Iðunn
Reykjavík, 1963
9
Við vorum rétt komnir í dalinn góða, þar sem fundum okkar Leu bar saman í gær, þegar óvænt persóna varð á leið okkar. Það var Lea í Skeljavík, ljós og kvikleg, og það var þessi káta hrekkvísi í augum hennar. Hún heilsaði okkur glaðlega og sagði:
– Það er síminn til ykkar.
Steinsen gerði sig til framan í stúlkuna eins og efnin framast leyfðu og sagði:
– Var kannski beðið um mig, Gunnar Steinsen.
– Já, sagði Lea og hló. – Það var beðið um þig, fyrst þú heitir Gunnar Steinsen.
Steinsen hafði ekki augun af stúlkunni og sagði:
– Ég ætlaði einmitt að síma suður. Skeyti í gær og símkvaðning í dag. Það vantar ekki að hugsað sé heitt til okkar.
Og Ársæll sagði:
– Þú veizt ekki, hver bað um símtalið, Lea litla?
– Nei, það var bara Reykjavík sem bað um Gunnar Steinsen.
– Og þú komst með skeytið í gær, sagði Nói.
– Já, skeytið, sagði Lea, leit á Nóa og bætti við. – Það varst ekki þú sem tókst við skeytinu, var það?
Nú hló Steinsen fyrst svo um munaði. Ég hafði ekki öðru sinni heyrt hann hlæja annað eins. Og það fór aftur að blæða úr flumbrunum í andliti hans.
– Ég er með rautt skegg, sagði Nói við Leu. – Var það ekki strákur með svart skegg, sem tók við skeytinu?
– Jú, það var einhver svartskeggur, hló Lea og var strax orðin mér samstiga.
– Þú ert búin að hafa mikið fyrir okkur, Lea mín, sagði Ársæll.
– Nei, það er ekkert, þetta er örstutt að fara.
– Já, fyrir svona þyrilvængju, sagði Steinsen og tók utan um stúlkuna. Hún varð strax laus aftur og sagði.
– Hvað hefur komið fyrir þig, maður? Lentirðu í bardaga? Þú ert allur bíldóttur í framan.
– Er maður ekki alltaf að skafa framan úr sér ósómann fyrir ykkur?
– Nú, svoleiðis, sagði Lea.
– Já, sker maður sig ekki í stykki fyrir ykkur.
Lea hló.
– Ég þarf mikið að tala við þig, Lea, sagði Steinsen.
– Já, það má nú heyra minna.
– Hvað ætlir þú heyrir svona á hlaupum.
– Jú, ég heyri alveg prýðilega til þín.
Við vorum komin innst í dalverpið, og það var farið að halla á fótinn upp í skarðið. Og nú gætti Lea þess að var fáein skref á undan okkur.
– Já, hvað á ég að heyra? sagði hún og hló um öxl til Steinsens.
– Ég vil fá þig fyrir bústýru í Hvestu. Það er það sem ég vil, Lea. Og þú átt að koma strax í dag.
– Nei, ætli ég komi nokkuð í dag.
– Þá á morgun.
– Ekki heldur á morgun. Ég er ráðin í íshúsvinnu vestur á Mjóeyri.
– Ég býð helmingi hærra kaup en þeir í klakanum, sagði Steinsen.
– Ég ætla nú samt í klakann, hló Lea.
Við vorum í bröttustu brekkunni, og jafnframt þeirri efstu fyrir neðan skarðið. Ársæll rak lestina upp á hábrúnina. Hann var ákaflega móður en þó broshýr, þegar hann leit á Leu og sagði:
– Ósköp er ég orðinn eitthvað gamall, Lea litla?
Og Lea sagði:
– Þú ert ljómandi unglegur. Þú ert unglegri en allir hinir til samans.
Hlátur:
Það var kátt fólk á fjallinu.
Og nú sá niður í Skeljavíkina. Það var djúpt grænt hvolf. Og það var viti; hvít súla út á svörtum grýttum tanga. Og það voru hvít hús með rauðum þökum í grænu túni.
Og allt í einu vorum við Lea tvö ein, kræktum saman fingrum og lutum hvort að öðru.
– Nei, ekki þessa vitleysu, Ívar, sagði hún.
– Fórstu í berjatúrinn? sagði ég.
– Hvernig átti ég að fara á berjamó? Ég var orðin allt of sein. En ég náði þó í talstöðvartímann við Bláeyri.
– Og talaðir við Þórhall?
– Hvað segirðu, Þórhall? Nei, ég talaði við Hagbarð.
– Er það góður vinur?
– Já, það vil ég halda. Annars vorum við hatursmenn í vetur.
– Hvað kom til?
– Nú, við vorum trúlofuð.
– Nei, Lea, nú trúi ég þér ekki.
– Jú, Ívar, þannig var það. En svo hættum við bara allri trúlofunarvitleysu, og síðan höfum við verið beztu vinir.
– Og talið saman á hverjum degi?
– Hann er að gera dálítið fyrir mig.
– Já, ég skil.
– Þú skilur ekkert, Ívar. Þú skilur hreint ekki neitt. Þú vilt ekkert skilja. En slepptu mér nú. Ég verð að fara. Sérðu, þarna er hann pabbi að slá . . . Og Lea sneri sér að hinum þremur, sem höfðu dregizt spottakorn aftur úr, og kallaði til þeirra. – Þið heilsið honum pabba og komið svo heim . . . Og Lea var horfin fyrir næsta leiti.
Steinsen laut að eyra mér og hvíslaði:
– Skemmtilegasta hnáta, ha.
– Ætlarðu ekki að heilsa gamla manninum? sagði ég.
– Bara gaman að stelpunni, sagði Steinsen.
Sigdór Aronsson reiddi orfið ótt og títt. Og hann var að þar til við vorum alveg komnir til hans, en þá leit hann upp frá orfinu með þessum dálítið starandi augnaráði, sem einkennir sjóndapurt fólk. Hann var frekar smávaxinn og hnýttur orðinn í herðum, en léttur í hreyfingum og lífleg birtubrigði í svipnum og brosinu. Og Sigdór sagði, eftir að við höfðum heilsað honum, talaði í notalegum mæðutón, sem þó var enginn mæðutónn:
– Þið eruð mennirnir í Hvestu, já, einmitt. Og er kannski eitthvað að gerast þarna í Hvestu?
Það stóð ekki á útskýringunum hjá tengdafeðgunum. Sigdór virtist hlusta með athygli á allt sem þeir sögðu, en kannski var bros hans eins og svolítið kartið, þegar hann sagði:
– Svo Hvesta gamla er þá orðið þetta stórveldið, þegar öllu er til skila haldið og kunnáttumenn fjalla um hlutina. Og það er einhver veiði nú þegar, já, auðvitað.
– Veiðin er rétt að byrja, sagði Ársæll og ræskti sig.
– Ég er fram úr máta þekkingarsnauður maður, og um vatnafiskinn veit ég minna en ekki neitt, sagði Sigdór í þessum ljúfa mæðutón og leit á Nóa og sagði. – En það er eins og þar stendur: Göngum við ekki á gulli hvar sem helzt þótt okkur sé það jafnan hulið.
Og Nói sagði:
– Jú, Sigdór, ef við viljum hafa það þannig, þá göngum við ávallt á gulli, annars getum við líka sagt, ef við viljum það heldur, að við göngum á grjóti æviskeiðið á enda.
Og Nói og Sigdór skiptust á brosum og augnatillitum. Það var eins og þarna hittust góðir og gamlir kunningjar.
En Steinsen vildi fá að heyra meira um Hvestu og sagði við Sigdór:
– Hefurðu ekki reynt að fara með net í Hvestu?
– Ónei, ekki get ég stært mig af því, sagði Sigdór. – Hef enda lítið hreyft mig af bæ síðustu árin vegna sjóndeprunnar. En maður kastar kannski netstubba hér í ársprænuna stöku sinnum, svona til að fá í soðið. Einkum höfðu telpurnar gaman að þessu meðan þær voru krakkar.
Tengdafeðgarnir urðu klumsa við þessi orð. Hvað þýddi líka að tala um nýtízku sjóurriðaveiðar við útilegumanninn í Skeljavík?
Sigdór hló lágum glaðlegum hlátri, dálítið hrekkjalegum kannski, svo varð honum að orði:
– Jæja, piltar mínir, þið standið í stórræðum, og látið þið ekki örvasa karl tefja fyrir ykkur lengur en orðið er. Já, ekki veit ég hvað hún Rebekka mín hugsar, að ég skuli ekki hafa mannrænu í mér til að bjóða ykkur í bæinn. En gerið þið nú svo vel, og þó fyrr hefði verið.
10
Lea var búin að opna talstöðina þegar við komum í bæinn. Hér var talstöð eins og í skipum, og Lea lék með þessi tæki líkt og þaulvanur loftskeytamaður, og sagði, að verið væri að athuga með Reykjavík.
– Allt í lagi, anzaði Steinsen og horfði glottaralega á Ársæl, sem gerði það sem hann mátti til að sýnast glaður og reifur.
Nú varð líflegur þytur í stofunni. Skeljavíkursystur, Una og Soffía, báru á borð allt það bezta sem heitir íslenzkur matur. Þær voru sýnilega milli tvítugs og þrítugs, dálítið holdugar, en þó skínandi laglegar, og báðar voru þær ljóshærðar.
Það urðu fjörleg orðaskipti milli gesta og heimafólks, húsfreyjan kom inn, og með henni þrjár litlar telpur og tveir drenghnokkar, og bauð okkur félaga velkomna til Skeljavíkur. Rebekka húsfreyja var fönguleg kona, glaðleg í bragði, og hár hennar bar ennþá svip af sólbirtunni, því ljóshærð var hún eins og dæturnar.
Og af því hvernig orðin féllu varð ég margs vísari um Skeljavíkurfólkið. Una og Soffía voru giftar konur í næsta kauptúni, sem var Mjóeyri, en systurnar höfðu verið í Skeljavík um stundarsakir með börnin sín. Svo var hér líka dálítil Tóta, átta ára telpa, dóttir Rakelar á Bláeyri. Rakel hugðist koma ríðandi norður yfir heiði einhvern daginn að sækja Tótu litlu. Og enn voru tvær Skeljavíkursystur ónefndar, þær yngstu, Rebekka yngri og Salóme. Það voru sex stúlkur í fjölskyldunni en enginn piltur. Og ævinlega voru einhverjar systranna heima, oftast tvær, stundum fleiri. Skeljavíkursystur voru alltaf að koma og fara. Bráðum færi Lea að heiman, en þær Rebekka yngri og Salóme kæmu heim. Og þegar maður horfði á þessar þrjár systur, sem heima voru, þá sá maður strax hversu náið ættarmót var með þeim öllum, og ekki gott að vita frá hverju foreldrinu þær höfðu þegið meira.
Um stund hafði Steinsen gætt þess vandlega, að skipta aðdáunartillitum sínum sem jafnast milli Unu og Soffíu, þar til nú, að hann skipti alveg yfir á Unu.
– Þið eigið systur á Bláeyri, sagði hann og brosti stóru brosi við Unu. – Og farið þið kannski heim um Bláeyri?
– Nei, blessaður vertu, sagði Una. – Við erum orðnar svo gamlar og værukærar, að við leggjum það ekki á okkur lengur að arka yfir heiðina, svo við förum bara sjóleiðis heim.
– Já, þetta veit ég, þið eruð bráðum sjötugar, sagði Steinsen.
Hláturskliður. Við höfum víst öll gleymt talstöðinni, nema ef til vill Ársæll. En það var straumur á tækjunum, og nú heyrðist rödd í hátalaranum, sem sagði:
– Halló, Skeljavík, hér er Reykjavík að koma. Gerið þið svo vel.
Heimilisfólkið fór út úr stofunni meðan á samtalinu stóð, nema Lea, sem fékk Steinsen talnemann og sagði:
– Þetta er í lagi. Gerðu svo vel.
Og rödd Svölu Sveins hafði ekki fyrr hljómað frá hátalaranum, en Ársæll lyftist í sæti, og sannur aðdáunarsvipur breiddist yfir lítið frítt andlitið, líkt og hann byggist við því, að Svala líkamnaðist þarna allt í einu frammi fyrir honum.
– Gunnar, heyrirðu til mín? sagði Svöluröddin.
– Það heyrist til þín um allt húsið, kæra frú.
– Nú það er ekki minna. En þið eruð nú meiri sleðarnir.
– Er það? . . . Hláturinn ískraði niðri í Steinsen.
– Já, við fáum ekkert að heyra frá ykkur. Hvers vegna í ósköpunum talið þið ekki menn?
– Það er ekkert að segja, Svala mín. Hér gerist ekkert.
– En hafið þið nokkuð að borða? Eruð þið ekki að deyja úr hungri?
– Ég þarf ekki að segja þér neitt um það. Þú hlýtur að heyra í mér sultarhljóðið.
Allir hlógu, sem á heyrðu, og Svala Sveins hló í símann, svo sagði hún.
– Óskapa kátína er þetta í kringum þig, Gunnar.
– Það er verið að halda okkur veizlu hér í Skeljavík.
– Nei, þú segir ekki. En hvað líður veiðinni? Hafið þið fengið marga fiska?
– Marga. Maður heldur ekki tölu á þessum tittum. Nei, maður nennir ekki að eltast við svoleiðis.
– Jæja?
– Nei, það held ég ekki.
– Sko til. Þið eruð þá að fá hann.
– Hver segir það?
– Góði, vertu ekki svona fjandi kostbær. Hvenær viltu fá vélina?
– Ég hélt við værum hér í megrunarkúr.
– Láttu ekki svona, Gunnar. Hvenær er von á fyrsta flugvélarfarminum?
– Segjum í næstu viku. Ég sendi skeyti.
– Jæja, góði. Ég hef þá eitthvað að segja Sunnefu. Hún biður að heilsa.
– Ég skal skila því. Og Ársæll ætlar rétt að heilsa upp á þig.
– Hvað heyri ég. Ég trúi þér ekki. Er hann þarna?
– Lýg aldrei í síma, Svala mín. Og hérna hefurðu karlinn þinn.
Svöluröddin skipti um tón, varð eins og svolítið móðurleg:
– Ertu þarna, Sæli minn? Komdu blessaður.
– Komdu blessuð, elskan, sagði Ársæll áður en hann lyfti talnemanum upp að vörunum.
– Hvað segirðu, Sæli minn? Ég heyri hreint ekkert til þín. Viltu tala svolítið hærra?
– Já, ástin, hrópaði Ársæll í talnemann.
– Nú heyri ég prýðilega til þín. Þú þarft ekki að hrópa svona. Var ekki ægilega erfitt að klöngrast yfir fjallið?
– Nei, það veit sá sem allt veit. Þetta getur hvert barnið.
– Jæja, vinurinn, en leiðist þér ekki öll ósköpin?
– Ég held nú síður. Ég er þó veiðimaður, gleymdu því ekki.
Stutt þögn, svo sagði Svöluröddin flaumósa:
– Sæli.
– Já.
– Það eru komnar vinkonur, og ég má ekki vera að þessu lengur.
– Já, ástin.
– Er það nokkuð sem ég get gert fyrir þig?
– Ne –nei, nei.
– Vantar þig kannski eitthvað sérstakt?
– Nei, nei.
– Jæja, bless, Sæli minn. Ég hringi bráðum aftur.
– Já, bless, ástin mín, sagði Ársæll að lokum, og Svöluröddin hafði sýnilega flæmt alla skugga úr huga hans.
Og Skeljavíkursystur voru á ný farnar að snúast í kringum okkur. Veizluborðið var fullbúið. Og allt í einu kom gráðugt matarhungur upp í okkur Hvestubúum. Þetta gekk svo langt, að Steinsen sá ekki Unu um stund, og hafði hann þó kjörið hana drottningu drauma sinna.
Vonglaðir veiðimenn 11. – 12.
Í aðalsíðu