Tónlist

Aðalsíða
Persónan
Bolungarvík
Áhugamál
Námsferill
Starfsferill
Skemmtun
Tenglar

 

Duran Duran

Allt frá því á unga aldri hefur tónlist skipað stóran sess í lífi mínu. Þetta byrjaði allt saman með Duran Duran, það var karlmennska að halda upp á Duran Duran og þeir strákar sem héldu upp á Wham! gátu gengið í lið með stelpunum. Það var alveg ljóst í upphafi að við myndum vinna stríðið og að lokum stóðum við uppi sem sigurvegarar.

Queen

Poppið tók mig heljartökum þegar ljóst var að Duran Duran væri að syngja sitt síðasta, en undir loki níunda áratugarins komst ég í kynni við bresku rokksveitina Queen. Á þeim tíma var Queen reyndar ekkert vinsæl, en það var bara einn góðan veðurdag að ég fann Greatest Hits vinyl-plötuna þeirra í safni systkina minna og heillaði hún mig upp úr skónum. Ekki leið á löngu þar til Queen varð á allra vörum, það var nánar tiltekið eftir að Freddie Mercury laut í lægra haldi fyrir Alnæmis-veirunni. Því miður urðu helstu smellir hjómsveitarinnar ofspilaðir á öldum ljósvakans í kjölfarið.


2 Unlimited

Ég hef aldrei getað helgað mig einhverri ákveðinni tónlistarstefnu og á sama tíma og Queen átti hug minn og hjarta varð ég líka að fylgja félögum mínum og fór að hlusta á þungarokk. Þessi tími var ekki langur því snemma árs 1992 heyrði ég tvö lög sem áttu eftir að umturna lífi mínu. Þetta voru lögin Das Boot með U96 og Twilight Zone (Rio & Le Jean Remix) með 2 Unlimited. Þar með var ég farinn að hlusta á danstónlist, en það var sú tónlist sem ég hafði áður hatað og talið gunguhátt að hlusta á. Ég var líka talinn hálf ruglaður af félögum mínum sem hlógu að þessari vitleysu minni. En það átti eftir að breytast, því ári seinna sendi 2 Unlimited frá sér ofur-smellinn No Limit og jafnvel forfallnir rokkarar viðurkenndu ágæti danstónlistar.

Prodigy

Í kjölfar Euro-bylgjunnar fór breska Hardcore/Rave tónlistin að berast til eyrna almennings, hámarkið var eftir að Liam Howlett og félagar í Prodigy sendu frá sér lagið No Good (Start The Dance) sumarið 1994. Allt ætlaði um koll að keyra þegar það fréttist að Prodigy hyggðist halda tónleika á Íslandi. Þessir tónleikar urðu mjög umdeildir og ýmsir bindindisfrömuðir héldu því fram allir þeir sem hlustuðu á slíka tónlist væru dópistar sem bryddu Ecstasy eins og Smarties (eða kannski bara Smart-E's). Þar var mér, sem hafði aldrei svo mikið sem bragðað áfengi, illilega misboðið. Því miður komst ég ekki á tónleikana sem urðu best heppnuðu tónleikar Íslenskrar poppsögu til þess tíma. Ég varð þess þó aðnjótandi að fá að heyra í hljómsveitinni á tónleikum í Laugardalshöll vorið 1998, sveitin var því miður langt frá sínu besta og tryggir aðdáendur sveitarinnar söknuðu gömlu góðu Hardcore laganna. En frá Essex-drengjunum í Prodigy og til Þýskalands en þar naut hljómsveitin Scooter frá Hannover góðs af þessum vinsældum Hardcore/Rave tónlistarinnar og gerði lög eins og Hyper Hyper og Endless Summer ódauðleg fyrri hluta árs 1995. Þeir drengir eru ennþá að og hafa reynt að aðlaga tónlist sína að tíðarandanum í dansheiminum hverju sinni.

Norman Cook

Upp úr 1995 fór danstónlistin heldur betur að breytast og að sjálfsögðu varð ég að vera á barmi breytinganna. Flytjendur eins og Chemical Brothers og Josh Wink komu fram 1995-96 með tónlist sem einkenndist af notkun hljóðfæris sem kallast Roland TB-303 og ærðu margan unglinginn í orðsins fyllstu merkingu. En á sama tíma sneri Norman Cook aftur, en hann er fyrrum meðlimur bresku poppsveitarinnar Housemartins og maðurinn á bakvið Beats International sem gerðu lagið Dub Be Good To Me vínsælt árið 1990. En Norman Cook hefur undanfarið sett mark sitt á vinsældalista undir ýmsum nöfnum og má þar nefna Freakpower (Turn On, Tune In, Cop Out), Pizzaman (Trippin' On Sunshine og Sex On The Streets), Mighty Dub Katz (Magic Carpet Ride), Fried Funk Food og síðast en ekki síst Fatboy Slim. Undir merkjum Fatboy Slim hefur Norman Cook verið hvað ötulastur að senda frá sér smellina og endurhljóðblanda tónlist annarra. Meðal þekktustu laga Fatboy Slim eru Rockafeller Skank og Praise You en af endurhljóðblöndunum má nefna Renegade Master með Wildchild heitnum, Brimful Of Asha með Cornershop og Body Movin' með Beastie Boys. Einnig hefur Norman Cook gert umdeilda útgáfu af einu lagi Rolling Stones, þar sem hann blandar því við eitt sinna verka. Útkoman kallast The Satisfaction Skank og hefur komist í dreifingu á Internetinu á hinu svokallaða MP3-formi.

Faithless

Snemma árs 1996 sendi breski snillingurinn Rollo ásamt samstarfsfólki sínu (t.d. Sister Bliss og Maxi Jazz) frá sér smellinn Insomnia undir merkjum hljómsveitarinnar Faithless. Þetta lag átti eftir að gefa evrópskri danstónlist nýtt líf eftir að dagar hljómsveita eins og 2 Unlimited og Culture Beat höfðu verið taldir. Upp á yfirborðið komu flytjendur á borð við Sash! og DJ Quicksilver með smelli á borð við Encore Une Fois og Bellissima, en sumir myndu kalla þau lög eftirlíkingar af Insomnia frá Faithless. Ég lít á málið frá þeirri hlið að þarna hafi einungis komið innblástur frá Faithless sem hafi orðið Evrópskri danstónlist til framdráttar og framþróunar án þess að vega að heiðri Faithless. Auk þess á trance-hljómur Rollo og félaga sér djúpar rætur í Evrópu og þá sérstaklega Þýskalandi, þannig að það er ekki ljóst hver sé að fá lánað frá hverjum.


Daft Punk

Innrás franskrar House-tónlistar náði hámarki 1997 og þar stóð hæst Homework, meistaraverk unglinganna í Daft Punk. Þessir tveir ungu Frakkar unnu hjarta mitt með þessu fullkomna tónverki. Hér sannaðist það að sjáldan fellur eplið langt frá eikinni því annar þeirra, Thomas Bangalter, er sonur lagahöfundar og upptökustjóra sem samdi t.d. diskó-smellina Hands Up, D.I.S.C.O. og Cuba. Thomas Bangalter átti svo eftir að fanga hug minn og hjarta ári síðar þegar hann sendi frá sér lagið Music Sounds Better With You undir merkjum Stardust. Það lag seldist í bílförmum um allan heim og varð mörgum innblástur, t.d. hefur Armand van Helden líst því yfir að lag hans You Don't Know Me sé í raun bara sín eftirlíking af Music Sounds Better With You. Á næstunni er væntanleg ný breiðskífa frá Daft Punk og af nýjasti lagi sveitarinnar, One More Time, má heyra að hljómurinn er öllu mýkri en á Homework plötunni og er meira í ætt við það sem Stardust hefur gefið út.

Rammstein

Þýska þungarokkssveitin Rammstein skaust upp á stjörnuhimininn í ársbyrjun 1998 með lögunum Du Hast og Engel. Á örskömmum tíma hefur hljómsveitin aflað sér gífurlegra vinsælda í heimalandi sínu og að sjálfsögðu hafa Íslendingar ekki farið varhluta af Rammstein æðinu. Rammstein eru þekktir fyrir að spila þétt þungarokk með techno ívafi og að syngja á móðurmáli sínu. Ennfremur hafa þeir öðlast frægð fyrir tilþrifamikið tónleikahald þar sem ekkert er heilagt. Á tónleikaferðalagi sveitarinnar um Bandaríkin haustið 1999 lentu liðsmenn sveitarinnar upp á kant við þarlend yfirvöld vegna þess að ákveðið leikatriði í sviðsframkomu þeirra fór eitthvað fyrir brjóstið á viðkvæmum sálum. 

Paul van Dyk

Það hefur engum dulist að árið 1999 hefur verið kallað ár Trance tónlistarinnar í Evrópu. Plötusnúðurinn Paul van Dyk er að öðrum ólöstuðum leiðtogi Trance tónlistarinnar í dag. Hann ólst upp í Austur-Berlín á stjórnartíma kommúnista í Austur-Þýskalandi, en komst yfir Berlínarmúrinn til Vestur-Þýskalands tíu dögum áður en múrinn féll. Paul van Dyk er verðugur fulltrúi tónlistarstefnu sem oft hefur verið tengd við neyslu ofskynjunarlyfja, hann lét hafa það eftir sér í nýlegu viðtali að hann vildi óska þess að fólk myndi einbeita sér frekar að því að hlusta á tónlistina en að sturta í sig eiturlyfjum. Ég held að flestir geti tekið undir þetta með honum, burtséð frá því um hvaða tónlistarstefnu er að ræða. Þrátt fyrir að hafa heyrt oft í Paul van Dyk á undanförnum árum var það ekki fyrr en síðla árs 1998 að ég heillaðist af tónlist hans. Það var lagið For An Angel sem braut ísinn og í kjölfarið fylgdu endurhljóðblandanir hans af Love Stimulation með Humate, 1998 með Binary Finary og Cream með Blank & Jones. Nýlega kom út breiðskífan Out Here And Back frá kappanum og undanfarið hafa lögin Avenue, Another Way og Tell Me Why (The Riddle) notið vinsælda á dansstöðum í Evrópu.

Ferry Corsten

Eitt stærsta nafnið í danstónlistarheiminum, nánar tiltekið Trance stefnunni, í dag kemur frá Hollandi og gengur undir nafninu Ferry Corsten. Í upphafi ársins 1999 vissu fáir hver þessi maður var þótt hann hefði gefið út nokkur lög undir nöfnunum Moonman (Don't Be Afraid) og Pulp Victim (The World). Vorið 1999 gaf hann svo út lagið Out Of The Blue undir nafninu System F og innan skamms var nafn hans á allra vörum. Ferry Corsten er þekktur fyrir að semja mjög melódíska trance tónlist og hefur hann gefið þá skýringu á því að hann semji alltaf laglínuna fyrst og hlaði svo trommutakti og bassalínu utan á hana. Ferry Corsten hefur verið mjög afkastamikill og er mikil eftirspurn eftir að fá hann til að endurhljóðblanda lög annarra. Hann hefur einnig gefið út lög undir merkjum Gouryella (Gouryella, Walhalla, Tenshi) og Vimana (We Came) með DJ Tiësto, Veracocha (Carte Blanche) og Soundcheck (Minddrive) með öðrum hollenskum plötusnúðum. Af helstu endurljóðblöndunum frá Ferry Corsten má nefna Liberation með Mash Up Matt, The Orange Theme með Cygnus X, 1999 með Binary Finary, Madagascar með The Art Of Trance, Ayla með samnefndum flytjanda, Endless Wave með Kamaya Painters og Barber's Adagio For Strings með William Orbit. Ferry Corsten er einn af vinsælustu mönnunum í Trance-geiranum í dag ásamt DJ Tiësto, Armin van Buuren, Matt Darey, ATB, Signum, Lange, Paul Oakenfold og Paul van Dyk. Það má til gaman geta þess að Torsten Stenzel (York, DJ Sakin & Friends, Diver & Ace o.fl.), einn vinsælasti flytjandi trance tónlistar í Þýskalandi hafði lengi vel atvinnu af því að spila sem organisti í tveimur kirkjum í heimabæ sínum.

 

[ til baka ]

Síðan var síðast uppfærð 06.01.2002