Óskar Aðalsteinn Guðjónsson


Húsið í hvamminum


Skáldsaga



 

Prentstofan Ísrún h.f.
Ísafjörður, 1944
Copyright ©1944
All rights reserved

 


Áttundi kafli



III.


Auður Álfhildur var vön að gera innkaup á laugardögum upp á næstu viku. Hún lofaði oftast Ljúfunni með sér. Búðarþjóninn var kátur strákur. Og í drifhvítum jakka var hann. Ljúfunni þótti mikið gaman að þessum pilti í hvíta jakkanum, og piltinum þótti líka mjög gaman að Ljúfunni. Þessi unglingur var allur sérstaklega fíngerður og nettur, dökkhærður – hárið strokið nostursamlega aftur með höfðinu, límt niður – að því er virtist. Hann hafði líka borið eitthvað vellyktandi í hvítan jakkann. Það lagði af honum sætan ilm um alla búðina. Hann var sonur kaupmannsins og hafði mikil ráð, réði yfir firnum af karmellum, súkkulaði, brjóstssykri, lakkrís, já, öllu því góðgæti, sem telpan horfði á svo stórum augum. Og þessi piltur var framúrskarandi örlátur á auðæfi sín. Hann lét margt barnið hafa eina eða tvær karmellur fram yfir það, sem beðið hafði verið um, og ævinlega lét hann líka hrjóta nokkra brjóstssykursmola í kramarhúsið eftir að vogin hafði sagt til. Þá hló búðarþjóninn og snerti varlega á sér hárið, máske til að ganga úr skugga um, hvort það legðist nú nógu fallega aftur með höfðinu.

Og pilturinn talaði mikið við Ljúfuna.

– Þúr ert sæt, sagði hann.

– Þú líka, sagði telpan einarðlega.

– Sú er góð, sagði pilturinn og roðnaði.

– Þú ert líka góður, sagði telpan.

Pilturinn laut fram yfir diskinn.

– Já, þú segir það! Hvað ertu gömul?

Telpan horfði í gegnum gler í borðinu. Hún sá stóra hrauka af sælgæti.

– Hún er öll í sælgætinu, sagði pilturinn, skaut augunum sem snöggvast til ungu konunnar, svo snöggt til borðsins, horfði á sælgætið eins og telpan.

Auður Álfhildur hló.

– Hún verður þriggja ára tuttugasta og fimmta ágúst, sagði hún.

– Já, sagði pilturinn og hampaði fjórum karamellum, greip þær til skiptis, eins og hann væri með fjóra bolta á lofti í einu. Hann gat leikið þessa list frjálslega og án sérstakrar aðgæzlu. Hann horfði ekki á karamellurnar, heldur telpuna, fipaðist samt ekki eitt andartak.

Svo fauk ein karamella í lúku telpunnar. Þetta var eitt atriði leiksins. Hinar – það lá ekkert á með þær. Jú, nú var að fjölga í búðinni. Og þrjár karamellur hrutu niður á diskinn, rétt við fingurgóma telpunnar, sem í þessum svifum iðuðu á borðröndinni.

– Borðaðu þetta, sætan litla! sagði pilturinn, og hann var allur eitt bros. Hann jós hrísgrjónum í bréfpoka fyrir ungu konuna.

En í því hann setti pokann á vogina, snaraðist kubbslegur maður út um skrifstofudyrnar og fram í búðina. Hann gekk aftur á bak, hneigði sig aftur og aftur fyrir kaupmanninum, sem sag við skrifborð sitt inni í skrifstofunni . . . En þaðan, sem Auður Álfhildur stóð, átti hún mjög hægt með að greina vangasvip mannsins. Kjálkarnir voru breiðir og sterklegir og vaxnir svörtu, vanhirtu skeggi. Maðurinn var með hvítan, en velktan flibba, illa hnýtt, en sjáanlega alveg nýtt bindi, og var í víðum léttum frakka, sem var ljós á litinn, en orðinn æði litföróttur. Á höfðinu var barðastór hattur úr flóka, auðsjáanlega ekki nema nokkurra daga gamall – og þó orðinn beyglaður og velktur. Maðurinn hélt á tveimur stórum töskum, sinni í hvorri hendi. Í annarri töskunni hvein ot tísti, ef maðurinn hreyfði hana eitthvað. Hann hló og talaði við kaupmanninn, mjúkur á manninn.

– Olræt, ég má þá líta inn til yðar seinna í dag? Já, það er nefninlega ýmislegt fleira, sem ég á í fórum mínum og mér leikur hugur á að vita, hvort þér mynduð vilja hafa á boðstólum í verzlun yrðar . . . Olræt!

Þannig gekk hann talandi frá skrifstofuhurðinni, hneigði sig einu sinni enn, snúandi baki við búðarþjóninum og almenningi. En svo þóknaðist herra kaupmanninum að halla aftur hurðinni. Þá sneri maðurinn sér við.

Hann þagnaði skyndilega og stóð kyrr, – og það virtist ekki laust við, að honum brygði. En hann hristi fljótlega af sér hikið, skauzt snarlega fram fyrir diskinn, reyndi að láta sem minnst á sér bera, stefndi á útidyrnar, gekk hratt.

Auður Álfhildur þekkti manninn. Þetta var Pétur, – maðurinn, sem hafði búið með þreyttu móðurinni, faðir Línu litlu. Sjálfsagt var hann hinn sami Pétur og hún hafði kynnzt. Annars breytti það honum talsvert, þetta svarta alskegg, og hann var allt öðruvísi búinn, heldur en hann hafði verið. Mest var þó framkoman breytt. Tilburðirnir og orðfærið var nú eitthvað öðruvísi en Auður Álfhildur hafði vænzt af Pétri.

– Komdu sæll, Pétur! . . . Þetta var skroppið fram úr Auði Álfhildi áður en hún vissi af, en svo sá hún Pétur allt í einu eins og hann var, kvöldið sem hún hafði tekið Línu litlu til fósturs. Og Auður Álfhildur fann, að blóðið hljóp fram í kinnar hennar. Hún gat farið nærri um, hvernig Pétri mundi geðjast það, að hún skyldi fara að heilsa honum þarna.

Hann vatt sér við og horfði rannsakandi á Auði, eins og hann ætti í fyrstunni örðugt með að koma henni fyrir sig. En svo sleppti hann töskunum og lyfti báðum höndum ástúðlega, eins og prestur fyrir altari, og vék sér kunnuglega að konunni.

– Ó, sagði hann, – svona er að hafa mikið að gera, mín elskulega frú! Já, svona er að sjá ekki fram úr því, sem maður hefur að starfa! Maður tekur ekki einu sinni eftir góðkunningjum sínum, þó að maður svo að segja reki nefið fast upp að vanganum á þeim . . . Nú litaðist Pétur um í búðinni – augnaráðið var ekki prestlegt. En það mildaðist fljótlega . . . Fólkið í búðinni: Tvær stelpur, sem hann vissi engin deili á, strákpatti með olíubrúsa – og svo Auður og Lína. Hann skotraði augunum inn fyrir borðið. Búðarlokan stóð nú bograndi yfir hveitiskúffu. Allt í lagi! Og nú hýrnaði fyrst verulega yfir sölumanninum. Rannsóknin hafði ekki tekið hann nema eitt augnablik. Hann hafði bara vikið sér svolítið til. Nú sneri hann sér létt og frjálsmannlega að Auði Álfhildi og tók hæversklega í höndina á henni. – Komið þér sælar, frú Auður! . . . Hann leit ekki til telpunnar. – Gengur ekki allt vel hjá yður?

– Jú, þakka þér fyrir, sagði Auður.

Ljúfan hélt sér fast í mömmu, var hálfhrædd við manninn með svarta skeggið.

Pétur lék hjólliðugan mann. Hann snaraðist að töskunum og vék þeim af gangveginum, brá því næst höndunum á loft, néri þeim saman, mjúklega, fyrirmannlega, og greip síðan annarri snöggvast upp í hattbarðið.

– Olræt! sagði hann. – Það er prýðilegt. Það er líka allt í þessu fína hjá mér.

– Ertu ekki sölumaður? sagði Auður, og nú gat hún varla varizt brosi, fannst ekki Pétri farnast meira en svo vel sá kurteisis- og hefðarhamur, sem hann hafði brugðið yfir sig.

– Sölumaður? át Pétur upp eftir henni. – Jú, – sem stendur. Maður hefur það bara gott sem slíkur. Nú selst allt; sama hvað það er . . . Hornauga til skrifstofuhurðarinnar og búðarlokunnar. Allt í lagi . . . – Já, þetta er ágætis atvinna, samt ekkert hjá ýmsu öðru, sem nú mætti hæglega taka sér fyrir hendur. Ég og annar náungi til erum að starta kaffihúsi syðra. Það verður, hugsa ég, eitt viðkunnanlegasta kaffihúsið í borginni . . . Hendur á lofti . . . – Nei, nú ætti engum almennilegum manni að verða skotaskuld úr að græða á tá og fingri. Nú er svoleiðis aragrúi af stórsjönsum. Maður veður í þeim upp fyrir haus. Sæmilega hyggnir menn verða næstum milljónerar á einu ári. Þetta eru skemmtilegir tímar fyrir þá, sem nenna að hugsa!

Auður Álfhildur virti Pétur fyrir sér, meðan hann lét dæluna ganga. Hann hafði ekki ennþá svo mikið sem litið á barnið.

– Finnst þér ekki, að Lína litla hafi tognað svolítið? spurði Auður Álfhildur. Hún vildi ekki sleppa honum við að líta á telpuna, hvernig svo sem honum kynni að verða innanbrjósts. Hún var barnið hans – og annað hvort var það óræktarsemi eða þá óafsakanlegur aumingjaskapur að virða hana ekki viðlits, – þegar þá líka eingir óviðkomandi voru siðstaddir nema krakkar – og svo meinleysinginn innan við borðið.

Sölumaðurinn steinþagnaði, og ósköp var nú augnaráðið vandræðalegt, aumkunarlegt – nærri því.

Hann hreyfði hendurnar. Þetta átti víst að heita fínn handaburður, en varð ekkert úr annað en ráðleysislegt fálm. Hann þreifaði á vösum sínum og fálmaði upp í augun. Það var líkt og hann fyndi sig endilega þurfa að grípa eftir einhverju, sem gæti hulið þau, líklega þá helzt kolsvörtum gleraugum.

Það var gengið um útidyrnar. Hver var nú að koma? . . . Pétur leit til dyra.

. . . framhald . . .

 

 

III.


Xxx .

Framhald . . .

 


 


Áfram
Til baka
Húsið í Hvamminum - Efnisyfirlit