Námsferill

Aðalsíða
Persónan
Bolungarvík
Áhugamál
Námsferill
Starfsferill
Skemmtun
Tenglar

 

Grunnskóli Bolungarvíkur

Þegar ég varð 6 ára fór að bera á ákveðinni tilhlökkun í garð skólagöngu hjá mér. Ég hafði notið þeirra forréttinda að þurfa ekki að fara á leikskóla og mætti því fullur bjartsýni fyrsta skóladaginn í von um að kynnast einhverjum jafnöldrum mínum úr öðrum hverfum bæjarins. Ekki leið á löngu þar til vinahópurinn stækkaði, þó hann teldist nú aldrei vera neitt stór. Það gerði mér auðvelt fyrir að vera búinn að læra að lesa og reikna áður en ég hóf nám, en aldrei hef ég lært að skrifa og hefur það komið sér vel á síðari námstigum þar sem enginn hefur haft áhuga á því að stela glósum frá mér.

Námið lá alltaf mjög vel fyrir mér og þá sérstaklega stærðfræðin, en þegar ég var í 10. bekk vildi svo óvenjulega til að boðið var upp á bókfærslu sem valgrein. Ég sló til, og viti menn, ég kolféll fyrir bókfærslunni og hefur hún átt hug minn allt frá þeirri stundu. Ég lauk að sjálfsögðu námi frá Grunnskóla Bolungarvíkur með hæstu meðaleinkunnina í bekknum (minnir mig) og fyrir árangurinn fékk ég ýmisleg verðlaun sem áttu að hvetja mig til áframhaldandi náms.

Framhaldsskóli Vestfjarða

Þegar kom að því að ég þurfti að velja mér framhaldsskóla til að sækja, stóð ég frammi fyrir vali milli þess að flytja að heiman og fara í Verzló, eða að búa áfram í foreldrahúsum og nema við Framhaldsskóla Vestfjarða á Ísafirði, nú Menntaskólinn á Ísafirði. Ég bar því saman fórnarkostnaðinn af því að flytja suður annars vegar, og því að búa heima hins vegar og að sjálfsögðu valdi ég heimahagann.

Á framhaldsskólaárunum tók ég þátt í Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna og varð í 15. sæti á yngra stigi og komst í úrslit. Ég lærði mikið af því að taka þátt í úrslitakeppninni og varð mér bæði til góðs og ills. Ég lærði sitthvað nýtt en varð jafnframt afhuga stærðfræðinni, sem hafði verið mitt uppáhaldsfag framan af námsgöngunni.

Eftir fjögur á skólabekk á Ísafirði útskrifaðist ég frá Framhaldsskóla Vestfjarða vorið 1996. Ég útskrifaðist af Viðskipta- og hagfræðibraut með aðaleinkunina 9,1 og var dux scholae og á þeim tíma var þetta ein hæsta aðaleinkunn sem gefin hefur verið við F.V.Í./M.Í. frá upphafi.

Háskóli Íslands

Eftir að hafa verið 14 ár á skólabekk ákvað ég að taka mér eins árs frí frá hefðbundnum skólum til að nema við "skóla lífsins" og afla mér skotsilfurs til háskólanáms. Haustið 1997 mætti ég svo galvaskur í Háskóla Íslands til að stunda nám við Viðskipta- og hagfræðideild. Námið gekk mjög vel fyrstu árin en þegar það fór að síga á seinni hlutann í náminu fór áhuginn að beinast í ríkum mæli að skemmtanalífinu í Sódómu Reykjavík. En þetta hafðist allt á réttum tíma og náði ég reyndar þeim merka árangri að skila lokaritgerðinni minni viku fyrir síðasta skiladag en slíkt mun vera fátítt í Háskóla Íslands. Lokaritgerðin fjallaði um "Smábátaútgerð á Vestfjörðum" og hefur henni verið mjög vel tekið af þeim sem til þekkja í sjávarútvegi. Ég útskrifaðist svo síðastliðið sumar sem kandídat af reikningshalds- og endurskoðunarsviði með 1. einkunn - þ.e. aðaleinkunnin var á bilinu 7,5 - 9,0. 

 

Síðan var síðast uppfærð 06.01.2002