar þá dreymir fallega, svo ég hypjaði mig.
Skothvellur kvað við vestan víkurinnar.
Steinsen var byrjaður að skjóta.
Ég hélt í sömu átt og hljóðið kom, og hafði ekki gengið nema spottakorn, þegar ég kom að svolitlum vogi, þar sem mikið var um að vera. Þarna var bátur og naust, og þarna var Nói. Hann hafði gert hlóðir og kveikt eld undir tjörudollu, sem hann kvaðst hafa fundið í naustinu. Ég tyllti mér hjá Nóa. Við gengum okkur að reykja og horfðum á bátinn. Og Nói sagði eins og mest við sjálfan sig:
– Bátur, sem lengi hefur verið á þurru landi horfir með söknuði út á sjóinn. En gamlir bátar, eins og þessi hérna, kunna sér hóf, og söknuður þeirra er hljóðlátur.
– En er báturinn ekki ónýtur? sagði ég.
– Við förum á flot í fyrramálið, sagði Nói, stóð á fætur með tjörudolluna og tók til við að bika bátinn.
Enn heyrðist skothvellur.
– Kom Steinsen hér? sagði ég.
– Já, hann kom hér, Ívar, sagði Nói án þess að líta upp frá verki sínu. – Báturinn hvolfdi bundinn á rekatrjám hérna heim undir naustinu, en Steinsen hjálpaði mér með hann.
– Hvað er hann að skjóta? sagði ég.
Nói bara kímdi. Hann var svo upptekinn við verk sitt, að í svipinn virtist frágangssök að fá hann til að tala um annað en bátinn. Ég hélt því áfram vestur fjörurnar. Og það var mikið fuglager. Brátt bar fundum okkar Steinsens saman. Við rákumst rétt að kalla á undir sjávarhömrunum. Steinsen hafði snúið aftur sömu leið og hann fór. Byssan hékk á ól um öxl hans, enn hann var ekki með neina veiði.
– Nú, hvar er veiðin? sagði ég.
– Ég sallaði bara á nokkra máva og svartbaka, og maður er ekkert að éta svoleiðis fénað, sagði Steinsen og hló. – Maður er að æfa augað og höndina. Heyrðu, hefurðu annars aldrei borið við að skjóta?
– Ég skaut eitthvað af rjúpum þegar ég var strákur.
– Já, auðvitað, sagði Steinsen eins og ekkert væri sjálfsagðara. Við settumst undir hamrana og fengum okkur sígarettu. Og það var þessi titringur í Steinsen, sem gerir hönd veiðimannsins eins og ennþá styrkari og skerpir sjónina.
– Hér er maður loksins frjáls maður. Ég er með helling af skotum, og ég má vera að, ef ég á að éta upp allar skotfærabirgðirnar, sagði Steinsen eftir stutta þögn. Það var líkt og örvum rigndi úr augum hans í fuglagerið, og skratti var hann nú skemmtilega svartur á krúnunni. Og enn sagði Steinsen. – Heldurðu það sé líf, maður. Loft og sjór og jörð; hvergi dauður púnktur. Eitthvað að gramsa í fyrir þá, sem ekki eru þegar dauðir og farnir að rotna.
Við stóðum á fætur og Steinsen benti með byssuhlaupinu á stakan fugl, sem fló allhátt yfir höfðum okkar:
– Þú drepur hann ekki, sagði ég. – Byssan gerir ekki betur en draga.
Ég hafði ekki fyrr sleppt síðasta orðinu, en kúlan hvein í loftinu, fuglinn, sem miðið hafði verið á, snerist á fluginu og féll eins og steinn í sjóinn.
– Og svo segist þú þurfa æfingar við, sagði ég.
Steinsen hló – og hann skaut eina þrjá svartbaka á flugi áður en leiðir okkar skildu. Og það var enginn fugl fyrst eftir skothríðina. En ég var ekki fyrr orðinn einn, en allt varð svart af fugli aftur. Og fuglinn flaug mjög nærri mér, snart mig næstum með vængjunum. Svona lét hann þegar maður hafði veður af landi eftir langa útivist í hafi. Og maður tók eftir honum og horfði á hann. Það var nýtt að sjá fugl. Og það var nýtt að koma á land. Allt var nýtt um stund . . .
Mér varð litið til hafs, og taldi um tíu togara, sem voru skammt hver frá öðrum einar sex sjómílur undan landi. Og þeir voru að fá hann, annars væru þeir ekki í þetta þéttum hóp. Og kannski átti ég sjópokann minn um borð í einu þessara skipa.
Hvar veit.
En ég hugsaði ekki um það. Aldrei þessu vant; mig langaði ekki á sjóinn. Gott ef ég var ekki orðinn landkrabbi til frambúðar. Það var sætbeiskur ilmur úr brekkunum, grasið djúpgrænt, og mjúkur fínlegur þytur í loftinu eins og enn væri hásumar. –
Um kvöldið urðu tengdafeðgarnir þrem fiskum ríkari. En í svipinn gleymdi Steinsen að tala um aflabrögðin í Hvestu. Það héngu tvö tófuskott við beltið hans. Hann strauk skottin ánægjulega og sagði:
– Ég náði þeim báðum á fjallsöxlinni hérna fyrir ofan bæinn. Aðra þeirra skaut ég á hlaupum, hin hafði ekki verður af mér, en rétt að kalla stillti sér upp fyrir framan byssuhlaupið.
– Ég heyrði tófugarg í fjallinu, sagði Ársæll.
– Og eitt svolítið blágrátt rebba-skinns-tetur var að forvitnast í kringum mig og bátinn, sagði Nói.
– En hvar hafðirðu hólkinn, maður? sagði Steinsen.
– Mér kom ekki byssan í hug, sagði Nói. – Þetta var svo lítið og fallegt, víst bara yrðlingur síðan í vor, og minnti mig á köttinn heima.
Steinsen hlustaði ekki á Nóa. Allt í einu mundi hann eftir Hvestu, en við sátum á árbakkanum og Steinsen sagði:
– Mér er spurn: Hvað verður hún lengi þurrbrjósta?
Ársæll svaraði líkt og innblásinn af andanum:
– Það eru enn nokkrir dagar í höfuðdagsstrauminn, þá kemur aðalveiðin, trúðu mér til, og Hvesta mun mjólka okkur meira en við torgum.
Nói sagði:
– Beztu mjólkurkýr selja ekki ókunnugum, nema fyrir kleinu og falslausan vinarhug.
Hlátur. Svo gretti Steinsen sig við ánni og sagði:
– Hún ætti að vera kvik af lífi helvítið á henni.
Ársæll hló við þessum gretta tengdasyni sínum.
– Ég hræðist svona grettur í sólskininu, sagði hann. – Þú ert ljótari en Skæringur þegar hann kom hér í gær.
Steinsen varð allur hýrari aftur þegar hann sagði:
– Ég veit hvenær Skæringur lýgur og hvenær hann segir satt. Fyrirtækið er tryggt, þótt Hvesta láti bíða eftir sér. Jæja, ég hef þó byssuna.
8
Þrír dagar liðu, og það voru sólardagar, en allt sat við hið sama með veiðarnar í Hvestu. Annars var mannskapurinn að sjálfsögðu ávallt reiðubúinn að taka á móti fyrstu stóru fiskigöngunni.
Og enn rann nýr sóldagur. Og nú skyldi brugðið undir sig betri fætinum og heilsað upp á fólkið í Skeljavík. Tengdafeðgarnir sátu við að raka sig í eldhúskompunni, en ég horfði á mynd mína í bæjarlæknum. Þetta var ég, og ekki svo afleitur kannski. Vel farinn í andliti, eins og þeir skrifuðu á kálfskinnið til forna, miðmjór og herðibreiður – og allt það. Og þessi strákskratti var í gráum sumarfötum og kafloðinn í framan, svartur.
Nú kom Steinsen fram í bæjardyrnar og það var blátt áfram hræðilegt að sjá framan í hann eftir raksturinn. Andlitið var eins og blóðvöllur. Svona var að gleyma rakdótinu heima, og verða að notast við grænsápu fyrir raksápu, og skörðóttan rakhníf, sem Skæringur gamli hafði slysast til að skilja eftir þegar hann flutti á mölina.
– Ætlarðu ekki að nota rakhnífinn? kallaði Steinsen til mín úr bæjardyrunum.
– Nei, þakka þér fyrir.
Steinsen kom alveg til mín og sagði:
– Á ég að trúa því, að þú ætlir órakaður til Skeljavíkur?
Ég hló.
Steinsen pírði á mig með öðru auganu og sagði:
– Svo það var kvenmaður, sem þú hittir í gær. Eða varstu kannski að ljúga því upp? Og það eru þrjár systur í Skeljavík, segirðu. Stórum meiri glaðningur en maður bjóst við . . . Steinsen gekk frá mér, svo gekk hann aftur til mín og sagði. – Hvers vegna í fjandanum komstu ekki með stelpuna heim í Hvestu? Og hvað var hún að flækjast yfir fjallið? Já, það er alveg rétt, hún var að koma með skeytið frá Svölu Sveins.
– Skratti geturðu orðið vitlaus, Steinsen, sagði ég.
– O, þú segir mér ekkert af þessu stússi þínu, ljúfurinn, sem ég ekki veit.
– Það er ekki frá neinu að segja, nema ég tók við skeytinu.
Steinsen gekk skrollandi inn í bæinn.
En það var ekki í gær. Við Lea Sigdórsdóttir hittumst í dalnum austan víkurinnar. Hún hafði komið yfir skarð frá Skeljavík. Og horfði dálítið hrekkjalega á mig, kvikleg og ljóshærð og með þetta fljúgandi bros.
Og Lea var öll ósköpin að flýta sér, hafði hún sagt. Hún ætlaði nefnilega austur í Mávavík. Systur hennar, Una og Soffía, voru farnar austur í Mávavík í berjamó. En svo hafði Lea orðið að skreppa með þetta skeyti. Og mikið var hún heppin að hitta mig hér. Það var nú meira lánið. Nú þurfti hún ekki að fara lengra.
– Jæja, vertu sæll.
Vildi hún ekki koma heim í Hvestu og heilsa upp á mannskapinn?
Ef hún hefði verið á Bleik, þá hefði hún kannski mátt vera að því. En nú var hún ekki á Bleik. Bleikur hafði rásað eitthvað austur í víkur, og enginn tími til að hafa upp á honum. En hvað var veriða að gera í Hvestu? Urriðaveiðar? Heyrði hún rétt? Átti að veiða þar öll ósköpin af sjóurriða? Hann pabbi ætti að frétta af þessu. Hahaha.
Af hverju hló hún?
Það vissi hún ekki. Hvernig átti hún að vita það? Veizt þú ævinlega af hverju þú hlærð?
Nei, hvernig átti ég að vita það?
Og Lea hafði ekki nærri strax snúið við upp í skarðið aftur. Það voru tveir eyðibæir í dalnum. Og þar var brunnhús og gaman að koma í það með Leu. Hún sagði, að bæirnir hétu Minniborg og Meiriborg. Það var líka einn eyðibær vestan víkurinnar og hét Sandur. Og það var fólk á hverjum bæ í Sandvík þegar Lea var smástelpa. Nú var allur hreppurinn kominn í eyði, nema Skeljavík og Bláeyri.
Var langt til Bláeyrar?
Jæja. Það var vestur yfir heiði að fara, sex tíma greiður gangur úr Skeljavík. Einu sinni hafði verið fjölmenni á Bláeyri, en fólkið var sem óðast að flytja þaðan. Rakel systir og hennar maður voru búsett á Bláeyri og vildu helzt vera áfram. Annars sást ekki ungt fólk á Bláeyri lengur, – nema tvær Gunnur og tveir Þórðar og svo Hagbarður og Þórhallur, allt krakkar eins og Lea.
Svona töluðum við lengi. Svo sátum við saman. En hún spratt næstum strax á fætur aftur. Mikið hafði hún verið fljót að spila undir sig fótunum. Ég vissi ekki fyrr en hún stóð yfir mér og hló hrekkjalega.
Af hverju stökk hún svona á fætur?
Stelpurnar voru fyrir lifandi löngu komnar austur í Mávavík. Og nú yrði hún að koma sér af stað.
– Vertu sæll.
– Nei, ertu að fara?
Já, tíu sinnum gæti hún verið búin að koma skeytinu til skila. Og hún ætlaði ekki að hafa af sér berjatúrinn fyrir eintóma vitleysu.
– Vetur sæl.
Svo var hún farin. –
Og það var kominn nýr sóldagur, og við Hvestubúar búnir til brottfarar. Það átti að stefna öllu liðinu til Skeljavíkur. Steinsen var með bakpoka og riffilinn, svo héngu ein sex tófuskott við beltið hans – og farið að storkna framan í honum blóðið. Nói var með byssuhólkinn sinn, og Ársæll með litla harðkúluhattinn. Já, nú var lítandi á Ársæl. Þarna var maður, sem kunni að raka sig með skörðóttum rakhníf án þess að stórskaða sig. Það var eins og Ársæll væri nýstiginn úr stólnum hjá uppáhalds rakara sínum. En þegar betur var að gáð, var þó eins og hann kenndi sáran til í andlitinu, þótt hann brosti. Biðin eftir veiðinni var kannski eitthvað farin að íþyngja honum, þó mundi það helzt vera skeytið frá Svölu Sveins, sem nú angraði hann. Í einhverjum fljótheitum hafði Svala stílað skeytið til Gunnars Steinsens, líkt og enginn Ársæll Jónsson frá Húsum væri til:
Viljum fá einhverjar fréttir strax.
Svala.Þetta var skeytið. Ekki orð meir. Engin kveðja. Og nú gat Ársæll ekki orða bundizt, hann sagði:
– Ég vona bara, að allt sé í lagi heima.
– Kemur það enn, anzaði Steinsen. – Þú heldur þó ekki, að Svala hafi fætt þér tvíbura.
– Nei, nei, enda væri það nú ekki til að gráta yfir því.
– Yfir hverju eigum við að gráta?
– Nei, ég tek nú bara svona til orða.
– Ég skal segja þér, hvað að er, sagði Steinsen kampakátur. – Kerlingar eru alltaf kerlingar. Og nú halda þær ekki vatni fyrir forvitni: Óttalegir durgar eru þessir karlmenn, strax og þeir koma upp í sveit, segja þær sín á milli og bæta við: En þeir væru ekki svona fréttafáir, ef ekkert veiddist. Nei, þá mundu þeir kveina sáran.
– Við sendum bara smáskeyti, varð Ársæli að orði.
– Sendum bara smáskeyti? Láttu mig alveg um, hvað við gerum í þessu tilfelli, gamli minn, sagði Steinsen, hljóp að árabátnum, þar sem hann var á sandinum við árósinn, og hratt honum léttilega fram á vatnið. Svo fórum við yfir um á bátnum.
Vonglaðir veiðimenn 9. – 10.
Í aðalsíðu