Knattspyrna

Aðalsíða
Persónan
Bolungarvík
Áhugamál
Námsferill
Starfsferill
Skemmtun
Tenglar

 

Upphafið

Eins og öðrum drengjum var mér snemma kennt að sparka í bolta, fljótlega var það þó ljóst að hæfileikarnir væru nú ekki upp á marga fiska og var þá reynt að setja mig í markið en einhvern veginn gekk hinum krökkunum bara illa að hitta mig svo að leiðin lá beina leið á varamannabekkinn. Þegar að skólaskyldu lauk var ég kominn í byrjunarliðið hjá 3. fl. U.M.F.B. og þá varð mér ljóst að ég væri kominn á toppinn og ákvað að draga mig í hlé.

Lautardalsvöllur

Ef við víkjum aftur að knattspyrnuiðkan minni sem barns, þá var hún bundin við svæði eins og Ingutún, Afatún og Geiratún í Bolungarvík. Þegar þeim sem bjuggu í næsta nágrenni við þessi tún þótti hávaðinn verða orðinn æði mikill seint á kvöldin, ákváðum við, krakkarnir á Holtastígnum, að búa til okkar eigin völl í einni af þeim þremur lautum sem l iggja að götunni. Svæðið sem henta þótti var rutt og hreinsað, foreldrar eins lögðu til möl á völlinn, foreldrar annars mörkin og foreldrar þess þriðja net í mörkin. Öll hjálpuðumst við svo að leggja lokahönd á verkið og svo kom að því að gefa vellinum nafn og lá þá beinast við að nefna hann Lautardalsvöll. Oft var margt um manninn á vellinum og dró hann að krakka úr öðrum hverfum bæjarins til að leggja stund á þessa göfugu íþrótt.

Liverpool

Ef maður hefur á annað borð áhuga á knattspyrnu þá fylgist maður með ensku knattspyrnunni. Frá unga aldri hefur hugurinn verið hjá Krydd-drengjunum frá Bítlaborginni Liverpool. Á þeim fimmtán árum sem Liverpool hefur átt hug minn og hjarta hafa skipst á skin og skúrir í herbúðum liðsins. Liðið var mjög sigursælt undir lok 9. áratugarins en síðan hefur farið að halla undan fæti. En nú eru blikur á lofti og ef áætlanir Geralds Houlier ganga eftir eru góðar líkur á að liðið hefji 21. öldina með glæsibrag. Árið 2000 vaknaði Liverpool risinn svo af værum svefni og náði 5 titlum í hús. Fyrst var það enski deildarbikarinn (Worthington Cup), þá varð liðið enskur bikarmeistari (FA Cup), næst varð Rauði herinn Evrópumeistari félagsliða (UEFA Cup), því næst vann Liverpool Góðgerðarskjöldinn enska og að lokum varð liðið meistari meistaranna í Evrópu. Hér á Klakanum á Liverpool trausta stuðningsmenn sem halda úti veglegri heimasíðu til heiðurs félaginu. Ég mæli eindregið með síðunni því þar eru m.a. birtar daglegar fréttir af gengi liðsins og slúðursögur tengdar því.

Championship Manager

Stór þáttur í lífi mínu undanfarin er tölvuleikur sem heitir Championship Manager, en hann er langbesti framkvæmdarstjóra leikur sem til er í heiminum í dag. Þeir eru ófáir klukkutímarnir sem farið hafa í þennan leik (ég sé ekki eftir einum einasta þeirra) og alltaf er eitthvað nýtt að koma til sögunnar sem eykur á skemmtanagildi leiksins. Ég skora á alla þá sem eiga tölvu og hafa einhvern áhuga á knattspyrnu að verða sér úti um þenna leik.

 

[ til baka ]

Síðan var síðast uppfærð 06.01.2002