I.
Svo kom veturinn. Djúp, dúnmjúk og drifhvít fönn hvíldi yfir öllu. Í hvamminum voru ekki lengur sjáanleg nein ummerki eftir mannaverk.
Auður Álfhildur undir sér vel. Hún og maður hennar höfðu náð því takmarki, sem þau höfðu sett sér í ár, og hún náði sér brátt alveg eftir erfiði sumarsins. Hvað munaði hana svo um að vinna nokkra klukkutíma dag og dag í bili? Auði fannst það eins og hver annar leikur. Fiskiþvottur. Bara gaman, tilbreyting. Það var einmitt verst, hvað þetta var sjaldan. Þetta voru ekki nema nokkrir tugir skippunda, sem átti að þurrka í þurrkhúsi stærstu verzlunarinnar. Það var farið að tala um það sem úrelta fiskverkun, að salta og þurrka fisk. Nú átti það að verða hraðfrystur fiskur og ísvarinn. Og hér var ekki látið sitja við orðin tóm. Íslenzk skip bjuggust til siglinga. Hver dallur, sem náði áttatíu smálestum, og sumir þar undir, var sendur yfir hafið. Það var bara þegar hörgull var á skipum, að eitthvað var lagt á land af fiski. Samvinnufélag kaupstaðarins hafði ráðizt í heilmikið fyrirtæki í sumar sem leið. Hér var að rísa af grunni myndarlegt hraðfrystihús. Menn höfðu góðar vonir um, að það gæti tekið til starfa á næsta vori. Þá fengju tugir kvenna vinnu við að flaka fisk. Svona voru breytingarnar. Flestu af yngra fólkinu þótti mikið til þess koma; hið eldra lét sér ekki eins. Það þekkti stríðsárin frá nítján hundruð og fjórtán til átján. Hvar vissi, hvað mundi gerast? Og æði margt hafði nú þegar gerzt.
Einu sinni hafði þó unga kynslóðin numið staðar um stund með hinni eldri og hlustað í uggvænum hljóðleik. Það var í maí í vor, þegar framandi þjóð hafði borið banaspjótið hér á land. Og spurningum ringdi látlaust niður, bæði munnlega og á prenti. Aldrei hafði verið spurt af eins mikilli eftirvæntingu, en aldrei höfðu heldur einstaklingar og þjóðin staðið eins ráðþrota gagnvart spurningum sínum og nú.
Það kom stundum fyrir þennan vetur, að feðgarnir urðu að setja Göflu alla leið upp að beitukrónni. Svo var brimið mikið. Þegar ekki var sjóveður, dútlaði Daníel við aðgerðir á lóðum – og annað smálegt viðvíkjandi útgerðinni. Jón reyndi að verða sér úti um vinnu, en þegar ekkert var að fá, fékkst hann við að smíða stóla. Hann hafði líka minnst á fataskáp við Auði. Þessi húsgögn áttu seinna að prýða stofurnar í Hvammi. Auður Álfhildur var að sjálfsögðu með í öllum ráðum um þessa hluti, og það var síður en svo, að hún sparaði að láta álit sitt í ljós . . .
Þau voru að tala um skápinn.
– Við verðum að hafa hann nokkuð stóran, sagði Auður. – Það þyrfti helzt . . . Hún þagnaði skyndilega. Henni hafði orðið litið út um gluggann.
Jón hafði staðið álútur og hlustað á konuna sína. Nú leit hann upp og horfði út eins og hún.
Á götunni, skammt frá Jósefsbúð, stóð kubbslegur maður.
Auður og Jón litu hvort á annað, – sögðu samt ekkert.
Það var gengið upp stigann og barið á stofuhurðina.
Auður lauk upp.
Pétur, fyrirvinna þreyttumóðurinnar, stóð frammi í ganginum.
– Sæll vertu, Pétur, sagði Auður.
Þögn.
– Ætlaðir þú eitthvað að segja við mig, Pétur? spurði svo konan.
Hann sagði:
– Hún er dáinn.
Auður Álfhildur horfði á Pétur án þess að sjá hann. Það, sem hún sá, var mynd, sem um langan tíma hafði aðeins átt sér daufa og eins og fjarlæga drætti í sál hennar, en varð nú kaldranalega nálæg og nístings hryllileg: Holdgrönn og veikluð kona, sárþreytt og eyðilögð af barneignum, þrældómi og illri aðbúð. Hún hreyfði sig þróttlaust og stirðlega, líkt og henni væri alltaf hálfkalt og hún væri hrædd við að bera til fæturna: Það er ekki þorandi. Það er alveg satt . . . Það, sem frekar öllu öðru dró að sér athyglina – já, var að lokum hið einasta eina, var hin ömurlega geifla á andlitinu, ekkert tár, bara afskræmingin ein, þessi stirðnun allra tilfinninga í örvænis kvöl.
Maðurinn frammi í ganginum hafði snúið baki við Auði. Nú leit hann snöggt um öxl og sagði:
– Hún bað þess, að þú veittir sér síðustu aðhlynningu . . . Pétur hafði lokið erindi sínu og fór.
Auður Álfhildur sneri sér að Jóni:
– Vertu sæll, Nonni, sagði hún.
Hann studdi hendinni á öxl henni:
– Þú verður ekki álút, þegar þú kemur aftur, og heldur ekki mjög þungbúin á svipinn?
Hún brosti. Já, það var bros.
Leið hennar lá í fyrstu um breiða og slétta götu, síðan eftir þröngum troðningi. Þarna voru gömul og hrörleg hús. Hversu oft hafði ekki Auður Álfhildur gengið þennan troðning, og í hvert skipti, sem hún gekk hann, fannst henni, að hún yrði að nema staðar við dyr þreyttu móðurinnar. Og nú var Þóra Pálsdóttir dáin.
Pétur sat einn í eldhúsinu, þegar Auður Álfhildur kom. Þau mæltust ekki við. Auður gekk inn í innra herbergið. Þar var hljótt. Yngri börnin sváfu, hin voru hvergi sjáanleg. Í innsta rúminu, næst glugganum, voru engin sængurföt. Þreytta móðirin lá þar nár á fjölum með lokuð augu og krosslagðar hendur á innföllnu brjóstinu. Auður hafði frá því fyrst, að hún kynntist þessari konu, séð dauðann standa á bak við hana. Það hafði vakið hjá henni ugg og ótta, en hún skefldist ekki nú, þegar það var fram komið og fullkomnað, sem hún hafði séð að var í vændum. Yfir hinum dána líkama og afskræmdu andlitinu var djúpur og blæhreinn friður – hvíld.
Auður Álfhildur var ekki niðurlút. Hún var heldur ekki þungbúin á svipinn. Um stund stóð hún kyrr við dánarbeðinn. Síðan þó hún líkinu og hjúpaði það hvítu laki. Einnig þvoði hún gólfið í herberginu og lagaði til, eftir því sem hægt var. Og hún hlúði að sofandi börnunum. Henni dvaldist nokkuð við þetta, en loks fór hún fram í eldhúsið. Pétur var þar enn, og nú var hann staðinn á fætur.
– Ef það er eitthvað, sem ég gæti gert, skal ég koma aftur á morgun.
– Nei, þess þarf ekki, anzaði maðurinn.
Auður Álfhildur var komin fram að eldhúshurðinni. Nú sneri hún við, færði sig nær Pétri og spurði:
– Hefurðu fengið einhverja hjálp?
– Ja, yngri krakkarnir fara héðan starx á morgun. Það er orðið ákveðið . . . Pétur var stuttur í spuna.
– Hvert! . . . Hún var heldur ekki mjúkmál.
– Hugsa þú ekki um það . . . Pétur hafði spennt greipar á brjóstinu og stungið þumalfingrinum inn undir vestisborðungana. Munnurinn var samankipraður. Pétur horfði á ská niður í gólfið.
Auði Álfhildi sýndist hann jafnbreiður og hann var hár, kubbslegur, þjösnalegur; og henni fannst eins og af svip hans og látbragði legði napran gjóst. Hún hafði það á tilfinningunni, að hún yrði að tala hátt. Og hátt talaði hún:
– Segðu mér, Pétur, hvað á að gera af börnunum? Hvað verður um Línu litlu?
Pétur hló storkandi.
– Spurðu lækninn, manneskja, spurðu hann! Hann veit miklu betur um það en ég. Hann er ekki bara læknir, heldur líka formaður barnaverndarnefndar, ha, ha, ha!
Pétur sagði víst eitthvað meira. Auður heyrði það ekki. Hún hafði gengið inn í innra herbergið og lokað hurðinni á eftir sér.
Yngsta barnið lá þarna í sama rúminu og það hafði verið í, þegar Auður sá það fyrst. Það svaf vært.
– Litla vina, hvíslaði konan og laut að barninu. Og hún minntist þess, hversu oft þetta barn hafði lagt hendur sínar um háls hennar í heiðríkri gleði. Bros þess var hreint, og augnaráðið bar vott um trúnaðartraust sakleysingjans. Auður Álfhildur hafði öðruhverju minnzt þessa barns – og alltaf hafði henni fundizt það vekja hjá sér og öðruvísi tilfinningar en önnur börn. Hún hafði kynnzt því á ömurlegum stað. Þar höfðu augu þess og bros ljómað eins og stjörnur í rofi.
Auður Álfhildur stóð á fætur. Fyrir löngu síðan hafði hún verið orðin vonlaus um það, að henni auðnaðist nokkurn tíma að rétta Þóru Pálsdóttur hjálparhönd, svo að um munaði. En nú gat hún það, nú fyrst, eftir að þreytta móðirin var hætt að draga andann.
Auður Álfhildur gekk fram til Péturs.
Hann stóð við eldhúsgluggann, og nú hafði hann ekki aðeins stungið þumalfingrinum, heldur höndunum inn undir vestisboðungana. Hann sneri sér ekki að Auði, en néri skeggbroddunum við rúðuna og sagði dræmt:
– Góða nótt.
Auði Álfhildi var þannig vísað frekar kurteislega á dyr. En hún ætlaði ekki að fara – þrátt fyrir það. Hún gat verið töluvert þybbin, þegar því var að skipta. Verst þótti henni að geta ekki verið fyllilega róleg. Hún átti að geta haft vald yfir skapsmunum sínum. En þótt hún reyndi að stilla sig, stóð samt töluverður gustur af rödd hennar, þegar hún sagði:
– Þú verður að hlusta á mig, Pétur! Mig langar til að spyrja þig, hvort þú getir ekki trúað mér fyrir Línu litlu, eins og hverjum öðrum.
Pétur sneri sér að Auði. Hann horfði ekki lengur skáhallt niður í glólfið, heldur í augu ungu konunnar. Hendur hans sigu rólega út undan vestisboðungunum og grófu sig djúpt niður í buxnavasana, voru þar á sífelldri hreyfingu. Þessi maður var nú ekki þjösnalegur eða kaldhæðnislegastorkandi. Það var ekki lengur eins og öll viðleitni hans miðaði að því einu, að neyða allt lifandi til fjandskapar við sig, og það var heldur engin smjaðursleg kurteisi yfir framkomu hans.
Hver var svo þessi maður? Þetta var ekki sá Pétur, sem Auður Álfhildur hafði þekkt, frá því fyrst að hún kom í þetta hús. Þessi maður var hræddur. Hvað óttaðist hann? Líf sitt, breytni sína? . . .
Unga konan horfði fast á Pétur. Og allt í einu brá hann við og gekk inn í innra herbergið. Auður sá hann lyfta telpunni upp úr rúminu. Hann gerði það fallega, kom með hana fram og hélt síðan á henni um stund, horfði á hana. Svo rétti hann fram handleggina og horfði út í loftið. Og Auður tók barnið – hallaði því upp að sér. Síðan leit hún á Pétur, og nú voru hendur hans á ný komnar djúpt niður í buxnavasana, höfuðið niður á bringu.
Auður Álfhildur sagði – talaði lágt:
– Þú ert alltaf velkominn heim til okkar, Pétur.
Þögn. Svo sagði Pétur tómlátlega:
– Það getur samt orðið langt þangað til ég kem.
– Og hvers vegna.
Hann flökti augunum.
– Hér verð ég ekki lengi.
Pétur var hræddur, en reyndi að dylja það. Hafði hann kannske alltaf verið hræddur? datt henni í hug – og hún var hissa á sjálfri sér . . . Hér verð ég ekki lengi, hafði hann sagt . . . Nei, Pétur yrði horfinn úr kaupstaðnum innan fárra daga, áreiðanlega eins fljótt og honum væri framast unnt. Hann myndi reyna braskið á ný. Þeirri viðleitni mundi hann ekki hætta meðan hann ætti líf í brjóstinu og einhverjar druslur til að skýla með nekt sinni. Áfram myndi hann beita klókindum sínum til hins ýtrasta, allt mundi hann gera, sem í hans valdi stæði, til að féfletta náungann. Sigrar hans voru í því fólgnir, að gera aðra fátækari, og helzt að öreigum. Áfram mundi hann verða miskunnarlaus, eins og alltaf í þessari baráttu sinni. Og hvað gerði það, þó að hann yrði sjálfur fyrir skakkaföllum? Persónulegu frelsi sínu, konu og börnum – öllu hafði hann fórnað í eldi þeirrar glæfrafýsnar, sem hann hafði þjónað. Svo laug hann í eigin barm: Djöflarnir hafa troðið á mér, og þeir væru fyrir löngu búnir að drepa mig, bara ef þeir hefðu getað það. Er svo ekki sjálfsagt, að gjalda líku líkt? Hvers vegna á ég að vera með að vera með einhverja linkind? Hlægilegt! . . .
Honum bar skilyrðislaust að drepa, auðvitað á löglegan hátt, svo framarlega, sem honum gæfist eitthvert tækifæri til þess . . . Nei, Auður Álfhildur skildi það ekki til fulls, en þetta brask, þessi mannvonzka og harka – var það kannske allt saman ætlað til þess sama: Að Pétur gleymdi óttanum? Hvaða ótta? Voru máske þeir menn til, sem hræddust tilveruna sjálfa . . . voru hræddir við að vera til? Vitleysa – og samt . . . En nú var þó Pétur hræddur . . . Konan þarna í rúminu, litla barnið hans og hennar . . . Var hann nú kannke að missa móðinn – og hvað þá? . . . Nei: Hér verð ég ekki lengi, hafði hann sagt. Hann hugsaði á ný til fanga. Já, því ætti ekki Pétur að geta hert sig upp? Annað hvort það – eða þá . . . Barnaskapur að álykta þannig um Pétur. En samt. Auður Álfhildur var á báðum áttum! Hér sá hún hræddan mann . . .
Unga konan sveipaði kápunni utan um barnið og bauð góða nótt.
Pétur tók ekki undir. Hann hafði fært sig úr stað; stóð við eldhúsgluggann og sneri baki við þeim, sem voru að fara. Hann var álútur, og snöggir kippir fóru um bak hans og herðar. Það var óvanur maður, sem þarna var að gráta.
Auður Álfhildur fór eins hjóðlátlega og henni var unnt. Hún fór glaðari en hún hafði komið, og ef til vill meiri mannþekkjari. Hana langaði mikið til að flýta sér heim. Þó fór hún mjög hægt, líkt og hún væri með undur fínleg og viðkvæm blóm í fanginu og hætta væri á, að skrúð þeirra bliknaði, ef ekki væri farið gætilega með þau. En hún varð léttari og glaðari í lund, því lengra sem varð á milli hennar og þess staðar, sem hún var að koma frá – eins og hvert sporið færði henni aukið öryggi. Og það, sem hún fjarlægðist, var þó hræddur og grátandi maður.
Ólöf var að hita kvöldkaffið, þegar Auður Álfhildur kom. Og hún var ein í eldhúsinu.
– Sérðu, hvað ég kem með! . . . Auður hampaði barninu á örmum sér.
– Lína litla, sagði Ólöf og tók við barninu af Auði. Og Ólöfu fór vel að halda á barni.
– Hún unir sér vel hjá þér, Ólöf, sagði unga konan.
– Við þekkjumst, sagði sú eldri.
– Er pabbi gamli sofnaður?
Það var opið inn í svefnherbergið – og nú var þar svarað.
– Nei, ég er vakandi. Ég ætla að koma fram . . .
Svo kom hann. Það var eins og hann væri eitthvað skrítinn. Hann hafði ekki enn smeygt axlaböndunum upp á axlirnar og virtist ekki taka eftir því. Hann nam nú staðar, horfði smáhneggjandi á barnið, stóð gleiður, eins og sumum sjómönnum er lagið, ekki sízt þeim, sem langvanir eru færinu.
Lína litla bað til Daníels.
Konurnar hlógu.
– O, verið þið ekki að hlægja að okkur, hneggaði hann, hirti nú ekkert um að glingra við skeggið, brá ekki svo mikið sem í eitt skipti upp í það greiðubrotinu sínu. Hann var að leika við barn.
Jón Daníelsson kom nú niður frá smíðum sínum og þvoði sér um hendur og andlit.
– Hvernig lízt þér á, Nonni? Allt í einu hefur bætzt í fjölskylduna!
– Ég sé þetta. Það er prýðilegt, úr því maður líka var ekki búinn að koma neinu í verk, anzaði Jón konunni sinni – og stakk höfðinu undir bununa.
– Þú ert . . . sagði Auður.
Hann rétti sig upp, greip handklæðið og sagði alvarlega:
– Hvað segirðu okkur um Pétur.
Auði hnykkti svolítið við. Hún svaraði ekki strax, vissi víst ekki almennilega, hvað hún átti að segja.
– Hann er á förum héðan, sagði hún svo. – Börnunum verður komið fyrir.
– Eitthvað ætti hann að geta lært af þessu, anzaði Jón.
– Barnið þarf að fara að sofa, sagði Ólöf. Það var úrskurður.
Jón bar telpuna upp stigann. Auður bjó um hana fyrir ofan sig.
– Jæja, sagði Jón. Það var enginn durtur í honum. Hann brosti.
– Já, sagði hún og brosti líka.
Jón kastaði skyrtunum sínum á stól við rúmið. Hann hló hátt. Og þetta var enginn kuldahlátur. Svo lögðust ung hjón til hvíldar hjá barni, sem verið hafði einstæðingur.
. . . Eldri hjónin sátu enn í eldhúsinu, sátu þar bara, gátu einhvern veginn ekki fengið sig til að hátta. Þetta kvöld minnti á þær stundir, sem voru löngu liðnar. Þau vissu um litla telpu í húsinu. Á morgun mundi hún sitja hér á eldhúsgólfinu og brosa: Barn, sem brosir, – að sjá svona mynd í huganum er líkt og að heyra hljóma, – að eignast slíka hugsun er að vera ungur . . .
Daníel átt bogna reykjarpípu í brjóstvasanum á brúna skinnjakkanum sínum, og einhvers staðar átti hann líka tóbak. Og Daníel tróð í pípuna sína. Hann reykti nokkra stund þegjandi.
– Ætli hún vakni snemma, sú litla? spurði hann svo.
– Ég veit það ekki, góði minn.
– Ljúfan, sagði Daníel.
– Ljúfan, sagði Ólöf líka.
Og hér eftir var Lína alltaf kölluð Ljúfan.
Daníel tálgaði telpunni marga fugla úr ýsubeini. Og einhvers staðar gróf hann upp tvær máfsfjaðrir og gaf henni. Hún horfði á þær og sagði:
– Ná, ná!
Þær voru svo hvítar.
Það voru ekki bara ungu hjónin í Jósefsbúð, sem nú léku sér.
– Í sumar ætlar afi að sýna Ljúfunni sinni blóm;Þannig og þessu líkt klambraði Daníel . . . söng það – og lék á harmoninkuna fyrir telpuna.
þá fær hún að ganga á nýjum svörtum skóm.
Og við skulum setjast niður í mjúka, græna laut,
horfa upp í himininn og á landsins fagra skraut.
Stundum fékk Ljúfan að leika sér úti í kafaldinu, og afi stóð í dyrunum og gætti hennar.
Henni varð oft litið upp í eldhúsgluggann. Þaðan fylgdust konurnar með leik hennar. Þeim var báðum hið sama í hug – gleði.
Himininn felldi hvít blóm yfir barnið. Það greip út í loftið eftir blómunum, handsamaði nokkur þeirra, hélt fast utan um þau, opnaði svo lúkurnar ofur hægt. En þá voru þar engin blóm. Þetta var undarlegt. Átti maður að fara að gráta? Hún leit upp í gluggann. Þar brostu þær, Ólöf of Auður Álfhildur. Þá hló telpan. Hún greip aftur út í loftið, leit á ný í lófa sinn. Ekkert blóm. Þetta var gaman. Það var svo mikið af blómum. Telpan þreyttist ekki á að grípa þau, láta litla hnefann lokast utan um þau – opna hann: Engin blóm!
. . . Hvað veturinn getur stundum liðið undarlega skjótt! Var það nokkrum dögum seinna – eða ef til vill vikum – sem Ljúfan glímdi við að handsama sólargeislann? En geislinn. Hann var ekki eins og hin hvítu blóm: Það var ekki hægt að loka hann inni.